19.2.2022

Rússar sýna Úkraínu enn klærnar

Morgunblaðið, laugardagur 19. febrúar 2022.

 

Umsátri Rússa um Úkraínu er ekki lokið. Þegar vik­an hófst létu Rúss­ar eins og þeir ætluðu að minnka spenn­una. Henni lauk án þess að það gerðist. Fimmtu­dag­inn 17. fe­brú­ar bár­ust fregn­ir um að fjölgað hefði um 7.000 í rúss­neska umsát­ursliðinu. Lögð hefði verið flot­brú skammt fyr­ir norðan landa­mæri Úkraínu í Hvíta-Rússlandi. Hún kynni að vera hluti af æf­ing­um 30.000 manna herliðs Rússa á þess­um slóðum eða henni væri ætlað að auðvelda brynd­rek­um að sækja suður til Kíev í um það bil 100 km fjar­lægð, það er eins og frá Reykja­vík til Hvolsvall­ar. Rúss­ar sendu blóðbirgðir til landa­mæra­hers­ins sem þótti ekki friðarboði frek­ar neyðar­köll aðskilnaðarsinna, túlkuð sem árás­ar­átylla fyr­ir Rússa.

Varn­ar­málaráðherr­ar NATO-ríkj­anna komu sam­an í Brus­sel 16. og 17. fe­brú­ar. Að fyrri fund­ar­deg­in­um lokn­um sagði Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO, að ráðherr­arn­ir hefðu rætt efn­is­lega um „al­var­leg­ustu ör­yggis­krísu í Evr­ópu í marga ára­tugi“.

Stolten­berg sagði að NATO-rík­in fögnuðu öllu sem gert væri til að greiða úr mál­um með viðræðum og frá Moskvu kæmu boð um að því yrði haldið áfram. Á hinn bóg­inn kæmi í ljós að ekki væru nein merki um minnk­andi spennu á vett­vangi. Rúss­ar hefðu hvorki kallað heim herafla né búnað. Þetta kynni auðvitað að breyt­ast en nú væri rúss­neski her­inn grár fyr­ir járn­um og til­bú­inn til árás­ar. Aldrei fyrr hefði svo mikl­um her verið stefnt sam­an í Evr­ópu frá lok­um kalda stríðsins.

NATO hefði frá fyrsta degi gert Rúss­um ljóst að frek­ari árás­ir þeirra á Úkraínu yrðu þeim dýr­keypt­ar. Jafn­framt væri NATO til­búið til viðræðna. Það væri ekki of seint fyr­ir Rússa að stíga til baka og velja leið friðar.

NATO er ekki til viðræðu um mála­miðlan­ir varðandi grund­vall­arþætti. Rétt hverr­ar þjóðar til að velja sér eig­in framtíð. Svig­rúm banda­lags­ins til að ákveða hvað þurfi til að vernda og verja aðild­ar­ríki þess. Það verði gert án þess að ógna Rúss­um.

Stolten­berg sagði NATO ekki vita hvað kynni að ger­ast í Úkraínu. Ráðamenn í Moskvu hefðu sýnt að þeir væru til­bún­ir til að fara á svig við grund­vall­ar­sjón­ar­miðin sem í marga ára­tugi hefðu verið að baki ör­yggi okk­ar. Og þeir beittu til þess valdi.

„Mér þykir miður að þurfa að segja að þetta er nýi veru­leik­inn [e. new normal] í Evr­ópu,“ sagði Jens Stolen­berg að lokn­um fundi NATO-varn­ar­málaráðherr­anna 16. fe­brú­ar 2022.

220217b-011_rdax_775x440sFrá fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna og samstarfsríkja þeirra 17. febrúar 2022 (mynd: NATO).

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra sat þenn­an fund fyr­ir Íslands hönd og átti einka­fund með Stolten­berg 15. fe­brú­ar. Hún sagði við frétta­stofu rík­is­út­varps­ins eft­ir ráðherra­fund­inn 16. fe­brú­ar að all­ir fund­ar­menn hefðu haft „mjög þung­ar áhyggj­ur af stöðunni“, hvað sem liði „beinni inn­rás“ sæj­um „við í raun fram á nýtt norm eða nýj­an veru­leika“.

Þessi nýi veru­leiki er að mati varn­ar­málaráðherra NATO, að Rúss­ar hiki ekki við að sýna klærn­ar til að knýja fram breyt­ing­ar sér í vil á ör­yggis­kerfi Evr­ópu.

Eft­ir að Rúss­ar beittu klón­um gegn Úkraínu­mönn­um árið 2014 varð gjör­breyt­ing á evr­ópsk­um ör­ygg­is­mál­um. Á Norður­lönd­un­um birt­ist hún skýr­ast í ná­inni sam­vinnu Svía og Finna við NATO og tví­hliða samn­ing­um þeirra við Banda­ríkja­menn. Varn­ar­viðbúnaður jókst í Eystra­saltslönd­un­um og Póllandi und­ir fána NATO. Nú er boðað að NATO ætli enn að efla her­styrk í mið-, aust­ur- og suðaust­ur­hluta Evr­ópu.

Í sjö ár sam­fellt hafa evr­ópsk NATO-ríki og Kan­ada aukið út­gjöld sín til varn­ar­mála. Hafa þau vaxið sam­tals um 270 millj­arða doll­ara frá ár­inu 2014.

Lit­há­ar vilja að Banda­ríkja­menn opni her­stöð í landi sínu. Dan­ir hafa samþykkt ósk Banda­ríkja­stjórn­ar um aðstöðu fyr­ir herafla í Dan­mörku. Þeir telja óhjá­kvæmi­legt að hverfa frá stefn­unni um bann við er­lend­um her­stöðvum á dönsku landi á friðar­tím­um. Dan­ir gera ekk­ert með kröfu Rússa um að banda­rísk­ir her­menn verði ekki á Borg­und­ar­hólmi. Norðmenn hafa þegar horfið frá banni við her­stöðvum í landi sínu og Sví­ar heim­ila viðveru banda­rískra her­manna og þátt­töku í heræf­ing­um í Svíþjóð. Finn­ar hafa ný­lega skrifað und­ir samn­ing um kaup á 64 há­tækni-orr­ustuþotum frá Banda­ríkj­un­um.

Þetta er nýi veru­leik­inn í nor­ræn­um ör­ygg­is­mál­um. Hann birt­ist á kom­andi árum í skarp­ari mynd hér á Norður-Atlants­hafi þegar hrundið verður í fram­kvæmd nýrri varn­ar­stefnu Dana fyr­ir norður­slóðir – Fær­eyj­ar og Græn­land.

Árið 2009 treystu nor­rænu rík­in sam­starf sitt í varn­ar­mál­um und­ir skamm­stöf­un­inni NOR­D­EFCO. Þau hafa einnig öll tengst 10 ríkja svæðis­bundnu varn­ar­sam­starfi í Norður-Evr­ópu, sam­eig­in­legu viðbragðssveit­inni (Jo­int Exped­iti­on­ary Force (JEF) með Eistlandi, Lett­landi, Lit­há­en, Hollandi og Bret­um sem stjórna sam­starf­inu. Eins og enskt heiti þessa liðsafla ber með sér er hon­um ætlað að láta að sér kveða er­lend­is. Bregðast við steðji ógn að ein­hverju aðild­ar­ríkj­anna.

Íslend­ing­ar gengu til JEF-sam­starfs­ins í apríl 2021. Þátt­taka í NATO, NOR­D­EFCO og JEF fel­ur í sér rétt­indi og skyld­ur. Íslensk stjórn­völd skil­greina þátt­töku sína á borg­ara­leg­um for­send­um í þessu sam­starfi hernaðar­yf­ir­valda hvers lands. Íslensku þátt­tök­una verður að laga að nýja veru­leik­an­um með þjóðarör­yggið að leiðarljósi.

Í lok júní 2022 verður ný grunn­stefna NATO samþykkt á leiðtoga­fundi banda­lags­ins í Madrid. Fyr­ir ligg­ur ít­ar­leg grein­ar­gerð sem þar er lögð til grund­vall­ar. Hana ber að kynna á ís­lensku og ræða hér eins og gert er í öðrum NATO-ríkj­um.