28.1.2023

Orrustuskriðdrekar vekja friðarvonir

Morgunblaðið, laugardagur 28. janúar 2023

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hitti Olaf Scholz Þýskalandskanslara í Berlín á sögulegum degi, miðvikudaginn 25. janúar, sama dag og kanslarinn kynnti ríkisstjórn sinni að 14 þungir, þýskir orrustuskriðdrekar af Leopard 2 gerð yrðu sendir til Úkraínu.

Kanslarinn hafði setið yfir ákvörðun um skriðdrekana dögum saman undir vaxandi þrýstingi frá bandamönnum sínum innan NATO, einkum Pólverja, og óskum frá Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta.

Sama dag og Scholz tilkynnti ákvörðun sína boðaði Joe Biden Bandaríkjaforseti að Úkraínumenn fengju 31 M1-Abrams skriðdreka frá Bandaríkjunum. Forsetinn hafði áður rætt í síma við stjórnarleiðtoga í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og á Ítalíu. Sagði hann einhug ríkja um ákvörðun sína og hrósaði Þjóðverjum fyrir skrefið sem þeir stigu.

Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, sagði þennan sama miðvikudag að Norðmenn myndu senda Leopard 2 til Úkraínu. Finnar höfðu áður tilkynnt að þeir ætluðu að gera það og einnig Pólverjar, þá ætla Hollendingar, Spánverjar og Portúgalir einnig að senda þýska dreka í sinni eigu.

Bretar leggja til Challenger 2 skriðdreka. Þeir brutu raunar ísinn innan NATO með því að bjóða svo öflug sóknarvopn til bardaga við Rússa í Úkraínu.

Zelenskíj segir að 300 orrustuskriðdrekar dugi til að stugga Rússum á brott. Í fyrstu atrennu nálgast fjöldinn 100 og fá hermenn Úkraínu nú þjálfun til að geta notað vígdrekana.

Í aðdraganda ákvörðunar sinnar var Scholz gagnrýndur fyrir að draga lappirnar. Nú er sagt að hann hafi sýnt klókindi þegar hann setti sem skilyrði fyrir þýskum skriðdrekum að Bandaríkjastjórn sendi einnig eigin dreka. Hann hafi náð því takmarki.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti veðjaði á það sama og hann hefur jafnan gert áður, að honum tækist að reka fleyg í samstöðuna innan NATO með hræðsluáróðri vegna skriðdrekanna.

_JD18844-2Katrín Jakobsdóttir og Olaf Scholz í Berlín miðvikudaginn 25. janúar 2023 (mynd: Bundesregierung/Denzel)

Þegar Joe Biden kynnti skriðdreka ákvörðun sína sagði hann að Pútin hefði vænst þess að geta grafið undan stuðningi að vestan við Úkraínumenn. Bandaríkjaforseti sagði að allt annað væri uppi á teningnum, skriðdrekarnir sönnuðu enn frekar varanlegan og óhagganlegan stuðning úr vestri við Úkraínumenn og trú á hæfni Úkraínuhers.

„Það steðjar engin sóknarógn að Rússum. Sneru rússnesku hersveitirnar til baka til Rússlands þar sem þær eiga heima lyki stríðinu í dag,“ sagði Bandaríkjaforseti.

Volodymyr Zelenskíj átti afmæli þennan miðvikudag. „Þetta er mikilvægt skref á leiðinni til sigurs,“ sagði hann vegna skriðdrekanna. „Við verðum að mynda svona skriðdrekaher, svo öflugan friðarher að eftir högg hans rísi harðstjórnin aldrei á nýjan leik.“

Rússum var ekki skemmt. Dmitrij Peskov, talsmaður Pútins, sagði að þetta brölt væri dæmt til að mistakast, það mundi leggjast á evrópska skattgreiðendur án þess að gagnast Úkraínuher, skriðdrekarnir mundu „breytast í eldhaf“.

Þetta var mildari yfirlýsing en orðin sem Vajastjeslav Volodin, forseti neðri deildar þings Rússlands, Dúmunnar, og náinn bandamaður Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, lét falla sunnudaginn 22. janúar. Hann sagði að fengju Úkraínumenn sóknarvopn leiddi það til heimshörmunga, ekki yrði lengur unnt að færa rök gegn beitingu kjarnavopna.

Hótunum þingforsetans var sérstaklega beint að kjarnorkuvopnalausum Þjóðverjum. Ótti í Þýskalandi við reiði og kjarnorkuvopnaglamur Rússa var fyrir viku talinn eiga þátt í hiki Scholz. Nú þegar farið hefur verið yfir rautt strik Rússa með skriðdrekunum má spyrja hvort þetta hafi verið innantóm hótunarorð hjá þeim. Ef ekki til hvaða ráða grípa þeir?

Úkraínumenn hafa svar við spurningunni: Rússar geta ekki stigmagnað hernað gegn Úkraínu. Þeir ráðast nú þegar á allt og alla, börn og fullorðna, fæðingardeildir og sjúkrahús, skóla og leikskóla, vatnsveitur og raforkuvirki. Stríðsglæpirnir eru fleiri: pyntingar, nauðganir og fjöldamorð.

Frá því að innrásin hófst fyrir 11 mánuðum hafa Vesturlönd látið Úkraínumönnum í té vopn að verðmæti um tveggja milljarða dollara á mánuði. Dagur skriðdrekanna leið ekki án þess að Zelenskíj hvetti til enn meiri aðstoðar að vestan. Nú nefndi hann orrustuþotur og langdræg flugskeyti. Reynslan segir að ekki skuli útiloka neitt í því efni. Það er líka holur hljómur í hótunum Rússa vegna rauðra strika, þær lifa varla lengur en á meðan þær eru sagðar.

Stuðningurinn berst Úkraínumönnum að vestan vegna þess að hann skilar árangri í þágu sameiginlegs málstaðar: að stöðva framgang þeirra sem stunda stríðsglæpi til að sölsa undir sig lönd og eignir annarra.

Annað markmið færist nær með þáttaskilunum vegna skriðdrekanna: að varnir Úkraínu styrkist svo að óvinurinn haldi að sér höndum, harðstjórinn átti sig á að láti hann ekki staðar numið fái hann náðarhöggið sem Zelenskíj boðaði.

Henry Kissinger, (99 ára) hugsuður raunsæismannanna, sagði í fyrri viku að sér hefði snúist hugur um framtíð Úkraínu, þjóðina ætti ekki að dæma til hlutleysis, sem stuðpúða fyrir Rússa, heldur ætti hún að ganga í NATO og njóta verndar þar.

Því fyrr sem Úkraínumenn fá öruggt NATO-skjól þeim mun betra. Blóðbaðinu lyktar ekki fyrr.

Katrín Jakobsdóttir sagði að í viðræðum sínum við Olaf Scholz hefði Úkraínustríðið verið „algjörlega miðlægt“ og ákvörðun kanslarans um skriðdrekana boðaði „stefnubreytingu“. Forsætisráðherra boðaði Úkraínumönnum „réttlátan frið“ í ræðu hjá Evrópuráðinu á fimmtudaginn og að draga ætti Pútin og félaga fyrir dóm vegna stríðsglæpa.