Rislág stefnumörkun
Morgunblaðið - laugardagur, 28. ágúst 2021
Af þremur stjórnarandstöðuflokkum sem kynnt hafa kosningastefnuskrár sínar undanfarna daga, Pírötum, Samfylkingu og Miðflokknum, leggur aðeins einn, Píratar, fram heildstæða stefnu í utanríkismálum.
Píratar vilja nýta sterka rödd Íslands á alþjóðasviðinu til að „fara fram með góðu fordæmi“. Þeir vilja efla og vernda mannréttindi í alþjóðasamstarfi og vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þeir segja EES-samninginn mikilvægan og Íslendingar eigi að „taka sér allt það rými“ sem þeir geta á vettvangi EES til að tryggja stöðu og hagsmuni almennings. Hvorki verði hafnar ESB-aðildarviðræður né þeim lokið án þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir vilja að „rödd þjóðarinnar“ fái að heyrast um „áframhaldandi þátttöku Íslands í NATO og í öðru varnarsamstarfi“. Innan NATO eigi Íslendingar að tala fyrir friði.
Samfylkingin vill eins og Píratar að Íslendingar láti að sér kveða í loftslagsmálum. Í kosningastefnuskrá hennar er ekki að finna orð um öryggis- og varnarmál eða aðildina að NATO. Þar er hins vegar minnst á aðildina að EBS og sagt að efna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald á aðildarviðræðum við ESB. Samfylkingin vill að Ísland gangi alla leið inn í Evrópusambandið.
Miðflokkurinn kynnti kosningastefnu sína undir fyrirsögninni: 10 ný réttindi fyrir íslensku þjóðina. Í skjalinu er ekki að finna eitt orð um öryggis- og varnarmál, ekki er minnst á EES eða fullveldið, til dæmis í orkumálum, sem átti hug þingmanna flokksins allan í málþófinu mikla vorið 2019. Réttindin sem flokkurinn boðar snúa öll inn á við og minna sum á áform Egils um að fara á Þingvöll og dreifa silfri yfir þingheim.
BB-52 Spirit þota á Keflavíkurflugvelli 23. ágúst 2021.
Útlendingamálin komast ekki heldur á blað í nýrri réttindaskrá Miðflokksins en af greinum frambjóðenda hans má ráða að flokkurinn vilji fara inn á nýjar brautir þar og þrengja nálaraugað.
Píratar og Samfylking minnast á útlendingamál í stefnuskrám sínum. Píratar vilja til dæmis leggja niður Útlendingastofnun og setja nýjan tón í málefni útlendinga. Samfylkingin vill taka betur á móti fólki af erlendum uppruna, móta nýja stefnu um fólk á flótta með mannúð að leiðarljósi, og láta af þrengstu túlkunum á útlendingalögum við meðferð á umsóknum.
Þegar því er velt fyrir sér hvers vegna áhugaleysi stjórnmálamanna á utanríkis- og öryggismálum er svona mikið er erfitt að koma með einhlíta skýringu. Umræður um þessi mál eru almennt ákaflega litlar hér á landi. Fjölmiðlar flytja ekki reglulega, eins og áður var, frásagnir af því sem gerist í her- og öryggismálum á Norður-Atlantshafi og fyrir norðan það. Ekki er lengur agnúast út í veru bandarískra hermanna í landinu. Þeir koma og fara, eru fylgdarlið flugvéla af ólíkum gerðum.
Í upphafi vikunnar komu hingað til dæmis þrjár flugvélar bandaríska flughersins af gerðinni Northrop B-2 Spirit til tímabundinnar dvalar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og taka 200 liðsmenn flughersins þátt í verkefninu. Þetta eru fullkomnustu sprengjuflugvélar heims og torséðar í ratsjám. Vélarnar komu frá Whiteman-flugherstöðinni í Missouri í Bandaríkjunum mánudaginn 23. ágúst. Hafa slíkar vélar aldrei fyrr haft hér viðdvöl til aðgerða en þeim er flogið til æfinga og þjálfunar yfir Evrópu og Afríku í samvinnu við flugheri NATO-ríkja. Daginn eftir að B-2 Spirit-vélarnar lentu hér kom hingað sveit pólskra orrustuvéla sem verður hér við loftrýmisgæslu til 5. október.
Bandaríski flugherinn hefur látið miklu meira að sér kveða á norðurslóðum á þessu ári en áður. Hér hafa þó engar umræður orðið um sögulegar breytingar í þessa veru.
Í mars 2021 lentu bandarískar B-1B Lancer-sprengjuþotur til dæmis í fyrsta sinn á flugvelli fyrir norðan heimskautsbaug þegar þær tóku þátt í æfingum með norska og sænska flughernum frá norsku flugherstöðinni í Bodø.
Norsk stjórnvöld hafa samþykkt að bandarískar sprengjuvélar geti athafnað sig reglulega frá flugvöllum í Noregi. Þetta er nýmæli sem sýnir að lína í hernaðarlegum samskiptum Bandaríkjamanna og NATO við Rússa er dregin mun norðar og austar en áður þegar framlínan lá um Ísland frá Grænlandi til Skotlands (GIUK-hliðið).
Ekki er minnst einu orði á norðurslóðir í stefnuskrám flokkanna þriggja, ekki einu sinni í köflum um loftslagsmál. Breytingar í norðri vegna hlýnunar verða meiri en orðið er og óhjákvæmilegt að íslenskir stjórnmálamenn og stjórnvöld taki afstöðu til þeirra. Verða þessi grundvallarmál látin liggja í þagnargildi fram yfir kosningar? Hefur enginn stjórnmálamaður svo að ekki sé minnst á stjórnmálaflokk áhuga á þeim?
Kosningastefnuskrár stjórnarandstöðuflokkanna þriggja sem hér eru nefndir til sögunnar eru rislágar þegar litið er til stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna. Þær endurspegla ótrúlegt áhugaleysi um þessa mikilvægu málaflokka í almennum umræðum – áhugaleysið eitt er áhyggjuefni.