Samherjamenn afla sér kvóta í Namibíu
Bækur - Samtíðarsaga - Morgunblaðið, laugardagur 14. desember 2019.
Eftir að fréttaskýringaþátturinn Kveikur var sýndur í ríkissjónvarpinu þriðjudaginn 12. nóvember 2019 var rætt við Sighvat Björgvinsson, fyrrv. ráðherra og framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, í kvöldfréttum sjónvarpsins. Hann sagðist vera „sjokkeraður yfir umfjöllun kvöldsins um Samherjaskjölin. Öll uppbygging sem unnið hafi verið að í Namibíu hafi hrunið með komu Samherja. Hann segir málið skelfilegt og vonast til að því sé ekki lokið“, segir á ruv.is um samtalið.Sighvatur sagði að Íslendingar hefðu kennt Namibíumönnum sjómennsku og fiskverkun. Þeir hefðu rekið landhelgisgæslu þeirra og hafrannsóknastofnun, búið til kvótakerfi, fiskmarkaðskerfi og veiðileyfisgjald.
„Við fylgdumst með því á meðan við vorum þarna hvernig þetta væri rekið og gerðum ekki athugasemdir nema mjög sjaldan. Síðan förum við 2008 og síðan kemur Samherji – og þetta er allt hrunið,“ sagði Sighvatur og gat í lokin ekki sleppt orðum til heimabrúks þegar hann býsnaðist yfir að nú ætluðu „íslensk stjórnvöld með fyrrverandi stjórnarformann Samherja í fararbroddi að lækka veiðileyfagjöldin á þessa útgerð og fleiri. Mér finnst þetta vera bara alveg skelfilegt og ég vona að þessu máli sé ekki lokið“.
Til þessarar fréttar er vitnað í upphafi umsagnar um bókina
Ekkert að fela – á slóð Samherja í Afríku
vegna þess að þau lýsa vel andrúmsloftinu sem hér var leitast
við að skapa í framhaldi þessa sjónvarpsþáttar, það er annars vegar
að lýsa hneykslan á gangi mála í Namibíu og hins vegar að flytja
hneykslið hingað heim og nýta það til að sverta kvótakerfið vegna
stórútgerða og rökstyðja þyngri veiðigjöld á þær fyrir utan að
sverta nokkra íslenska stjórnmálamenn og Sjálfstæðisflokkinn
sérstaklega.
Höfundar bókarinnar eru þrír: Helgi Seljan, Aðalsteinn
Kjartansson og Stefán Aðalsteinn Drengsson. Þeir komu að gerð
sjónvarpsþáttarins sem var sýndur 12. nóvember 2019. Í bókinni er
lýst því sama og í þættinum, að sumu leyti með sömu orðum. Texti
bókarinnar er lipur og frásögnin skýr. Leitast er við að dýpka
skilning lesanda á viðfangsefninu með því að setja það í sögulegt
samhengi. Höfundarnir fóru til Namibíu, Angóla og Noregs við
öflun efnis.
Kveikjuna að ritun bókarinnar og gerð sjónvarpsþáttarins er að finna í vináttu Helga Seljans og Kristins Hrafnssonar, ritstjóra WikiLeaks, eftir að stofnandi efnisveitunnar, Julian Assange, dró sig í hlé, fyrst með langri einangrun í sendiráði Ekvadors í London og nú vegna fangelsunar í Bretlandi.
Þeir Helgi og Kristinn höfðu oft rætt að „alþjóðlegur sjávarútvegur væri skuggalegur bisness“ og þegar fyrir lágu WikiLeaks-gögn og „ótrúleg saga“ Jóhannesar Stefánssonar, fyrrv. starfsmanns Samherja í Namibíu, ýtti Helgi öðru til hliðar og sökkti sér ofan í gögnin.
„Það er vissulega spilling í Namibíu. Og það er augljóslega spilling í sjávarútvegi i Namibíu. Hana fann Samherji ekki upp. Samherja tókst hins vegar greinilega að svína svo á öðrum þátttakendum í iðnaðinum, sem sumir hverjir hafa haft á sér spillingarstimpil lengi, að þessir keppinautar sáu á eftir stórum aflaheimildum til Samherja.
Samherja var í lófa lagið að koma sér inn í iðnaðinn á samkeppnisgrundvelli. Það hefði vissulega tekið lengri tíma, kostað meiri vinnu og, það sem mestu skiptir, það hefði þýtt minni gróða.
En það hefði verið heiðarlegt. Og án efa mun nær því að fylgja lögum. Bæði í Namibíu og á Íslandi.“ (256)
Þarna er kjarna bókarinnar lýst. Þróunarsamvinna opnar nýjar leiðir í samskiptum þeirra sem ganga til hennar. Þar gilda sömu lögmál og í öllu alþjóðasamstarfi. Þekking á staðháttum auðveldar töku ákvarðana um viðskipti. Íslendingar stofnuðu ekki til þróunarsamstarfs við Namibíumenn til að breyta stjórnarfari þjóðarinnar. Hún hefur búið við einsflokks stjórn frá sjálfstæði sínu í mars 1990. Íslendingar einbeittu sér að sjávarútvegi, útgerð og fiskvinnslu og þess vegna var rökrétt fyrir alþjóðafyrirtæki á borð við Samherja að leita fyrir sér þar.
Öllu er þessu lýst í bókinni. Lýsingin verður stundum bjöguð þegar Samherji er gerður tortryggilegur, oft aðeins vegna atvika eða ákvarðana sem eru hluti þess að starfa á alþjóðavettvangi. Þar eins og endranær líta stjórnendur og fjármálaráðgjafar þeirra til allra tækifæra sem gefast til að hafa sem mestan fjárhagslegan hag af starfsemi sinni. Útgerð og fiskvinnsla er ekki góðgerðarstarfsemi eins og Íslendingum er vel ljóst en allar ákvarðanir eiga að sjálfsögðu að vera réttum megin við lögin.
Þegar fréttamenn vinna bók sem þessa setjast þeir ekki í dómarasæti. Þeir eiga ekki seinasta orðið um hvort farið sé að lögum eða ekki. Þess er vænst að þeir leggi mál fyrir á þann hátt að lesandinn geri upp við sig fyrir sitt leyti hvað honum finnst. Í þessari bók er stundum gengið skrefi lengra til að skella sök á einstaklinga og fyrirtæki og er það ljóður á verkinu. Sama má segja um skort á nafnaskrá í lok þess.
Í eftirmála leggur Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, blessun sína yfir verk höfundanna og segir um vinnu þeirra að hún hafi verið „ítarleg, vönduð og hvöss“. Hann segir einnig að þegar leið á „verkefnið“ hafi verið ákveðið að dagblaðið (?) Stundin yrði „hluti af fjölmiðlabandalaginu í birtingunni og blaðamaðurinn Ingi Freyr Vilhjálmsson var kallaður til, maður með yfirgripsmikla þekkingu á síðari tíma viðskiptasögu á Íslandi og þætti Samherja þar“. (350)
Ætla má að Kristinn hafi verið eins konar aðalritstjóri verksins þegar hann lýsir tilgangi þess á þennan veg:
„Í þessu riti er komið á framfæri upplýsingum um spillingu valds, auðs og stjórnmála. Það er undir almenningi komið hvort og þá hvernig verður brugðist við upplýsingunum. Sumt þarf augljósa skoðun, svo sem meint brot á allmörgum greinum laga, meðal annars hegningarlaga.“ (351)
Þegar Hage Geingob, forseti Namibíu, er spurður hvort ekki verði að grípa til aðgerða gegn spillingu í landi hans blæs hann öllu slíku frá sér með þeim orðum að á fundum um land allt í síðustu kosningabaráttu hans hafi hann aðeins fengið tvær spurningar um spillingu. Almenningur sé ekki að velta henni fyrir sér.
Bókina Ekkert að fela á ef til vill að gefa út í Namibíu til að vekja almenning þar til vitundar um eigin stjórnarhætti. Hér hefur boðskapur hennar þegar verið nýttur til tveggja útifunda á Austurvelli og Stjórnarskrárfélagið finnur í bókinni rök til stuðnings málstað sínum. Framtíðin ein leiðir í ljós hvort áhrifin á almenning verða langvinn og hvort skoðun í ljósi laga leiði til sakamála.