26.2.2022

Pútin hafnar tilvist Úkraínu

Morgunblaðið, laugardagur 26. febrúar 2022

Inn­rás­ar­dög­um hers Pút­ins í Úkraínu fjölg­ar og þeirri skoðun vex fylgi að vest­ræn ríki eigi ekki að láta nægja að refsa Rússlandi Pút­ins með efna hagsaðgerðum.

Næst yrði Úkraínu­mönn­um lagt lið með hervaldi. Að morgni föstu­dags 25. fe­brú­ar bár­ust áköll um hjálp í viðtöl­um frétta­manna BBC við áhrifa­menn í Úkraínu. Þeir sögðu loft­helgi Úkraínu al­gjör­lega á valdi Rússa og aðeins yrði unnt að hrekja þá á brott með er­lend­um orr­ustu­vél­um.

Helga Vala Helga­dótt­ir, þing­flokks­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði í grein í Morg­un­blaðinu 25. fe­brú­ar: „Það er því miður ljóst að viðbrögð vest­rænna ríkja þurfa að vera harðari en þegar hef­ur verið boðað, því það er greini­legt að áhrif­in duga ekki gegn stríðsvilj­ug­um Rúss­um. Við erum herlaus þjóð, sem bet­ur fer, og því kem­ur það í okk­ar hlut að leita annarra leiða til að veita Úkraínu stuðning en að taka þátt í stríðsrekstri.“

Þessi orð verða ekki skil­in á ann­an veg en þann að ganga eigi lengra gegn Pút­in. Það verður ekki gert nema með hervaldi. Ei­rík­ur Berg­mann Ein­ars­son pró­fess­or orðaði þetta á þann veg í Stöð 2 fimmtu­dag­inn 24. fe­brú­ar að Vest­ur­lönd hefðu „hrein­lega sent boðsbréf til Kreml­ar og boðið Rússa vel­komna að taka yfir Úkraínu“. Banda­rík­in og flest önn­ur ríki NATO hefðu sagt að Rúss­um yrði „ekki mætt með hervaldi inni í Úkraínu“.

Þessi um­mæli staðfesta að „nýr veru­leiki“ er kom­inn til sög­unn­ar í ör­ygg­is­mál­um Evr­ópu. Kraf­an um auk­inn her­búnað und­ir fána NATO nærri landa­mær­um Rúss­lands magn­ast. Þá verða þær kröf­ur jafn­framt há­vær­ari að vest­rænn herafli verði send­ur til hjálp­ar Úkraínu­mönn­um. Rök­in eru meðal ann­ars þau að þar með mætti hindra flótta millj­óna manna inn í ná­granna­ríki fyr­ir vest­an Úkraínu.

Þegar Vla­dimir Pút­in Rúss­lands­for­seti braut enn á ný alþjóðalög og gaf fyr­ir­mæl­in um alls­herj­ar-inn­rás í Úkraínu sagði hann mark­mið sitt að af­vopna Úkraínu og afmá naz­isma úr stjórn lands­ins (e. denazificati­on).

Fc7c853f-c090-4b26-ba2b-d1923b4db736Vladimir Pútin flytur innrásaræðuna 24. febrúar 2022.

Í inn­rás­ar­ræðunni ýjaði Pút­in að beit­ingu kjarn­orku­vopna. Hver sá sem hygðist setja stein í götu inn­rás­arliðsins eða beina spjót­um sín­um beint að Rússlandi skyldi horf­ast í augu við eitt­hvað sem menn hefðu „aldrei áður kynnst í sögu sinni“. Rúss­land væri „eitt af öfl­ug­ustu kjarn­orku­veld­un­um“ og Rúss­ar stæðu „fram­ar öðrum með ýms­um háþróuðum vopn­um“.

Í þessu sam­bandi sagði Pút­in: „Eng­inn vafi skal ríkja um að við hugs­an­leg­um árás­araðila blas­ir ósig­ur og ógn­væn­leg­ar af­leiðing­ar ráðist hann beint á land okk­ar“.

Ætíð þegar Pút­in og ut­an­rík­is­ráðherra hans, Ser­geij Lavr­ov, boðuðu vilja sinn til að leysa ágrein­ing vegna Úkraínu með samn­ing­um töluðu þeir gegn betri vit­und. Þeir vissu að kröf­ur þeirra um efni samn­ing­anna yrðu aldrei samþykkt­ar. Þeir lugu síðan blákalt þegar þeir sögðu að Rúss­ar myndu ekki ráðast inn í Úkraínu. Hót­an­ir Pút­ins í garð Úkraínu­manna stóðust hins veg­ar.

Mánu­dag­inn 21. fe­brú­ar sviðsetti Pút­in fund í rúss­neska ör­ygg­is­ráðinu og lét eins og hann þyrfti álit annarra áður en hann viður­kenndi „alþýðulýðveld­in“ tvö Do­netsk og Luhansk.

The New York Times birti grein­ingu blaðamanns síns, Max Fis­hers, á ræðunni sem Pút­in flutti þenn­an mánu­dag til að rétt­læta óhæfu­verk sín gegn Úkraínu.

Fis­her seg­ir ræðu Pút­ins hafa ein­kennst af bullandi, harðsoðinni rúss­neskri þjóðern­is­hyggju, bit­urri væn­i­sýki gagn­vart Vest­ur­lönd­um, staðlaus­um full­yrðing­um um árás­ir Úkraínu­manna, söknuði eft­ir mik­il­leika keis­ara­dæm­is­ins sem nálgaðist þrá eft­ir end­ur­reisn þess og þó einkum sögu­leg­um til­vís­un­um þar sem flest hafi verið af­bakað eða úr lagi fært.

Í huga Pút­ins eru landa­mæri Úkraínu gervi­gjörn­ing­ur. Frá ör­ófi alda hafi sama fólkið, sem kallaði sig Rússa og var í grísk-kaþólsku rétt­trúnaðar­kirkj­unni, búið í einu landi. Komm­ún­ist­ar í stjórn Rúss­lands bjuggu að sögn Pút­ins til Úkraínu. Ferlið hófst strax eft­ir bylt­ing­una árið 1917, Lenín og fé­lag­ar sundruðu land­inu sem sam­einað hafði alla Rússa.

Max Fis­her bend­ir á að innri landa­mæri Sov­ét­ríkj­anna end­ur­spegluðu aldagamla menn­ing­ar­lega og stjórn­mála­lega skipt­ingu Rúss­lands auk þess sem þau tóku mið af mann­tali sem rúss­nesk stjórn­völd gerðu og sýndi meiri­hluta fólks af úkraínsk­um upp­runa á öllu um­deilda landsvæðinu, einnig þar sem nú er Aust­ur-Úkraína. Hann seg­ir Pút­in oft hafa sagt að ekki væri unnt að líta á Úkraínu sem ríki.

Eft­ir að hafa full­yrt að Lenín skapaði Úkraínu sneri Pút­in sér hæðnis­lega að Úkraínu­mönn­um, kallaði þá „þakk­látt af­sprengi“ Leníns sem sýndu hon­um nú þakk­ir sína í verki með því að eyðileggja stytt­ur af hon­um í Úkraínu. Þeir kalli þetta af­mán­un komm­ún­ism­ans. „Viljið þið af­mán­un komm­ún­ism­ans? Gott og vel, það hent­ar okk­ur prýðilega. En hvers vegna að fara aðeins hálfa leið? Við erum til­bún­ir að sýna hvað felst í raun­veru­legri af­mán­un komm­ún­ism­ans fyr­ir Úkraínu,“ sagði Pút­in.

Nú inn­an við viku eft­ir að ræðan var flutt sést að Pút­in var fúl­asta al­vara með hót­un sinni um al­gjöra „af­mán­un komm­ún­ism­ans“ í Úkraínu og í ræðunni 24. fe­brú­ar bætt­ist við af­mán­un naz­ism­ans í æðstu stjórn lands­ins.

Vegna þess­ara skoðana for­seta Rúss­lands, sem sagður er hafa keis­ar­ann Pét­ur mikla sem fyr­ir­mynd, traðkar óvíg­ur her á sjálf­stæði og full­veldi Úkraínu. Evr­ópa er á barmi styrj­ald­ar vegna vax­andi krafna um að Banda­ríkja­her verði enn einu sinni beitt álf­unni til bjarg­ar. Kjarn­orku­veldi berj­ist. Það er full ástæða til að stíga var­lega til jarðar.