Orkupakkinn í Hæstarétti Noregs
Morgunblaðið, laugardagur, 9. september 2023
Deilurnar í Noregi á árinu 2018 um þriðja orkupakkann (3OP), eða ACER-málið eins og Norðmenn segja, náðu hingað til lands. Samtökin Nei til EU lögðu til efni í deilur hér um 3OP og lengsta málþóf á alþingi að undirlagi Miðflokksins.
Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna (46:13) samþykkti 3OP fyrir fjórum árum, 2. september 2019. Lifir þó enn í glæðum deilunnar hér eins og heyra má af ýmsu sem andstæðingar frumvarps utanríkisráðherra um framkvæmd á bókun 35 við EES-samninginn segja. Tengslin milli þessara tveggja mála eru að þau má bæði rekja til aðildar okkar að EES-samstarfinu.
Málin eru notuð til að rökstyðja þá skoðun að þetta samstarf hafi breyst og fullveldið sé nú í hættu. Hugdeigir stjórnmálamenn sem virði ekki stjórnarskrár landa sinna séu ekki annað en handbendi embættismanna ESB í Brussel.
Stórar yfirlýsingar draga athygli frá efni málsins. Þriðji orkupakkinn skerðir ekki fullveldi Íslands í orkumálum á nokkurn hátt. Íslendingar ákveða sjálfir virkjanaframkvæmdir, vatns-, jarðhita- og vindorkuver, skipulag orkudreifingar, gjöld og skatta í orkumálum, eignarhald á orkufyrirtækjum, verð á orku og hvort hana þurfi að skammta.
ACER er skammstöfun á Agency for the Cooperation of Energy Regulators, Sameiginleg reglustofnun orkumála, sérstofnun um orkudreifingu. Hún sér til þess að aðildarríkin fari að reglum um orkuflutninga innan Evrópu. ACER túlkar reglurnar og gerir tillögur um efni þeirra. Tæknifróðir menn um aðferðir við flutning orku á milli landa leggja sitt af mörkum til að tryggja skilvirkt flutningsnet án tillits til landamæra.
Þar sem Noregur er ekki í ESB gefur ACER norskum stjórnvöldum ekki nein fyrirmæli. ACER gerir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) grein fyrir hugsanlegum vanda. ESA tekur ákvörðun sem hún sendir til regluvarða orkumála í Noregi (RME).
Norska stórþingið samþykkti 3OP árið 2018 með einföldum meirihluta samkvæmt 26. grein norsku stjórnarskrárinnar um „lítið inngrip“ í fullveldið. Samtökin Nei til EU telja að í samþykki 3OP felist „meira en lítið inngrip“ og þingmenn hefðu átt að afgreiða málið samkvæmt 115. gr. stjórnarskrárinnar, það er að samþykki ¾ þingmanna hefði þurft enda hefðu tveir þriðju þeirra setið þingfundinn.
Mynd af vefsíðu Hæstaréttar Noregs sýnir málflutningu fyrir rétttinum í janúar 2013.
Nei til EU lögsækir nú norska ríkið fyrir stjórnarskrárbrot vegna þess hvernig að málum var staðið. Þriðjudaginn 5. september til föstudagsins 8. september 2023 hlýddu 17 dómarar Hæstaréttar Noregs á málflutning um það hvort stórþingið gat samþykkt þriðja orkupakkann með einföldum meirihluta. Þá snýst málið um hve langt Hæstiréttur getur gengið í túlkun á því hvort ákvarðanir þingmanna brjóti í bága við stjórnarskrána. Loks er deilt um hvort líta beri á hvert mál fyrir sig við innleiðingu laga og reglna á grundvelli EES-aðildarinnar eða líta til alls þess í heild sem innleitt hefur verið og skoða ákvarðanir þingsins um framsal valds í því ljósi.
Alls hefur þetta mál Nei til EU verið flutt sex sinnum fyrir norskum dómstólum. Fyrri hlutinn sem fór í gegnum þrjú dómstig snerist um hvort Nei til EU gæti yfirleitt höfðað mál gegn ríkisvaldinu fyrir ranga túlkun þingsins á stjórnarskránni. Hæstiréttur taldi svo vera.
Nú, í seinni hluta málsóknarinnar þar sem fjallað er um framsal valds, hafa bæði héraðsdómur og landsréttur hafnað sjónarmiðum Nei til EU. Einfaldur meirihluti gat samþykkt 3OP enda væri þar um „lítið inngrip“ að ræða.
Fredrik Sejersted, fyrrverandi prófessor og forstöðumaður norsku Evrópuréttarstofnunarinnar, núverandi ríkislögmaður, heldur uppi vörnum fyrir norska ríkið. Hann lýsir málinu sem meiri háttar lögfræðilegum viðburði. Í samtali við norsku vefsíðuna Altinget.no segir hann það snúast um nokkrar stórar spurningar:
Stjórnarskrárreglurnar frá 1931 um samþykki stórþingsins vegna alþjóðasamninga hafi aldrei fyrr komið til kasta dómstóla. Geta dómstólar gripið fram fyrir hendur þingsins þegar um er að ræða túlkun á þingsköpum? Hve langt geta dómstólar gengið við að segja þinginu fyrir verkum?
Á að skoða hvert mál um framsal valds fyrir sig? Ef mörg mál með „lítið inngrip“ eru sögð mynda eina heild getur það leitt til þess að stórþingið verði að skoða afgreiðslu sína sem „meira en lítið inngrip“ og færa hana undir grein 115 í stjórnarskránni? Ber að líta á framsal ríkisvalds eins og hellt sé í glas sem fyllist? Eða er um sjálfstæð mál að ræða sem meta verður hvert fyrir sig, spyr Sejersted. Hann segir að það eigi að skoða hvert einstakt mál en Nei til EU segir að líta verði á öll málin í samhengi.
Íslenskir andstæðingar 3OP hafa gefið til kynna að niðurstaða í dómsmálinu í Noregi hafi áhrif hér. Rökin fyrir því eru langsótt. Hver sem dómsniðurstaðan verður hróflar hún ekki beint við 3OP, hvorki hér né í Noregi.
Ólíklegt er talið að norski hæstirétturinn komist að þeirri niðurstöðu að með samþykkt 3OP með einföldum meirihluta hafi stórþingið brotið stjórnarskrána. Þar sé um svo þröngt tæknilegt mál að ræða, „lítið inngrip“. Vafinn er talinn snúast um hve langt dómararnir seilist til afskipta af innri störfum þingsins og hvort þeir móti reglu um uppsafnað framsal sem geri kröfu um aukinn þingmeirihluta við afgreiðslu EES-mála.
Samhliða því sem Hæstiréttur Noregs dæmir í þessu máli er unnið að mikilli norskri skýrslu um EES-aðildina. Noregur vegur þungt sem stærsta EES/EFTA-ríkið og er brýn ástæða fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með þessum hræringum.