Saga þjófræðis með keisaradrauma
Bókarumsögn, Morgunblaðið, laugardagur 12. nóvember 2022.
Samtímasaga Menn Pútíns ★★★★½ eftir Catherine Belton. Þýðing: Elín Guðmundsdóttir. Ugla, Reykjavík 2022. Kilja, 664 bls. heimildaskrá, nafnaskrá, myndir.
Bókin Menn Pútíns – hvernig KGB tók völdin í Rússlandi og bauð síðan Vesturlöndum byrginn segir söguna af því hvernig njósnarinn Valdimir Pútín með KGB-reynslu í Dresden kom ár sinni fyrir borð í St. Pétursborg og klifraði síðan eftir hrun Sovétríkjanna til æðstu metorða í Moskvu og Rússlandi.
Í St. Pétursborg sat Pútín í ráðhúsinu og nýtti sér umboð frá borgarstjóranum til að leggja grunn að samstarfi fyrrverandi KGB-manna og glæpagengja báðum til fjárhagslegs ávinnings. Með aðstoð Pútíns og hans manna varð höfnin í St. Pétursborg til dæmis miðstöð smygls á eiturlyfjum frá Kólumbíu til Vestur-Evrópu. (129)
Á sama tíma og Pútín bjó til þetta glæpanet sátu Boris Jeltsín og menn hans í Moskvu og komu eignum ríkisins á annan hátt í hendur vildarvina. Þar urðu til ólígarkar, auðmenn með pólitísk ítök.
KGB-mennirnir sáu ofsjónum yfir áhrifum ólígarkanna og fengu hlédrægan, samvinnufúsan Dresden-njósnarann frá St. Pétursborg til aðstoðar í höfuðborginni.
Pútin kom sér í mjúkinn hjá Jeltsín og mönnum hans á svo áhrifamikinn hátt að Jeltsín gerði hann að eftirmanni sínum á forsetastóli árið 2000.
Hlédrægni Pútíns vék smátt og smátt fyrir valdhroka við setuna í Kreml. Á forsetastóli sagði hann ólígörkunum stríð á hendur og lét dæma þann ríkasta í 10 ára fangelsi. KGB-mennirnir höfðu sigrað.
Forsetinn snerist einnig gegn Vesturlöndum og Bandaríkjunum sérstaklega, Á öðru kjörtímabili sínu árið 2007 flutti hann ræðu í München sem markar upphaf þess sem síðar varð og blasir nú við öllum heiminum á blóðvöllum Úkraínu.
Rússneskir auðmenn, ólígarkar og KGB-menn arðræna rússnesku þjóðina og flytja auðinn til útlanda. Til varð net mútusjóða og samvogunarfyrirtækja auk þess sem stundað var stórfellt peningaþvætti. Til marks um það er að rannsóknaraðilar töldu að „meira en 200 milljarðar af svörtum peningum hefðu verið fluttir í gegnum reikninga í Danske Bank“. (475)
Höfundur beinir athygli sérstaklega að fjárhagslegum tengslum Donalds Trumps við Moskvumenn. Þau má rekja allt aftur til 1990 og tóku á sig stórpólitíska mynd þegar Trump bauð sig fram til forseta 2016. Við þá sögu tengist íslenska fyrirtækið FL-Group vegna 50 milljón dollara fjárfestingar í fasteignafélaginu Bayrock. (543) Saga Bayrock og samskipta fyrirtækisins við Trump er rakin og tengist FL-Group henni í maí 2007 eins og sagt var frá í fjölmiðlum hér á þeim tíma án þess að Rússatengsla væri getið.
Bókin Menn Pútins kom út á ensku í apríl 2020, tæpum tveimur árum áður en Pútín gaf fyrirmælin um innrás í Úkraínu. Í ljósi hennar fær frásögnin af afstöðu Pútíns og KGB-mannanna til landsins dýpri merkingu. Um einskonar keisaralega þráhyggju sem mótast af vænisýki er að ræða.
Höfundurinn Catherine Belton er blaðamaður og rithöfundur. Hún var fréttaritari The Financial Times í Moskvu frá 2007 til 2013. Þar komst hún í kynni við ýmsa heimildarmenn sína í bókinni. Textanum fylgir ítarleg heimildaskrá og nafnaskrá auk mynda. Eðli málsins samkvæmt getur hún ekki nafngreint alla heimildarmenn sína. Í bókinni er fjöldi frásagna af einstaklingum sem týndu lífi á grunsamlegan hátt, líklega vegna vitneskju sinnar um viðskiptahætti og fjárreiður Kremlverja eða vitorðsmanna þeirra.
Viðskiptaflétturnar og undirmálin eru flókin en þýðandinn, Elín Guðmundsdóttir, kemur öllu vel og skilmerkilega til skila. Rússnesk mannanöfn eru umrituð samkvæmt reglum. Með orðasmíð verður textinn gagnsær t.d. segir að KGB-menn hafi notað „ræningjakapítalisma“ til að gera Jeltsín-fjölskyldunni ókleift að halda völdum. (186) Starfsheiti eru erfið viðureignar, „starfsmannastjóri“ skortir valdsmannslegan blæ – svo að eitt dæmi sé nefnt. Stundum hefði mátt setja ártal á eftir dagsetningu til að auðvelda lesskilning.
Því er lýst hvernig Pútín breytist við að undirsátar hans umgangast hann sem alvald: „Þessi stöðuga þrælslund fór smám saman að gera hann yfirlætisfullan og þegar hann fór að trúa því að hann væri nýi keisarinn fór hann að taka harkalegri og alræðislegri ákvarðanir …“ (294)
KGB-mennirnir mótuðu nýja hugmyndafræði til að endurreisa veldi rússneska ríkisins og efla keisaralegu tengslin við fyrrverandi Sovétlýðveldin. (303) Jafnframt var rússneskur rétttrúnaður í auknum mæli upphafinn og herferðir til útbreiðslu hans fjármagnaðar af auðugum rétttrúnaðarólígörkum, fyrst í Úkraínu og síðan í löndum lengra til vesturs. (485)
Í skrifum ýmissa hér á landi, einkum á samfélagsmiðlum, má sjá merki um boðskap í þessa veru. Er þá frekar grunnt á ljósum eða óljósum stuðningi við málstað Pútíns og hernað hans í Úkraínu. Þar er lögð áhersla á hugmyndafræði í anda slavneskra gilda rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sem boðar næstum andstæðu við vestræn gildi frjálslyndis og umburðarlyndis. „Rússneska rétttrúnaðarkirkjan leit á rétttrúnaðinn sem hina eina sönnu trú og taldi öll önnur trúarbrögð villutrú.“ Þetta völdu KGB-menn sem hugmyndafræðilegan sprota í endurreisn Rússlands sem stórveldis og hann féll „í frjóan jarðveg hjá þeim sem fannst þeir hafa setið eftir í bægslagangi alþjóðavæðingarinnar og þeim sem voru haldnir rótgrónum fordómum“. (488)
Bókin minnir á hve rangt mat vestrænir sérfræðingar og stjórnmálamenn lögðu á breytingarnar í Rússlandi eftir valdatöku Pútíns.
Til dæmis er vitnað í reyndan bandarískan diplómat í forsetatíð Bills Clintons (1993-2001), Strobe Talbott, sem taldi Rússland ekki lengur „olíustórveldi“, Rússar yrðu þess vegna meiri þátttakendur í alþjóðasamvinnu sem reist væri á virðingu fyrir alþjóðalögum. (429) Við vitum nú að þetta reyndist alrangt. Rússland varð orkustórveldi og Moskvumenn virða alþjóðalög að vettugi.
Sorglegt er ef raunsærri greining á þróun stjórnarhátta í Rússlandi og á oflæti, fégráðugra alræðissinna hefði dugað til að hindra ógnartök þeirra á Rússum og eyðileggingu Úkraínu. Hana verður að stöðva og ná tökum á Pútín og mönnum hans. Það er bitur boðskapur þessarar mögnuðu bókar.