5.10.2024

Ólafur Ragnar á ystu nöf

Morgunblaðið, laugardagur, 5. október 2024.

Í vik­unni lagði Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, fyrrv. for­seti Íslands, enn á ný sitt af mörk­um til að skil­greina sess sinn í sög­unni. Að þessu sinni með út­gáfu á brot­um úr dag­bók­um sín­um. Þar fell­ir hann dóma um menn og mál­efni og seg­ir frá at­b­urðum og sam­töl­um til að sanna að hann hafi breytt for­seta­embætt­inu með 20 ára setu sinni í því.

Hann not­ar hug­takið mál­skots­rétt til að lýsa beit­ingu sinni á ákvæðinu í 26. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar um að for­seti geti synjað „laga­frum­varpi staðfest­ing­ar“, það fái engu að síður laga­gildi en leggja skuli það „svo fljótt sem kost­ur er und­ir at­kvæði allra kosn­ing­ar­bærra manna í land­inu til samþykkt­ar eða synj­un­ar með leyni­legri at­kvæðagreiðslu“. Lög­in falli úr gildi, ef samþykk­is er synjað, en ella haldi þau gildi sínu.

Í 80 ára sögu for­seta­embætt­is­ins hef­ur Ólaf­ur Ragn­ar einn virkjað þetta ákvæði. Áður en hann gerði það fyrst, árið 2004, beitti hann for­seta­vald­inu á óvenju­leg­an hátt og í nokkru sál­ar­stríði. Dag­bókar­færsl­ur hans sýna að þá og ekki síður á ár­un­um 2010 og 2011, þegar Ices­a­ve-lög voru tvisvar felld í þjóðar­at­kvæðagreiðslu, lét hann veru­lega að sér kveða á bak við tjöld­in.

22196485_10207905075984090_5463497016261176257_nMyndin er tekin á ÍNN í október 2017 þegar ég ræddi við Ólaf Ragnar Grímsson í þætti mínum þar.

Árið 2004 taldi hann sig eiga í höggi við póli­tíska and­stæðinga sína und­ir for­ystu Davíðs Odds­son­ar. Á Ices­a­ve-tím­an­um sat rík­is­stjórn sam­herja hans á vinstri kant­in­um og bera færsl­ur hans með sér að hann hafi lagt sig all­an fram um að halda henni á lífi og haft trúnaðar­menn sem fluttu hon­um reglu­leg­ar frétt­ir af vand­ræðum Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur í glímu við ein­staka ráðherra, einkum Ögmund Jónas­son.

Formúl­an var sú að safnað var und­ir­skrift­um gegn viðkom­andi frum­varpi og farið með eins kon­ar bænar­skrá til for­set­ans sem notaði hana sem til­efni til að bregðast við mál­skot­inu.

Vitnað var til þess að Ólaf­ur Ragn­ar hefði sagt í kosn­inga­bar­átt­unni 1996 að hefði hann verið for­seti þegar rúm­lega 30.000 manns skoruðu á Vig­dísi Finn­boga­dótt­ur að und­ir­rita ekki lög­in um EES-samn­ing­inn 1993 hefði hann orðið við því og neitað að staðfesta lög­in.

Hann fékk áskor­un gegn fjöl­miðlalög­un­um með 31.752 nöfn­um 25. maí 2004 og til­kynnti 2. júní að því miður skorti sam­hljóm milli þings og þjóðar í svo mik­il­vægu máli. Hann vildi með ákvörðun sinni gegn lög­un­um brúa djúpa „gjá milli þing­vilja og þjóðar­vilja“.

Þegar Ólaf­ur Ragn­ar leit yfir sviðið snemma morg­uns 24. júlí 2004 skrifaði hann í dag­bók­ina: „At­b­urðarás­in hef­ur gjör­breytt stöðu for­seta­embætt­is­ins. Nú hef­ur það al­vöruþunga. Lyk­il­stofn­un í lýðræðis­kerfi lands­ins, var­in af tugþúsund­um sem vilja að for­set­inn geti veitt þeim rétt. Nú er rætt í al­vöru um að for­set­inn og þingið fari sam­an með lög­gjaf­ar­valdið.“

Í bókarlok seg­ir Ólaf­ur Ragn­ar dag­bæk­urn­ar geyma fjóra veg­vísa um hvernig hann hafi breytt for­seta­embætt­inu. 1. Mál­skots­rétt­ur og þjóðar­at­kvæðagreiðslur. 2. Mynd­un rík­is­stjórna. 3. Þingrofs­valdið. 4. Málsvörn á er­lend­um vett­vangi.

Um mál­skots­rétt og þjóðar­at­kvæðagreiðslur er ekk­ert fast í hendi. Það er al­farið und­ir ákvörðun for­seta hverju sinni komið hvernig hann túlk­ar 26. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar. Hafi þjóðin viljað kjósa póli­tísk­an for­seta eft­ir for­setatíð Ólafs Ragn­ars hefði hún kosið aðra fram­bjóðend­ur en Guðna Th. Jó­hann­es­son og Höllu Tóm­as­dótt­ur. Þeirra stíll er all­ur ann­ar en hans.

Ákvæðið um svig­rúm for­seta er opið og til að ákv­arða inn­tak þess þarf annaðhvort að breyta stjórn­ar­skránni eða láta reyna á vald­heim­ild for­seta fyr­ir dóm­stól­um.

Ólaf­ur Ragn­ar seg­ir í bók­inni að árið 2004 hafi verið rætt í al­vöru um að for­set­inn væri hluti af lög­gjaf­ar­vald­inu. Í for­seta­kosn­ing­un­um á liðnu sumri sagði einn fram­bjóðenda að for­seti gæti gefið ráðherr­um fyr­ir­mæli um að flytja laga­frum­vörp. Hann var langt frá því að ná kjöri.

Í dag­bókar­færsl­um kem­ur fram að Ólaf­ur Ragn­ar vilji að stjórn­ar­skrá­in tryggi bæði til­vist ákvæðis­ins í 26. gr. henn­ar og „sjálf­stæðan þjóðar­at­kvæðarétt fyr­ir þjóðina“ eins og hann orðar það. Kenn­ing hans er að sjálf­stæðis­menn vilji þrengja að for­seta­embætt­inu og leggja áherslu á síðari kost­inn af því að þeir viti að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn eign­ist aldrei for­seta!

Ólaf­ur Ragn­ar mótaði ekki neinn veg­vísi við stjórn­ar­mynd­un. Til kasta hans kom aðeins einu sinni vegna stjórn­ar­kreppu. Það var í lok janú­ar 2009 þegar minni­hluta­stjórn Sam­fylk­ing­ar og VG var mynduð með stuðningi Fram­sókn­ar­flokks­ins. Vorið 2013 tók hann um­deilda ákvörðun um að veita Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni, Fram­sókn­ar­flokki, stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boð. Dag­bók­in sýn­ir hins veg­ar að for­set­inn var með putt­ana í ákvörðunum um stórt og smátt í stjórn­artíð Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur og Stein­gríms J. Sig­fús­son­ar. Ólaf­ur Ragn­ar leit á þau sem hjálp­ar­vana flokks- og hug­sjóna­systkini og komst upp með hluti sem áður voru óþekkt­ir í sam­skipt­um for­seta og ráðherra. Eru þær lýs­ing­ar niður­lægj­andi fyr­ir ráðherra sem í hlut eiga.

Kenn­ing­in um að Guðni Ágústs­son, þáver­andi land­búnaðarráðherra, hafi hitt Ólaf Ragn­ar á laun á far­sa­kennd­um fundi og breytt regl­unni um að þingrofs­valdið sé í hönd­um for­sæt­is­ráðherra stenst ekki þótt Ólaf­ur Ragn­ar hafi ekki trúað Sig­mundi Davíð for­sæt­is­ráðherra sem kom með þingrofs­bréf til Bessastaða snemma árs 2016.

Ólaf­ur Ragn­ar fór á ystu nöf við beit­ingu for­seta­valds. Orð hans um eig­in af­rek og um­mæli um ein­stak­linga í bók­inni sýna að hon­um hætt­ir til að ganga lengra en góðu hófi gegn­ir. Orðið trúnaðarsam­tal hef­ur til dæm­is sér­staka merk­ingu hjá hon­um. Birt­ing dag­bókar­færsln­anna sann­ar það.