Örlagatímar fyrir Úkraínu
Morgunblaðið, laugardagur 22. febrúar 2025
Gengið er til kosninga í Þýskalandi nú sunnudaginn 23. febrúar. Þar eins og hér í október ákvað leiðtogi þriggja flokka stjórnar að slíta stjórnarsamstarfinu áður en kjörtímabilinu lyki, ekki yrði lengra komist vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna. Líkur eru á að þar eins og hér falli einn stjórnarflokkanna út af þingi.
Kannanir benda til að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Kristilegir demókratar (CDU/CSU), fái 29% atkvæða og næstur komi flokkur til hægri við þá Alternative für Deutschland (AfD) með 21%, Jafnaðarmenn (SPD) fái 16% og Græningjar 13%. Síðan eru tveir jaðarflokkar til vinstri með 7% og 5% og loks stjórnarflokkurinn Frjálsir demókratar með 4%.
Friedrich Merz, kanslaraefni kristilegra, býr sig undir að leiða næstu ríkisstjórn Þýskalands. Draumur hans er að hann þurfi ekki nema einn samstarfsflokk, þriggja flokka stjórn sé ekki til stórræða.
Kosningabaráttan í Þýskalandi var um hefðbundin mál, efnahag, orkumál og húsnæðiskostnað þar til 28 ára brottvísaður hælisleitandi frá Afganistan réðst 22. janúar með hnífi á leikskóla í bænum Aschaffenburg í Norðvestur-Bæjaralandi og stakk 41 árs gamlan mann og tveggja ára dreng til bana.
Reiðibylgja fór um allt Þýskaland vegna morðanna og málefni hælisleitenda og innflytjenda komust efst á umræðulista stjórnmálamanna og kjósenda.
Friedrich Merz á kosningafundi.
Fyrir viku var svo haldin öryggisráðstefna í München sem hefur frá árinu 1963 haft að markmiði að stilla saman strengi NATO-ríkjanna beggja vegna Atlantshafs. Þar varð nú dramatískari ágreiningur en vænst var þótt spáin væri svört.
JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, gaf tóninn. Hann lagði sig fram um að vera neyðarlegur í garð Þjóðverja. Töldu ýmsir hann draga taum AfD í kosningabaráttunni. Hann átti þar samleið með margmilljarðamæringnum Elon Musk, hollvini og hægri hönd Donalds Trump.
„Eftir ræðu Vance varaforseta á föstudaginn er ástæða til að óttast að það eigi ekki lengur við að tala um sameiginlegt gildismat okkar,“ sagði fráfarandi stjórnarformaður ráðstefnunnar klökkur í kveðjuræðu sinni.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti boðaði evrópska stjórnarleiðtoga til tveggja funda í vikunni og lögðu þeir á ráðin um aðgerðir vegna nýja bandaríska tómlætisins gagnvart Úkraínu. Ætlar Macron til Washington í næstu viku ásamt Sir Keir Starmer forsætisráðherra Breta.
Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana tilkynnti miðvikudaginn 19. febrúar að nú yrði 50 milljörðum danskra króna varið aukalega til að efla danskar varnir. Stefnt væri á að útgjöld til varnarmála yrðu framvegis 3,2% af vergri landsframleiðslu. Það mætti aldrei aftur skera herinn við trog eins og gert hefði verið þegar kalda stríðinu lauk.
Rússlandsforseti Vladimir Pútin treystir Sergei Lavrov utanríkisráðherra enn til að reka erindi fyrir sig. Lavrov hefur hvorki dottið út um glugga né gufað upp eins og margir þjóðkunnir í ónáð Pútins. Þriðjudaginn 18. febrúar var diplómatíski ísinn brotinn þegar þeir hittust Lavrov og Marco Rubio, bandaríski utanríkisráðherrann, í Ríad, höfuðborg Sádí-Arabíu, og ræddu Úkraínu án þátttöku nokkurs frá landinu sjálfu.
Rússar vildu engan frá Úkraínu. Þegar Volodimir Selenskí Úkraínuforseti fann að þessum vinnubrögðum fékk hann skammir frá Donald Trump sem sagði svo mikla vitleysu að Boris Johnson tók til máls á X og sagði:
„Hvenær ætla Evrópumenn að hætta að hneykslast á Donald Trump og taka til við að aðstoða hann við að stöðva þetta stríð?
Auðvitað byrjuðu Úkraínumenn ekki stríðið. Það væri eins hægt að segja að Bandaríkjamenn hefðu ráðist á Japan í Pearl Harbor.
Auðvitað er ekki unnt að ganga til kosninga í landi sem er undir grimmilegri innrás. Það voru engar almennar kosningar í Bretlandi frá 1935 til 1945.
Auðvitað mælast vinsældir Selenskís ekki 4%. Þær eru núna svipaðar og Trumps.“
Að fyrrverandi forsætisráðherra Breta finni sig knúinn til að birta slíka ofanígjöf við vin sinn, forseta Bandaríkjanna, vegna lyga hans um stríðshrjáð vinaríki og forseta þess sýnir klandrið í samskiptunum við Trump.
Selenski sagði að Trump hefði látið blekkjast af lygaáróðri Rússa. Þá hrópaði Trump að Selenskí væri einræðisherra sem vildi bara peninga. Lét Trump eins og Bandaríkjamenn hefðu verið rausnarlegri í stuðningi sínum við Úkraínu en Evrópuþjóðir.
Kiel Institute for the World Economy segir nú í tilefni af því að 24. febrúar 2025 verða þrjú ár liðin frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu að á þessum árum hafi alls 267 milljörðum evra verið miðlað í aðstoð til Úkraínu. Um 130 milljarðar evra (49%) hafi verið hernaðarleg aðstoð en um 118 milljarðar evra (44%) hafi verið fjárhagsleg aðstoð og 19 milljarðar evra (7%) hafi runnið til mannúðarmála. Hlutur Evrópuríkja sé greinilega stærri en Bandaríkjanna: Evrópa hafi látið 70 milljarða evra í fjárhagslega og mannúðar-aðstoð og 62 milljarða evra í hernaðarlega aðstoð; frá Bandaríkjunum hafi komið 64 milljarðar evra í hernaðaraðstoð og 50 milljarðar í fjárhagslega og mannúðar-aðstoð.
Verði Friedrich Merz kanslari er þess að vænta að Þjóðverjar auki hernaðarlegan stuðning við Úkraínu. Þeir kunna að ganga í lið með Bretum og Frökkum sem íhuga að senda allt að 30.000 manna herlið til gæslu lofthelgi og hafna Úkraínu við stríðslok.
Atburðarásin er hröð og þræðirnir margir. Íslenska ríkinu er nauðsynlegt auka þátt sinn í gæslu ytra öryggis þjóðarinnar. Til þess þarf fjármuni, rannsóknir, þekkingu, þjálfun og tæki.