21.6.2023

Saga stórframkvæmda og framfara

Umsögn, Morgunblaðið, miðvikudagur, 21, júní 2023.

Saga Lands­virkj­un­ar – orka í þágu þjóðar er mik­il bók að vöxt­um hvernig sem á hana er litið. Hún er efn­is­mik­il, um 2 kg að þyngd, 581 bls. í stóru broti.

Stjórn Lands­virkj­un­ar ákvað í til­efni af 50 ára af­mæli fyr­ir­tæk­is­ins 1. júlí 2015 að ráðist yrði í rit­un ít­ar­legr­ar sögu þess í tímaröð.

Sagn­fræðing­ur­inn Sveinn Þórðar­son var ráðinn til að skrifa sög­una. Hann hef­ur áður skrifað bæk­ur um fram­far­ir og verk­fræðilegt efni eins og Sögu raf­magns á Íslandi í 100 ár; Brýr að baki; Frum­herja í verk­fræði á Íslandi og Verk­in sýna merk­in, sögu fram­kvæmda og verk­tak­a­starf­semi á Íslandi.

Hið ís­lenska bók­mennta­fé­lag tók að sér út­gáfu verks­ins þegar það var komið á rek­spöl og fól Ólöfu Dag­nýju Óskars­dótt­ur rekstr­ar­stjóra og Helga Skúla Kjart­ans­syni sagn­fræðingi, rit­stjóra Lands­virkj­un­ar­sög­unn­ar, að vinna að verk­inu fyr­ir sína hönd.

Jafn­framt komu rit­nefnd og rýni­hóp­ur að rit­un sög­unn­ar en í bók­inni eru sjö viðauk­ar, þar á meðal er ann­áll Lands­virkj­un­ar 2016-2020 og listi yfir stjórn­ir henn­ar til 2022. Þá er birt skrá yfir til­vís­an­ir, heim­ild­ir, nöfn, staði og atriðisorð og um ljós­mynd­ir. Mynda­skrá­in nær á smáu letri frá bls. 577 til 581 sem gef­ur til kynna gíf­ur­leg­an fjölda mynda í bók­inni. Þar er einnig að finna mörg vönduð kort af virkj­un­ar­svæðum auk hvers kyns súlu­rita.

Fyr­ir utan ljós­mynd­irn­ar eru einnig birt­ar úr­klipp­ur úr blöðum. Text­inn er auk þess brot­inn upp með skyggðum ramma­grein­um með fróðleiks­brot­um og til­vitn­un­um. Þess­ir skyggðu text­ar eru erfiðir af­lestr­ar, þar hefði þurft að nota feit­ara let­ur.

Í raun er bók­in marg­skipt. Meg­in­text­inn liðast eins og fljót á milli mynda, úr­klippa og skyggðra ramma­greina. Al­mennt er auðvelt að átta sig á hvar text­ann er að finna en að minnsta kosti einu sinni þurfti að leita hans.

Bók­in skipt­ist í 11 kafla í tímaröð eins og fyr­ir var lagt: Raf­magnið nem­ur land; Sogs­foss­ar og héraðsvirkj­an­ir; Upp­haf Lands­virkj­un­ar; Stóriðja, stór­virkj­un; Tungnaá og Þóris­vatn; Lands­virkj­un um land allt; Virkj­ana­hlé; Nýr lag­arammi, nýj­ar Þjórsár­virkj­an­ir; Kára­hnjúka­virkj­un; Að mörgu að hyggja og Horft til framtíðar.

1f019516-cf12-4bb0-985c-5e31d9c31a3b

Fróðleik­ur­inn í bók­inni er marg­brot­inn. Þjóðlífs­breyt­ing­um er lýst, verk­leg­um fram­kvæmd­um, verk­fræðileg­um úr­lausn­ar­efn­um, þróun sam­gangna, skip­an verk­töku, jarðvinnslu, tækj­um og tækni, lagn­ingu raflína og raf­orku­samn­ing­um. Ákvarðanir á stjórn­mála­vett­vangi eru brotn­ar til mergjar. Þetta er saga um­bylt­ing­ar sem gjör­breytti lífs­kjör­um þjóðar­inn­ar. Þarna má sjá hvernig Íslend­ing­ar náðu stig af stigi tök­um á öll­um þátt­um virkj­ana­fram­kvæmda og réðu yfir mann­viti og fjár­mun­um til að verða eig­in herr­ar í viðskipt­um við er­lenda stór­not­end­ur. Þess­ari þekk­ingu og verkkunn­áttu má ekki kasta á glæ.

Þar er saga Búr­fells­virkj­un­ar og sam­starfið við Alusuis­se um ál­verið í Straums­vík skóla­bók­ar­dæmið. Póli­tísk­ar ákv­arðanir, lagaum­gjörð, vís­inda­leg­ar rann­sókn­ir, verk­leg­ar fram­kvæmd­ir og alþjóðleg­ir viðskipta­samn­ing­ar, allt varð að falla í sama far­veg.

Ekk­ert gekk þrauta­laust fyr­ir sig. Í bók­inni er drepið á nei­kvæð viðbrögð en fram­vind­an og ár­ang­ur­inn ræður för. Sag­an minn­ir á nauðsyn þess að jafn­an sé unnið að verðugum viðfangs­efn­um í orku­mál­um til að viðhalda hér ein­um hæstu þjóðfé­lags­gæðum í ver­öld­inni. Al­menn vel­meg­un ger­ir þjóðina værukæra og það gleym­ist fljótt í dag­legu stjórn­mála­vafstri að í þess­um efn­um verður að líta til langr­ar framtíðar.

Til verða lög­bundn­ir þrösk­uld­ar og skipaðar eru fjöl­menn­ar nefnd­ir til ræða hvernig á að kom­ast yfir þá. Þar tek­ur við saga ramm­a­áætlan­anna svo­nefndu, saga biðar.

Hug­mynd­in um ramm­a­áætl­un var sótt til Nor­egs en með henni hafði náðst betri skiln­ing­ur þar og sátt um nýt­ingu vatns­afls. Hér á landi hratt rík­is­stjórn­in gerð ramm­a­áætl­un­ar af stað í þess­um til­gangi snemma árs 1997: „Iðnaðarráðherra, í sam­ráði við um­hverf­is­ráðherra, láti gera ramm­a­áætl­un um nýt­ingu vatns­afls og jarðvarma og skal henni lokið fyr­ir árið 2000,“ sagði í samþykkt rík­is­stjórn­ar­inn­ar (317). Við mynd­un rík­is­stjórn­ar vorið 2007 breytt­ust áhersl­ur, þá var ákveðið að unnið yrði að „ramm­a­áætl­un um vernd og nýt­ingu nátt­úru­svæða með áherslu á vatns­afl og jarðhita­svæði“. Þarna kem­ur orðið „vernd“ til sög­unn­ar í heiti áætl­un­ar­inn­ar (413). Í viðauka 3, Um­hverfi og sam­fé­lag, seg­ir: „Vinna við ramm­a­áætl­un hófst 1999 og sér ekki fyr­ir end­ann á henni tveim­ur ára­tug­um síðar“ (504).

Mats-, um­sagn­ar- og eft­ir­lit­s­kerfi vegna hug­mynda um nýt­ingu vatns­afls, jarðvarma og nú vindorku er orðið svo flókið að þekk­ingu skort­ir til að brjóta sér leið í gegn­um frum­skóg reglna og kvaða. Kæfi kerfið fram­kvæmda­vilja Lands­virkj­un­ar ræður eng­inn við frum­skóg­inn. Á tíma grænn­ar orku er kyrk­ing­ar­stefna í ís­lensk­um orku­mál­um óskilj­an­leg.

Fyr­ir fá­ein­um árum varð mik­ill lýðskrumshvell­ur vegna orkupakka 3 og var hann tal­inn til marks um að ESB ætlaði að leggja und­ir sig orku­lind­ir þjóðar­inn­ar með því að tengja hingað sæ­streng í óþökk okk­ar.

Saga Lands­virkj­un­ar sýn­ir að hug­mynd­in um raf­streng til annarra landa er síður en svo ný­mæli. Haustið 1953 fól ráðherra Jakobi Gísla­syni raf­orku­mála­stjóra að at­huga mögu­lega sölu á ís­lenskri raf­orku annaðhvort til stóriðju inn­an lands eða til út­flutn­ings um sæ­streng. Árið 1962 taldi Jakob ekki vafa á því að tækni­lega væri „fram­kvæm­an­legt að flytja raf­orku frá Íslandi til Skot­lands um sæ­streng sem væri rúm­lega 800 km lang­ur“ (128). Stóriðjan var hins veg­ar val­in á sjö­unda ára­tugn­um.

Orku­stofn­un gerði árið 1975 frum­hag­kvæmn­is­at­hug­un, þá fyrstu af mörg­um, um flutn­ing á orku til Skot­lands. Í janú­ar 1988 ræddi Friðrik Soph­us­son, þáv. iðnaðarráðherra, orku­sölu til Bret­lands við Cecil Park­in­son, orku­málaráðherra Breta (289). Í ára­móta­grein 1991 taldi þáver­andi formaður Alþýðubanda­lags­ins, Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, að Lands­virkj­un væri reiðubú­in að „leggja þenn­an gull­streng nýrr­ar ald­ar milli Íslands og Bret­lands­eyja“ (292). Þáver­andi for­sæt­is­ráðherr­ar Íslands og Bret­lands, Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son og Dav­id Ca­meron, settu árið 2015 á lagg­irn­ar vinnu­hóp til að kanna teng­ingu raf­orku­kerfi land­anna með sæ­streng (439). Sig­mund­ur Davíð varð síðar einn helsti and­stæðing­ur orkupakka 3 af ótta við sæ­streng!

Dæm­in um ramm­a­áætl­un­ina og sæ­streng­inn eru nefnd hér til að sýna fróðleiks­gildi sögu Lands­virkj­un­ar fyr­ir umræður líðandi stund­ar. Ber að fagna því hve mynd­ar­lega er að þessu verki staðið og mik­il áhersla lögð á að safna sem mest­um upp­lýs­ing­um á einn stað.