Popúlískir straumar skýrðir
Bækur - Stjórnmálafræði, Morgunblaðið, 22. nóvember 2021
Þjóðarávarpið eftir Eirík Bergmann. JPV útgáfa, 2021. Kilja, 400 bls.
Þjóðarávarpið er heiti bókar dr. Eiríks Bergmanns, prófessors við Háskólann á Bifröst. Undirtitill bókarinnar er: Popúlísk þjóðernishyggja í hálfa öld. Markmiði sínu lýsir höfundur á þann veg að hann kryfji „framrás þeirrar nýþjóðernishyggju sem um margt einkennir okkar tíð“ og greini þannig eina „umfangsmestu þjóðfélagsbreytingu samtímans“, fráhvarfið frá frjálslyndu lýðræði eftirstríðsáranna í „átt að ófrjálslyndari og gerræðislegri tegundum lýðræðis“. (8)
Eiríkur hefur rannsakað þjóðernishyggju, popúlisma og dreifingu samsæriskenninga í pólitískri umræðu í marga áratugi og alþjóðlega fræðaforlagið Palgrave Macmillan hefur til dæmis gefið út fjórar bækur hans um þessi og tengd málefni.
Lesandinn kemur því ekki að tómum kofunum hjá Eiríki. Hann sníður sér ekki heldur þröngan stakk heldur fer um allan lýðfrjálsa heiminn og víðar með stiku sína og mælir hvert stefnir. Vegna þess hve víða er skoðað er ekki alls staðar farið nákvæmlega í saumana.
Íslenskir stjórnmálaflokkar eru nefndir til sögunnar. Frjálslyndi flokkurinn er sagður hafa tekið „upp svipaða stefnu í innflytjendamálum haustið 2006 og þjóðernispopúlistar héldu úti víða í Evrópu“. (188) Ný forysta tók við Framsóknarflokknum í fjármálakrísunni og færði flokkinn „í allnokkuð popúlískari átt: gegn erlendum kröfuhöfum, alþjóðastofnunum og loks að nokkru leyti gegn múslimum“. (224). Eiríkur segir að „handfylli hálfpopúlískra stjórnmálamanna“ hafi sest á alþingi. „Flokkur fólksins hneigðist til álíka velferðarrembings og sumir viðlíka flokkar í Norðurlandaríkjunum.“ (274) „Velferðarrembingur“ er til dæmis að halda því fram að fé til félagslegrar aðstoðar við flóttamenn minnki getuna til að styðja innlenda öryrkja.
Fyrstu tveir kaflar bókarinnar eru almennir: (1) Straumar og stefnur – ný heimsskipan eftir stríð; (2) Treyst þjóðarheit – þjóðir og þjóðernishyggja. Síðan koma sex kaflar reistir á heimssögulegum skilum: (3) Snögg lok sælutíðar – olíukrísan; (4) Skjálftahrinur frjálslynds lýðræðis – fall Berlínarmúrsins; (5) Menningarátök okkar tíðar – árásin á Tvíburaturnana; (6) Hnattrænt efnahagsöngþveiti – alþjóðlega fjármálakrísan; (7) Kenningin um útskiptin miklu – flóttamannakrísan; (8) Þrengt að borgaralegum réttindum – kórónuveirukrísan; og lokakaflinn: (9) Heimur nýþjóðernishyggjunnar – uppgjör og samantekt. Þá taka við skrár: tilvísanaskrá, heimildaskrá, myndaskrá og nafnaskrá. Allt rúmast þetta á 400 bls.
Olíukrísan var 1972/73; Berlínarmúrinn hrundi 1989; ráðist var á Tvíburaturnana 2001; flóttamannakrísuna bar hæst 2015 og kórónuveirukrísan hófst 2020. Sagan nær því alveg fram á okkar daga.
Eiríkur ræðir þetta allt með rannsókn sína á popúlisma að leiðarljósi. Vegna efnisskipunar kemur óhjákvæmilega til endurtekninga. Eiríkur leynir ekki skoðun sinni, honum er verulega í nöp við popúlista.
Einfaldir merkimiðar duga ekki lengur. Þeir sem taldir eru hægrisinnaðir út á við geta verið vinstrisinnaðir við lausn á innanlandsmálum. Hvort eru þeir popúlistar til hægri eða vinstri? Í bókinni er þeim eins og í fjölmiðlum gjarnan lýst sem hægriöfgamönnum.
Eiríkur Bergmann er orðasmiður. Stundum hefði hann mátt auðvelda lesandanum skilning með því að hafa erlend orð innan sviga: „Útskiptin miklu“ er þýðing á franska hugtakinu Grand Replacement, samsæriskenningu um að mönnum verði rutt til hliðar í eigin þjóðríkjum. „Sjálfsmyndarstjórnmál“ er þýðing á identity politics. Þeir sem berjast undir merkjum þeirra leggja til dæmis áherslu á uppruna eða trúarbrögð þeirra sem mynda hópinn eða flokkinn. Orð eins og „handansannleiksstjórnmál“ er gegnsætt á íslensku. „Djúpríkið“ er hugtak í samsæriskenningafræðum um myrk öfl sem í raun hafi tögl og hagldir. Orðið „valtvennuvilla“ er sagt lýsa „fölskum andstæðum“, það er rangri fullyrðingu um að eitt leiði af öðru. „Hundablístru-rasismi“ er að gefa kynþáttuhyggju til kynna fremur en að orða hana beint. „Flóttamannakreppa ársins 2015 reyndist hvarfpunktur í sögu þýskra þjóðernissinna.“ (257) Hvarfpunktur er ímyndaður punktur í fjarvídd þar sem samsíða línur virðast renna saman í fjarska, segir á málið.is. Hvernig fellur það að setningu höfundar? Fljótaskriftar gætir. Patriot Act, lög sett í Bandaríkjunum eftir árásina 2001, eru kölluð föðurlandsvinalögin (159) en síðar föðurlandslögin (309). Franska dagblaðið Le Figaro er sagt tímarit. Bókarheitið sjálft segir ekkert um efni bókarinnar vegna þess hve ógagnsætt það er.
Undir bókarlok segir:
„Með því að halda því fram að fagvæðing stjórnmála hafi breytt ríkisforystu í starfsgrein sem almenningur hafi í reynd engan aðgang að hafa popúlistar reynt að kasta rýrð á atvinnustjórnmálamenn. Margur viðvaningurinn hefur komist til metorða vegna þessarar af-fagvæðingar stjórnmálanna og margir reyndir stjórnmálamenn fallið í ónáð.“
Að setja þessa skoðun í þetta popúlíska samhengi skýrir ýmsa strauma í íslenskum stjórnmálum frá hruni. Talið um „stjórnmálastéttina“ til niðurlægingar er liður í málflutningi af þessum toga. Þá hefur hraði útskipta meðal alþingismanna stóraukist frá hruni. Málflutningur margra ný-stjórnarskrársinna er þessu marki brenndur. Bók Eiríks Bergmanns vekur spurningu um hvort nauðsynlegt sé að laga stjórnmálaumræður hér að skilgreiningum hans til að við ræðum pólitíkina í takti við hinn stóra heim.