Rússar sýna Úkraínu enn klærnar
Morgunblaðið, laugardagur 19. febrúar 2022.
Umsátri Rússa um Úkraínu er ekki lokið. Þegar vikan hófst létu Rússar eins og þeir ætluðu að minnka spennuna. Henni lauk án þess að það gerðist. Fimmtudaginn 17. febrúar bárust fregnir um að fjölgað hefði um 7.000 í rússneska umsátursliðinu. Lögð hefði verið flotbrú skammt fyrir norðan landamæri Úkraínu í Hvíta-Rússlandi. Hún kynni að vera hluti af æfingum 30.000 manna herliðs Rússa á þessum slóðum eða henni væri ætlað að auðvelda bryndrekum að sækja suður til Kíev í um það bil 100 km fjarlægð, það er eins og frá Reykjavík til Hvolsvallar. Rússar sendu blóðbirgðir til landamærahersins sem þótti ekki friðarboði frekar neyðarköll aðskilnaðarsinna, túlkuð sem árásarátylla fyrir Rússa.
Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna komu saman í Brussel 16. og 17. febrúar. Að fyrri fundardeginum loknum sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að ráðherrarnir hefðu rætt efnislega um „alvarlegustu öryggiskrísu í Evrópu í marga áratugi“.
Stoltenberg sagði að NATO-ríkin fögnuðu öllu sem gert væri til að greiða úr málum með viðræðum og frá Moskvu kæmu boð um að því yrði haldið áfram. Á hinn bóginn kæmi í ljós að ekki væru nein merki um minnkandi spennu á vettvangi. Rússar hefðu hvorki kallað heim herafla né búnað. Þetta kynni auðvitað að breytast en nú væri rússneski herinn grár fyrir járnum og tilbúinn til árásar. Aldrei fyrr hefði svo miklum her verið stefnt saman í Evrópu frá lokum kalda stríðsins.
NATO hefði frá fyrsta degi gert Rússum ljóst að frekari árásir þeirra á Úkraínu yrðu þeim dýrkeyptar. Jafnframt væri NATO tilbúið til viðræðna. Það væri ekki of seint fyrir Rússa að stíga til baka og velja leið friðar.
NATO er ekki til viðræðu um málamiðlanir varðandi grundvallarþætti. Rétt hverrar þjóðar til að velja sér eigin framtíð. Svigrúm bandalagsins til að ákveða hvað þurfi til að vernda og verja aðildarríki þess. Það verði gert án þess að ógna Rússum.
Stoltenberg sagði NATO ekki vita hvað kynni að gerast í Úkraínu. Ráðamenn í Moskvu hefðu sýnt að þeir væru tilbúnir til að fara á svig við grundvallarsjónarmiðin sem í marga áratugi hefðu verið að baki öryggi okkar. Og þeir beittu til þess valdi.
„Mér þykir miður að þurfa að segja að þetta er nýi veruleikinn [e. new normal] í Evrópu,“ sagði Jens Stolenberg að loknum fundi NATO-varnarmálaráðherranna 16. febrúar 2022.
Frá fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna og samstarfsríkja þeirra 17. febrúar 2022 (mynd: NATO).
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sat þennan fund fyrir Íslands hönd og átti einkafund með Stoltenberg 15. febrúar. Hún sagði við fréttastofu ríkisútvarpsins eftir ráðherrafundinn 16. febrúar að allir fundarmenn hefðu haft „mjög þungar áhyggjur af stöðunni“, hvað sem liði „beinni innrás“ sæjum „við í raun fram á nýtt norm eða nýjan veruleika“.
Þessi nýi veruleiki er að mati varnarmálaráðherra NATO, að Rússar hiki ekki við að sýna klærnar til að knýja fram breytingar sér í vil á öryggiskerfi Evrópu.
Eftir að Rússar beittu klónum gegn Úkraínumönnum árið 2014 varð gjörbreyting á evrópskum öryggismálum. Á Norðurlöndunum birtist hún skýrast í náinni samvinnu Svía og Finna við NATO og tvíhliða samningum þeirra við Bandaríkjamenn. Varnarviðbúnaður jókst í Eystrasaltslöndunum og Póllandi undir fána NATO. Nú er boðað að NATO ætli enn að efla herstyrk í mið-, austur- og suðausturhluta Evrópu.
Í sjö ár samfellt hafa evrópsk NATO-ríki og Kanada aukið útgjöld sín til varnarmála. Hafa þau vaxið samtals um 270 milljarða dollara frá árinu 2014.
Litháar vilja að Bandaríkjamenn opni herstöð í landi sínu. Danir hafa samþykkt ósk Bandaríkjastjórnar um aðstöðu fyrir herafla í Danmörku. Þeir telja óhjákvæmilegt að hverfa frá stefnunni um bann við erlendum herstöðvum á dönsku landi á friðartímum. Danir gera ekkert með kröfu Rússa um að bandarískir hermenn verði ekki á Borgundarhólmi. Norðmenn hafa þegar horfið frá banni við herstöðvum í landi sínu og Svíar heimila viðveru bandarískra hermanna og þátttöku í heræfingum í Svíþjóð. Finnar hafa nýlega skrifað undir samning um kaup á 64 hátækni-orrustuþotum frá Bandaríkjunum.
Þetta er nýi veruleikinn í norrænum öryggismálum. Hann birtist á komandi árum í skarpari mynd hér á Norður-Atlantshafi þegar hrundið verður í framkvæmd nýrri varnarstefnu Dana fyrir norðurslóðir – Færeyjar og Grænland.
Árið 2009 treystu norrænu ríkin samstarf sitt í varnarmálum undir skammstöfuninni NORDEFCO. Þau hafa einnig öll tengst 10 ríkja svæðisbundnu varnarsamstarfi í Norður-Evrópu, sameiginlegu viðbragðssveitinni (Joint Expeditionary Force (JEF) með Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Hollandi og Bretum sem stjórna samstarfinu. Eins og enskt heiti þessa liðsafla ber með sér er honum ætlað að láta að sér kveða erlendis. Bregðast við steðji ógn að einhverju aðildarríkjanna.
Íslendingar gengu til JEF-samstarfsins í apríl 2021. Þátttaka í NATO, NORDEFCO og JEF felur í sér réttindi og skyldur. Íslensk stjórnvöld skilgreina þátttöku sína á borgaralegum forsendum í þessu samstarfi hernaðaryfirvalda hvers lands. Íslensku þátttökuna verður að laga að nýja veruleikanum með þjóðaröryggið að leiðarljósi.
Í lok júní 2022 verður ný grunnstefna NATO samþykkt á leiðtogafundi bandalagsins í Madrid. Fyrir liggur ítarleg greinargerð sem þar er lögð til grundvallar. Hana ber að kynna á íslensku og ræða hér eins og gert er í öðrum NATO-ríkjum.