Saga kjaradeilna og samninga
Bækur - Sagnfræði - Morgunblaðið 11. nóvember 2019
Frá Þjóðarsátt til Lífskjarasamnings eftir Guðmund Magnússon. Útg. Samtök atvinnulífsins, Rvk. 2019. 155 bls.
Samtök atvinnulífsins gáfu árið 2004 út ritverk Guðmundar Magnússonar, sagnfræðings og blaðamanns, Frá kreppu til þjóðarsáttar – saga Vinnuveitendasambands Íslands frá 1934 1999. Í eftirmála bókarinnar segir höfundur að ekki sé um hefðbundna félagssögu að ræða heldur hvíli megináherslan á að setja starfsemi Vinnuveitendasambandsins í þjóðfélagslegt samhengi með það fyrir augum að varpa ljósi á áhrif samtakanna.
Nú hafa Samtök atvinnulífsins gefið út nýja bók eftir Guðmund: Frá Þjóðarsátt til Lífskjarasamnings – Samtök atvinnulífsins 1999-2019.
Þjóðarsáttarsamningarnir svonefndu voru gerðir 2. febrúar 1990 milli verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisins. Þeir breyttu „andrúmslofti á vinnumarkaði mjög til hins betra með því að auka traust á milli vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar. Forystumenn atvinnurekenda gátu horft um víðara svið en áður“, segir Guðmundur í upphafi bókar sinnar. Stofnun Samtaka atvinnulífsins (SA) haustið 1999 megi rekja til mikillar jákvæðrar gerjunar í þjóðfélaginu á þessum árum.
Í bókinni er samruna Vinnuveitendasambands Íslands (VSÍ) og Vinnumálasambandsins (VMS) innan SA lýst. Þar sameinuðust tvær fylkingar sem áður börðust harkalega um ítök og áhrif, fulltrúar einkafyrirtækja og samvinnufyrirtækja. Til varð öflugur, samhentur viðsemjandi á almennum launamarkaði sem styrkt hefur stöðu sína jafnt og þétt á 20 árum og nýtur nú allt annarrar stöðu í samfélaginu en á tíma togstreitu milli atvinnurekenda og flokkspólitískra ítaka innan launþegasamtakanna.
Guðmundur lýsir viðræðum og efni kjarasamninga undanfarin 20 ár og lýkur frásögn sinni með lífskjarasamningnum sem ritað var undir í Ráðherrabústaðnum 3. apríl 2019. Samningurinn var síðar samþykktur með 89% atkvæða innan SA og 80% launafólks.
Í bókinni er að finna tölulegan fróðleik um efni kjarasamninga sem hætt er við að fari fyrir ofan garð og neðan hjá öðrum en þeim sem til þekkja.
Oft er grafið undan nauðsynlegum trúnaði og trausti milli aðila vinnumarkaðarins á viðkvæmu stigi mála. Stundum er að vísu gert of mikið úr atlögu í hita leiksins í von um að bæta samningsstöðuna. Þarna er að jafnaði um þríeyki að ræða: launþega, atvinnurekendur og ríkisvaldið. Á meðan þríeykið er ekki samstiga ríkir óvissa og óstöðugleiki. Oft veldur sjálfstæður aðili, kjaradómur eða kjararáð, uppnámi. Nú á að hafa verið dregið úr þeirri hættu. Verst er að ekki hefur tekist að sameinast um betri almennan samningsramma, kenndan við SALEK.
Vönduð línu- og súluritin í bókinni sýna að kaup og kjör hafa batnað verulega á undanförnum 20 árum þrátt fyrir að „hér varð hrun“ svo að vitnað til orða sem oft hafa heyrst eftir haustið 2008. Af bókinni má ráða að engir kærleikar hafi verið með stjórn „hinna vinnandi stétta“, Samfylkingar og Vinstri-grænna, og launþegahreyfingarinnar á árunum 2009 til 2013.
Þeir sem eru hægra megin við miðju stjórnmálanna valda ekki óróa í verkalýðsfélögum heldur hinir sem sækja að ráðandi öflum í hreyfingunni frá vinstri. Eftir að klíka sósíalista náði tökum á Eflingu stéttarfélagi treysti hún völd sín með brottrekstri reynds starfsfólks félagsins. Þessi ófriðaröfl telja stöðugleika og hagvöxt vopn í hendi andstæðinga sinna.
Afstaðan til ESB og evrunnar er mælikvarði á breytingar sem hafa orðið innan SA og Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Rétt áður en bankarnir urðu gjaldþrota í október 2008 vildu ASÍ-menn framlengja kjarasamninga óbreytta en að SA tæki undir þá kröfu þeirra að „ríkisstjórnin lýsti yfir vilja til að ganga í Evrópusambandið“. Nú gagnrýna ráðamenn ASÍ aðild að EES vegna andstöðu þeirra við markaðsvæðingu.
Haustið 2008 vakti ESB-skilyrði ASÍ ágreining innan SA. Samtök iðnaðarins töldu að ekki ætti að stilla ríkisstjórninni upp við vegg á þennan hátt þótt þau vildu í ESB. Samtök verslunar og þjónustu og Samtök ferðaiðnaðarins vildu setja ríkisstjórninni ESB-skilyrði. Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva lýstu eindreginni andstöðu. Var bókað í fundargerð SA um málið að félög með 77% atkvæðavægi innan samtakanna lýstu yfir vilja til þess að Ísland sækti um aðild að ESB.
Innan SA þróaðist ESB-málið á þann veg að gerð var könnun á afstöðu aðildarfyrirtækjanna til aðildar að ESB og upptöku evru. Niðurstaða hennar var birt 15. desember 2008:
„Hún kom líklega mörgum á óvart. Ekki reyndist meirihluti fyrir aðildarumsókn og evru eins og margir höfðu talið. Tæplega 43% þátttakenda voru hlynnt aðild og evru, 40% andvíg og 17% tóku ekki afstöðu. Í fimm aðildarfélögum samtakanna var meirihluti fyrir aðild en andstaða í þremur. Ekki var því talinn grundvöllur fyrir að breyta um stefnu í málinu. Samþykkti stjórnin að SA myndu ekki beita sér fyrir aðild að ESB eða upptöku evru.“ (Bls. 57.) Eyjólfur Árni Rafnsson varð formaður SA á árinu 2017 og í ljósi fyrri umræðna vöktu þessi orð hans sérstaka athygli: „Ég hef ekki komið auga á rök fyrir því að önnur mynt kæmi Íslandi betur en krónan.“
Bókin er ríkulega myndskreytt og vönduð að allri gerð. Þar er þó engin nafnaskrá en fáeinar prentvillur. Fjölmargar dagsetningar eru í textanum, með þeim ætti jafnframt að birta ártal lesandanum til leiðbeiningar.
Því ber að fagna að Samtök atvinnulífsins skuli fela Guðmundi Magnússyni að skrá sögu sína. Með því er mikill fróðleikur varðveittur á einum stað.