16.9.2023

Sameinuð stjórn um meginmál

Morgunblaðið, laugardagur 16. september 2023.

Þegar farið er yfir ræður stjórn­mála­manna á prenti er for­vitni­legt að sjá hve stíll­inn hef­ur breyst hjá mörg­um til að skerpa boðskap­inn til hlust­enda í sal eða við skjá. Text­inn er bein­skeytt­ur, setn­ing­ar stutt­ar og greina­skil tíð til að há­marka at­hygli flytj­anda og hlust­enda.

Dæmi um þetta var auðvelt að skoða nú í vik­unni því að sama dag, miðviku­dag­inn 13. sept­em­ber, fluttu þær stefnuræður sín­ar Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, á ESB-þing­inu í Strass­borg og Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra á Alþingi Íslend­inga við Aust­ur­völl.

Ræðan í Strass­borg var sam­in í skeyta­stíl, ef svo má segja, en sam­fellt mál, lang­ar og stund­um flókn­ar setn­ing­ar ein­kenndu ræðu Katrín­ar. For­sæt­is­ráðherra hafði auk þess aðeins 12 mín­út­ur til að skýra stefnu sína í stað 30 mín­útna þegar fyrst var tekið til við flytja slík­ar ræður reglu­lega í upp­hafi þings fyr­ir um hálfri öld.

Stefnuræðan núna bar þess merki að reynt væri að troða sem mestu efni inn í tím­ann sem ráðherr­an­um var skammtaður. Ráðherr­ann var greini­lega á hraðferð. Hefði farið bet­ur á að við gerð ræðunn­ar hefði verið beitt aðferð skýrra skila­boða í stutt­um hnit­miðuðum setn­ing­um.

Kristrúnu Frosta­dótt­ur, for­manni Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, var mikið í mun að koma því til skila að flokki henn­ar mætti treysta, hann tæki „ör­ugg skref“ og þannig myndu þau stjórna. Þetta sagði hún þris­var í sex mín­útna ræðu sinni: „Sam­fylk­ing­in fer ekki í helj­ar­stökk … Þess vegna boðum við eng­in helj­ar­stökk held­ur ör­ugg skref í rétta átt … Sam­fylk­ing­in býður upp á: Örugg skref, vel­ferð og virðing — eng­in helj­ar­stökk.“

Hvers vegna var þetta flokks­for­mann­in­um svona of­ar­lega í huga? Hef­ur Kristrún verið sökuð um að und­ir­búa helj­ar­stökk? Hef­ur hún ekki frek­ar legið und­ir ámæli inn­an flokks­ins fyr­ir að hverfa frá helj­ar­stökk­um með því að hafna ESB-aðild­ar­stefn­unni og jarða bar­átt­una fyr­ir nýrri stjórn­ar­skrá? Var hún með þess­ari áherslu á helj­ar­stökk­in að svara gagn­rýni inn­an flokks­ins? Gerði hún það nú af meira ör­yggi en áður eft­ir að Helga Vala Helga­dótt­ir yf­ir­gaf þing­sæti sitt? Helga Vala tók helj­ar­stökk út af alþingi til að „skemmta sér“ við lög­mennsku í stað þess að standa við lof­orð sitt við kjós­end­ur um að sitja á þingi fyr­ir þá í fjög­ur ár. Fjöl­miðlamenn fögnuðu ákvörðun henn­ar sem hetju­legri!

Ann­ar flokks­formaður kom á óvart í ræðu sinni þegar Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir sagðist hafa „sterka sann­fær­ingu fyr­ir því að hug­mynda­fræðin á miðju stjórn­mál­anna þurfi að koma öfl­ugri“ inn á þingið eft­ir næstu kosn­ing­ar. Áréttaði hún þessa miðju­stefnu sína tvisvar í ræðunni.

Þor­gerður Katrín skrifaði for­sæt­is­ráðherra bréf á dög­un­um og hvatti til þess að for­ystu­menn allra flokka sett­ust á rökstóla um út­lend­inga­mál­in og fagnaði for­sæt­is­ráðherra þessu mál­efna­lega frum­kvæði Viðreisn­ar. Slík vinnu­brögð gætu fært sam­fé­lag­inu öllu ár­ang­ur, ekki síst í viðkvæm­um mála­flokki á borð við út­lend­inga­mál­in.

Í þessu sam­bandi má þó minn­ast þess að þver­póli­tísk samstaða um út­lend­inga­mál­in sem náðist og varð að lög­um árið 2016 skilaði of lág­um þrösk­uldi miðað við ná­granna­lönd. Þenn­an þrösk­uld verður að hækka hér.

Hitt er skilj­an­legt að formaður Viðreisn­ar vilji færa sig inn á miðjuna því að stefna flokks­ins og kraf­an um ESB-aðild ger­ir Viðreisn að jaðarflokki. Miðju­hug­sjón­in kann að losa um ESB-haft flokks­ins.

_DSC2965Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína miðvikudaginn 13. september 2023 (mynd stjórnarráðið/Eyþór Árnason).

Katrín Jak­obs­dótt­ir sagði að efna­hags­mál og kjara­mál yrðu efst á baugi á alþingi í vet­ur. Miklu skipti að aðilar vinnu­markaðar­ins fengju svig­rúm til að ná sam­an um far­sæla kjara­samn­inga til að tryggja að lífs­kjör hér yrðu áfram með því besta sem þekkt­ist. Stjórn­völd myndu hér eft­ir sem hingað til greiða fyr­ir samn­ing­um. Þar skipti miklu að áætlan­ir stjórn­valda í hús­næðismál­um gengju eft­ir sem og þátt­taka sveit­ar­fé­lag­anna í fram­kvæmd ramma­sam­komu­lags um upp­bygg­ingu íbúðar­hús­næðis.

Hús­næðis­lof­orð af hálfu rík­is­stjórn­ar­inn­ar hafa hol­an hljóm nema sveit­ar­fé­lög­in leggi sitt af mörk­um. Af­neit­un meiri­hlut­ans í Reykja­vík, und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, á ábyrgð hans á hús­næðis­vand­an­um er hróp­andi dæmi um við hvað er að etja. Ef til vill breyt­ist þetta með fram­sókn­ar­mann í borg­ar­stjóra­stóln­um, hann lofaði breyt­ingu.

Katrín hef­ur verið for­sæt­is­ráðherra síðan 30. nóv­em­ber 2017. Hún sagði nú að seta í rík­is­stjórn væri alltaf „krefj­andi viðfangs­efni“ og ekki síður í „óvenju­legri rík­is­stjórn“. Þessi stjórn væri óvenju­leg vegna þess að það væri sjald­gæft að ólík­ir flokk­ar tækju „sig sam­an um að byggja brýr á milli gagn­stæðra póla með vel­sæld fólks­ins í land­inu að leiðarljósi“.

Lilja D. Al­freðsdótt­ir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, sagði ljóst að bar­átt­una við verðbólg­una mundi bera hæst í vet­ur og þar skipti mestu máli fyr­ir heim­il­in að hún lækkaði svo vext­ir gætu lækkað.

Það var eng­inn bil­bug­ur á Bjarna Bene­dikts­syni, fjár­málaráðherra og for­manni Sjálf­stæðis­flokks­ins. Hann sagði helstu verk­efni þing­vet­urs­ins og til næstu ára vera að styðja við end­ur­heimt stöðug­leika í efna­hags­mál­um. Það yrði stökkpall­ur til frek­ari sókn­ar. Tak­ast yrði á við ýmsa fylgi­kvilla þegar all­ar vél­ar í sam­fé­lag­inu væru á full­um snún­ingi. Tek­ist hefði að verja kaup­mátt­inn. Það skipti grund­vall­ar­máli, sér­stak­lega fyr­ir tekju­lægri ein­stak­linga. Nú væri „al­gjört grund­vall­ar­atriði“ að grípa strax til aðgerða vegna þyngri byrða heim­ila af hús­næðislán­um.

Sam­hljóm­ur­inn hjá for­ystu­mönn­un­um sýn­ir hvert rík­is­stjórn­in stefn­ir.