23.7.2021

Rússar trúa á mátt sinn og megin

Morgunblaðið, 23. júlí 2021.

 

Grunn­stefna Atlants­hafs­banda­lags­ins hef­ur ekki verið end­ur­skoðuð og upp­færð frá ár­inu 2010, það er fjór­um árum áður en staða ör­ygg­is­mála í Evr­ópu gjör­breytt­ist vegna áreit­is og árása Rússa á Úkraínu­menn og ólög­mætr­ar inn­limun­ar Krímskaga í Rúss­land. Unnið er því að semja nýja grunn­stefnu NATO í nafni 30 aðild­ar­ríkja banda­lags­ins. Höfuðdrætt­ir henn­ar liggja þegar fyr­ir í skjal­inu NATO 2030, sem full ástæða er til að ís­lenska, og í álykt­un rík­is­odd­vita­fund­ar banda­lagsþjóðanna frá því í júní 2021.

Rúss­nesk stjórn­völd birtu nýja þjóðaröygg­is­stefnu sína 2. júlí 2021, 44 bls. skjal sem Dmitri Tren­in við Moskvu­deild Car­negie seg­ir annað og meira en upp­færslu á sam­bæri­legu skjali frá ár­inu 2015, ári eft­ir að allt breytt­ist í ör­ygg­is­mál­um Evr­ópu vegna at­b­urðanna í Úkraínu. Þá var and­rúms­loftið þó þannig að rúss­nesk stjórn­völd töldu aðeins um tíma­bund­inn nún­ing í sam­skipt­um við NATO-rík­in að ræða.

1033305074_0-226-2945-1820_1000x541_80_0_0_874e05785a6fa0400713d9fc0268814eFundur í þjóðaröryggisráði Rússa undir forsæti Vladmirs Pútins.

 

Inn­hverf stefna

Tren­in seg­ir að árið 2015 hafi rúss­neska þjóðarör­ygg­is­stefn­an og orðalag skjals­ins enn borið svip af ýmsu sem var í tísku á tí­unda ára­tugn­um þegar í meg­in­drátt­um var litið á á heim­inn sem sam­einaða heild. Nú svífi allt ann­ar andi yfir skjal­inu, mik­il­væg­ustu strategísku yf­ir­lýs­ingu rúss­neskra stjórn­valda. Þar sé ekki aðeins fjallað um þjóðarör­ygg­is­mál held­ur heilmargt annað, efna­hags­mál, um­hverf­is­mál og gild­is­matið að baki öfl­ug­um vörn­um. Skjalið sé stefnu­yf­ir­lýs­ing breyttra tíma sem mót­ist af sí­fellt meiri hörku í sam­skipt­um við Banda­rík­in og banda­lags­ríki þeirra; horft sé til hefðbund­inna rúss­neskra gilda og sagt að ný tækni og lofts­lags­mál hafi úr­slitaþýðingu fyr­ir framtíð Rúss­lands. Kjarni stefn­unn­ar snúi í raun að Rúss­um sjálf­um.

Við mót­un þjóðarör­ygg­is­stefn­unn­ar er lagt til grund­vall­ar að upp­nám ríki á alþjóðavett­vangi. Banda­rík­in og fylgi­ríki þeirra glati yfrburðum sín­um sem leiði til meiri og al­var­legri átaka en áður. Rúss­ar búi við óheiðarlega sam­keppni og höft sem eigi að valda þeim tjóni. Meiri hætta sé á vald­beit­ingu í sam­skipt­um þjóða en áður. Hefðbund­in gildi Rússa og sögu­leg af­rek þeirra séu virt að vett­ugi. Á heima­velli verði Rúss­ar að glíma við vél­ráð út­lend­inga sem hafi að mark­miði að grafa und­an stöðug­leika í þjóðlífi þeirra. Ekki er talið að Rúss­ar hafi ástæðu til að ótt­ast eitt­hvert eitt ógn­ar­at­vik held­ur búi þeir við langvar­andi ógn sem valdi ör­ygg­is­leysi.

Dmitri Tren­in seg­ir í grein­inni sem hann birti á vefsíðu stofn­un­ar sinn­ar 6. júlí að þessi svarta grein­ing á ástandi heims­mála og stöðu Rússa sér­stak­lega leiði til þess að þjóðarör­ygg­is­stefn­an sé mjög inn­hverf. Þar sé litið á lýðfræðilega þróun í Rússlandi, póli­tísk­an stöðug­leika og full­veldi, þjóðarsátt og jafn­vægi, efna­hags­lega fram­vindu með nýrri tækni, vernd um­hverf­is­ins og aðlög­un að lofts­lags­breyt­ing­um, síðast en ekki síst sé lagt mat á and­leg­an og siðferðileg­an styrk þjóðar­inn­ar.

 

Her­styrk­ur­inn einn dug­ar ekki

Dreg­in er sú álykt­un af hruni Sov­ét­ríkj­anna fyr­ir 30 árum að það sé ekki her­styrk­ur­inn einn sem tryggi mátt stjórn­kerf­is held­ur innri kraft­ur þjóðlífs­ins. Hernaðarlega hafi Sov­ét­rík­in aldrei verið öfl­ugri en þegar þau hrundu. Þeim var ekki ógnað af neinu er­lendu ríki eða banda­lagi ríkja. Þau voru hins veg­ar orðin graut­fú­in að inn­an.

Af grein Tren­ins má ráða að þeir sem nú fari með völd í Rússlandi átti sig á því að ekki dugi fyr­ir þá til að halda völd­um að end­ur­her­væðast eins og þeir hafi gert, þeir verði einnig að fá þjóðina í lið með sér. Þar blasi við stór­verk­efni eins og dæm­in sanna.

Í skjal­inu er í löngu málið fjallað um ýmis inn­an­lands­mál. Und­ir hatti þjóðarör­ygg­is eru vax­andi fá­tækt, al­vara þess að vera um of háður inn­fluttri tækni, græn orka og lofts­lags­mál. Að rúss­nesk stjórn­völd viður­kenni al­vöru lofts­lags­breyt­inga er ný­mæli. Það staf­ar meðal ann­ars af þeim vanda sem við blas­ir í nyrstu héruðum lands­ins þegar sífreri hverf­ur úr jörðu og und­ir­stöður margra lyk­ilmann­virkja og manna­bú­staða rask­ast. Af­neit­un rúss­neskra yf­ir­valda á áhrif­um lofts­lags­breyt­inga er úr sög­unni. Hver áhrif þess verða í norðri kem­ur í ljós en áhersl­an á nýt­ingu nátt­úru­auðlinda þar og her­væðingu er og hef­ur verið mik­il und­an­far­in ár.

Í stefnu­skjal­inu er ekki litið fram hjá siðræn­um og siðferðileg­um hliðum þjóðarör­ygg­is. Birt­ur er listi yfir hefðbund­in rúss­nesk gildi og farið mörg­um orðum um þau. Því er haldið fram að vest­ræn áhrif ógni þess­um gild­um og vest­ræn öfl vilji svipta Rússa menn­ing­ar­legu full­veldi sínu fyr­ir utan til­raun­ir til að af­vega­leiða Rússa með end­ur­rit­un sög­unn­ar.

Tren­in seg­ir að inn­tak þessa boðskap­ar í skjal­inu feli í sér frá­hvarf frá frjál­syndu viðhorfi til sam­skipta við aðra sem ein­kenndi tí­unda ára­tug­inn, þess í stað birt­ist ný siðræn viðmið með ræt­ur í gam­al­grón­um hefðum þjóðar­inn­ar. Í stefn­unni sé þó ekki vikið að meg­in­und­ir­rót efna­hags­legra og fé­lags­legra vanda­mála meðal Rússa, að ráðandi öfl í land­inu setji eig­in fjár­hags­lega hags­muni ofar öllu öðru, virði ekki önn­ur gildi en efn­is­leg. Þar skari hver eldi að eig­in köku og láti sig alls engu skipta hag al­mennra borg­ara, all­ir kraft­ar „nýju stétt­ar“ Rúss­lands bein­ist að því að nota aðstöðu sína inn­an rík­is­kerf­is­ins til að auðgast sem mest sjálf­ur. Fé – eða frek­ar stór­fé – sé í fyrsta sæti hjá þess­um hópi og eyðileggj­andi mátt­ur fé­græðginn­ar grafi nú helst und­an rúss­nesku sam­fé­lagi. Þarna leyn­ist lík­lega mesti veik­leiki Rúss­lands nú­tím­ans.

 

Áhrif­in í norðri

Þjóðarör­ygg­is­stefn­an sýn­ir að Rúss­ar ætla að „standa á eig­in fót­um“ á alþjóðavett­vangi. Banda­rík­in og NATO eru í auka­hlut­verki. Lýst er holl­ustu við Sam­einuðu þjóðirn­ar.

Íslend­ing­ar eiga sam­leið með Rúss­um í Norður­skauts­ráðinu og af­hentu þeim ný­lega for­mennsku þar til tveggja ára. Ætla Rúss­ar að „standa á eig­in fót­um“ þar og draga úr sam­starfi þjóðanna átta í ráðinu?

Láta Rúss­ar eig­in ör­ygg­is- og efna­hags­sjón­ar­mið ráða inn­an Norður­skauts­ráðsins án til­lits til annarra? Í þjóðarör­ygg­is­stefn­unni frá 2015 var rætt um „gagn­kvæm­an hag af alþjóðasam­vinnu á norður­slóðum“. Nú seg­ir í skjal­inu „að tryggja skuli hags­muni Rúss­lands“ á svæðinu. Áður en Rúss­ar tóku við for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu stofnuðu þeir sér­staka norður­slóðanefnd inn­an rúss­neska þjóðarör­ygg­is­ráðsins og áréttuðu nauðsyn gæslu eig­in hags­muna í norðri.

Dmit­ríj Med­vedev, fyrr­ver­andi for­seti og for­sæt­is­ráðherra Rúss­lands, nú­ver­andi vara­formaður þjóðarör­ygg­is­ráðs Rússa, sagði í júni 2021 að rúss­nesk stjórn­völd yrðu að nýta for­mennsku sína í Norður­skauts­ráðinu til að halda fram þjóðarör­ygg­is­hags­mun­um sín­um á norður­slóðum. Fjöldi ríkja reyndi að þrengja þar að at­hafna­frelsi Rússa vegna sókn­ar í jarðefna­auðlind­ir í Norður-Íshafi og til að stjórna strategísk­um skipa- og flug­ferðum á svæðinu. Þessi af­skipti út­lend­inga væru „al­gjör­lega óviðun­andi“, í þeim fæl­ist bein ógn við þjóðarör­ygg­is­hags­muni Rússa. Þess vegna yrðu Rúss­ar að „halda áfram að styrkja norður­slóðaher­inn með ný­tísku vopna­búnaði“.

Þarna fer ekk­ert á milli mála. Rúss­ar ætla að leita leiða til að nýta Norður­skauts­ráðið til að festa eig­in hags­muna­gæslu í sessi. Það fell­ur að nýrri þjóðarör­ygg­is­stefnu þeirra.