Ólafur Ragnar á ystu nöf
Morgunblaðið, laugardagur, 5. október 2024.
Í vikunni lagði Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrv. forseti Íslands, enn á ný sitt af mörkum til að skilgreina sess sinn í sögunni. Að þessu sinni með útgáfu á brotum úr dagbókum sínum. Þar fellir hann dóma um menn og málefni og segir frá atburðum og samtölum til að sanna að hann hafi breytt forsetaembættinu með 20 ára setu sinni í því.
Hann notar hugtakið málskotsrétt til að lýsa beitingu sinni á ákvæðinu í 26. gr. stjórnarskrárinnar um að forseti geti synjað „lagafrumvarpi staðfestingar“, það fái engu að síður lagagildi en leggja skuli það „svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu“. Lögin falli úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella haldi þau gildi sínu.
Í 80 ára sögu forsetaembættisins hefur Ólafur Ragnar einn virkjað þetta ákvæði. Áður en hann gerði það fyrst, árið 2004, beitti hann forsetavaldinu á óvenjulegan hátt og í nokkru sálarstríði. Dagbókarfærslur hans sýna að þá og ekki síður á árunum 2010 og 2011, þegar Icesave-lög voru tvisvar felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, lét hann verulega að sér kveða á bak við tjöldin.
Myndin er tekin á ÍNN í október 2017 þegar ég ræddi við Ólaf Ragnar Grímsson í þætti mínum þar.
Árið 2004 taldi hann sig eiga í höggi við pólitíska andstæðinga sína undir forystu Davíðs Oddssonar. Á Icesave-tímanum sat ríkisstjórn samherja hans á vinstri kantinum og bera færslur hans með sér að hann hafi lagt sig allan fram um að halda henni á lífi og haft trúnaðarmenn sem fluttu honum reglulegar fréttir af vandræðum Jóhönnu Sigurðardóttur í glímu við einstaka ráðherra, einkum Ögmund Jónasson.
Formúlan var sú að safnað var undirskriftum gegn viðkomandi frumvarpi og farið með eins konar bænarskrá til forsetans sem notaði hana sem tilefni til að bregðast við málskotinu.
Vitnað var til þess að Ólafur Ragnar hefði sagt í kosningabaráttunni 1996 að hefði hann verið forseti þegar rúmlega 30.000 manns skoruðu á Vigdísi Finnbogadóttur að undirrita ekki lögin um EES-samninginn 1993 hefði hann orðið við því og neitað að staðfesta lögin.
Hann fékk áskorun gegn fjölmiðlalögunum með 31.752 nöfnum 25. maí 2004 og tilkynnti 2. júní að því miður skorti samhljóm milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Hann vildi með ákvörðun sinni gegn lögunum brúa djúpa „gjá milli þingvilja og þjóðarvilja“.
Þegar Ólafur Ragnar leit yfir sviðið snemma morguns 24. júlí 2004 skrifaði hann í dagbókina: „Atburðarásin hefur gjörbreytt stöðu forsetaembættisins. Nú hefur það alvöruþunga. Lykilstofnun í lýðræðiskerfi landsins, varin af tugþúsundum sem vilja að forsetinn geti veitt þeim rétt. Nú er rætt í alvöru um að forsetinn og þingið fari saman með löggjafarvaldið.“
Í bókarlok segir Ólafur Ragnar dagbækurnar geyma fjóra vegvísa um hvernig hann hafi breytt forsetaembættinu. 1. Málskotsréttur og þjóðaratkvæðagreiðslur. 2. Myndun ríkisstjórna. 3. Þingrofsvaldið. 4. Málsvörn á erlendum vettvangi.
Um málskotsrétt og þjóðaratkvæðagreiðslur er ekkert fast í hendi. Það er alfarið undir ákvörðun forseta hverju sinni komið hvernig hann túlkar 26. gr. stjórnarskrárinnar. Hafi þjóðin viljað kjósa pólitískan forseta eftir forsetatíð Ólafs Ragnars hefði hún kosið aðra frambjóðendur en Guðna Th. Jóhannesson og Höllu Tómasdóttur. Þeirra stíll er allur annar en hans.
Ákvæðið um svigrúm forseta er opið og til að ákvarða inntak þess þarf annaðhvort að breyta stjórnarskránni eða láta reyna á valdheimild forseta fyrir dómstólum.
Ólafur Ragnar segir í bókinni að árið 2004 hafi verið rætt í alvöru um að forsetinn væri hluti af löggjafarvaldinu. Í forsetakosningunum á liðnu sumri sagði einn frambjóðenda að forseti gæti gefið ráðherrum fyrirmæli um að flytja lagafrumvörp. Hann var langt frá því að ná kjöri.
Í dagbókarfærslum kemur fram að Ólafur Ragnar vilji að stjórnarskráin tryggi bæði tilvist ákvæðisins í 26. gr. hennar og „sjálfstæðan þjóðaratkvæðarétt fyrir þjóðina“ eins og hann orðar það. Kenning hans er að sjálfstæðismenn vilji þrengja að forsetaembættinu og leggja áherslu á síðari kostinn af því að þeir viti að Sjálfstæðisflokkurinn eignist aldrei forseta!
Ólafur Ragnar mótaði ekki neinn vegvísi við stjórnarmyndun. Til kasta hans kom aðeins einu sinni vegna stjórnarkreppu. Það var í lok janúar 2009 þegar minnihlutastjórn Samfylkingar og VG var mynduð með stuðningi Framsóknarflokksins. Vorið 2013 tók hann umdeilda ákvörðun um að veita Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Framsóknarflokki, stjórnarmyndunarumboð. Dagbókin sýnir hins vegar að forsetinn var með puttana í ákvörðunum um stórt og smátt í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Ólafur Ragnar leit á þau sem hjálparvana flokks- og hugsjónasystkini og komst upp með hluti sem áður voru óþekktir í samskiptum forseta og ráðherra. Eru þær lýsingar niðurlægjandi fyrir ráðherra sem í hlut eiga.
Kenningin um að Guðni Ágústsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, hafi hitt Ólaf Ragnar á laun á farsakenndum fundi og breytt reglunni um að þingrofsvaldið sé í höndum forsætisráðherra stenst ekki þótt Ólafur Ragnar hafi ekki trúað Sigmundi Davíð forsætisráðherra sem kom með þingrofsbréf til Bessastaða snemma árs 2016.
Ólafur Ragnar fór á ystu nöf við beitingu forsetavalds. Orð hans um eigin afrek og ummæli um einstaklinga í bókinni sýna að honum hættir til að ganga lengra en góðu hófi gegnir. Orðið trúnaðarsamtal hefur til dæmis sérstaka merkingu hjá honum. Birting dagbókarfærslnanna sannar það.