29.12.2017

Óvissustraumar um Evrópu við áramót

Morgunblaðið 29. desember 2017

Vikuritið The Economist valdi Frakkland land ársins 2017. Ritstjórn blaðsins hefur veitt landi slíka viðurkenningu frá því um jólin 2013. Kvarðinn sem hún notar er að ríki, án tillits til stærðar, hafi breyst verulega til hins betra undanfarna 12 mánuði eða varpað birtu á veröldina. Að þessu sinni stóð lokabaráttan á ritstjórninni milli Suður-Kóreu og Frakklands. Frakkar sigruðu vegna meiri breytinga á stjórnmálasviðinu en nokkur vænti.

Ungur bankamaður (hann varð 40 ára 21. desember 2017) Emmanuel Macron varð forseti Frakklands án stuðnings hefðbundinna stjórnmálaflokka. Hann stofnaði eigin flokk, vann stórsigur í þingkosningum og stjórnar nú í krafti nýs, öflugs meirihluta. Hann vill opna kerfið og breyta stjórnarháttum. Í fyrstu minnkaði stuðningur við hann í könnunum en stjarna hans rís nú að nýju. 

Þetta er markverður árangur, ekki aðeins í Frakklandi heldur innan Evrópusambandsins. Á sama tíma og einhugur eflist meðal Frakka um nauðsyn  nýrra aðferða við lausn framtíðarverkefna festist Evrópusambandið í sundrung og stjórnarháttum fortíðar frekar en framtíðar.

ESB í vanda


Leiðigjarnar og næsta óskiljanlegar deilur vegna ESB-úrsagnar Breta eru til lítils sóma fyrir Breta og ESB. Allt yfirbragð er ömurlegt og verði niðurstaðan í samræmi við það verður hún engum til ánægju. 

Katalóníumenn vilja aukið sjálfstæði án þess að njóta nokkurs stuðnings ráðamanna ESB. Þeir styðja stjórnina í Madrid sem sendi lögreglu á vettvang til að eyðileggja þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Brusselmenn hafa hvatt til aðfarar að pólsku ríkisstjórninni vegna breytinga á dómstólalögum í Póllandi. Þeir eiga einnig í deilum við Svisslendinga og beita þá valdi sem forseti Sviss mótmælir harðlega og kallar eftir afstöðu þjóðarinnar stjórn landsins til hjálpar.

Liðnir eru þrír mánuðir liðnir frá þingkosningum í Þýskalandi án þess að Angelu Merkel hafi tekist að mynda nýja ríkisstjórn. Forysturíki ESB býr við lengri stjórnarkreppu en nokkru sinni eftir að flokkur með horn í síðu ESB, AfD-flokkurinn, vann stórsigur og fyrrverandi forseti ESB-þingsins, Martin Schulz, kanslaraefni jafnaðarmanna, tapaði illa.

Kafbátaumsvif Rússa


Undanfarið hafa verið stigin nokkur skref til að efla samstarf ESB-ríkjanna í varnarmálum. Með þessu vilja ESB-ríkin sýna samstöðu út á við eftir brottför Breta. Þeir lögðust gegn öllu innan ESB sem þeir töldu geta veikt NATO. 

Áætlanir ESB í flotamálum hafa ekki verið birtar. Óvíst er hvort aðeins verði lögð áhersla á Eystrasalt, Svartahaf og Miðjarðarhaf eða einnig litið til N-Atlantshafs. Hugur Frakka stendur örugglega til Atlantshafsins þar sem þeir halda úti kjarnorkukafbátum sínum. Eftir brottför Breta verða Frakkar eina kjarnorkuveldið innan ESB.

Sagan kennir að í kjölfar þess að NATO eflir hernaðarmátt sinn í Evrópu með auknum liðsafla og hergögnum frá Norður-Ameríku siglir ný áhersla á viðbúnað á N-Atlantshafi.

Spurningin er hve hratt gengið verður til verks. Í samtali við þrjú dagblöð í jólavikunni lýsti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, áhyggjum yfir umsvifum rússneskra kafbáta. Alment má segja að framkvæmdastjóri bandalagsins hafi ekki vakið máls á þessari hættu í um það bil 30 ár. 

„Rússar hafa fjárfest gríðarlega í herflota sínum, einkum kafbátum. Frá 2014 hafa 13 nýir kafbátar verið afhentir. Umsvif rússneskra kafbáta hafa aldrei verið meiri en nú síðan í kalda stríðinu,“ sagði Jens Stoltenberg. Kafbátarnir væru alls staðar á sveimi „einnig nálægt ströndum okkar“.

Framkvæmdastjórinn vísaði til hættunnar af því að siglingaleiðirnar milli evrópskra NATO-ríkja og Norður-Ameríku rofnuðu. „Við erum bandalag þjóða beggja vegna Atlantshafs og við verðum þess vegna að geta flutt mannafla og hergögn yfir Atlantshaf. Við verðum að njóta öryggis á opnum siglingaleiðum.“

Stoltenberg benti jafnframt á áform bandalagsins um að koma á fót nýjum herstjórnum fyrir Atlantshaf og flutninga innan Evrópu. Hlutverk beggja herstjórna yrði að tryggja flutning manna og búnaðar ykist spenna í samskiptum við Rússa. Á árinu 2018 yrðu teknar ákvarðanir um aðsetur og skipulag herstjórnanna.

Þessi ummæli lætur Stoltenberg falla um sama leyti og æðsti yfirmaður breska heraflans, Sir Stuart Peach, verðandi formaður hermálanefndar NATO, varar við að rússneskum kafbátum verði beitt til að eyðileggja neðansjávarstrengi sem eru sannkallaðar líftaugar í samskiptum ríkja og fyrir efnahag þeirra og atvinnulíf. Á það ekki síst við um eyþjóðir eins og okkur Íslendinga.

Viðvörun gegn undirróðri


Nokkrar deilur hafa orðið í Noregi um að í fyrra var samið við Bandaríkjastjórn um að í janúar 2017 kæmu 300 bandarískir landgönguliðar til tímabundinnar dvalar og æfinga á Værnes í Þrændalögum. Nú hefur samningurinn verið lengdur út árið 2018.

Rússar hafa gagnrýnt norsk yfirvöld fyrir að ögra sér. Sérfræðingar telja það ekki kalla hernaðarlega hættu yfir Norðmenn heldur ættu þeir að búa sig undir herta rússneska undirróðursherferð gegn sér. 

Sami boðskapur er í hættumati sem eftirgrennslanaþjónusta danska hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste, sendi frá sér 19. desember 2017. Þar segir að vegna lokaðra stjórnarhátta og áhættufíknar rússneskra ráðamanna geti menn á Vesturlöndum ekki séð fyrir til hvers Rússar kunni að grípa stigmagnist spenna. Þá hiki Rússar ekki við að beita þrýstingi til að hafa áhrif á þróun stjórnmála í vestrænum lýðræðisríkjum í von um að geta á þann veg náð markmiðum sínum í utanríkismálum. 

Í dönsku hættumatsskýrslunni segir: „Rússar reyna nú einnig að hafa áhrif á einstaka pólitíska gerendur og aðra sem koma að töku ákvarðana til að rækta  sjónarmið sem eru hliðholl Rússum, í þjóðþingum, ríkisstjórnum eða alþjóðasamtökum. Rússar reyna að breiða yfir aðild rússneska ríkisins með því að beita fyrir sig öðrum talsmönnum en ríkisins eða nota vestræna milliliði. Rússar laga verkfæri sín að aðstæðum í hverju landi.“

Viðvaranir af þessu tagi eiga fullt erindi hér á landi. Nauðsyn þess að vera á verði gegn þrýstingi og upplýsingafölsunum vex í réttu hlutfalli við meiri umræður innan NATO og í fjölmiðlum um þörfina fyrir aukið eftirlit með rússneskum kafbátum.

Misklíð innan ESB er í anda áróðursmarkmiða Rússa. Spænsk stjórnvöld segja rússneskan undirróður stundaðan í Katalóníu. Hans varð vart hér vegna aðildar íslenskra stjórnvalda að efnahagsþvingunum gagnvart Rússum árið 2014. Þá var jafnvel látið eins og íslensk stjórnvöld hefðu lokað á útflutning á matvælum til Rússlands þegar það var sjálfur Vladimír Pútín sem bannaði þann innflutning. Pútín hefur nú ákveðið, eftir 18 ár í forystu Rússlands, að bjóða sig fram til forseta til 2024. Það verður því bið á að The Economist velji Rússland sem land ársins vegna breytinga á stjórnarháttum eða birtugjafar í veröldinni.