Regluverkið sér um sig
Morgunblaðið, laugardagur, 8. júlí 2023.
Í nýlegri ferð um sex sveitarfélög, Dalabyggð, Reykhólahrepp, Strandabyggð, Kaldrananeshrepp, Árneshrepp og Húnaþing vestra, brást ekki að í samtölum við heimamenn barst talið að regluverkinu svonefnda.
Í Íslensku nútímamálsorðabókinni hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er orðið regluverk skýrt sem safn reglna sem gilda á tilteknu sviði. Tekið er eitt dæmi: „flókið regluverk hefur verið í landbúnaðarmálum.“ Af dæminu mætti ráða að þetta væri liðin tíð, svo er þó alls ekki.
Bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur. Eigi þeir sauðfé er þeim treyst fyrir að sitja yfir ám við sauðburð á vorin og hjálpa lömbum í heiminn. Þeir tryggja að lömbin hafi beit yfir sumarið og vilja að þau dafni sem best til að skila sem mestum arði. Líflömb eru í umsjá bóndans sem tryggir þeim fóður og húsaskjól yfir veturinn. Vissulega gilda ákveðnar reglur um allt fé á fæti en fæstar þeirra eru þess eðlis að nokkrum sé ofraun að starfa eftir þeim.
Þegar fé er leitt til slátrunar hverfur traustið til bóndans. Þá kemur regluverkið til sögunnar ekki aðeins sem orð á blaði heldur birtast opinberir eftirlitsaðilar, oftast frá fleiri en einni stofnun. Tengslin milli bóndans og neytandans eru rofin.
Bóndanum er ekki treyst til að slátra fénu sem hann hefur alið. Vilji hann kjöt til heimavinnslu ber fyrst að senda dilkinn til slátrunar í vottuðu sláturhúsi. Síðan ræðst það af baráttu í gegnum regluverkið og fjárhagslegri getu til að skapa sér aðstöðu á heimavelli, hvort tekið er kjöt til fullvinnslu og sölu beint frá býli.
Þeim bændum fjölgar sem sjá tækifæri til meiri tekjuöflunar felast í beinum tengslum við neytendur. Viðskipti á netinu hafa margfaldast til sveita með ljósleiðaravæðingunni. Þá er veitingahúsum um land allt metnaðarmál að bjóða eitthvað úr heimabyggð á matseðli sínum. Þetta verða almennt vinsælustu réttirnir á seðlinum. Enginn bóndi sem stofnar til beinna viðskipta við neytendur situr uppi með óseldar birgðir, vandi hans er frekar að framleiða ekki nóg til að anna eftirspurn.
Í sjálfbæru gróðurhúsi án heits vatns í Bjarnarfirði í Kaldraneshreppi, Fremst á myndinni eru plómur á trjágrein,
Thor Jensen eignaðist Korpúlfsstaði árið 1922. Thor reisti þar núverandi hús og fullkomið mjólkurbú sem sá Reykvíkingum fyrir mjólk. Búið lagðist af vegna mjólkursölulaganna 1934. Þau voru hluti afurðasölulaga og skylduðu mjólkurframleiðendur til að selja mjólkina til mjólkursamlaga kaupfélaganna. Lögin kipptu rekstrargrundvellinum undan Korpúlfsstöðum og hafa síðan sett mark sitt á afurðasölu íslenskra bænda. Tengslin beint frá býli voru rofin. Bóndi veit ekki einu sinni hvort heimtökulambið er alið af honum. Áherslu á upprunamerkingar verður að auka, snjalltækni auðveldar það.
Afurðasölulögin og skipulag í anda þeirra mótar mjög regluverkið síðan. Með aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu (EES) fyrir þremur áratugum hurfu loks síðustu leifar verðlagseftirlitsins frá kreppuárunum upp úr 1930. Með EES kom samkeppniseftirlitið til sögunnar, íhaldssöm stofnun sem haggar ekki afurðasölukerfinu. Við innleiðingu EES-löggjafar hér hefur í mörgu tilliti verið gengið skemur við að auka svigrúm bænda sem sjálfstæðra atvinnurekenda en gert er annars staðar. Engu er líkara en regluverkið óttist að missa spón úr aski sínum – eftirlitskerfið hefur yfirburði gagnvart sókndjörfum bónda snúist það til varnar fyrir sjálft sig.
Sé Morgunblaðið lesið með opinber afskipti af hvaða tagi sem er í huga rekur mann fljótt í rogastans yfir því sem fyrir augu ber. Skulu tekin fimm dæmi úr tölublaðinu frá 5. júlí:
(1) Helsta forsíðufréttin um vantraust innan ríkisstjórnarsamstarfsins snýst um reiði meðal samstarfsþingmanna Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra vegna beitingar hennar á regluverkinu til að fresta hvalveiðum. Dregið er í efa að hún fari að lögum en að hennar mati er ráðherravaldinu beitt á lögmætan hátt vegna ábendinga faglegra fræðinga. Þingflokksformaður sjálfstæðismanna segir vegið að trausti milli stjórnarflokkanna.
(2) Við hlið þessarar fréttar er birt frásögn af viðtali við Jón Guðna Ómarsson, nýjan stjórnanda Íslandsbanka, sem varð skyndilega bankastjóri vegna forkastanlegrar misbeitingar starfsmanna bankans á regluverki við sölu á hlutum í bankanum. Eftirlitsaðilinn, fjármálaeftirlitið, birti kolsvarta skýrslu og orðspor bankans er í húfi.
(3) Á blaðsíðu 2 er frétt um að umhverfisstofnun kunni að hafa farið fram úr sjálfri sér með því að vilja umhverfismat á fjallaböðum í Þjórsárdal þvert á álit skipulagsstofnunar frá 2019. Verði gerð krafa um umhverfismat kann framkvæmdatími við fjallaböðin að lengjast um allt að tvö ár.
(4) Á blaðsíðu 2 í ViðskiptaMogga er fjallað um innleiðingu á evrópskri tilskipun um ófjárhagslega upplýsingagjöf fyrirtækja. Í fréttinni segir að í fyrra hafi 268 fyrirtæki hér á landi fallið undir ákvæði tilskipunarinnar en hefði verið farið að efni hennar eins og hún er innleidd annars staðar væru fyrirtækin aðeins 33. Hér axla því 233 fyrirtæki byrði vegna þessa sem ekki hvílir á fyrirtækjum annars staðar innan EES. Þarna hefur íslenska regluverkið komist í feitt og nýtt sér það.
(5) Á sömu blaðsíðu í ViðskiptaMogga segir frá því að tvö öflug fjárfestinga- og fjármálafélög hafi stofnað nýtt félag til að dreifa sífellt þyngri kostnaði af regluverki á útboðsmarkaði.
Það þarf stórátak til að rétta hlut sauðfjárbóndans andspænis regluverkinu. Til þess ætti að grípa til að minnast 90 ára afmælis afurðasölulaganna árið 2024.