Rýni á fólki og fjármagni
Morgunblaðið, laugardagur 30. júlí 2022.
Erlendum ríkisborgurum sem skráðir eru með búsetu hér á landi hefur fjölgað um 7,5% frá því í desember í fyrra. Var hlutfall erlendra ríkisborgara með búsetu hér um 14% 1. desember 2021.
Alls voru rúmlega 59 þúsund erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi 1. júlí 2022 og fjölgaði þeim um rúmlega fjögur þúsund frá fyrsta 1. desember 2021. Úkraínskum ríkisborgurum fjölgaði mest eða um 490% á tímabilinu. Þá fjölgaði pólskum ríkisborgurum um tæplega 600 og eru nú meira en 22 þúsund pólskir ríkisborgarar búsettir í landinu. Það er tæplega 6% landsmanna.
Af þessum tölum verður ekki ráðið að Íslendingar sýni því andúð að erlendir ríkisborgarar setjist að í landi þeirra. Heildarmyndin er hins vegar sjaldan nefnd þegar tekið er til við að ræða mál einstaklinga í þessum fjölmenna hópi. Sumir neita að fara að settum reglum og safna hópi stuðningsmanna sér til halds og trausts. Yfirleitt á málstaður þeirra greiðan aðgang að fjölmiðlum og á Alþingi er honum hampað.
Píratar eru þar fremstir í flokki, Samfylking og Viðreisn eru þó aldrei langt undan í hneykslunar- og ásökunarherferðum eða óverðskulduðu hatri í garð Útlendingastofnunar. Lögfest tilraun til að aftengja afgreiðslu útlendingamála flokkspólitíkinni mistókst hrapallega – valdið var tekið af ráðherra, hann situr samt uppi með skammirnar, áhrifalaus. Embættismenn sem fara að lögum eru úthrópaðir.
Farið er með fróðleik að baki tölum um útlendinga sem viðkvæm trúnaðar- og einkamál sem ekki megi ræða opinberlega. Þegar kemur að ferðum fólks vilja þeir sem róttækastir eru ganga svo langt að afnema öll landamæri og hafa stofnað sérstaka hreyfingu í því skyni (No borders). Ber gjarnan mikið á félagsmönnum hreyfingarinnar í aðgerðum í þágu erlendra ríkisborgara hér. Tillögur um forvirkar aðgerðir og rannsóknir til að hefta ólöglegar ferðir fólks til landsins eða greina skipulega alþjóðlega glæpastarfsemi mælast illa fyrir og slegið er á umræður um þær.
Eitt er krafa um að ekki skuli skimað til að takmarka ferðafrelsi
fólks. Önnur viðhorf birtast um skimun þegar kemur að erlendri
fjárfestingu.
Frá 16. júní 2022 hefur legið í opinberri samráðsgátt á netinu
skjal frá forsætisráðherra um „faglega greiningu“ stjórnvalda á
því hvort af tiltekinni beinni erlendri fjárfestingu stafi hætta
fyrir þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.. Markmiðið sé að ganga úr
skugga um að einstakar erlendar fjárfestingar á tilteknum
viðkvæmum samfélagssviðum leiði ekki af sér öryggisógn. Fyrir
því megi færa sannfærandi rök að fyrirkomulag af þessu tagi sé
almennt fallið til að auka traust til erlendra fjárfestinga á
samfélagslega mikilvægum sviðum, til hagsbóta fyrir
atvinnulífið og samfélagið allt.
Þarna eru með öðrum orðum færð haldgóð rök fyrir forvirkum rannsóknaraðgerðum á erlendum fjárfestum í nafni þjóðaröryggis.
Frestur til að skila umsögnum um þessi áform ríkisstjórnarinnar er nýliðinn. Þær fáu sem settar voru í samráðsgáttina sýna að almennt sé skilningur á nauðsyn rýni af þessum toga. Eindregið er þó varað við að rannsóknaraðferðir verði strangari hér en annars staðar. Þykja áformin bera með sér hættu á því.
Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra telja lög um efnið nauðsynleg en gera jafnframt alvarlegar athugasemdir við ýmislegt sem í áformunum birtist. Nú þegar séu hér miklar hömlur á beina erlenda fjárfestingu. Aðeins í tveimur OECD-ríkjum séu meiri hömlur, Nýja-Sjálandi og Mexíkó. Raunar séu hömlurnar hér um þrefalt meiri en gengur og gerist meðal OECD-ríkja og jafnframt ríki hér meiri hindranir í öllum atvinnugreinaflokkum að fjölmiðlum undanskildum. Hlutfall beinnar erlendrar fjárfestingar inn í landið af vergri landsframleiðslu mælist afar lágt í samanburði þjóða. Ísland skipi þar 61. sæti af 63. ríkjum í úttekt IMD-viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja fyrir árið 2022.
Í umsögn Viðskiptaráðs eru einnig gerðar alvarlegar athugasemdir við áformin. Íslenskt efnahagslíf búi nú þegar við ýmsar sérreglur um hömlur á erlenda fjárfestingu sem ekki þekkist erlendis. Hindranirnar séu mestar í sjávarútvegi, eignarhald erlendra aðila í útgerðum megi ekki fara umfram 25%. Þá megi erlendir fjárfestar almennt ekki eiga meira en 49% í innlendum flugrekstri. Einungis 5% fjárfestinga á íslenska hlutabréfamarkaðnum séu í eigu erlendra fjárfesta, borið saman við 72% að meðaltali á Norðurlöndum.
Bein erlend fjárfesting hér er sögð mest í félögum tengdum álframleiðslu og lyfjaiðnaði.
Í umsögn Viðskiptaráðs er bent á að alþjóðlega vísitölufyrirtækið FTSE Russell ætli að færa íslenskan hlutabréfamarkað í flokk nýmarkaðsríkja í þremur áföngum frá september 2022 til mars 2023. Reikni Nasdaq Iceland með því „að um 50 milljarða innflæði erlendrar fjárfestingar verði af þessu tilefni einu saman“.
Meira jafnvægi mætti ríkja í afstöðu til erlends fólks og fjármagns. Óhóflegar reglur, hömlur og hindranir mega ekki verða til þess að fæla þá frá sem hafa áhuga á fjárfestingum hér. Þróun samfélagsins verður að endurspegla fólksfjölda og lýðfræðilegar breytingar.
Þegar leitað er álits ferðafólks lætur það gjarnan orð falla um að hér sé það öruggt. Aðeins eitt atvik getur breytt þessu viðhorfi. Reglur um forvirkar rannsóknarheimildir við komu fólks og fjármagns til landsins eru réttmætar, séu þær sanngjarnar og framkvæmdar af réttsýni. Þær efla traust og öryggi í samfélaginu öllu.