Óskastaða Eflingar birtist
Morgunblaðið, laugardagur 4. febrúar 2023
Átján félög Starfsgreinasambandsins (SGS) og Samtök
atvinnulífsins (SA) gerðu með sér kjarasamning 3. desember 2022
og síðan var undirritaður kjarasamningur milli SA og
Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR), Landssambands íslenskra
verslunarmanna (LÍV) og samflots iðnaðarmanna 12. desember 2022.
Þetta eru skammtímakjarasamningar sem gilda frá 1. nóvember 2022
til 31. janúar 2024. Ná samningarnir til meira en 80.000 launþega.
Efling, aðildarfélag SGS, ákvað að skapa sér stöðu utan
ofangreinds samflots en í félaginu eru um 21.000 manns.
Ríkissáttasemjari stjórnaði viðræðum SA og Eflingar frá 7.
desember 2022. Efling sleit viðræðunum 10. janúar 2023. Síðast
boðaði sáttasemjari fulltrúa deiluaðila til sín þriðjudaginn 24.
janúar 2023. Þá var haldinn stysti fundur í sögu kjaraviðræðna, stóð
hann í um það bil eina mínútu.
SA hafði fram undir þennan fund boðið Eflingu að samið yrði við félagið á sama grundvelli og við aðra með gildistíma samnings frá 1. nóvember 2022. Eftir fundinn 24. janúar var það boð ekki lengur á borðinu af hálfu SA.
Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, birti 25. janúar grein á vefsíðunni Heimildinni þar sem hún reiknar út tekjumissi félaga í Eflingu á þremur mánuðum miðað við taxta annarra félaga í SGS frá 1. nóvember 2022. Telur hún að hver Eflingarfélagi hafi að meðaltali orðið af 126 þúsund krónum í launum til 1. febrúar 2023.
Nú er liðinn fjórðungur gildistíma skammtímasamninganna sem SA hefur gert. Dósentinn bendir á að sé miðað við 42 þúsund króna meðalhækkun gerðra samninga á mánuði þurfi „launahækkun Eflingarfélaga að nema að minnsta kosti 53 þúsund krónum á mánuði“ til að vinna upp fyrstu þrjá mánuði samningstímans. Grein sinni lýkur Katrín Ólafsdóttir á þessum orðum:
„En af þeim einföldu útreikningum sem hér eru sýndir er erfitt að sjá að hagsmunum félagsfólks Eflingar sé best mætt með átökum á vinnumarkaði fremur en hefði verið að taka síðasta tilboði SA.“
Á vefsíðu SA sýnir svonefnd afturvirkniklukka hvers félagar í Eflingu fara á mis vegna stefnu stjórnar sinnar og samninganefndar. SA gerir ráð fyrir að Eflingarfélagar hafi ekki fengið launahækkun sem nemur 78.600 kr. á mánuði frá 1. nóvember, það er 238.500 kr. uppsafnað tap samtals.
Þetta er mikill herkostnaður. Skæruverkföll eru á döfinni og til þess fyrsta er boðað af 0,6% félagsmanna Eflingar þriðjudaginn 7. febrúar. Beinist verkfallið gegn sjö hótelum eins fyrirtækis í Reykjavík. Í atkvæðagreiðslunni um það sannaðist að valinn var hópur þar sem stjórn og samninganefnd taldi sig hafa undirtökin.
Stysti kjarasamningafundur sögunnar sýndi að Sólveigu Önnu er um megn að setjast til viðræðna og axla ábyrgð á niðurstöðu sem þar kann að fæðast. Það sem síðan hefur helst gerst er þetta:
26. janúar kynnir ríkissáttasemjari miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og SA, gert er ráð fyrir að samningur SGS félaganna gildi frá 1. nóvember 2022.
26. janúar neitar Efling að skila kjörskrá vegna atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna.
30. janúar er þingfest mál ríkissáttasemjara gegn Eflingu í héraðsdómi – krafist er kjörskrár Eflingar svo að greiða megi atkvæði um miðlunartillöguna.
30. janúar kærir Efling ríkissáttasemjara til félags- og vinnumarkaðsráðherra.
31. janúar boðar Efling verkfall á Íslandshótelum og Fosshótelum í Reykjavík, alls sjö hótelum, frá 7. febrúar.
31. janúar kærir SA Eflingu til félagsdóms, boðað verkfall sé ólögmætt.
31. janúar boðar Efling ótímabundið verkfall starfsmanna félagsins hjá hótel Reykjavík Edition, hjá hótelkeðjunni Berjaya Hotels og vörubílstjóra hjá Samskipum, Olíudreifingu og Skeljungi. Atkvæðagreiðsla 3. febrúar til 7. febrúar.
31. janúar óskar Sólveig Anna Jónsdóttir eftir að Katrín Jakobsdóttir deili með sér og sínu fólki ráðgjöf sem ráðherrann sagðist hafa fengið frá sérfræðingum um að miðlunartillaga ríkissáttasemjara væri lögleg.
2. febrúar afturkallar Efling stjórnsýslukæru til ráðherra og krefst ógildingar miðlunartillögu fyrir héraðsdómi.
Forystumenn Eflingar vilja vera annars staðar en við samningaborðið. Vegna óbeitar þeirra á viðræðum lagði sáttasemjari fram miðlunartillöguna. Leiðin til að fá hana afturkallaða er ekki að setja á svið málaferli heldur að óska á málefnalegan hátt eftir viðræðum með lausn að leiðarljósi. Að forysta Eflingar búi yfir þreki til þess virðist borin von.
Í Eflingu beinist athygli nú að ófriði með skæruverkföllum og stríði við ráðherra og ríkissáttasemjara samhliða málsvörn fyrir dómstólum, héraðsdómi og félagsdómi. Óbreyttir félagsmenn bera herkostnaðinn.
Ráðamönnum Eflingar er mikið í mun að sanna þjóðfélagskenningar sínar um stéttastríðið. Í nafni lægstu stétta var brotist til valda í félaginu og stofnað til hreinsunar á skrifstofu þess. Síðan var myndaður hópur samherja sem mætti fylktu liði í einkennisjökkum samninganefndar hjá ríkissáttasemjara. Þá voru skilgreindir hópar til skæruverkfalla í því skyni að sýna sem mest vald félagsins.
Frá upphafi lá fyrir hvernig brugðist skyldi við miðlunartillögunni. Sáttasemjari yrði settur í vanda vegna skorts á kjörskrá. Ráðherrar yrðu flæktir í mál. Pólitíska valdastéttin og embættismannavaldið yrði sett upp að vegg.
Þar erum við stödd núna. Setið er yfir málum í tveimur dómstólum, pólitísku áreiti beitt. Öryggisvarsla er hert um aðsetur sáttasemjara. Stöðugleika hafnað, óvissa ríkir.