Ógnvænlegt þrátefli í Úkraínu
Morgunblaðið, laugardagur, 27. ágúst 2022.
Minningin um Tsjernóbíl-kjarnorkuslysið í norðurhluta Úkraínu árið 1986 er enn ofarlega í huga margra sem muna viðbrögðin við því og hræðslubylgjuna sem fór um alla Evrópu vegna ótta við geislavirkni. Minningunni hefur verið haldið á lífi af rithöfundum og kvikmyndagerðarmönnum. Lygavefur sovéskra yfirvalda í kringum slysið og viðbrögðin við því hefur verið rofinn. Við blasir gjörspillt, aðgerðalítið stjórnkerfi þar sem allt var gert til að leyna sannleikanum.
Ekkert er breytt að þessu leyti þegar litið er til stjórnarhátta
Vladimirs Pútins og valdaklíku hans í Rússlandi samtímans.
Rússneski herinn nýtir sér meira að segja stærsta kjarnorkuver
Evrópu í suðurhluta Úkraínu, Zaporizhzhia kjarnorkuverið, sem vopn í
stríðinu gegn Úkraínu og í raun Evrópu allri.
Kjarnorkuverið í Zaporizhzhiia.
Gerist eitthvað svipað í Zaporizhzhia og varð í Tsjernóbíl yrði hættan margföld, hroðalegur liður í rússneskum stríðsrekstri. Beita má kjarnorku og geislavirkni án sprengju eða skotflaugar.
Breska varnarmálaráðuneytið sagði fimmtudaginn 25. ágúst frá því að gervihnattarmyndir sýndu rússneska skriðdreka aðeins um 60 metra frá kjarnorkuverinu. Þá bárust fréttir um að tenging versins við landsnet Úkraínu hefði verið rofin í fyrsta sinn í sögu þess.
Rússar náðu verinu á sitt vald snemma í mars. Tæknimenn frá Úkraínu hafa til þessa haldið utan um allan búnað. Tveir af sex kjarnakljúfum versins voru enn starfræktir fyrir landsnet Úkraínu þar til fimmtudaginn 25. ágúst.
Í loftinu liggur hætta á kjarnorkuslysi. Ásakanir ganga á víxl. Alþjóðlegir eftirlitsmenn hafa ekki sannreynt neitt.
Óttinn við það sem þarna kann að gerast varpar ljósi á þráteflið um framtíð Úkraínu 0sex mánuðum eftir að innrás Rússa hófst. Þeir halda um 20% af landi Úkraínu. Yfirlýst markmið Volodymyrs Zelenskíjs Úkraínuforseta er að ná öllum herteknum svæðum úr höndum Rússa, þar á meðal Krímskaga.
Forsetinn býr þjóðina með öðrum orðum undir langvinnt stríð, þreytistríð. Sé það háð af rúmlega 40 milljón manna þjóð við 144 milljón manna óvinaþjóð ættu úrslitin að liggja á borðinu. Svo er þó ekki í þessu tilviki. Hvað eftir annað hefur baráttuþrek Úkraínumanna komið á óvart andspænis ráðþrota, illa búnum rússneskum hermönnum.
Sé að marka kannanir eru allt að 92% Úkraínumanna að baki sjálfstæðisstríðinu. Í Rússlandi eru þeir teknir höndum sem nota orðið „stríð“. Hve lengi Kremlverjar geta blekkt þjóð sína og beitt ógnarvaldi til að knýja stríðsvélina veit enginn.
Í þjóðhátíðarræðu miðvikudaginn 24. ágúst sagði Úkraínuforseti:
„Ný þjóð birtist heiminum klukkan 4 að morgni 24. febrúar. Hún fæddist ekki, heldur endurfæddist. Þjóð sem grét ekki, öskraði eða var óttaslegin. Hún lagði ekki á flótta. Gafst ekki upp. Og gleymdi engu. Við látum ekki hræða okkur að samningaborðinu með byssu við höfuð. Í okkar huga birtist hræðilegasta járnið ekki í eldflaugum, flugvélum og skriðdrekum heldur í hlekkjum. Ekki í skotgröfum heldur fótajárnum.“
Forsetinn víkur þarna að kjarna hernaðarátakanna, frelsisþránni. Án hennar hefðu Úkraínumenn ekki snúist til varnar. Þeir vilja sjálfir ráða örlögum sínum, búa í heimi þar sem virt eru alþjóðalög og mannúðleg samskipti. Rússar troða á þessu öllu.
Innrásin var gerð með þeim rökum Pútins að Úkraína ætti hvorki tilverurétt sem ríki né þjóðin sem þjóð. Það ætti að afmá landamærin gagnvart Rússlandi, afvopna þjóðina og afnazistavæða hana, uppræta lýðræðislega stjórnarhætti og aflífa stjórnendur í Kyív. Frá þessu markmiði hörðustu stuðningsmanna stríðsins og Pútins hefur ekki verið horfið.
Í vikunni var gerð útför Dariu Duginu sjónvarpskonu sem barðist undir merkjum stór-rússneskrar þjóðernisstefnu við hlið föður síns, hugmyndafræðings stefnunnar. Hún var myrt með bílsprengju sem rússneska öryggislögreglan, FSB, klínir purkunarlaust á úkraínska konu sem hafi laumað sér til Moskvu með 12 ára dóttur sinni og síðan flúið til Eistlands.
Ræður við útförina boðuðu skelfilegt framhald Úkraínustríðsins, ráði ræðumenn einhverju um herför Pútins.
Alexander Dugin, faðir Darinu, taldi það eitt réttlæta dauða dóttur sinnar að sigra í stríðinu, hún hefði lifað fyrir sigurinn og dáið fyrir hann. „Okkar rússneska sigur, sannleika okkar, rétttrúnað okkar, ríki okkar.“
Álitsgjafi aðalrásar rússneska ríkissjónvarpsins, Alexei Mukhin, sagði:
„Dasha Dugina er í mínum huga Jóhanna af Örk okkar tíma.“
Jóhanna af Örk var frönsk frelsishetja á 15. öld. Hún aflétti umsátri Englendinga um borgina Orlèans á aðeins níu dögum. Hún varð þjóðhetja sautján ára en Englendingar brenndu hana á báli þegar hún var aðeins 19 ára. Árið 1920 tók kaþólska kirkjan hana í dýrlinga tölu.
Rússneski herinn er ekki nú til stórræða utan Úkraínu. Með logandi ljósi er leitað að nýjum hermönnum um allt Rússland. Þeir eru fluttir úr herstöðvum skammt frá landamærum NATO-ríkja, til dæmis í norðri. Sannar það enn að Moskvumenn óttast ekki árás úr vestri hvað sem þeir sögðu fyrir innrásina. Að baki henni eru stórveldisdraumar.
Nú, þegar forsetar Eystrasaltsríkjanna þriggja sækja Ísland heim og árétta gildi samstöðu smáþjóða á hættutímum, fækkar dag frá degi minnismerkjum um sovéska hernámið í löndum þeirra. Svigrúm hefur loks skapast eftir frelsi í 30 ár til að fjarlægja þessi tákn kúgunar Kremlverja.
Nágrannaþjóðir Rússa vita best að styðja verður Úkraínumenn til að rússneski herinn fái makleg málagjöld, annars er enginn óhultur.