Saga stórframkvæmda og framfara
Umsögn, Morgunblaðið, miðvikudagur, 21, júní 2023.
Saga Landsvirkjunar – orka í þágu þjóðar er mikil bók að vöxtum hvernig sem á hana er litið. Hún er efnismikil, um 2 kg að þyngd, 581 bls. í stóru broti.
Stjórn Landsvirkjunar ákvað í tilefni af 50 ára afmæli fyrirtækisins 1. júlí 2015 að ráðist yrði í ritun ítarlegrar sögu þess í tímaröð.
Sagnfræðingurinn Sveinn Þórðarson var ráðinn til að skrifa söguna. Hann hefur áður skrifað bækur um framfarir og verkfræðilegt efni eins og Sögu rafmagns á Íslandi í 100 ár; Brýr að baki; Frumherja í verkfræði á Íslandi og Verkin sýna merkin, sögu framkvæmda og verktakastarfsemi á Íslandi.
Hið íslenska bókmenntafélag tók að sér útgáfu verksins þegar það var komið á rekspöl og fól Ólöfu Dagnýju Óskarsdóttur rekstrarstjóra og Helga Skúla Kjartanssyni sagnfræðingi, ritstjóra Landsvirkjunarsögunnar, að vinna að verkinu fyrir sína hönd.
Jafnframt komu ritnefnd og rýnihópur að ritun sögunnar en í bókinni eru sjö viðaukar, þar á meðal er annáll Landsvirkjunar 2016-2020 og listi yfir stjórnir hennar til 2022. Þá er birt skrá yfir tilvísanir, heimildir, nöfn, staði og atriðisorð og um ljósmyndir. Myndaskráin nær á smáu letri frá bls. 577 til 581 sem gefur til kynna gífurlegan fjölda mynda í bókinni. Þar er einnig að finna mörg vönduð kort af virkjunarsvæðum auk hvers kyns súlurita.
Fyrir utan ljósmyndirnar eru einnig birtar úrklippur úr blöðum. Textinn er auk þess brotinn upp með skyggðum rammagreinum með fróðleiksbrotum og tilvitnunum. Þessir skyggðu textar eru erfiðir aflestrar, þar hefði þurft að nota feitara letur.
Í raun er bókin margskipt. Megintextinn liðast eins og fljót á milli mynda, úrklippa og skyggðra rammagreina. Almennt er auðvelt að átta sig á hvar textann er að finna en að minnsta kosti einu sinni þurfti að leita hans.
Bókin skiptist í 11 kafla í tímaröð eins og fyrir var lagt: Rafmagnið nemur land; Sogsfossar og héraðsvirkjanir; Upphaf Landsvirkjunar; Stóriðja, stórvirkjun; Tungnaá og Þórisvatn; Landsvirkjun um land allt; Virkjanahlé; Nýr lagarammi, nýjar Þjórsárvirkjanir; Kárahnjúkavirkjun; Að mörgu að hyggja og Horft til framtíðar.
Fróðleikurinn í bókinni er margbrotinn. Þjóðlífsbreytingum er lýst, verklegum framkvæmdum, verkfræðilegum úrlausnarefnum, þróun samgangna, skipan verktöku, jarðvinnslu, tækjum og tækni, lagningu raflína og raforkusamningum. Ákvarðanir á stjórnmálavettvangi eru brotnar til mergjar. Þetta er saga umbyltingar sem gjörbreytti lífskjörum þjóðarinnar. Þarna má sjá hvernig Íslendingar náðu stig af stigi tökum á öllum þáttum virkjanaframkvæmda og réðu yfir mannviti og fjármunum til að verða eigin herrar í viðskiptum við erlenda stórnotendur. Þessari þekkingu og verkkunnáttu má ekki kasta á glæ.
Þar er saga Búrfellsvirkjunar og samstarfið við Alusuisse um álverið í Straumsvík skólabókardæmið. Pólitískar ákvarðanir, lagaumgjörð, vísindalegar rannsóknir, verklegar framkvæmdir og alþjóðlegir viðskiptasamningar, allt varð að falla í sama farveg.
Ekkert gekk þrautalaust fyrir sig. Í bókinni er drepið á neikvæð viðbrögð en framvindan og árangurinn ræður för. Sagan minnir á nauðsyn þess að jafnan sé unnið að verðugum viðfangsefnum í orkumálum til að viðhalda hér einum hæstu þjóðfélagsgæðum í veröldinni. Almenn velmegun gerir þjóðina værukæra og það gleymist fljótt í daglegu stjórnmálavafstri að í þessum efnum verður að líta til langrar framtíðar.
Til verða lögbundnir þröskuldar og skipaðar eru fjölmennar nefndir til ræða hvernig á að komast yfir þá. Þar tekur við saga rammaáætlananna svonefndu, saga biðar.
Hugmyndin um rammaáætlun var sótt til Noregs en með henni hafði náðst betri skilningur þar og sátt um nýtingu vatnsafls. Hér á landi hratt ríkisstjórnin gerð rammaáætlunar af stað í þessum tilgangi snemma árs 1997: „Iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, láti gera rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árið 2000,“ sagði í samþykkt ríkisstjórnarinnar (317). Við myndun ríkisstjórnar vorið 2007 breyttust áherslur, þá var ákveðið að unnið yrði að „rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði“. Þarna kemur orðið „vernd“ til sögunnar í heiti áætlunarinnar (413). Í viðauka 3, Umhverfi og samfélag, segir: „Vinna við rammaáætlun hófst 1999 og sér ekki fyrir endann á henni tveimur áratugum síðar“ (504).
Mats-, umsagnar- og eftirlitskerfi vegna hugmynda um nýtingu vatnsafls, jarðvarma og nú vindorku er orðið svo flókið að þekkingu skortir til að brjóta sér leið í gegnum frumskóg reglna og kvaða. Kæfi kerfið framkvæmdavilja Landsvirkjunar ræður enginn við frumskóginn. Á tíma grænnar orku er kyrkingarstefna í íslenskum orkumálum óskiljanleg.
Fyrir fáeinum árum varð mikill lýðskrumshvellur vegna orkupakka 3 og var hann talinn til marks um að ESB ætlaði að leggja undir sig orkulindir þjóðarinnar með því að tengja hingað sæstreng í óþökk okkar.
Saga Landsvirkjunar sýnir að hugmyndin um rafstreng til annarra landa er síður en svo nýmæli. Haustið 1953 fól ráðherra Jakobi Gíslasyni raforkumálastjóra að athuga mögulega sölu á íslenskri raforku annaðhvort til stóriðju innan lands eða til útflutnings um sæstreng. Árið 1962 taldi Jakob ekki vafa á því að tæknilega væri „framkvæmanlegt að flytja raforku frá Íslandi til Skotlands um sæstreng sem væri rúmlega 800 km langur“ (128). Stóriðjan var hins vegar valin á sjöunda áratugnum.
Orkustofnun gerði árið 1975 frumhagkvæmnisathugun, þá fyrstu af mörgum, um flutning á orku til Skotlands. Í janúar 1988 ræddi Friðrik Sophusson, þáv. iðnaðarráðherra, orkusölu til Bretlands við Cecil Parkinson, orkumálaráðherra Breta (289). Í áramótagrein 1991 taldi þáverandi formaður Alþýðubandalagsins, Ólafur Ragnar Grímsson, að Landsvirkjun væri reiðubúin að „leggja þennan gullstreng nýrrar aldar milli Íslands og Bretlandseyja“ (292). Þáverandi forsætisráðherrar Íslands og Bretlands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og David Cameron, settu árið 2015 á laggirnar vinnuhóp til að kanna tengingu raforkukerfi landanna með sæstreng (439). Sigmundur Davíð varð síðar einn helsti andstæðingur orkupakka 3 af ótta við sæstreng!
Dæmin um rammaáætlunina og sæstrenginn eru nefnd hér til að sýna fróðleiksgildi sögu Landsvirkjunar fyrir umræður líðandi stundar. Ber að fagna því hve myndarlega er að þessu verki staðið og mikil áhersla lögð á að safna sem mestum upplýsingum á einn stað.