7.12.2024

Samið um útgjalda- og skattastjórn

Morgunblaðið, laugardagur 7. desember 2024.

Halla Tóm­as­dótt­ir for­seti Íslands veitti Kristrúnu Frosta­dótt­ur for­manni Sam­fylk­ing­ar­inn­ar umboð til stjórn­ar­mynd­un­ar að morgni þriðju­dags­ins 3. des­em­ber.

Í yf­ir­lýs­ingu Höllu Tóm­as­dótt­ur sagði að hún hefði rætt við for­ystu­fólk þing­flokk­anna sex dag­inn áður um „helstu kosti“ í stöðunni eft­ir þing­kosn­ing­arn­ar 30. nóv­em­ber. Með hliðsjón af þeim, á grund­velli kosn­inga­úr­slit­anna og að loknu öðru sam­tali við Kristrúnu þá um morg­un­inn, hefði hún falið for­manni Sam­fylk­ing­ar­inn­ar „umboð til stjórn­ar­mynd­un­ar“.

Sagði for­set­inn að Kristrún hefði tjáð sér að hún hefði þegar átt sam­töl við for­menn annarra flokka. Vísaði for­set­inn til þess að flokks­for­menn­irn­ir hefðu upp­lýst sig „um að þeir [væru] reiðubún­ir til form­legra viðræðna um mynd­un nýrr­ar rík­is­stjórn­ar með Sam­fylk­ing­unni“.

1535241Fundað um stjórnarmyndun í eldhúsi Ingu Sæland (t.v.), Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Kristrún Frostadóttir (mynd af mbl.is).

For­menn­irn­ir eru Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir formaður Viðreisn­ar og Inga Sæ­land formaður Flokks fólks­ins. Strax að kvöldi kjör­dags og í sjón­varpsþætti í há­degi sunnu­dag­inn 1. des­em­ber varð ljóst að þær og Kristrún töldu sig eiga sam­leið við mynd­un rík­is­stjórn­ar. Sam­tals fengu flokk­ar þeirra 36 þing­menn í kosn­ing­un­um (Sf 15; V 11 og FF 10), 32 duga til meiri­hluta á þingi.

Bjarni Bene­dikts­son formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins sit­ur sem for­sæt­is­ráðherra í starfs­stjórn­inni þar til meiri­hluti alþing­is stend­ur að baki nýrri rík­is­stjórn. Hann sagði tvo kosti í stöðunni í bréfi til flokks­manna sinna þriðju­dag­inn 3. des­em­ber: „Ann­ars veg­ar að mynda borg­ara­lega rík­is­stjórn til hægri, líkt og niður­stöður kosn­ing­anna eru skýrt ákall um. Hins veg­ar að veita nýrri rík­is­stjórn kröft­uga mót­spyrnu í stjórn­ar­and­stöðu.“

Með orðunum „borg­ara­lega rík­is­stjórn“ úti­lok­ar Bjarni rík­is­stjórn­ar­sam­starf við Sam­fylk­ing­una. Flokk­ur­inn skip­ar sér til vinstri, þótt hann hafi færst veru­lega til hægri und­ir for­mennsku Kristrún­ar.

Bjarni sagði mark­mið sjálf­stæðismanna skýrt; „að afla flokkn­um meiri stuðnings“. Þetta yrði ekki gert með því að falla frá stefnu­mál­um flokks­ins „eða hlaupa und­ir bagga með þeim sem kynnt hafa plan um tug­millj­arða út­gjalda­aukn­ingu og hærri skatta“.

Kosn­inga­bar­átta Sam­fylk­ing­ar­inn­ar var hvorki frum­leg né ár­ang­urs­rík sé litið til stöðunn­ar í fylg­is­könn­un­um áður en bar­átt­an hófst. Saxaðist jafnt og þétt á stuðning­inn. Mál­efna­lega má segja að um hafi verið að ræða af­rit af því sem breski Verka­manna­flokk­ur­inn sagði fyr­ir þing­kosn­ing­ar þar í júlí.

Sir Keir Star­mer, leiðtoga flokks­ins og nú for­sæt­is­ráðherra, varð og verður tíðrætt um það sem hann kall­ar „plan for change“. Sam­fylk­ing­in hafði ekki einu sinni fyr­ir að ís­lenska orðið plan þegar hún kynnti áætl­un sína um breyt­ing­ar.

„Við erum með plan“ sögðu fram­bjóðend­ur flokks­ins fyr­ir kosn­ing­ar. Þeir hljóta að leggja það til grund­vall­ar í viðræðunum núna að kosn­ing­um lokn­um. Kristrún sagði á sín­um tíma að það tæki tvö kjör­tíma­bil, ef ekki tíu ár, að fram­kvæma planið. Nú er spurn­ing hvað samið verður um sam­starf til langs tíma.

Í til­lög­um Sam­fylk­ing­ar­inn­ar er að finna hug­mynd­ir um auk­in rík­is­út­gjöld og aukna skatt­heimtu. Sama gild­ir um kosn­inga­mál Flokks fólks­ins. Erfiðara er að vita hvað fyr­ir Viðreisn vak­ir. Strax sunnu­dag­inn 1. des­em­ber veifaði Þor­gerður Katrín ESB-flagg­inu til að ögra Sjálf­stæðis­flokki og Miðflokki. Dag­inn eft­ir var full­trúi flokks­ins í Silfri sjón­varps­ins á hröðu und­an­haldi í umræðum um ESB og evr­una. ESB væri eitt­hvað í óljósri framtíð.

Eitt er víst. Það sem er til umræðu á milli þess­ara flokka sam­rým­ist ekki ákalli kjós­enda um að hægri vind­ar þenji segl þjóðarskút­unn­ar næstu árin. Áhrif þessa ákalls eru að kjós­end­ur hafna vinstri flokk­un­um, VG, Pír­öt­um og Sósí­al­ist­um. Radd­ir þeirra heyr­ast ekki leng­ur á alþingi.

Þar til á reyn­ir er spurn­ing hvað brott­hvarf flokk­anna þýðir fyr­ir þing­störf­in. VG spann þráð sem náði allt aft­ur til Komm­ún­ista­flokks Íslands. Í rás ára­tug­anna hef­ur þetta póli­tíska afl, í nafni sósí­al­ista og Alþýðubanda­lags, staðið gegn öll­um skyn­sam­leg­um ákvörðunum um stöðu Íslands á alþjóðavett­vangi. Í eina skiptið sem for­víg­is­menn úr gamla Alþýðubanda­lag­inu höfðu vald til að semja um mik­il­vægt mál fyr­ir hönd þjóðar­inn­ar, Ices­a­ve-málið, fór allt í handa­skol­um.

For­vitni­legt verður að fylgj­ast með því hverj­ir inn­an Sam­fylk­ing­ar­inn­ar sjá sér hag af því að ger­ast mál­svar­ar þess hóps vinst­ris­innaðra kjós­enda sem tel­ur sig án radd­ar á alþingi. Ólík­legra er að þing­mönn­um annarra flokka detti í hug að róa á þessi at­kvæðamið – það yrðu þá helst þing­menn Flokks fólks­ins eða kannski Viðreisn­ar í út­lend­inga­mál­um.

Það var á sín­um tíma stór­áfall fyr­ir ís­lenska jafnaðar­menn þegar komm­ún­ist­ar stofnuðu flokk sinn vinstra meg­in við þá. Á sjö­unda ára­tugn­um kom Alþýðubanda­lagið til sög­unn­ar og ögraði Alþýðuflokkn­um. Á tí­unda ára­tugn­um átti Sam­fylk­ing­in að sam­eina alla vinstri menn gegn Sjálf­stæðis­flokkn­um – þá var VG stofnað til klofn­ings.

Sum­ir jafnaðar­menn lát­ast nú vera harmi lostn­ir yfir brott­hvarfi VG af þingi og hefja skít­kast í garð Sjálf­stæðis­flokks­ins, hann hafi drepið VG. Að óreyndu hefði mátt ætla að jafnaðar­menn fögnuðu því að eiga ein­ir vinstri væng­inn.

Það kynni að leiða til klofn­ings inn­an Sam­fylk­ing­ar­inn­ar yrði ekki litið til vinstri við mynd­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Kraf­an verður því á hend­ur Viðreisn um að hún beygi meira til vinstri.

Kjós­end­ur höfnuðu ESB-æv­in­týra­mennsku og skatta­hækk­un­um. Það er auðveld­ara að ýta ESB til hliðar en hærri skött­um í stjórn­arsátt­mála út­gjalda­stjórn­ar.