11.2.2023

Píratar raunsæir – Efling í stríð

Morgunblaðið, laugardagur, 11. febrúar 2023.

Þegar rætt er um stjórn­mál líðandi stund­ar blas­ir við að skil­in milli hægri og vinstri eru önn­ur en áður var. Hér á landi er miðju­stjórn. Í rík­is­stjórn­inni sitja full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks (mið-hægri), Fram­sókn­ar­flokks (miðjan) og Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs (VG) (vinstri). Sömu sögu er að segja um dönsku rík­is­stjórn­ina þar sem jafnaðar­menn og mið-hægri Ven­stre flokk­ur­inn og brot úr hon­um, Modera­terna, sitja sam­an og mynda brú yfir gjána milli vinstri og hægri eft­ir þing­kosn­ing­arn­ar 1. nóv­em­ber 2022.

Í Grikklandi er mið-hægri stjórn frá 2019 und­ir for­sæti Kyria­kos Mit­sotak­is. Þykir hún hafa náð undra­verðum ár­angri við að bæta efna­hag Grikkja sem þoldu mikl­ar þreng­ing­ar eft­ir hru­nárið 2008 og síðan vegna vinstri stjórn­ar sem var und­ir hæln­um á ESB og stjórnaði á heima­velli að hætti po­púl­ista.

Er grísku stjórn­inni und­ir for­sæti Mit­sotak­is hrósað fyr­ir hvernig hún tók á COVID-19 far­aldr­in­um, hvernig hún hef­ur brugðist við straumi hæl­is­leit­enda og staðið að rekstri þjóðarbús­ins. Viku­ritið The Econom­ist til­nefndi Grikk­land Top Economic Per­for­mer árið 2022, veitti land­inu topp­ein­kunn fyr­ir stjórn efna­hags­mála.

Nú und­ir lok janú­ar flutti gríska stjórn­ar­andstaðan van­traust á Kyria­kos Mit­sotak­is í þing­inu. Greidd voru at­kvæði um til­lög­una föstu­dag­inn 27. janú­ar. Var henni hafnað með 156 at­kvæðum gegn 143 á 300 manna þingi Grikk­lands.

Van­traust­stil­lag­an átti ræt­ur í hler­un­ar­hneyksli. Upp­lýst var að stjórn­mála­menn hefðu verið hleraðir, yf­ir­menn í hern­um og blaðamenn. Sósí­alist­inn Al­ex­is Tsipras, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, sakaði Mit­sotak­is um lyg­ar, hann hefði víst skipu­lagt hler­an­irn­ar.

Kosið verður til þings í Grikklandi í vor og verður þetta mál notað af stjórn­ar­and­stöðunni til að sverta for­sæt­is­ráðherr­ann og grafa und­an vin­sæld­um hans meðal kjós­enda. At­hygl­inni verður þar með beint frá ár­angr­in­um sem náðst hef­ur við end­ur­reisn gríska þjóðarbús­ins en að per­sónu for­sæt­is­ráðherr­ans með ásök­un­um um spill­ingu.

Í til­efni af til­nefn­ingu The Econ­mist og al­mennt í umræðum um vel­gengni Grikkja eft­ir hörm­ung­ar­ár hruns­ins er sagt að góðan ár­ang­ur­inn megi rekja til mið-hægri stjórn­ar sem boði markaðshag­kerfi, fylgi grænni stefnu og gæti hags­muna þeirra sem minnst mega sín. Var Mit­sotak­is spurður á CNN hvort stefna af þessu tagi dygði til að halda po­púl­isma í skefj­um.

For­sæt­is­ráðherr­ann svaraði að í stjórn­mál­um nú á tím­um væru skil­in ekki aðallega á milli mið-hægri og mið-vinstri held­ur milli þeirra sem hefðu trú á stefnu­mörk­un, raun­sæi og starf­hæfu lýðræðis­kerfi og hinna sem lofuðu öllu fögru en græfu jafn­framt und­an lýðræðis­leg­um stofn­un­um. Hann væri vissu­lega mið-hægri stjórn­mála­maður en margt af því sem hann hefði hrundið í fram­kvæmd mætti telja til vinstri.

Oft er látið eins og po­púl­ist­ar, lýðskrum­ar­ar, séu aðeins á hægri kanti stjórn­mál­anna. Þetta er rangt. Þeir eru ekki síður til vinstri eins og Grikk­ir kynnt­ust í tíð Al­ex­is Tsipras sem for­sæt­is­ráðherra.

4B88644E-8746-4ACC-86A9-71DE66700712

Fram í miðja vik­una héldu sex þing­menn Pírata alþingi í gísl­ingu með málþófi um út­lend­inga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem dóms­málaráðherra flutti. Að dæmi po­púl­ista höfðu þeir enga lausn á al­var­leg­um og vax­andi vanda vegna stöðunn­ar við landa­mær­in.

Miðviku­dag­inn 8. fe­brú­ar sneru Pírat­arn­ir svo snögg­lega við blaðinu og þing­flokk­ur­inn sendi frá sér yf­ir­lýs­ingu um að full­reynt væri að opna augu stjórn­ar­liða til varðstöðu um stjórn­ar­skrána. Stjórn­ar­meiri­hlut­inn hefði ákveðið að út­lend­inga­málið yrði áfram í for­gangi á kostnað annarra mála á þingi, dag­skrár­valdið væri í hönd­um meiri­hlut­ans.

Til­kynn­ing­in bar vott um að þrátt fyr­ir allt mætti raun­sæi sín nokk­urs í Pírata­flokkn­um. Þriðju­dag­inn 7. fe­brú­ar hafði Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, hvatt þing­menn írata til að hætta „grímu­lausu málþófi“ þótt þeir þætt­ust samt greiða fyr­ir störf­um þings­ins. Þetta væri „slæmt fyr­ir orðspor“ þings­ins, „vont fyr­ir stjórn­mál­in á Íslandi“ og „alls ekki til heilla fyr­ir þjóðina“. Og í þingtíðind­um stend­ur: „Ég segi bara: Hættið málþófinu og höld­um áfram að vinna vinn­una. (Gripið fram í: Heyr, heyr.).“

Í fyrra héldu stjórn­ar­and­stæðing­ar uppi málþófi fram að sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um en snar­hættu því að þeim lokn­um. Enda­lausu þing­ræðurn­ar skiluðu þeim engu í kjör­köss­un­um. Á síðasta kjör­tíma­bili efndi Miðflokk­ur­inn til maraþon málþófs um þriðja orkupakk­ann og gekk það næst­um af flokkn­um dauðum í þing­kosn­ing­un­um í fyrra. Pírat­ar sáu sem sagt sína sæng upp reidda og hættu málþófinu eft­ir um 90 klukku­stunda ein­tal í þingsaln­um. Eina málþófið sem skilað hef­ur markverðum ár­angri á öld­inni var þegar sjálf­stæðis­menn stöðvuðu stjórn­laga­til­lög­ur Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur vorið 2009.

Nú er að sjá hvað po­púl­ist­arn­ir í Efl­ingu gera. Það fór eins og hér var spáð að dag­skrár­stjór­inn og formaður­inn völdu litla verk­falls­hópa til skæru­hernaðar í nafni Efl­ing­ar á sama tíma og bar­ist væri við rík­is­sátta­semj­ara í dómsaln­um. Nú er beðið eft­ir lands­rétti en tím­inn notaður til að sýna valdið með verk­falls­vörðum – raun­sæi Pírata reyn­ist meira en þeirra sem stjórna Efl­ingu.

Í Efl­ingu beita vinstri po­púl­ist­ar sér gegn far­sælli fram­vindu efna­hags­mála. Í kjöl­far COVID-lok­un­ar taka þeir ferðaþjón­ust­una í gísl­ingu án þess að hafa minnstu hug­mynd um hvernig þeir ætla að leysa þann vanda sem þeir skapa. Þeim er í raun al­veg sama, fyr­ir þeim vak­ir aðeins að sýna vald.