Rafræna fjölmiðlabyltingin
Morgunblaðið, laugardagur, 25. september 2021
Stórviðburðir hafa áhrif á fjölmiðlun. Kosningar eru viðburður af því tagi. Augljóst er að þær hafa nú leitt til breytinga á miðlun stjórnmálafrétta og kosningastefnu flokkanna. Samfélagsmiðlar skipta mun meira máli en til þessa, ekki aðeins við miðlun ritaðs máls heldur einnig mynda og hljóðs. Litlar sjónvarpsstöðvar eins og N4 og Hringbraut vega þyngra en áður. Hlaðvörp, það er samtalsþættir í hljóðstofu eða myndveri, ryðja sér æ meira til rúms. Áhuga almennings á þessu efni er erfitt að meta. Sé tekið mið af gífurlegri útbreiðslu hljóðbóka Storytel hér – hún slær öll met – má ætla að hlaðvörp séu vinsæl.
Sjónvarps-kosningaþættir Morgunblaðsins, þættirnir í Dagmálum, eru góð nýjung. Samtölin fara úr leiðigjörnu, pólitísku rétttrúnaðarfari gamalgrónu sjónvarpsstöðvanna.
Einstaklingar, samtök þeirra, þar á meðal stjórnmálaflokkarnir, líta til nýju upplýsingatækninnar sem öflugs úrræðis til að boða skoðanir sínar. Sjálfstæðisflokkurinn heldur til dæmis úti hlaðvarpinu Hægri hliðin. Þar eru reglulega sendir út þættir um stjórnmál með skoðunum sem falla undir heiti hlaðvarpsins. Það sýnir fjölbreytileika við leiðir efnis af þessu tagi að Hægri hliðina má nálgast á Spotify, YouTube-rás Sjálfstæðisflokksins og Libsyn auk fleiri staða í netheimum.
Boðleiðirnar sem þarna eru nefndar geta allir nýtt sem áhuga hafa. Tækifærin til að segja hug sinn opinberlega eru orðin svo mörg að það er eitt helsta kappsmál stjórnlyndra stjórnmálaafla að fækka þeim. Þetta sást nýlega í kosningabaráttunni í Rússlandi og blasir við í undirgefni stóru alheims-tæknirisanna þegar þeir laga sig að ritskoðunarkröfum kínverska kommúnistaflokksins.
Á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka hefur hvað eftir annað
verið deilt á alþingi um hvort og hvernig haga beri færslu á skattfé
almennings til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins. Opinber
fjárstuðningur til þess raskar öllu jafnvægi á almennum
fjölmiðlamarkaði og er á skjön við þróun nýrra leiða við miðlun hvers
kyns efnis til almennings.
Þótt ekki sé rætt um þetta stórmál fyrir kosningarnar verður
baráttan fyrir þær óhjákvæmilega til þess, eins og áður er sagt, að
beina athygli að áhrifamætti einstakra miðla.
Lífleg tök stjórnenda í Dagmáls-þáttum sjónvarps Morgunblaðsins leiða til skemmtilegri og efnisríkari umræðna um stjórnmál en stöðluð framganga þeirra sem stjórna sambærilegum þáttum annars staðar í sjónvarpi. Þetta fellur að þeirri skoðun sem setur svip á umræður um vinsældir fjölmiðla í nágrannalöndunum. Borgaralegir sjónvarpsmenn sem nálgast viðfangsefnið frá hægri eru sagðir höfða almennt betur til áhorfenda en þeir sem hafa gamalgrónu stofnanasjónarmiðin.
Sósíalistaflokkur Íslands stendur dyggan vörð um Ríkisútvarpið í stefnuskrá sinni. Hugmyndafræðingur og frumkvöðull flokksins, Gunnar Smári Egilsson, álítur þó að ,„krumla ríkisvaldsins með hótunum fjárveitingavaldsins“ lami allan vilja starfsmanna Ríkisútvarpsins „til að segja almenningi frá samfélaginu eins og það er“. Þess vegna eigi að breyta Ríkisútvarpinu í „samvinnufélag starfsmanna“ sem starfi í umboði „almenns félags landsmanna“ án tengsla við ríkisvaldið og stjórnvöld. Ríkisútvarpið eigi að lifa sjálft af sjálfstæðum tekjustofni útvarpsgjalds, hér vanti „gott þjóðarútvarp“.
Stefna Sósíalistaflokksins er skýrasti flokkslegi stuðningurinn við ríkisútvarp fyrir kosningar að þessu sinni. Stefna flokksins í þessu efni eins og öðrum stangast þó á við þróunina sem orðið hefur í lýðræðisvæðingu skoðanamyndunar í krafti upplýsingatækninnar.
Á kjörtímabilinu sem lýkur í dag mistókst að ná sátt á alþingi um fjölmiðlastefnu. Þetta mistókst einnig á þingi vorið 2004 en þá um sumarið lék allt á reiðiskjálfi vegna fjölmiðlafrumvarpsins svonefnda þegar auðugir eigendur Fréttablaðsins vörðu hagsmuni sína með kjafti og klóm.
Hvað sem líður deilum á þingi um hvernig fjölmiðlun skuli háttað í landinu eykur tæknin tækifæri einstaklinga til að láta að sér kveða á heimavelli og áhorf á alþjóðlegar streymisveitur eykst hvað sem líður áskriftargjöldum. Boðað er að innan skamms komi til sögunnar ný innlend streymisveita, Uppkast, þar sem unnt verði að kaupa aðgang að listviðburðum, tónleikum, leiksýningum, listdansi, uppistandi eða öðrum sviðsviðburðum.
Þótt staða innlendra fjölmiðla sé of viðkvæm til að ræða hana við kjósendur nú fyrir kosningar hverfur vandi þeirra ekki. Hann verður enn til umræðu á næsta kjörtímabili og tekur á sig nýjar myndir.
Ein af hættum samtímans er kennd við upplýsingaóreiðu. Það er að rafrænir miðlar séu notaðir til að ala á ranghugmyndum eða afla stuðnings við sjónarmið sem stangast á við almannaöryggi. Þjóðaröryggisráð fól sérfræðingum á sínum vegum að rannsaka hættur vegna upplýsingaóreiðu í tengslum við Covid-19-faraldurinn.
Tæknin kallar á opinbera varðstöðu af þessu tagi vegna upplýsingamiðlunar frekar en að haldið sé úti ríkisfjölmiðli sem veikir grundvöll allra annarra fjölmiðla í landinu. Við blasir að þörfin fyrir ríkisrekinn fjölmiðil minnkar jafnt og þétt. Á hinn bóginn vex þörfin fyrir vörn og stuðning gegn upplýsingaóreiðunni. Öflugasti stuðningurinn felst í að auðvelda framleiðslu á góðu efni, fréttum eða menningarefni, sem standi þeim til boða sem fara inn á fjölbreyttu hlaðvörpin eða streymisveiturnar.