27.8.2022

Ógnvænlegt þrátefli í Úkraínu

Morgunblaðið, laugardagur, 27. ágúst 2022.

Minn­ing­in um Tsjernóbíl-kjarn­orku­slysið í norður­hluta Úkraínu árið 1986 er enn of­ar­lega í huga margra sem muna viðbrögðin við því og hræðslu­bylgj­una sem fór um alla Evr­ópu vegna ótta við geisla­virkni. Minn­ing­unni hef­ur verið haldið á lífi af rit­höf­und­um og kvik­mynda­gerðarmönn­um. Lyga­vef­ur sov­éskra yf­ir­valda í kring­um slysið og viðbrögðin við því hef­ur verið rof­inn. Við blas­ir gjör­spillt, aðgerðalítið stjórn­kerfi þar sem allt var gert til að leyna sann­leik­an­um.

Ekk­ert er breytt að þessu leyti þegar litið er til stjórn­ar­hátta Vla­dimirs Pút­ins og valdaklíku hans í Rússlandi sam­tím­ans. Rúss­neski her­inn nýt­ir sér meira að segja stærsta kjarn­orku­ver Evr­ópu í suður­hluta Úkraínu, Za­porizhzhia kjarn­orku­verið, sem vopn í stríðinu gegn Úkraínu og í raun Evr­ópu allri.

61007168_303Kjarnorkuverið í Zaporizhzhiia.

Ger­ist eitt­hvað svipað í Za­porizhzhia og varð í Tsjernóbíl yrði hætt­an marg­föld, hroðal­eg­ur liður í rúss­nesk­um stríðsrekstri. Beita má kjarn­orku og geisla­virkni án sprengju eða skot­flaug­ar.

Breska varn­ar­málaráðuneytið sagði fimmtu­dag­inn 25. ág­úst frá því að gervi­hnatt­ar­mynd­ir sýndu rúss­neska skriðdreka aðeins um 60 metra frá kjarn­orku­ver­inu. Þá bár­ust frétt­ir um að teng­ing vers­ins við landsnet Úkraínu hefði verið rof­in í fyrsta sinn í sögu þess.

Rúss­ar náðu ver­inu á sitt vald snemma í mars. Tækni­menn frá Úkraínu hafa til þessa haldið utan um all­an búnað. Tveir af sex kjarna­kljúf­um vers­ins voru enn starf­rækt­ir fyr­ir landsnet Úkraínu þar til fimmtu­dag­inn 25. ág­úst.

Í loft­inu ligg­ur hætta á kjarn­orku­slysi. Ásak­an­ir ganga á víxl. Alþjóðleg­ir eft­ir­lits­menn hafa ekki sann­reynt neitt.

Ótt­inn við það sem þarna kann að ger­ast varp­ar ljósi á þrá­teflið um framtíð Úkraínu 0sex mánuðum eft­ir að inn­rás Rússa hófst. Þeir halda um 20% af landi Úkraínu. Yf­ir­lýst mark­mið Volody­myrs Zelenskíjs Úkraínu­for­seta er að ná öll­um her­tekn­um svæðum úr hönd­um Rússa, þar á meðal Krímskaga.

For­set­inn býr þjóðina með öðrum orðum und­ir lang­vinnt stríð, þreyt­i­stríð. Sé það háð af rúm­lega 40 millj­ón manna þjóð við 144 millj­ón manna óvinaþjóð ættu úr­slit­in að liggja á borðinu. Svo er þó ekki í þessu til­viki. Hvað eft­ir annað hef­ur bar­áttuþrek Úkraínu­manna komið á óvart and­spæn­is ráðþrota, illa bún­um rúss­nesk­um her­mönn­um.

Sé að marka kann­an­ir eru allt að 92% Úkraínu­manna að baki sjálf­stæðis­stríðinu. Í Rússlandi eru þeir tekn­ir hönd­um sem nota orðið „stríð“. Hve lengi Kreml­verj­ar geta blekkt þjóð sína og beitt ógn­ar­valdi til að knýja stríðsvél­ina veit eng­inn.

Í þjóðhátíðarræðu miðviku­dag­inn 24. ág­úst sagði Úkraínu­for­seti:

„Ný þjóð birt­ist heim­in­um klukk­an 4 að morgni 24. fe­brú­ar. Hún fædd­ist ekki, held­ur end­ur­fædd­ist. Þjóð sem grét ekki, öskraði eða var ótta­sleg­in. Hún lagði ekki á flótta. Gafst ekki upp. Og gleymdi engu. Við lát­um ekki hræða okk­ur að samn­inga­borðinu með byssu við höfuð. Í okk­ar huga birt­ist hræðileg­asta járnið ekki í eld­flaug­um, flug­vél­um og skriðdrek­um held­ur í hlekkj­um. Ekki í skot­gröf­um held­ur fóta­járn­um.“

For­set­inn vík­ur þarna að kjarna hernaðarátak­anna, frels­isþránni. Án henn­ar hefðu Úkraínu­menn ekki snú­ist til varn­ar. Þeir vilja sjálf­ir ráða ör­lög­um sín­um, búa í heimi þar sem virt eru alþjóðalög og mannúðleg sam­skipti. Rúss­ar troða á þessu öllu.

Inn­rás­in var gerð með þeim rök­um Pút­ins að Úkraína ætti hvorki til­veru­rétt sem ríki né þjóðin sem þjóð. Það ætti að afmá landa­mær­in gagn­vart Rússlandi, af­vopna þjóðina og af­nazista­væða hana, upp­ræta lýðræðis­lega stjórn­ar­hætti og af­lífa stjórn­end­ur í Kyív. Frá þessu mark­miði hörðustu stuðnings­manna stríðsins og Pút­ins hef­ur ekki verið horfið.

Í vik­unni var gerð út­för Dariu Dug­inu sjón­varps­konu sem barðist und­ir merkj­um stór-rúss­neskr­ar þjóðern­is­stefnu við hlið föður síns, hug­mynda­fræðings stefn­unn­ar. Hún var myrt með bíl­sprengju sem rúss­neska ör­ygg­is­lög­regl­an, FSB, klín­ir purk­un­ar­laust á úkraínska konu sem hafi laumað sér til Moskvu með 12 ára dótt­ur sinni og síðan flúið til Eist­lands.

Ræður við út­för­ina boðuðu skelfi­legt fram­hald Úkraínu­stríðsins, ráði ræðumenn ein­hverju um her­för Pút­ins.

Al­ex­and­er Dug­in, faðir Dar­inu, taldi það eitt rétt­læta dauða dótt­ur sinn­ar að sigra í stríðinu, hún hefði lifað fyr­ir sig­ur­inn og dáið fyr­ir hann. „Okk­ar rúss­neska sig­ur, sann­leika okk­ar, rétt­trúnað okk­ar, ríki okk­ar.“

Álits­gjafi aðal­rás­ar rúss­neska rík­is­sjón­varps­ins, Al­ex­ei Muk­hin, sagði:

„Dasha Dug­ina er í mín­um huga Jó­hanna af Örk okk­ar tíma.“

Jó­hanna af Örk var frönsk frels­is­hetja á 15. öld. Hún aflétti umsátri Eng­lend­inga um borg­ina Or­lè­ans á aðeins níu dög­um. Hún varð þjóðhetja sautján ára en Eng­lend­ing­ar brenndu hana á báli þegar hún var aðeins 19 ára. Árið 1920 tók kaþólska kirkj­an hana í dýr­linga tölu.

Rúss­neski her­inn er ekki nú til stór­ræða utan Úkraínu. Með log­andi ljósi er leitað að nýj­um her­mönn­um um allt Rúss­land. Þeir eru flutt­ir úr her­stöðvum skammt frá landa­mær­um NATO-ríkja, til dæm­is í norðri. Sann­ar það enn að Moskvu­menn ótt­ast ekki árás úr vestri hvað sem þeir sögðu fyr­ir inn­rás­ina. Að baki henni eru stór­veld­is­draum­ar.

Nú, þegar for­set­ar Eystra­salts­ríkj­anna þriggja sækja Ísland heim og árétta gildi sam­stöðu smáþjóða á hættu­tím­um, fækk­ar dag frá degi minn­is­merkj­um um sov­éska her­námið í lönd­um þeirra. Svig­rúm hef­ur loks skap­ast eft­ir frelsi í 30 ár til að fjar­lægja þessi tákn kúg­un­ar Kreml­verja.

Ná­grannaþjóðir Rússa vita best að styðja verður Úkraínu­menn til að rúss­neski her­inn fái mak­leg mála­gjöld, ann­ars er eng­inn óhult­ur.