28.8.2021

Rislág stefnumörkun

Morgunblaðið - laugardagur, 28. ágúst 2021

Af þrem­ur stjórn­ar­and­stöðuflokk­um sem kynnt hafa kosn­inga­stefnu­skrár sín­ar und­an­farna daga, Pír­öt­um, Sam­fylk­ingu og Miðflokkn­um, legg­ur aðeins einn, Pírat­ar, fram heild­stæða stefnu í ut­an­rík­is­mál­um.

Pírat­ar vilja nýta sterka rödd Íslands á alþjóðasviðinu til að „fara fram með góðu for­dæmi“. Þeir vilja efla og vernda mann­rétt­indi í alþjóðasam­starfi og vera leiðandi í bar­átt­unni gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Þeir segja EES-samn­ing­inn mik­il­væg­an og Íslend­ing­ar eigi að „taka sér allt það rými“ sem þeir geta á vett­vangi EES til að tryggja stöðu og hags­muni al­menn­ings. Hvorki verði hafn­ar ESB-aðild­ar­viðræður né þeim lokið án þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Þeir vilja að „rödd þjóðar­inn­ar“ fái að heyr­ast um „áfram­hald­andi þátt­töku Íslands í NATO og í öðru varn­ar­sam­starfi“. Inn­an NATO eigi Íslend­ing­ar að tala fyr­ir friði.

Sam­fylk­ing­in vill eins og Pírat­ar að Íslend­ing­ar láti að sér kveða í lofts­lags­mál­um. Í kosn­inga­stefnu­skrá henn­ar er ekki að finna orð um ör­ygg­is- og varn­ar­mál eða aðild­ina að NATO. Þar er hins veg­ar minnst á aðild­ina að EBS og sagt að efna eigi til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um fram­hald á aðild­ar­viðræðum við ESB. Sam­fylk­ing­in vill að Ísland gangi alla leið inn í Evr­ópu­sam­bandið.

Miðflokk­ur­inn kynnti kosn­inga­stefnu sína und­ir fyr­ir­sögn­inni: 10 ný rétt­indi fyr­ir ís­lensku þjóðina. Í skjal­inu er ekki að finna eitt orð um ör­ygg­is- og varn­ar­mál, ekki er minnst á EES eða full­veldið, til dæm­is í orku­mál­um, sem átti hug þing­manna flokks­ins all­an í málþófinu mikla vorið 2019. Rétt­ind­in sem flokk­ur­inn boðar snúa öll inn á við og minna sum á áform Eg­ils um að fara á Þing­völl og dreifa silfri yfir þing­heim.

BB2s-keflavik-1024x650B-52 Spirit þota á Keflavíkurflugvelli 23. ágúst 2021.

Útlend­inga­mál­in kom­ast ekki held­ur á blað í nýrri rétt­inda­skrá Miðflokks­ins en af grein­um fram­bjóðenda hans má ráða að flokk­ur­inn vilji fara inn á nýj­ar braut­ir þar og þrengja nál­ar­augað.

Pírat­ar og Sam­fylk­ing minn­ast á út­lend­inga­mál í stefnu­skrám sín­um. Pírat­ar vilja til dæm­is leggja niður Útlend­inga­stofn­un og setja nýj­an tón í mál­efni út­lend­inga. Sam­fylk­ing­in vill taka bet­ur á móti fólki af er­lend­um upp­runa, móta nýja stefnu um fólk á flótta með mannúð að leiðarljósi, og láta af þrengstu túlk­un­um á út­lend­inga­lög­um við meðferð á um­sókn­um.

Þegar því er velt fyr­ir sér hvers vegna áhuga­leysi stjórn­mála­manna á ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál­um er svona mikið er erfitt að koma með ein­hlíta skýr­ingu. Umræður um þessi mál eru al­mennt ákaf­lega litl­ar hér á landi. Fjöl­miðlar flytja ekki reglu­lega, eins og áður var, frá­sagn­ir af því sem ger­ist í her- og ör­ygg­is­mál­um á Norður-Atlants­hafi og fyr­ir norðan það. Ekki er leng­ur agn­ú­ast út í veru banda­rískra her­manna í land­inu. Þeir koma og fara, eru fylgd­arlið flug­véla af ólík­um gerðum.

Í upp­hafi vik­unn­ar komu hingað til dæm­is þrjár flug­vél­ar banda­ríska flug­hers­ins af gerðinni Nort­hrop B-2 Spi­rit til tíma­bund­inn­ar dval­ar á ör­ygg­is­svæðinu á Kefla­vík­ur­flug­velli og taka 200 liðsmenn flug­hers­ins þátt í verk­efn­inu. Þetta eru full­komn­ustu sprengjuflug­vél­ar heims og tor­séðar í rat­sjám. Vél­arn­ar komu frá Whitem­an-flug­her­stöðinni í Mis­souri í Banda­ríkj­un­um mánu­dag­inn 23. ág­úst. Hafa slík­ar vél­ar aldrei fyrr haft hér viðdvöl til aðgerða en þeim er flogið til æf­inga og þjálf­un­ar yfir Evr­ópu og Afr­íku í sam­vinnu við flug­heri NATO-ríkja. Dag­inn eft­ir að B-2 Spi­rit-vél­arn­ar lentu hér kom hingað sveit pólskra orr­ustu­véla sem verður hér við loft­rým­is­gæslu til 5. októ­ber.

Banda­ríski flug­her­inn hef­ur látið miklu meira að sér kveða á norður­slóðum á þessu ári en áður. Hér hafa þó eng­ar umræður orðið um sögu­leg­ar breyt­ing­ar í þessa veru.

Í mars 2021 lentu banda­rísk­ar B-1B Lancer-sprengjuþotur til dæm­is í fyrsta sinn á flug­velli fyr­ir norðan heim­skauts­baug þegar þær tóku þátt í æf­ing­um með norska og sænska flug­hern­um frá norsku flug­her­stöðinni í Bodø.

Norsk stjórn­völd hafa samþykkt að banda­rísk­ar sprengju­vél­ar geti at­hafnað sig reglu­lega frá flug­völl­um í Nor­egi. Þetta er ný­mæli sem sýn­ir að lína í hernaðarleg­um sam­skipt­um Banda­ríkja­manna og NATO við Rússa er dreg­in mun norðar og aust­ar en áður þegar fram­lín­an lá um Ísland frá Græn­landi til Skot­lands (GIUK-hliðið).

Ekki er minnst einu orði á norður­slóðir í stefnu­skrám flokk­anna þriggja, ekki einu sinni í köfl­um um lofts­lags­mál. Breyt­ing­ar í norðri vegna hlýn­un­ar verða meiri en orðið er og óhjá­kvæmi­legt að ís­lensk­ir stjórn­mála­menn og stjórn­völd taki af­stöðu til þeirra. Verða þessi grund­vall­ar­mál lát­in liggja í þagn­ar­gildi fram yfir kosn­ing­ar? Hef­ur eng­inn stjórn­mála­maður svo að ekki sé minnst á stjórn­mála­flokk áhuga á þeim?

Kosn­inga­stefnu­skrár stjórn­ar­and­stöðuflokk­anna þriggja sem hér eru nefnd­ir til sög­unn­ar eru ris­lág­ar þegar litið er til stöðu Íslend­inga í sam­fé­lagi þjóðanna. Þær end­ur­spegla ótrú­legt áhuga­leysi um þessa mik­il­vægu mála­flokka í al­menn­um umræðum – áhuga­leysið eitt er áhyggju­efni.