Samið um útgjalda- og skattastjórn
Morgunblaðið, laugardagur 7. desember 2024.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands veitti Kristrúnu Frostadóttur formanni Samfylkingarinnar umboð til stjórnarmyndunar að morgni þriðjudagsins 3. desember.
Í yfirlýsingu Höllu Tómasdóttur sagði að hún hefði rætt við forystufólk þingflokkanna sex daginn áður um „helstu kosti“ í stöðunni eftir þingkosningarnar 30. nóvember. Með hliðsjón af þeim, á grundvelli kosningaúrslitanna og að loknu öðru samtali við Kristrúnu þá um morguninn, hefði hún falið formanni Samfylkingarinnar „umboð til stjórnarmyndunar“.
Sagði forsetinn að Kristrún hefði tjáð sér að hún hefði þegar átt samtöl við formenn annarra flokka. Vísaði forsetinn til þess að flokksformennirnir hefðu upplýst sig „um að þeir [væru] reiðubúnir til formlegra viðræðna um myndun nýrrar ríkisstjórnar með Samfylkingunni“.
Fundað um stjórnarmyndun í eldhúsi Ingu Sæland (t.v.), Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Kristrún Frostadóttir (mynd af mbl.is).
Formennirnir eru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Inga Sæland formaður Flokks fólksins. Strax að kvöldi kjördags og í sjónvarpsþætti í hádegi sunnudaginn 1. desember varð ljóst að þær og Kristrún töldu sig eiga samleið við myndun ríkisstjórnar. Samtals fengu flokkar þeirra 36 þingmenn í kosningunum (Sf 15; V 11 og FF 10), 32 duga til meirihluta á þingi.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins situr sem forsætisráðherra í starfsstjórninni þar til meirihluti alþingis stendur að baki nýrri ríkisstjórn. Hann sagði tvo kosti í stöðunni í bréfi til flokksmanna sinna þriðjudaginn 3. desember: „Annars vegar að mynda borgaralega ríkisstjórn til hægri, líkt og niðurstöður kosninganna eru skýrt ákall um. Hins vegar að veita nýrri ríkisstjórn kröftuga mótspyrnu í stjórnarandstöðu.“
Með orðunum „borgaralega ríkisstjórn“ útilokar Bjarni ríkisstjórnarsamstarf við Samfylkinguna. Flokkurinn skipar sér til vinstri, þótt hann hafi færst verulega til hægri undir formennsku Kristrúnar.
Bjarni sagði markmið sjálfstæðismanna skýrt; „að afla flokknum meiri stuðnings“. Þetta yrði ekki gert með því að falla frá stefnumálum flokksins „eða hlaupa undir bagga með þeim sem kynnt hafa plan um tugmilljarða útgjaldaaukningu og hærri skatta“.
Kosningabarátta Samfylkingarinnar var hvorki frumleg né árangursrík sé litið til stöðunnar í fylgiskönnunum áður en baráttan hófst. Saxaðist jafnt og þétt á stuðninginn. Málefnalega má segja að um hafi verið að ræða afrit af því sem breski Verkamannaflokkurinn sagði fyrir þingkosningar þar í júlí.
Sir Keir Starmer, leiðtoga flokksins og nú forsætisráðherra, varð og verður tíðrætt um það sem hann kallar „plan for change“. Samfylkingin hafði ekki einu sinni fyrir að íslenska orðið plan þegar hún kynnti áætlun sína um breytingar.
„Við erum með plan“ sögðu frambjóðendur flokksins fyrir kosningar. Þeir hljóta að leggja það til grundvallar í viðræðunum núna að kosningum loknum. Kristrún sagði á sínum tíma að það tæki tvö kjörtímabil, ef ekki tíu ár, að framkvæma planið. Nú er spurning hvað samið verður um samstarf til langs tíma.
Í tillögum Samfylkingarinnar er að finna hugmyndir um aukin ríkisútgjöld og aukna skattheimtu. Sama gildir um kosningamál Flokks fólksins. Erfiðara er að vita hvað fyrir Viðreisn vakir. Strax sunnudaginn 1. desember veifaði Þorgerður Katrín ESB-flagginu til að ögra Sjálfstæðisflokki og Miðflokki. Daginn eftir var fulltrúi flokksins í Silfri sjónvarpsins á hröðu undanhaldi í umræðum um ESB og evruna. ESB væri eitthvað í óljósri framtíð.
Eitt er víst. Það sem er til umræðu á milli þessara flokka samrýmist ekki ákalli kjósenda um að hægri vindar þenji segl þjóðarskútunnar næstu árin. Áhrif þessa ákalls eru að kjósendur hafna vinstri flokkunum, VG, Pírötum og Sósíalistum. Raddir þeirra heyrast ekki lengur á alþingi.
Þar til á reynir er spurning hvað brotthvarf flokkanna þýðir fyrir þingstörfin. VG spann þráð sem náði allt aftur til Kommúnistaflokks Íslands. Í rás áratuganna hefur þetta pólitíska afl, í nafni sósíalista og Alþýðubandalags, staðið gegn öllum skynsamlegum ákvörðunum um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Í eina skiptið sem forvígismenn úr gamla Alþýðubandalaginu höfðu vald til að semja um mikilvægt mál fyrir hönd þjóðarinnar, Icesave-málið, fór allt í handaskolum.
Forvitnilegt verður að fylgjast með því hverjir innan Samfylkingarinnar sjá sér hag af því að gerast málsvarar þess hóps vinstrisinnaðra kjósenda sem telur sig án raddar á alþingi. Ólíklegra er að þingmönnum annarra flokka detti í hug að róa á þessi atkvæðamið – það yrðu þá helst þingmenn Flokks fólksins eða kannski Viðreisnar í útlendingamálum.
Það var á sínum tíma stóráfall fyrir íslenska jafnaðarmenn þegar kommúnistar stofnuðu flokk sinn vinstra megin við þá. Á sjöunda áratugnum kom Alþýðubandalagið til sögunnar og ögraði Alþýðuflokknum. Á tíunda áratugnum átti Samfylkingin að sameina alla vinstri menn gegn Sjálfstæðisflokknum – þá var VG stofnað til klofnings.
Sumir jafnaðarmenn látast nú vera harmi lostnir yfir brotthvarfi VG af þingi og hefja skítkast í garð Sjálfstæðisflokksins, hann hafi drepið VG. Að óreyndu hefði mátt ætla að jafnaðarmenn fögnuðu því að eiga einir vinstri vænginn.
Það kynni að leiða til klofnings innan Samfylkingarinnar yrði ekki litið til vinstri við myndun ríkisstjórnarinnar. Krafan verður því á hendur Viðreisn um að hún beygi meira til vinstri.
Kjósendur höfnuðu ESB-ævintýramennsku og skattahækkunum. Það er auðveldara að ýta ESB til hliðar en hærri sköttum í stjórnarsáttmála útgjaldastjórnar.