26.1.2018

Ótti vegna áhættutíma á Davos-þingi 2018

Morgunblaðið, föstudagur 26. janúar 2018.

Í dag lýkur fjögurra daga árlegu Alþjóðlegu efnahagsþingi í Davos, um 11.000 manna fjallabæ í tæplega 1.600 m hæð í suðausturhluta svissnesku Alpanna. Áður fyrr leituðu berklasjúklingar lækninga í sólbjörtu fjallaloftinu í Davos. Nú beinist athygli heims þangað vegna efnahagsþingsins.

Fundardaga World Economic Forum (WEF) – Alþjóða efnahagsþingsins – fjölgar þeim sem dveljast í Davos í um 30.000. Þar eru um 1.500 forstjórar stærstu fyrirtækja heims, 70 þjóðar- og stjórnarleiðtogar, 900 fræðimenn og áhrifamenn á sviði lista og menningar auk 500 blaðamanna, þúsunda öryggisvarða og fylgdarfólks.

Þjóðverjinn Klaus Scwab, þá 33 ára prófessor í stjórnun við Genfar-háskóla, valdi Davos sumarið 1971 fyrir evrópska ráðstefnu um stjórnun. Hann vildi einangraðan stað til að fundarmenn kæmust ekki á brott í fundarhléi.

Árið 1974 ákvað Schwab að bjóða stjórnmálamönnum að taka þátt og færa fundartímann til janúar. Nú er 48. þingið haldið í Davos og dregur að sér þátttakendur úr öllum heimshornum.

Í janúar 2009, eftir hrunárið 2008, sagði Schwab: „Í ár verður Davos heilsuhæli fyrir heimsbúskapinn. Við ætlum að móta heiminn eftir hrun.“ Þetta var fjórum mánuðum eftir gjaldþrot Lehman Brothers-bankans.

Áhættutímar


Vegna 48. Davos-þingsins gerði KPMG, alþjóðlega endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækið, könnun meðal um 1.300 stjórnenda og spurði hvað þeim væri efst í huga. Flestir nefndu „geópólitíska áhættu“, með öðrum orðum stöðuna í heimsmálum og óvissuna sem þar ríkir. Leiða þessar áhyggjur til þess að fleiri hafa haft áhuga á að fara til Davos að þessu sinni en oft áður.

Í dag flytur Donald Trump Bandaríkjaforseti lokaræðuna í Davos. Hvort hún verður til að auka óvissu í heimsmálum eða draga úr henni kemur í ljós. Mikill viðbúnaður er vegna komu Trumps og í byrjun vikunnar bönnuðu yfirvöld mótmælaaðgerðir gegn honum í skíðabænum vegna mikillar snjókomu og hættu á snjóflóðum.

Fordómar Frakka hverfa


Blaðamaður franska blaðsins Le Figaro segir að Frökkum hafi þótt Davos uppistandið gervilegt þrátt fyrir að Þjóðverji stæði þar að baki. Þetta viðhorf gefi þó ekki rétta mynd af því sem þar gerist. Í Davos hafi fjandvinir oft hist og ráðið ráðum sínum. Í janúar 1988 skrifuðu fulltrúar Grikkja og Tyrkja undir „Davos-yfirlýsinguna“ um að minnka spennu í samskiptum sínum. Í janúar 1992 tókust Frederik de Klerk, forseti S-Afríku, og Nelson Mandela í hendur í ráðstefnumiðstöðinni í Davos. Árið 1994 voru Ísraelinn Shimon Peres og Palestínumaðurinn Yasser Arafat í Davos og rituðu undir samkomulag um Gaza og Jeríkó.

Þegar Jacques Chirac hafði verið forseti Frakklands í 10 ár braut hann loks odd af oflæti sínu og samþykkti árið 2005 að flytja ræðu í Davos. Þetta var umdeild ákvörðun vegna þess að Frakkar töldu hann með þessu ganga í „musteri frjálslyndrar hnattvæðingar og kapítalisma“. Enginn forveri hans, hvorki sem forseti né forsætisráðherra, hafði farið í pílagrímsferð í fjallaþorpið. Veður hindraði að Chriac kæmist til Davos en hann ávarpaði fundarmenn um fjarfundarbúnað.

Eftir þetta hafa arftakar Chiracs sótt fundi í Davos og flutt þar ræður, nú síðast Emmanuel Macron sem er hagvanur meðal fastagestanna frá því að hann var bankamaður og efnahagsmálaráðherra. Í Le Figaro er Macron meira að segja kallaður „Davos-drengur“.

Á það má minna að Ólafur Ragnar Grímsson sótti nokkur Davos-þing í forsetatíð sinni.

Viðvörun Whites


Í tilefni af Davos 2018 birta fjölmiðlar skoðanir áhrifamanna á ástandi og horfum í efnahags- og fjármálum. Mátti mánudaginn 22. janúar til dæmis lesa viðtal við William White eftir Ambrose Evans-Pitchard, viðskiptaritstjóra hjá The Telegraph í London, á samnefndri vefsíðu. Fyrirsögn viðtalsins var: World finance now more dangerous than in 2008, warns central bank guru, eða: Varnaðarorð seðlabankagúru: Staða heimsfjármálanna hættulegri núna en 2008.

William White er fyrrverandi aðalhagfræðingur BIS, Alþjóðagreiðslumiðlunarbankans, í Basel. Evans-Pitchard segir að White búi í Sviss og gegni formennsku endurskoðunarnefndar OECD. Skoðun hans er í stuttu máli að stjórnvöld séu föst gildru sem þau hönnuðu sjálf með því að auka peningamagn í umferð. Vegna þessa hafi fé til neyðaraðgerða árum saman „lekið“ til nýmarkaðslanda án þess að tekið hafi verið á kerfislægum vanda. Þetta fé leki ekki endalaust.

 „Allar vísbendingar á mörkuðum líkjast mjög því sem við sáum fyrir Lehman-kreppuna en svo virðist sem menn hafi gleymt að draga lærdóm af henni,“ segir William White. Ávallt þegar innistæðulaus sveifla nái hámarki ríki smitandi bjartsýni, fólk blindist af góðu fréttunum og sannfæri sjálft sig um að áhætta minnki en einmitt á því stigi séu verstu mistökin gerð. Vísbendingar um ofviðrið séu jafnlitlar nú og árið 2007, rétt áður en stormurinn feykti öllu um koll.

Að baki býr vandi vegna þess sem á ensku er nefnt quantitative easing, skammstafað QE. Einfaldast er að skýra fyrirbrigðið með íslenska orðinu seðlaprentun, það er seðlabankar auka peningamagn í umferð t. d. með því að kaupa ríkiskuldabréf samhliða lækkun vaxta í von um að ýta undir hagvöxt.

William White segir:

„Seðlabankar hafa hellt olíu á eldinn. Eiga stjórnvöld nú að óska sjálfum sér til hamingju með þeim rökum að kerfið sé öruggara en áður? Enginn veit hvað gerist þegar dregið verður úr QE. Á mörkuðunum ættu menn að gæta sín vegna þess að margt er brothætt. Lyfjafyrirtæki verða lögum samkvæmt að gera tilraunir til að kanna að lyf hafi ekki óviljandi afleiðingar áður en þau eru sett á markað en seðlabankar hefja viðamikla félagslega tilraun með QE án þess að huga nægilega vel að hliðarverkunum.“

 Ekki hefði verið staldrað sérstaklega við orð þessa ágæta Whites nema vegna þess sem sagði í grein eftir Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor hér í blaðinu miðvikudaginn 17. janúar. Þar segir að 31. júlí 2008 hafi kanadískur hagfræðingur, William White, heimsótt Ísland og Davíð Oddsson, þáv. seðlabankastjóri, boðið honum til kvöldverðar í Perlunni. Hannes Hólmsteinn segir:

 „Þeir röbbuðu saman um ástandið á fjármálamörkuðum. White taldi mikla andstöðu við að bjarga bönkum með almannafé en það yrði samt að lokum gert: „Það er búið að ákveða að einn stór banki verður látinn fara á hausinn, það verða Lehman-bræður, og síðan eitt land og það verðið þið.“ Davíð spurði hissa: „Hvað ert þú búinn að fá þér marga gin og tonic?“ White svaraði: „Aðeins einn.““

 Skyldi hafa verið lagt við hlustir þegar White talaði í fjallaloftinu í Davos?