Ritskoðun ekki rökræður
Umræðan - Morgunblaðið laugardag 20. febrúar 2021
Markaðssvið Keilis – miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs, hefur ákveðið að veita auglýsingafé sínu í aðra átt en að miðlum Sýnar næstu misserin, segir í frétt á mbl.is föstudaginn 19. febrúar. Þetta sé gert „í ljósi nýbirtra upplýsinga er varða líkamssmánun og skeytingarleysi starfsmanna gagnvart umræðunni“. Ástæðan fyrir ákvörðuninni eru niðrandi ummæli í útvarpsþætti í stöð Sýnar. Í yfirlýsingu vísinda- og fræðamiðstöðvarinnar segir: „Siðareglur Keilis kveða á um að við komum í veg fyrir að í starfi okkar viðgangist hvers kyns óréttlæti.“
Daginn áður, fimmtudaginn 18. febrúar, var sagt frá því á mbl.is að ríkisútvarpið (RÚV) hefði farið fram á við útgerðarfélagið Samherja að taka niður myndskeið á Facebook með gagnrýni á fréttastofu RÚV. Þá bað fréttastofan ritstjórn Facebook að fjarlægja myndband Samherja af samfélagsveitu sinni. Var það gert í nafni höfundarréttar enda hefði Samherji „ekki aflað samþykkis frá safnadeild Ríkisútvarpsins fyrir notkun á hljóð- og myndefni áður en félagið setti myndbandið í birtingu“. Samherji hafði tilkynnt safnadeildinni notkun sína á 15 sekúndum úr fréttum RÚV og óskað eftir reikningi segir á mbl.is. Á vef RÚV segir að hægt sé að panta hljóð- og myndefni hjá RÚV-safni til einkanota eða opinberrar birtingar.
Samherji snerist fyrir nokkrum mánuðum til varnar gegn fréttastofu RÚV vegna þess sem útgerðin telur rangfærslur í Namibíumálinu svonefnda. Snerta umræddar 15 sekúndur frásögn sem því tengist. Verður sú flókna saga ekki rakin hér. Víst er að spurt verður að leikslokum í því máli eins og Seðlabankamálinu svonefnda þar sem stjórnendur bankans og fréttamenn RÚV tóku höndum saman til að sverta Samherja.
Heiðar Örn Sigurfinnsson, varafréttastjóri RÚV, sakaði Samherja um þjófnað á efni RÚV í samtali við mbl.is 18. febrúar 2021. Hann fordæmdi Samherja fyrir að nota efni úr fréttum RÚV í „áróðursmyndbönd“ og sagði einnig:
„Við höfum beðið safnadeildina um að láta okkur vita af því ef Samherji óskar eftir myndefni í frekari myndbandagerð, til þess að geta tekið afstöðu til þess. [...] Þetta eru ný vinnubrögð.“
Þessi tvö dæmi, annars vegar um vísinda- og fræðamiðstöð sem telur eigin siðareglur banna auglýsingu hjá fyrirtæki vegna ummæla eins af þáttargerðarmönnum þess og hins vegar um ríkisfréttastofu sem telur eðlilegt að hún stjórni því hverjir fái að greiða fyrir og birta efni úr RÚV-safninu eru „ný vinnubrögð“ eins og varafréttastjóri RÚV segir. Tilgangur þeirra er að banna umræður í stað þess að ræða mál.
Margt af því sem hent er á loft í umræðum líðandi stundar og verður að hneykslunarefni er miklu veigaminna en það sem hér um ræðir. Miklar umræður eru víða erlendis um þá áráttu háskólamanna og fjölmiðlamanna að grípa frekar til útilokunar en rökræðna.
Frjálsar og opnar umræður um mál sem teljast viðkvæm og kunna að særa einhverja eru einfaldlega bannaðar. Gripið er til hótana til að halda fyrirlesurum frá háskólasvæðum. Ritstjórar eru flæmdir frá störfum, ekki endilega vegna þess sem þeir skrifa heldur þess sem þeir birta.
Sjálfstæð menntastofnun, Keilir, telur það falla að ímynd sinni og siðferðilegri ábyrgð að setja fjölmiðlafyrirtæki í bann vegna þess að einum starfsmanna þess varð á í messunni. Starfsmaðurinn baðst afsökunar og Sýn tók þáttinn af dagskrá.
Ríkisrekin fréttastofa berst svo hatrammri baráttu við burðarfyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi að leitað er á náðir stjórnenda Facebook til að loka á gagnrýna upplýsingamiðlun útgerðarinnar í krafti ásakana um ritstuld.
Um nokkurra mánaða skeið hefur verið alið á þeirri skoðun að eitthvað óeðlilegt sé við að Samherji noti þá miðla sem fyrir hendi eru til að skýra mál sitt. Samherji vegur vissulega harkalega að fréttastofu RÚV en rök eru færð fyrir öllu sem sagt er. Lokaúrræði fréttastofunnar er að grípa til ritskoðunar með aðstoð stjórnenda Facebook um sama leyti og Facebook vekur hneykslun vegna lokunar á fréttamiðlun á síðu sinni í Ástralíu þar sem innlendir fréttamenn saka tæknirisann um ritstuld.
Að RÚV sé opinbert hlutafélag en ekki ríkisstofnun leiðir varla til þess að þeir sem eiga samskipti við RÚV-safnið þurfi að lúta því að beiðni þeirra um efni sæti sérstakri skoðun hjá fréttastofunni og hún eigi síðasta orðið sjálfri sér til varnar. Að svo sé vegna Samherja endurspeglar tvennt: Í fyrsta lagi hve hörmulega starfsmenn RÚV hafa haldið á málefnum útgerðarfélagsins og samskiptum við það. Það væri illt í efni ef miðlun frétta af mönnum og málefnum leiddi að jafnaði til þess sem að ofan er lýst. Í öðru lagi að fréttamenn RÚV telja eðlilegt að allar venjulegar samskiptareglur séu sniðgengnar og taki mið af hagsmunum fréttastofunnar. Ekki gildi hlutlægt mat heldur það sem mönnum finnst um hitt eða þetta, með öðrum orðum geðþótti.
Vill einhver í raun að þróunin í fjölmiðlun verði á þennan hátt hér á landi? Að siðareglur fræðamiðstöðvar standi í vegi fyrir eðlilegum samskiptum hennar við fjölmiðlafyrirtæki? Að allar eðlilegar samskiptareglur við RÚV verði að víkja fyrir sérhagsmunum fréttastofu sem hefur komið sér í slíkan vanda að aðeins ritskoðun sé til bjargar?