14.12.2019

Samherjamenn afla sér kvóta í Namibíu

Bækur - Samtíðarsaga - Morgunblaðið, laugardagur 14. desember 2019.

Eft­ir að frétta­skýr­ingaþátt­ur­inn Kveik­ur var sýnd­ur í rík­is­sjón­varp­inu þriðju­dag­inn 12. nóv­em­ber 2019 var rætt við Sig­hvat Björg­vins­son, fyrrv. ráðherra og fram­kvæmda­stjóra Þró­un­ar­sam­vinnu­stofn­un­ar Íslands, í kvöld­frétt­um sjón­varps­ins. Hann sagðist vera „sjokk­eraður yfir um­fjöll­un kvölds­ins um Sam­herja­skjöl­in. Öll upp­bygg­ing sem unnið hafi verið að í Namib­íu hafi hrunið með komu Sam­herja. Hann seg­ir málið skelfi­legt og von­ast til að því sé ekki lokið“, seg­ir á ruv.is um sam­talið.

Sig­hvat­ur sagði að Íslend­ing­ar hefðu kennt Namib­íu­mönn­um sjó­mennsku og fisk­verk­un. Þeir hefðu rekið land­helg­is­gæslu þeirra og haf­rann­sókna­stofn­un, búið til kvóta­kerfi, fisk­markaðskerfi og veiðileyf­is­gjald.

„Við fylgd­umst með því á meðan við vor­um þarna hvernig þetta væri rekið og gerðum ekki at­huga­semd­ir nema mjög sjald­an. Síðan för­um við 2008 og síðan kem­ur Sam­herji – og þetta er allt hrunið,“ sagði Sig­hvat­ur og gat í lok­in ekki sleppt orðum til heima­brúks þegar hann býsnaðist yfir að nú ætluðu „ís­lensk stjórn­völd með fyrr­ver­andi stjórn­ar­formann Sam­herja í far­ar­broddi að lækka veiðileyf­a­gjöld­in á þessa út­gerð og fleiri. Mér finnst þetta vera bara al­veg skelfi­legt og ég vona að þessu máli sé ekki lokið“.

Til þess­ar­ar frétt­ar er vitnað í upp­hafi um­sagn­ar um bók­ina Ekk­ert að fela – á slóð Sam­herja í Afr­íku vegna þess að þau lýsa vel and­rúms­loft­inu sem hér var leit­ast við að skapa í fram­haldi þessa sjón­varpsþátt­ar, það er ann­ars veg­ar að lýsa hneyksl­an á gangi mála í Namib­íu og hins veg­ar að flytja hneykslið hingað heim og nýta það til að sverta kvóta­kerfið vegna stór­út­gerða og rök­styðja þyngri veiðigjöld á þær fyr­ir utan að sverta nokkra ís­lenska stjórn­mála­menn og Sjálf­stæðis­flokk­inn sér­stak­lega.

GN2150JLFHöf­und­ar bók­ar­inn­ar eru þrír: Helgi Selj­an, Aðal­steinn Kjart­ans­son og Stefán Aðal­steinn Drengs­son. Þeir komu að gerð sjón­varpsþátt­ar­ins sem var sýnd­ur 12. nóv­em­ber 2019. Í bók­inni er lýst því sama og í þætt­in­um, að sumu leyti með sömu orðum. Texti bók­ar­inn­ar er lip­ur og frá­sögn­in skýr. Leit­ast er við að dýpka skiln­ing les­anda á viðfangs­efn­inu með því að setja það í sögu­legt sam­hengi. Höf­und­arn­ir fóru til Namib­íu, Angóla og Nor­egs við öfl­un efn­is.

Kveikj­una að rit­un bók­ar­inn­ar og gerð sjón­varpsþátt­ar­ins er að finna í vináttu Helga Selj­ans og Krist­ins Hrafns­son­ar, rit­stjóra Wiki­Leaks, eft­ir að stofn­andi efn­isveit­unn­ar, Ju­li­an Assange, dró sig í hlé, fyrst með langri ein­angr­un í sendi­ráði Ekvadors í London og nú vegna fang­els­un­ar í Bretlandi.

Þeir Helgi og Krist­inn höfðu oft rætt að „alþjóðleg­ur sjáv­ar­út­veg­ur væri skugga­leg­ur bis­ness“ og þegar fyr­ir lágu Wiki­Leaks-gögn og „ótrú­leg saga“ Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, fyrrv. starfs­manns Sam­herja í Namib­íu, ýtti Helgi öðru til hliðar og sökkti sér ofan í gögn­in.

„Það er vissu­lega spill­ing í Namib­íu. Og það er aug­ljós­lega spill­ing í sjáv­ar­út­vegi i Namib­íu. Hana fann Sam­herji ekki upp. Sam­herja tókst hins veg­ar greini­lega að svína svo á öðrum þátt­tak­end­um í iðnaðinum, sem sum­ir hverj­ir hafa haft á sér spill­ing­arstimp­il lengi, að þess­ir keppi­naut­ar sáu á eft­ir stór­um afla­heim­ild­um til Sam­herja.

Sam­herja var í lófa lagið að koma sér inn í iðnaðinn á sam­keppn­is­grund­velli. Það hefði vissu­lega tekið lengri tíma, kostað meiri vinnu og, það sem mestu skipt­ir, það hefði þýtt minni gróða.

En það hefði verið heiðarlegt. Og án efa mun nær því að fylgja lög­um. Bæði í Namib­íu og á Íslandi.“ (256)

Þarna er kjarna bók­ar­inn­ar lýst. Þró­un­ar­sam­vinna opn­ar nýj­ar leiðir í sam­skipt­um þeirra sem ganga til henn­ar. Þar gilda sömu lög­mál og í öllu alþjóðasam­starfi. Þekk­ing á staðhátt­um auðveld­ar töku ákv­arðana um viðskipti. Íslend­ing­ar stofnuðu ekki til þró­un­ar­sam­starfs við Namib­íu­menn til að breyta stjórn­ar­fari þjóðar­inn­ar. Hún hef­ur búið við eins­flokks stjórn frá sjálf­stæði sínu í mars 1990. Íslend­ing­ar ein­beittu sér að sjáv­ar­út­vegi, út­gerð og fisk­vinnslu og þess vegna var rök­rétt fyr­ir alþjóðafyr­ir­tæki á borð við Sam­herja að leita fyr­ir sér þar.

Öllu er þessu lýst í bók­inni. Lýs­ing­in verður stund­um bjöguð þegar Sam­herji er gerður tor­tryggi­leg­ur, oft aðeins vegna at­vika eða ákv­arðana sem eru hluti þess að starfa á alþjóðavett­vangi. Þar eins og endra­nær líta stjórn­end­ur og fjár­málaráðgjaf­ar þeirra til allra tæki­færa sem gef­ast til að hafa sem mest­an fjár­hags­leg­an hag af starf­semi sinni. Útgerð og fisk­vinnsla er ekki góðgerðar­starf­semi eins og Íslend­ing­um er vel ljóst en all­ar ákv­arðanir eiga að sjálf­sögðu að vera rétt­um meg­in við lög­in.

Þegar frétta­menn vinna bók sem þessa setj­ast þeir ekki í dóm­ara­sæti. Þeir eiga ekki sein­asta orðið um hvort farið sé að lög­um eða ekki. Þess er vænst að þeir leggi mál fyr­ir á þann hátt að les­and­inn geri upp við sig fyr­ir sitt leyti hvað hon­um finnst. Í þess­ari bók er stund­um gengið skrefi lengra til að skella sök á ein­stak­linga og fyr­ir­tæki og er það ljóður á verk­inu. Sama má segja um skort á nafna­skrá í lok þess.

Í eft­ir­mála legg­ur Krist­inn Hrafns­son, rit­stjóri Wiki­Leaks, bless­un sína yfir verk höf­und­anna og seg­ir um vinnu þeirra að hún hafi verið „ít­ar­leg, vönduð og hvöss“. Hann seg­ir einnig að þegar leið á „verk­efnið“ hafi verið ákveðið að dag­blaðið (?) Stund­in yrði „hluti af fjöl­miðlabanda­lag­inu í birt­ing­unni og blaðamaður­inn Ingi Freyr Vil­hjálms­son var kallaður til, maður með yf­ir­grips­mikla þekk­ingu á síðari tíma viðskipta­sögu á Íslandi og þætti Sam­herja þar“. (350)

Ætla má að Krist­inn hafi verið eins kon­ar aðal­rit­stjóri verks­ins þegar hann lýs­ir til­gangi þess á þenn­an veg:

„Í þessu riti er komið á fram­færi upp­lýs­ing­um um spill­ingu valds, auðs og stjórn­mála. Það er und­ir al­menn­ingi komið hvort og þá hvernig verður brugðist við upp­lýs­ing­un­um. Sumt þarf aug­ljósa skoðun, svo sem meint brot á all­mörg­um grein­um laga, meðal ann­ars hegn­ing­ar­laga.“ (351)

Þegar Hage Geingob, for­seti Namib­íu, er spurður hvort ekki verði að grípa til aðgerða gegn spill­ingu í landi hans blæs hann öllu slíku frá sér með þeim orðum að á fund­um um land allt í síðustu kosn­inga­bar­áttu hans hafi hann aðeins fengið tvær spurn­ing­ar um spill­ingu. Al­menn­ing­ur sé ekki að velta henni fyr­ir sér.

Bók­ina Ekk­ert að fela á ef til vill að gefa út í Namib­íu til að vekja al­menn­ing þar til vit­und­ar um eig­in stjórn­ar­hætti. Hér hef­ur boðskap­ur henn­ar þegar verið nýtt­ur til tveggja úti­funda á Aust­ur­velli og Stjórn­ar­skrár­fé­lagið finn­ur í bók­inni rök til stuðnings málstað sín­um. Framtíðin ein leiðir í ljós hvort áhrif­in á al­menn­ing verða lang­vinn og hvort skoðun í ljósi laga leiði til saka­mála.