27.4.2024

Nýr tónn í öryggismálum

Morgunblaðið, laugardagur 27. apríl 2024

Árið 2024, 80 árum frá því að ís­lenska lýðveldið var stofnað og 75 árum frá því að Ísland gerðist stofnaðili NATO, rík­ir hér enn brengluð hug­mynd hjá mörg­um um stöðu þjóðar­inn­ar á alþjóðavett­vangi. Yf­ir­lýs­ing­in um „ævar­andi hlut­leysi“ í sam­bands­laga­sátt­mál­an­um frá 1918 svíf­ur enn í hug­ar­heimi fólks. Þá er ekki gerður grein­ar­mun­ur á orðunum „hlut­leysi“ og „her­leysi“.

Sé sagt að ríki sé hlut­laust og þess vegna án hers ber það vott um þekk­ing­ar­leysi. Sviss­lend­ing­ar ráða yfir öfl­ug­um herafla og búa við skipu­lag þar sem kalla má alla vopn­færa menn til þjón­ustu í þágu ör­ygg­is rík­is­ins sé hernaðarlega hætta á ferðum. Til Sviss er jafn­an litið sem þess Evr­ópu­rík­is sem lagt hef­ur mesta alúð við hlut­leysi sitt.

Á þetta er minnst hér vegna þess sem fram kom á ráðstefnu sem Alþjóðamála­stofn­un Há­skóla Íslands, ut­an­rík­is­ráðuneytið og Nor­ræna húsið efndu til síðasta vetr­ar­dag í sam­starfi við Fé­lag stjórn­mála­fræðinga og Stofn­un stjórn­sýslu­fræða og stjórn­mála und­ir heit­inu: Alþjóðasam­vinna á kross­göt­um: Hvert stefn­ir Ísland?

IMG_9755Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands flutti hátíðarræðu í upphafi ráðstefnunnar í Norræna húsinu.

Spurn­ing­in kann að vekja þá hugs­un að ein­hver óvissa sé um hvert Ísland stefni þótt all­ar ákv­arðanir um alþjóðamál í átta ára­tugi hafi miðað að því að eyða öll­um vafa um hvar Ísland stæði og hvert það stefndi á alþjóðavett­vangi. Ísland er nor­rænt lýðræðis­ríki í NATO með tví­hliða varn­ar­samn­ing við Banda­rík­in og aðild að sam­eig­in­leg­um innri markaði Evr­ópu með samn­ing­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið.

All­ir sem þekkja til alþjóðamála og vita hvernig ríki skipa sér í banda­lög og hópa sjá af þess­ari lýs­ingu að Íslend­ing­ar velja sér stað meðal auðug­ustu lýðræðisþjóða heims. Varla dett­ur nokkr­um í hug að þjóðin vilji yf­ir­gefa þann hóp. Síst af öllu á mikl­um óvissu­tím­um.

Spurn­ing­in í heiti ráðstefn­unn­ar er ekki til að svara ein­hverju sem brenn­ur á stjórn­völd­um annarra ríkja. Spurn­ing­unni er beint að okk­ur Íslend­ing­um sjálf­um. Til­efnið er þó ekki vegna þess að hér séu ákaf­ar deil­ur um hvert skuli stefna. Ekk­ert á stjórn­mála­vett­vangi gef­ur til kynna ágrein­ing um það. Samstaðan um ut­an­rík­is­mál er þvert á móti meiri en við eig­um að venj­ast miðað við 80 ára reynslu.

Krafa um aðild að ESB fer svo lágt að hún heyr­ist varla. Þeir eru meira að segja há­vær­ari sem vilja minni tengsl við ESB án þess þó að boða úr­sögn úr EES. Þeir sjá ein­fald­lega ekki skyn­sam­legri kost.

Ráðstefn­an í Nor­ræna hús­inu skipt­ist í mál­stof­ur og hér verður aðeins staldrað við þá fyrstu um efnið: Nýj­ar ógn­ir og versn­andi horf­ur: Staða Íslands í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um.

Það var rétt mat hjá skipu­leggj­end­um ráðstefn­unn­ar að láta mál­stof­ur á henni hefjast á þess­um þætti. Sé ör­yggi þjóða ógnað ýtir hætt­an vegna þess öllu öðru til hliðar.

Er­indi fluttu Erl­ing­ur Erl­ings­son hernaðarsagn­fræðing­ur og Silja Bára Ómars­dótt­ir, pró­fess­or í alþjóðasam­skipt­um við Há­skóla Íslands, og þau tóku síðan þátt í pall­borðsum­ræðum með Diljá Mist Ein­ars­dótt­ur, for­manni ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar alþing­is og þing­manni Sjálf­stæðis­flokks­ins, Jónasi All­ans­syni, skrif­stofu­stjóra varn­ar­mála­skrif­stofu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins, og Ragn­ari Hjálm­ars­syni, doktor í stjórn­ar­hátt­um. Pia Hans­son for­stöðumaður alþjóðamála­stofn­un­ar stjórnaði umræðunum.

Það blasti við aug­ljós breyt­ing á umræðum um ís­lensk ör­ygg­is­mál þegar þau skipt­ust á skoðunum við pall­borðið. Þau gengu öll að því sem vísu að aðild­in að NATO og varn­ar­samn­ing­ur­inn væru fasta und­ir­staðan og nú væri nor­ræn sam­vinna ný vídd ís­lenskra ör­ygg­is­mála. Spurn­ing­in hvert Íslend­ing­ar stefndu sner­ist um hvað en ekki hvort við gæt­um lagt meira af mörk­um til eig­in ör­ygg­is og banda­manna okk­ar.

Ein rödd um sér­stöðu kom utan úr sal, frá for­setafram­bjóðand­an­um Ástþóri Magnús­syni. Hann bað um orðið og taldi að senda ætti nefnd manna til Moskvu og semja um Úkraínufrið við Pútín.

Inn­grip Ástþórs um að með þessu sýndi hann vilja til friðar en pall­borðsfólkið vildi ófrið minnti á brengluðu hug­mynd­ina um að þeir sem vilja öfl­ug­ar varn­ir og fæl­ing­ar­mátt til að halda hugs­an­leg­um and­stæðingi í skefj­um tali fyr­ir stríði en friðþæg­ing­arsinn­ar tryggi frið. Ástþór snýr ein­fald­lega öllu á haus eins og best sann­ast með til­efn­is­lausri inn­rás Rússa í trássi við alþjóðalög og samn­inga í varn­ar­litla Úkraínu.

Inn­an ramma NATO-aðild­ar­inn­ar, í nor­rænu varn­ar­sam­starfi og í tví­hliða varn­ar­sam­vinn­unni við Banda­rík­in höf­um við tæki­færi til að láta miklu meira að okk­ur kveða. Við verðum að auka út­gjöld til borg­ara­legra þátta sem styrkja ör­yggi okk­ar inn á við og út á við, lög­gæslu og land­helg­is­gæslu. Kaupa þyrl­ur og dróna og efla gæslu vegna strengja neðan­sjáv­ar.

Nýta ber tæki­færi til að senda Íslend­inga til starfa fyr­ir NATO og aðrar ör­ygg­is­mála­stofn­an­ir. Þjóðina skort­ir mannauð á þessu sviði. Hann skap­ast með starfs­reynslu, mennt­un og rann­sókn­um.

Það ber að upp­færa þjóðarör­ygg­is­stefn­una með vís­an til grein­ing­ar á hernaðarlegri áhættu, birgj­um og búnaði. Miðla verður meiri upp­lýs­ing­um um hernaðar­mál­efni. Þau mál ber ekki hátt í huga al­menn­ings og kjós­enda vegna þess að hvorki stjórn­mála­menn né fjöl­miðlamenn gera þeim hátt und­ir höfði.

Sama dag og ráðstefn­an var hald­in birt­ist forsíðufrétt hér í blaðinu um að kín­verski sendi­herr­ann á Íslandi segði að inn­an fá­einna ára myndu Kín­verj­ar hefja beint flug hingað til lands. Til­kynn­ing­in sýn­ir að um ákvörðun komm­ún­ista­flokks Kína er að ræða. Hvert stefn­ir Ísland ef af þessu verður? Stjórn­völd hljóta að ræða málið með ör­ygg­is­hags­muni í huga.