3.4.2023

Nýr skilningur á sögustöðum

Morgunblaðið MENNING Bókmenntir, mánudagur 3. apríl 2023.

Fræðirit Á sögu­stöðum ★★★★· Eft­ir Helga Þor­láks­son. Vaka-Helga­fell, 2022. Innb. 463 bls., mynd­ir og skrár.

Í inn­gangi bók­ar­inn­ar Á sögu­stöðum lýs­ir höf­und­ur­inn, Helgi Þor­láks­son, fyrrv. pró­fess­or í sagn­fræði við Há­skóla Íslands, verki sínu sem þætti í sagn­fræðilegu upp­gjöri.

Í um 60 ár hafi há­skóla­menntaðir sagn­fræðing­ar gagn­rýnt sögu­skoðun mótaða af þjóðern­is­hyggju, það er „sögu­skoðun sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar“. Gagn­rýn­in hafi ekki breytt miklu. Gamla sögu­skoðunin lifi góðu lífi „í skjóli stjórn­valda, hins op­in­bera, og er­lend­is [sé] talað um „pu­blic history“ og túlk­un sög­unn­ar í há­skóla­sagn­fræði sem eins kon­ar and­stæður.“ (32)

Helgi ger­ir upp við gömlu sögu­skoðun­ina með því að fara til sex sögu­staða og skoða þá án þess að stjórn­ast af þjóðern­is­hyggju. Mark­mið hans er að end­ur­skoða skiln­ing á fræg­um sögu­stöðum, end­ur­skoða skiln­ing á fortíðinni, skiln­ing sem einn tald­ist rétt­ur. Enn frem­ur vill hann kynna nýtt efni, nýj­ar rann­sókn­ir og draga upp nýja mynd. Í þriðja lagi er mark­mið Helga að vekja áhuga, kveikja umræður. (386)

Staðirn­ir sem hann heim­sæk­ir í þessu skyni eru sex: Bessastaðir, Skál­holt, Oddi, Reyk­holt í Borg­ar­f­irði, Hól­ar og Þing­vell­ir.

597dc296-191a-42ef-9e72-4937ba8f3d09

Varla þarf að kynna neinn þess­ara staða fyr­ir ís­lensk­um les­end­um. Þeir þekkja nöfn­in og þau skapa hjá þeim ákveðin hug­hrif. Til fimm staðanna tek­ur inn­an við 90 mín­út­ur að aka í bíl frá Reykja­vík. Reyk­holt í Borg­ar­f­irði og Oddi á Rangár­völl­um eru álíka langt frá höfuðborg­ar­svæðinu. Bessastaðir, Skál­holt og Þing­vell­ir eru nær Reykja­vík og Hól­ar fjær, norður í Hjalta­dal í Skagaf­irði.

Þetta er sagt með vís­an til sam­gangna sam­tím­ans en í bók sinni bregður Helgi ljósi á hvernig farið var til staðanna á miðöld­um. Hvernig þeir eru í sveit sett­ir skipt­ir miklu um virðingu þeirra enn þann dag í dag.

Helgi seg­ir að á Bessa­stöðum hafi kirkj­unni verið gjör­breytt á ár­un­um 1946-8 til að afmá margt sem minnti á danska stjórn á setri for­seta nýs lýðveld­is. Vitnað er í Kristján Eld­járn forn­leifa­fræðing sem sagði þá að kirkj­an hefði verið svipt „sögu­bún­ingi“ og færð í „sögu­laus­an tísku­bún­ing fimmta ára­tug­ar“. (72) Þar virðast „harðar til­finn­ing­ar hafa snú­ist upp í andúð á Dön­um og því sem danskt var“. (111)

Kafla­heitið Skál­holt og heil­ag­ur Þor­lák­ur bein­ir at­hygli les­and­ans að eina ís­lenska dýr­lingn­um, Þor­láki Þór­halls­syni, frá Hlíðar­enda í Fljóts­hlíð sem fór á 12. öld til náms í Par­ís og á Englandi, varð kanoki í fyrsta ís­lenska Ágústínak­laustr­inu sem var stofnað 1168, síðar ábóti og loks bisk­up í Skál­holti. Jó­hann­es Páll páfi II. valdi Þor­lák helga vernd­ar­dýr­ling Íslands árið 1985. Helgi seg­ir að þrátt fyr­ir áhuga ým­issa fræðimanna á heil­ög­um Þor­láki sé hon­um al­mennt lít­ill gaum­ur gef­inn nú á tím­um sem dýr­lingi og saga hans sé van­rækt, eins og sé áber­andi í Skál­holti. (113)

Oddi á Rangár­völl­um skipt­ir miklu í lýs­ingu Helga Þor­láks­son­ar á öll­um sögu­stöðunum. Staðnum má tengja lær­dóms­menn og kirkju­höfðingja sem vörpuðu ljóma á hina staðina. Þá voru land­kost­ir þar mikl­ir. Oddi var kallaður „hinn æðsti höfuðstaður“ um 1200 og tald­ist ann­ar af tveim­ur bestu bú­stöðum lands­ins og „fræg­ast­ur af stöðum“. (148) Af sögu­stöðunum sex hef­ur Oddi ekki enn verið tengd­ur sam­tím­an­um á sama hátt og hinir fimm með mann­virkj­um og menn­ing­ar­viðburðum.

Í kafl­an­um Reyk­holt í Borg­ar­f­irði og Snorri Sturlu­son dreg­ur Helgi upp mynd af Snorra sem „manni laga og friðar“, hann hafi til­einkað sér „aristó­kra­tíska hætti“. (213) Sóst eft­ir að „ná und­ir sig hinu dýr­lega Reyk­holti og ger­ast þar umboðsmaður heil­ags Pét­urs sem tald­ist eiga jörðina og hún skyldi þess vegna njóta sér­stakr­ar helgi“. Staður hafi stuðlað að ímynd Snorra. (215) Hann reisti þar virki sem sæmdi lend­um manni sem voru einna æðstir í hirð Nor­egs­kon­ungs, aðeins jarl var ofar þeim í virðing­arröð. Reyk­holt var „staður“ und­ir for­ræði bisk­upa og Há­kon kon­ung­ur lagði staðinn því ekki und­ir sig eft­ir frá­fall Snorra. (245)

Hól­ar urðu bisk­ups­stóll að ósk Norðlend­inga um 1100 og þar var reist kirkja 1106 eft­ir að Jón Ögmunds­son varð bisk­up auk vandaðs skóla­húss, þess fyrsta sem um get­ur á Íslandi. (247). Í kafl­an­um Hól­ar og helg­ir menn er ít­ar­lega fjallað um Guðmund góða Hóla­bisk­up. Vin­sæld­ir hans sem dýr­lings sem þó veki tak­markaðan áhuga nú á dög­um. Gegni þar lík­lega svipuðu máli og um Þor­lák helga, nei­kvæð göm­ul skrif fræðimanna og hug­mynd­ir um vond er­lend áhrif hafi dregið úr áhuga á þeim, bæði sem bisk­up­um og dýr­ling­um. (277)

Í kafl­an­um um Þing­velli er sagt að Snorri hafi helgað Ólafi helga land Þing­valla til að stuðla að sátt og friði. Ólaf­ur hafi orðið stórvin­sæll dýr­ling­ur á Íslandi, yfir 90 kirkj­ur hafi verið helgaðar hon­um fyr­ir 1400. (339) Ann­ars snýst kafl­inn að veru­legu leyti um Langa­stíg og Stekkj­ar­gjá sem hafi orðið út und­an vegna at­hygli á þing­helg­inni og Al­manna­gjá. Rætt er um af­tökustaði á Þing­völl­um eft­ir siðaskipti og talið að enn sé ástæða til að deila um „rétt­an stað“ Lög­bergs.

Hér hef­ur aðeins verið stiklað á stóru. Höf­und­ur dreg­ur sam­an mik­inn fróðleik um hvern stað máli sínu til stuðnings og til frek­ari umræðna. Stund­um á leikmaður fullt í fangi með að ná utan um all­ar upp­lýs­ing­arn­ar. Nokk­urra end­ur­tekn­inga gæt­ir.

Bók­in er vel úr garði gerð. Þar er ein lit­mynda­örk með skýr­ing­ar­texta við hverja mynd. Víða um bók­ina eru mynd­ir auk korta til að tengja staðina forn­um leiðum. Skrár eru yfir til­vís­an­ir, mynd­ir og nöfn.

Bók­in snýr einkum að fortíð sögu­staðanna sex og hve þeir eiga djúp­ar ræt­ur í þjóðar­sög­unni. Að stjórn­mála­menn og yf­ir­völd á síðari helm­ingi 20. ald­ar og fyrstu ára­tug­um 21. ald­ar aðhyll­ist „gamla sögu­skoðun“ þegar kem­ur að þess­um þátt­um Íslands­sög­unn­ar er lítt rök­stutt. Sé grannt skoðað sést að á fá­ein­um síðustu ára­tug­um hef­ur meira verið gert af op­in­berri hálfu til að tengja fortíð og nútíð á stöðunum en gert var áður um marg­ar ald­ir. Það er efni í aðra bók.