Óverðugir bandamenn
Morgunblaðið, laugardagur, 10. ágúst 2024
Það er aðdáunarvert að skrifa grein sem snýst um stöðu öryggis- og varnarmála í Evrópu á líðandi stundu og „stríðsrekstur í Úkraínu“ án þess að minnast einu orði á innrásina 24. febrúar 2022 sem kostað hefur hundruð þúsunda manna lífið og leitt til gífurlegrar eyðileggingar.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti gaf fyrirmælin um tilefnislausa og ólögmæta innrás í Úkraínu. Hann rauf friðhelgi landamæra nágrannaþjóðar, hún ætti engan tilverurétt og lyti stjórn nazista sem yrði að afvopna og uppræta. Síðan hefur Pútín verið lýstur stríðsglæpamaður.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, kýs að hlaupa yfir þetta upphaf stríðs í Evrópu í grein hér í blaðinu 6. ágúst. Hann segir þess í stað ámælisvert að Íslendingar og aðrar þjóðir Evrópu láti „vopnaiðnaðinn teyma sig gagnrýnislaust í fjáraustri til hernaðar og taka sér stöðu á landamærum Rússlands og Vesturlanda“.
Óupplýstur lesandi á sem sagt að trúa því að í þágu vopnaframleiðenda leggi vestrænar lýðræðisþjóðir Úkraínumönnum lið við landamæri þeirra og Rússlands.
Í ríki Pútíns mega menn tala um „sérstaka hernaðarlega aðgerð“ Rússa þegar þeir ræða stríðið í Úkraínu. Ögmundur notar ekki einu sinni þau orð þegar hann segir okkur samtímasöguna frá sínum sjónarhóli.
Forsagan er jafnófullkomin í frásögn Ögmundar. Hann lætur þess ógetið að það sem hann kallar „friðarbaráttu“ í Evrópu á níunda áratugnum átti af hálfu skoðanasystkina Ögmundar að tryggja Sovétmönnum einhliða kjarnorkuyfirburði í Evrópu með meðaldrægum SS-20 eldflaugum þeirra.
Þegar leiðtogar NATO-ríkjanna snerust gegn sovéskri einokun af þessu tagi með flutningi bandarískra flauga og kjarnaodda til Evrópu studdu „friðarsinnar“ Sovétmenn með mótmælagöngum og öðrum aðgerðum í lýðræðislöndunum.
Stjórnmálaleiðtogar á borð við Helmut Schmidt í Vestur-Þýskalandi, François Mitterrand í Frakklandi, Margaret Thatcher í Bretlandi og Ronald Reagan í Bandaríkjunum framkvæmdu tvíþættu NATO-stefnuna: (1) að setja bandarísku flaugarnar á skotpalla í Evrópu og (2) að ræða takmörkun vígbúnaðar og afvopnunarsamninga við Sovétmenn.
Samhliða því sem þetta gerðist á meginlandi Evrópu varð til ný flotastefna NATO á Norður-Atlantshafi undir forystu Bandaríkjastjórnar. Hún birtist meðal annars í því að bandarísk herskip sigldu mun norðar en áður. Þau ógnuðu beint vígvélum Sovétmanna á Kólaskaganum, þá eins og nú mikilvægasta kjarnorkuhreiðri Rússa.
NATO-andstæðingar hér á landi fullyrtu að Bandaríkjastjórn vildi reisa óþarflega stóra flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Hún væri í raun dulbúin stjórnstöð fyrir kjarnorkuhernað. Var látið undan kröfum þeirra og byggingin minnkuð!
Á landi og sjó var þrengt svo að sovéska hernum, hryggjarstykkinu í valdakerfi sovéska kommúnistaflokksins, að ríki flokksins féll saman og fjöldi þjóða fékk frelsi í friðsemd þar til nú rúmum 30 árum síðar.
Nú takmarkast óttinn vegna stórveldis- og stríðsdrauma Pútíns ekki við fyrrverandi leppríki Sovétstjórnarinnar. Óttinn nær einnig til þjóða sem glímdu við Rússa á keisaratímanum, Finna og Svía.
Nokkrum vikum eftir innrásina 2022 snerist meirihluti norrænu þjóðanna tveggja til stuðnings við aðild að NATO. Vissan um að ekkert héldi aftur af Pútín og valdaklíku hans annað en öflugar varnir í samvinnu við bandamenn réð þar úrslitum.
Alls þessa lætur Ögmundur Jónasson ógetið í grein sinni. Af orðum hans má helst ætla að það ráði úrslitum um stöðu evrópskra öryggismála nú á tímum að Bandaríkjastjórn sagði sig árið 2019 frá INF-samningnum um takmörkun meðaldrægra kjarnaflauga. Rússar brutu gegn ákvæðum samningsins með nýrri stýriflaugategund, SSC-8, og gerðu hann marklausan.
Efnahagsstjórn Rússlands og ráðstöfun á opinberu fé ræðst nú alfarið af þörfum rússneska innrásarliðsins í Úkraínu og þeirri stefnu Pútíns að skortur á mannafla og hergögnum megi ekki hindra sigur Rússa í Úkraínustríðinu.
Ögmundur sér ofsjónum yfir því að vestrænar þjóðir með NATO-ríkin í forystu leggi 38 milljón Úkraínumönnum lið gegn 144 milljón Rússum. Hann fjargviðrast einnig yfir því að efnahags- og atvinnustefnu innan ESB eigi að laga að hergagnaframleiðslu til að bregðast við hervæðingu allra þátta rússnesks þjóðlífs í þágu stríðsins.
Stuðningsmenn Rússa óttast að sama gerist í Rússlandi og í Sovétríkjunum, að stjórnkerfið springi á limminu og rússneska sambandsríkið leysist upp sem samstæð heild undir álagi stríðsins. Pútín hefur orðið að leita aðstoðar Norður-Kóreustjórnar í neyð sinni. Þá er spurning hve lengi Rússar þola að Kínverjar eigi síðasta orðið um efnahag þeirra.
Bandamennirnir; Vladimir Pútin, forseti Rússlands, og Nicolás Maduro, forseti Venesúela.
Í þremur ríkjum sitja nú forsetar sem telja sig hafa lýðræðislegt umboð þjóða sinna í kosningum þótt óvilhallir aðilar segi þá stjórna í krafti kosningasvindls. Þetta eru Vladimír Pútín í Rússlandi, Alexander Lukasjenko í Belarús og Nicolás Maduro í Venesúela. Í liði með þessum mönnum eru stjórnendur Kína, Norður-Kóreu, Írans, Kúbu og Nígarakva.
Það er ömurlegt að íslensk stjórnvöld séu hvött til að skipa sér með þessum einræðisstjórnum og skorast undan að styðja Úkraínumenn.
Ekki er langt síðan Ögmundur Jónasson sakaði íslensk stjórnvöld um að gera markvisst á hlut Maduros að fyrirmælum Bandaríkjastjórnar með því að veita hælisleitendum frá Venesúela alþjóðlega vernd. Tilgangurinn væri að sverta sósíalisma Maduros.
Um afstöðu Ögmundar til Pútins og Maduros eiga við orðin: Ekki er öll vitleysan eins.