17.2.2024

Nýr tónn í útlendingaumræðum

Morgunblaðið, laugardagur 17. febrúar 2024.

Nú eru fjór­ar vik­ur frá því að Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, birti færslu á Face­book (19. janú­ar) þar sem sagði „óboðlegt með öllu að Reykja­vík­ur­borg“ hefði gefið leyfi fyr­ir dap­ur­leg­um tjald­búðum á Aust­ur­velli „þess­um helga stað milli stytt­unn­ar af Jóni Sig­urðssyni og Alþing­is“.

Bjarni sagðist skilja áhyggj­ur og óvissu þeirra sem dveldu hér fjarri fjöl­skyld­um sín­um sem marg­ar byggju við skelfi­leg­ar aðstæður. Hann minnti jafn­framt á að yf­ir­völd hér fengju marg­falt fleiri um­sókn­ir frá hæl­is­leit­end­um en ná­granna­rík­in. Hærra hlut­fall um­sókna væri auk þess tekið til efn­is­legr­ar meðferðar hér með já­kvæðri niður­stöðu. Hvergi á Norður­lönd­un­um hefði verið tekið við fleiri Palestínu­mönn­um en hér og hvergi hefðu held­ur fleiri beiðnir Palestínu­manna um fjöl­skyldusam­ein­ing­ar verið tekn­ar til flýtimeðferðar eft­ir 7. októ­ber.

Bjarni hvatti til þess að ís­lensk­ar regl­ur um hæl­is­leit­enda­mál yrðu hert­ar og sam­ræmd­ar því sem gerðist hjá ná­grannaþjóðum. Auka þyrfti eft­ir­lit á landa­mær­um. Nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag væri „al­ger­lega komið úr bönd­un­um, bæði varðandi kostnað og fjölda um­sókna“. Innviðir okk­ar væru komn­ir að þol­mörk­um og nú á vorþingi skipti öllu að á þess­um mál­um yrði tekið af festu og ör­yggi. Alþingi hefði ít­rekað brugðist og hafnað til­lög­um dóms­málaráðherra sem meðal ann­ars hefðu átt að taka á þess­ari stöðu, þótt nokk­ur já­kvæð skref hefðu verið tek­in. Sam­hliða þessu þyrfti að styrkja lög­regl­una m.a. með aukn­um heim­ild­um í bar­átt­unni gegn inn­lendri og alþjóðlegri brot­a­starf­semi.

Bjarni sagði síðan í ann­arri færslu á Face­book (22. janú­ar) að fólki væri sann­ar­lega frjálst að vera sér ósam­mála um vand­ann í hæl­is­leit­enda­kerf­inu. Á hinn bóg­inn taldi hann það al­gjört þrot lýðræðis­legr­ar umræðu þegar sagt væri að sjón­ar­mið sín sýndu „skort á samúð og skiln­ingi á aðstæðum fólks í viðkvæmri stöðu“. Hann hefði þvert á móti „ít­rekað lýst samúð okk­ar og skiln­ingi á stöðu fólks sem lif­ir í ótta um af­drif ætt­ingja sinna á fjar­læg­um slóðum“. Ísland hefði beitt sér af krafti alls staðar sem því væri við komið og við hefðum ekki látið okk­ar eft­ir liggja í mót­töku og stuðningi við fólk frá Gasa – þvert á móti.

Bjarni hafnaði full­yrðingu Semu Erlu Ser­d­aroglu, aðjúnkts við Há­skóla Íslands og stofn­anda Solar­is, sem sagði í frétt­um rík­is­út­varps­ins að hann hefði haft uppi óhróður um hóp fólks og hann væri „í reynd að hvetja til andúðar og of­beld­is“, hann hefði brotið al­menn hegn­ing­ar­lög með orðum sín­um.

1462904

Fyr­ir þess­um ásök­un­um eru eng­in rök. Bjarni setti hins veg­ar umræður um út­lend­inga­mál í nýj­an far­veg. Tónn­inn sem hann gaf hlaut mik­inn hljóm­grunn. Skoðanir annarra stjórn­mála­manna og al­menn­ings breytt­ust. Var því ekki að undra að öfga­kon­an Sema Erla hefði helst viljað að lög­regla þaggaði niður í hon­um. Það mistókst með ösk­ur­kór mót­mæl­enda og trumbuslætti eða aðför að fólki og mann­virkj­um.

Hún fór síðan til Egypta­lands til að ná í fólk á Gasa og slá um sig í rík­is­út­varp­inu á kostnað starfs­manna ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar. Í Dan­mörku sæta þeir ákæru sem bera lof á hryðju­verk Ham­as í sjón­varpi. Hér vilja öfga­menn að þessu sé öf­ugt farið.

Nú í vik­unni hafa tveir flokks­for­menn, Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir Viðreisn og Kristrún Frosta­dótt­ir Sam­fylk­ingu, boðað stefnu­breyt­ingu í út­lend­inga­mál­um.

Guðrún Haf­steins­dótt­ir dóms­málaráðherra, Sjálf­stæðis­flokki, nýt­ur óskoraðs stuðnings for­manns og þing­flokks síns þegar hún flyt­ur frum­varp um svo­kallað „lokað bú­setu­úr­ræði“, það er sam­astað fyr­ir hæl­is­leit­end­ur sem bíða brott­vís­un­ar úr landi eft­ir af­greiðslu mála þeirra. Frum­varpið var í sam­ráðsgátt stjórn­valda frá 19. janú­ar til 3. fe­brú­ar og er nú á loka­stigi hjá ráðherr­an­um.

Á fyrri stig­um mátti stjórn­ar­andstaðan ekki heyra á slíkt úrræði minnst. Þor­gerður Katrín sagði hins veg­ar í grein á Vísi 14. fe­brú­ar að hún væri til viðræðu um frum­varpið enda yrði farið að barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna við vist­un barna.

Áður hafði Kristrún Frosta­dótt­ir sagt í hlaðvarpsþætt­in­um Ein pæl­ing 10. fe­brú­ar að hún teldi að Ísland ætti ekk­ert að skera sig úr meðal Norður­landa í út­lend­inga­mál­um. Við yrðum „auðvitað bara að ganga í takt við aðrar þjóðir hvað það varðar“. Raun­sæi yrði að ráða og varðstaða um innri kerfi rík­is­ins með gæslu landa­mæra. Hún hefði skiln­ing á áform­um Guðrún­ar Haf­steins­dótt­ur um lokað bú­setu­úr­ræði.

Skömmu áður en flokks­formaður­inn lét þessi orð falla sagði In­ger Erla Thomsen, varaþingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, í ræðu á þingi að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn notaði fólk sem fast væri á Gasa sem skipti­mynt gegn því að knýja í gegn harðari út­lend­inga­lög­gjöf, til dæm­is lokað bú­setu­úr­ræði.

Ósmekk­leg­ar dylgj­ur af þessu tagi hafa ein­kennt mál­flutn­ing Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í út­lend­inga­mál­um. Vilji flokks­formaður­inn breyta um stefnu ætti hún að hefjast handa inn­an sex manna þing­flokks­ins.

Hér skal full­yrt að þessi veðrabrigði í út­lend­inga­mál­um á inn­lend­um stjórn­mála­vett­vangi hefðu ekki orðið nema vegna þess að formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins blés til varn­ar vegna niður­læg­ing­ar Aust­ur­vall­ar. Um­gengni þar er sýni­leg mynd af sjálfs­virðingu þjóðar­inn­ar.

Borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur ákveður um­gjörð og at­hafn­ir á Aust­ur­velli með leyf­is­veit­ing­um sín­um. Virðing henn­ar fyr­ir höfuðborg­inni, Jóni Sig­urðssyni, Dóm­kirkj­unni og Alþing­is­hús­inu blas­ir við á þess­um litla velli. Vitn­is­b­urður­inn er skamm­ar­leg­ur, í einu orði sagt.