12.4.2025

Ríkisstjórnin boðar afkomubrest

Morgunblaðið, laugardagur 12, apríl 2025.

Ber­ist frétt­ir af lok­un fyr­ir­tæk­is á lands­byggðinni skap­ast oft mik­ill ótti um fram­haldið. Hann birt­ist til dæm­is í þess­um orðum Vil­hjálms Birg­is­son­ar, for­manns Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, í byrj­un júlí 2024:

„Var að koma af fundi rétt í þessu en þessi fund­ur var væg­ast sagt gríðarlega erfiður en á þess­um fundi til­kynntu for­svars­menn há­tæknifyr­ir­tæk­is­ins Skag­inn 3 X 128 starfs­mönn­um að fyr­ir­tækið yrði tekið til gjaldþrota­skipta. Þetta gjaldþrot þessa rót­gróna fyr­ir­tæk­is þýðir að 128 fjöl­skyld­ur missa lífsviður­væri sitt en um 100 af þess­um 128 hafa búa hér á Akra­nesi og ná­grenni en Skag­inn 3 X er einn af stærstu vinnu­stöðunum hér á Akra­nesi. Rétt er að geta þess einnig að fjöldi af­leiddra starfa tap­ast einnig sam­hliða þessu gjaldþroti.“

Skag­inn 3X var í mikl­um viðskipt­um við Rúss­land fyr­ir Covid-19-far­ald­ur­inn. Í fe­brú­ar 2020 lamaðist allt alþjóðlegt viðskipta­líf vegna far­ald­urs­ins og var svo í rúm tvö ár. Þá hægðist á öllu í Rússlandi og Skag­inn 3X stofnaði ekki til nýrra verka. Þegar Rúss­ar réðust inn í Úkraínu 24. fe­brú­ar 2022 var viðskipt­um Skag­ans 3X við Rúss­land sjálf­hætt.

Nú hafa ís­lensk stjórn­völd kynnt laga­frum­varp um auðlinda­gjald sem ógn­ar framtíð arf­taka Skag­ans 3X og fjöl­margra annarra lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja um land allt. Verka­lýðsfor­yst­an vill ör­ugg­lega ekki lenda í þeim spor­um sem Vil­hjálm­ur Birg­is­son lýs­ir hér að ofan.

Stjórn­end­ur fé­lag­anna KAPP ehf. og KAPP Skag­inn ehf. (varð til við kaup á þrota­búi Skag­ans 3X) segja auðlinda­gjalds­frum­varpið leiða til þess að fé­lög­in neyðist „til að ráðast í hagræðing­araðgerðir, sem eiga eft­ir að bitna verst á verðmæt­um störf­um, sem mörg hver eru á lands­byggðinni … Ef fé­lög­in neyðast til þess að ráðast í niður­skurð yrði það ekki aðeins þeim þvert um geð held­ur hefði það slæm áhrif á ís­lensk­an efna­hag og byggðir lands­ins“.

Telja stjórn­end­urn­ir að „hér höggvi sá sem hlífa skyldi í knérunn verðmæta­sköp­un­ar og öfl­ugs sjáv­ar­út­vegs á Íslandi“. Hvetja þeir at­vinnu­vegaráðuneytið ein­dregið til þess að „end­ur­skoða áform sín með það fyr­ir aug­um að tryggja áfram­hald­andi upp­bygg­ingu at­vinnu­lífs, innviða og mannauðs“.

Fé­lög­in sem hér um ræðir sér­hæfa sig í kæliþjón­ustu, véla­smíði, inn­flutn­ingi og þjón­ustu á tækja­búnaði fyr­ir sjáv­ar­út­veg, fisk­eldi og ann­an iðnað. Vegna óbeinna áhrifa skyndi­ákvörðunar um tvö­föld­un auðlinda­gjalds rík­ir ótti um að svo verði þrengt að þess­um fé­lög­um að for­skot þeirra sem reist er á rann­sókn­um, þróun og ný­sköp­un verði að engu, það leiði til stöðnun­ar og síðar hnign­un­ar.

Rík­is­stjórn­in seg­ist standa fyr­ir „leiðrétt­ingu“ á reikni­stofni í viðskipt­um út­gerða og fisk­vinnslu. Þetta hækk­ar auðlinda­skatt á út­gerðir um 100%. Hækk­un­in er at­laga að út­gerðinni og öll­um gróðri sem þrífst vegna arðbærra um­svifa í sjáv­ar­út­veg­in­um. Vinnu­brögðin ein­kenn­ast af frekju og til­lits­leysi. Við ein vit­um, segja ráðherr­arn­ir inn­an og utan ráðuneyta sinna. Sam­talið er ekki tekið held­ur þjösn­ast áfram.

Um­sagn­ir í sam­ráðsgátt stjórn­valda um málið eru ann­ars veg­ar frá ein­stak­ling­um, einmana and­stæðing­um ríkj­andi skipu­lags, og hins veg­ar um­bjóðend­um al­manna­hags­muna sem leggj­ast með rök­um gegn áform­um stjórn­valda.

Screenshot-2025-04-12-at-17.30.42Grundarfjörður – myndin er fengin af vefsíðu bæjarins.

Grund­ar­fjarðarbær á mikið und­ir at­vinnu­grein­um sjáv­ar­út­vegs. Þar er að finna út­gerðir smærri og meðal­stórra fiski­skipa og fisk­vinnsl­ur. Fisk­markaðir hafa þar úti­bú og öfl­ugt flutn­inga­fyr­ir­tæki. Þá er þar lönd­un­arþjón­usta, ís­verk­smiðja, neta­verk­stæði, frystigeymsla, vélsmiðja og raf­einda­virkj­un, auk þess stunda iðnaðar­menn, versl­an­ir og fleiri fyr­ir­tæki og þjón­ustuaðilar bein og óbein viðskipti tengd sjáv­ar­út­vegi.

Í um­sögn sinni ger­ir Björg Ágústs­dótt­ir bæj­ar­stjóri at­huga­semd við að at­vinnu­vegaráðherra kynni frum­varps­drög sín „án þess að fyr­ir liggi grein­ing á áhrif­um boðaðra laga­breyt­inga fyr­ir sveit­ar­fé­lög­in og tekju­stofna þeirra, s.s. eft­ir sam­setn­ingu tekna sveit­ar­fé­laga, um­fangi greina sjáv­ar­út­vegs í at­vinnu­lífi sveit­ar­fé­laga, sam­setn­ingu eða teg­und­um sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja o.fl.“

Grund­ar­fjarðarbær hafi mikla hags­muni af því að áhrifamat og góðar grein­ing­ar á boðuðum laga­breyt­ing­um um veiðigjöld liggi fyr­ir sem grunn­ur að upp­lýstri umræðu um áhrif breyt­ing­anna á hags­muni sam­fé­lags­ins og bæj­ar­sjóðs. Sama hljóti að gilda um önn­ur sjáv­ar­út­vegs­sveit­ar­fé­lög á Íslandi.

Þessi orð bæj­ar­stjór­ans eru í sam­ræmi við varnaðarorð allra annarra vegna frum­varps­ins. Fram­ganga rík­is­stjórn­ar­inn­ar brýt­ur gegn góðum stjórn­ar­hátt­um. Horft er fram hjá þeirri reglu sem er að finna í samþykkt rík­is­stjórn­ar­inn­ar að hafi laga­frum­varp fyr­ir­sjá­an­leg fjár­hags­leg áhrif á sveit­ar­fé­lög skuli fara fram sér­stakt mat á slík­um áhrif­um, sbr. 129. gr. sveit­ar­stjórn­ar­laga. Skuli matið lagt fyr­ir Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga til um­sagn­ar.

Skort­ur á öll­um grunn­gögn­um fyr­ir upp­lýsta umræðu skap­ar ótta.

Um þetta sner­ust fyr­ir­spurn­ir til Viðreisn­arþing­manns­ins Hönnu Katrín­ar Friðriks­son at­vinnu­vegaráðherra á alþingi fimmtu­dag­inn 10. apríl. Hún hafnaði því þó „al­gjör­lega“ að skort hafi sam­ráð af henn­ar hálfu eða ráðuneyt­is­ins.

Ræður henn­ar lykta af lýðskrumi, hún miðlar aðeins því sem henni hent­ar og seg­ir það best fyr­ir al­menn­ing. Gagn­rýn­end­ur vinnu­bragða ráðherr­ans eru þó helst tals­menn sveit­ar­fé­laga og at­vinnu­fyr­ir­tækja sem ótt­ast al­menn­an af­komu­brest vegna rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Auðlinda­gjalds­frum­varpið um­deilda hef­ur ekki enn séð dags­ins ljós. Vinnu­brög­in við smíði þess lofa ekki góðu.