Reykjavík í augum borgarstjóra
Bækur - Borgarmál - Morgunblaðið, miðvikudag 15. desember 2021.
Nýja Reykjavík, umbreytingar í ungri borg
Eftir Dag B. Eggertsson. Veröld, 2021.Innbundin, myndskreytt, 352 bls.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er höfundur bókarinnar Nýja Reykjavík – umbreytingar í ungri borg . Bókin kemur út nokkrum mánuðum fyrir sveitarstjórnarkosningar, áður en framboðslistar eru ákveðnir.
Bókin er innbundin í stóru broti, prentuð á þungan myndapappír, ríkulega skreytt litmyndum. Hún skiptist í 28 kafla auk inngangs, eftirmála og sex bls. myndaskrár, alls 352 síður. Því miður skortir heimildaskrá og nafnaskrá.
Hér verður litið til þess sem segir um stjórnmál í bókinni án þess að víkja að persónulegum ónotum höfundar. Verulegur hluti textans snýst um uppvaxtarár Dags og einkalíf.
Dagur segist hafa „slysast“ í framboð til borgarstjórnar á R-listanum árið 2002 án þess að vera í nokkrum stjórnmálaflokki. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri handvaldi hann. Strax á fyrstu síðu lýsir hann hug sínum til Sjálfstæðisflokksins. Hann hafi ekki fengið vinnu við sorphirðu áður en hann ætlaði í MH um áramótin og þess vegna farið strax um haustið í MR. Þá segir:
„Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki litið á borgina sem sína eigin, valdakerfi sem var notað sem úthlutunarmiðstöð fyrir störf og lóðir og allra handa verkefni handa flokksmönnum hefði ég líklega farið í MH og orðið leikari eða veðurfræðingur.“
Þetta ólundarstef í garð Sjálfstæðisflokksins birtist hvarvetna.
„Ég ætla að segja þessa sögu í fyrstu persónu með mínum orðum og frá eigin sjónarhorni. Þetta á ekki að vera þurr fræðitexti þótt hann eigi að vera sannur. Með persónulegri frásögn vil ég veita innsýn sem erfitt væri að gera á annan hátt.“ (7)
Tilvitnuðu orðin bera með sér að það vakir ekki fyrir höfundi að fara vísvitandi með rangt mál. Margt af því sem sagt er orkar þó tvímælis. Sumt er rangt. Allt hnígur til þeirrar áttar að hlutur sögumanns sé sem bestur.
„Ég naut stuðnings allra borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans til að taka við [sem borgarstjóri af Þórólfi Árnasyni]. Það varð ekki. Steinunn Valdís Óskarsdóttir varð þriðji borgarstjórinn á kjörtímabilinu [2002 til 2006].“ (s. 21). Þórólfur tók við þegar Ingibjörg Sólrún naut ekki lengur trausts annarra flokka í R-listanum.
Dagur varð fyrir miklum vonbrigðum vegna upplausnar R-listans og íhugaði fráhvarf frá stjórnmálum í sumarlok 2005. Ingibjörg Sólrún var þá formaður Samfylkingarinnar og talaði um fyrir Degi. Hún fékk hann til að ganga í flokkinn til sín og fara í „rosalegt“ prófkjör þar sem hann sigraði. Hann hefur síðan leitt Samfylkinguna í borgarstjórn. Að hann var varaformaður Samfylkingarinnar frá vori 2009 fram á ár 2013, á stjórnarárum Jóhönnu Sigurðardóttur, fellur utan garðs í frásögn hans.
Þegar Dagur ræðir áherslur sínar í borgarmálum kemur ekkert á óvart: lokun Reykjavíkurflugvallar, miðborgin og göngugötur, horn í síðu einkabílsins og borgarlína, þétting byggðar í stað útþenslu. Fjármál og rekstur eru ekki í brennidepli nema hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem hann sakar sjálfstæðismenn um að hafa gert næstum gjaldþrota.
Hann skautar yfir vandræðamál á borð við braggamálið, „umgjörð og ferlar voru alls ekki í nægjanlega föstum skorðum á skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar til að takast á við svo áhættusamt verkefni sem endurgerð gamalla húsa óneitanlega er“. (103) Í annan stað ber hann ofurlof á þessa skrifstofu og forstjóra hennar. Þegar braggamálið var mest á döfinni haustið 2018 var fjölmiðlum bent á arkitekt á einkarekinni stofu sem tók höggið.
Hluta umræðutímans um braggann var Dagur frá vegna veikinda. Fjárhæðir gáfu að hans mati ekki tilefni til allra þessara frétta. Afsakar hann sig með því að kostnaðaráætlanir hafi ekki heldur staðist við smíði ráðhússins um 30 árum áður!
Dagur hefur átt í útistöðum við Samtök iðnaðarins vegna svonefndra innviðargjalda sem eru falin í samningum við verktaka undir heitinu „samningsmarkmið“. Þar er að finna kvaðir um sölu á íbúðum til Félagsbústaða, listskreytingar í almannarými og stundum fjárfestingu í leikskólum eða öðru. Í bókinni leggur hann ríka áherslu á að verja þessar kvaðir. Pólitískur vilji borgarstjóra virðist ráða miklu um efni þeirra eftir því hvar byggt er í borgarlandinu eða í hvaða tilgangi. Hann leitast á mörgum blaðsíðum við að snúa vörn í sókn í umræðunum um húsnæðismál þar sem málstaður hans á undir högg að sækja.
Sjálfstæðisflokkurinn er skotspónn eða bjargvættur eftir því sem hentar hverju sinni. Degi er í nöp við Kringluna og Korputorg. Vegna torgsins getur hann ekki skammað Sjálfstæðisflokkinn.
Þegar Þórólfur Árnason var borgarstjóri kvaddi hann sér hljóðs í borgarstjórn til að boða gleðileg stórtíðindi, áhuga fjárfesta á stórverslun þar sem nú er Korputorg. Um Kringluna segir Dagur að með henni hafi Sjálfstæðisflokkurinn vegið markvisst að miðborginni. Því hafi „nánast [verið] fylgt eftir með handafli og eftir pólitískum leiðum“ að verslunarhús reis þar sem Kringlan er nú. (133) Þetta segir hann í hneykslunartón en stærir sig af að hafa komið Alvogen og CCP á svæði vísindagarða í Vatnsmýrinni.
Dagur kallar umsamdar álögur á verktaka „uppbyggingarsamninga“ og telur sig hafa unnið pólitíska slaginn um þá þegar Sjálfstæðisflokkurinn „óskaði eftir samningum til að þróa mætti reitinn í kringum höfuðstöðvar flokksins, Valhöll við Háaleitisbraut“. Þetta geri Sjálfstæðisflokkurinn hvað sem liði „relli í borgarfulltrúum flokksins“. (229)
Ef ekki væri borgarstjóri sem þarna talaði þætti þetta marklítið. Orðin lýsa andrúmsloftinu sem Dagur skapar í borgarstjórn Reykjavíkur. Annars staðar kvartar hann undan að menn séu að álasa sér fyrir að Sundabraut hafi ekki verið lögð, nærtækara sé að líta til gjaldþrots seðlabankans og „hvarfs“ símapeninganna(!). (313)
Borgarlínan hvílir þungt á Degi en hann telur hana greinilega komna fyrir vind og segir: „Ég valdi að taka aldrei undir raddir sem vildu eigna mér Borgarlínuna eða samgöngusáttmálann. Mér leiðist pólitískt mont...“ (296)
Undir lok bókarinnar og lesturs alls sem þar er sagt koma þessi orð lesanda í opna skjöldu. Hvergi er dregin fjöður yfir ágæti sögumanns og hverju hann hefur áorkað. Bókarheitið Nýja Reykjavík er í anda uppljómunar. Spámaðurinn talar ekki um gömlu Jerúsalem heldur nýju Jerúsalem sem stígur niður af himni frá Guði, segir í Opinberunarbókinni.
Af bók Dags má ráða að miklu hafi verið áorkað, enn sé þó verk að vinna. Spurningin er hvort bókin sé lokapunktur eða upphaf að nýju dagsverki.