Nýr skilningur á sögustöðum
Morgunblaðið MENNING Bókmenntir, mánudagur 3. apríl 2023.
Fræðirit Á sögustöðum ★★★★· Eftir Helga Þorláksson. Vaka-Helgafell, 2022. Innb. 463 bls., myndir og skrár.
Í inngangi bókarinnar Á sögustöðum lýsir höfundurinn, Helgi Þorláksson, fyrrv. prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, verki sínu sem þætti í sagnfræðilegu uppgjöri.
Í um 60 ár hafi háskólamenntaðir sagnfræðingar gagnrýnt söguskoðun mótaða af þjóðernishyggju, það er „söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar“. Gagnrýnin hafi ekki breytt miklu. Gamla söguskoðunin lifi góðu lífi „í skjóli stjórnvalda, hins opinbera, og erlendis [sé] talað um „public history“ og túlkun sögunnar í háskólasagnfræði sem eins konar andstæður.“ (32)
Helgi gerir upp við gömlu söguskoðunina með því að fara til sex sögustaða og skoða þá án þess að stjórnast af þjóðernishyggju. Markmið hans er að endurskoða skilning á frægum sögustöðum, endurskoða skilning á fortíðinni, skilning sem einn taldist réttur. Enn fremur vill hann kynna nýtt efni, nýjar rannsóknir og draga upp nýja mynd. Í þriðja lagi er markmið Helga að vekja áhuga, kveikja umræður. (386)
Staðirnir sem hann heimsækir í þessu skyni eru sex: Bessastaðir, Skálholt, Oddi, Reykholt í Borgarfirði, Hólar og Þingvellir.
Varla þarf að kynna neinn þessara staða fyrir íslenskum lesendum. Þeir þekkja nöfnin og þau skapa hjá þeim ákveðin hughrif. Til fimm staðanna tekur innan við 90 mínútur að aka í bíl frá Reykjavík. Reykholt í Borgarfirði og Oddi á Rangárvöllum eru álíka langt frá höfuðborgarsvæðinu. Bessastaðir, Skálholt og Þingvellir eru nær Reykjavík og Hólar fjær, norður í Hjaltadal í Skagafirði.
Þetta er sagt með vísan til samgangna samtímans en í bók sinni bregður Helgi ljósi á hvernig farið var til staðanna á miðöldum. Hvernig þeir eru í sveit settir skiptir miklu um virðingu þeirra enn þann dag í dag.
Helgi segir að á Bessastöðum hafi kirkjunni verið gjörbreytt á árunum 1946-8 til að afmá margt sem minnti á danska stjórn á setri forseta nýs lýðveldis. Vitnað er í Kristján Eldjárn fornleifafræðing sem sagði þá að kirkjan hefði verið svipt „sögubúningi“ og færð í „sögulausan tískubúning fimmta áratugar“. (72) Þar virðast „harðar tilfinningar hafa snúist upp í andúð á Dönum og því sem danskt var“. (111)
Kaflaheitið Skálholt og heilagur Þorlákur beinir athygli lesandans að eina íslenska dýrlingnum, Þorláki Þórhallssyni, frá Hlíðarenda í Fljótshlíð sem fór á 12. öld til náms í París og á Englandi, varð kanoki í fyrsta íslenska Ágústínaklaustrinu sem var stofnað 1168, síðar ábóti og loks biskup í Skálholti. Jóhannes Páll páfi II. valdi Þorlák helga verndardýrling Íslands árið 1985. Helgi segir að þrátt fyrir áhuga ýmissa fræðimanna á heilögum Þorláki sé honum almennt lítill gaumur gefinn nú á tímum sem dýrlingi og saga hans sé vanrækt, eins og sé áberandi í Skálholti. (113)
Oddi á Rangárvöllum skiptir miklu í lýsingu Helga Þorlákssonar á öllum sögustöðunum. Staðnum má tengja lærdómsmenn og kirkjuhöfðingja sem vörpuðu ljóma á hina staðina. Þá voru landkostir þar miklir. Oddi var kallaður „hinn æðsti höfuðstaður“ um 1200 og taldist annar af tveimur bestu bústöðum landsins og „frægastur af stöðum“. (148) Af sögustöðunum sex hefur Oddi ekki enn verið tengdur samtímanum á sama hátt og hinir fimm með mannvirkjum og menningarviðburðum.
Í kaflanum Reykholt í Borgarfirði og Snorri Sturluson dregur Helgi upp mynd af Snorra sem „manni laga og friðar“, hann hafi tileinkað sér „aristókratíska hætti“. (213) Sóst eftir að „ná undir sig hinu dýrlega Reykholti og gerast þar umboðsmaður heilags Péturs sem taldist eiga jörðina og hún skyldi þess vegna njóta sérstakrar helgi“. Staður hafi stuðlað að ímynd Snorra. (215) Hann reisti þar virki sem sæmdi lendum manni sem voru einna æðstir í hirð Noregskonungs, aðeins jarl var ofar þeim í virðingarröð. Reykholt var „staður“ undir forræði biskupa og Hákon konungur lagði staðinn því ekki undir sig eftir fráfall Snorra. (245)
Hólar urðu biskupsstóll að ósk Norðlendinga um 1100 og þar var reist kirkja 1106 eftir að Jón Ögmundsson varð biskup auk vandaðs skólahúss, þess fyrsta sem um getur á Íslandi. (247). Í kaflanum Hólar og helgir menn er ítarlega fjallað um Guðmund góða Hólabiskup. Vinsældir hans sem dýrlings sem þó veki takmarkaðan áhuga nú á dögum. Gegni þar líklega svipuðu máli og um Þorlák helga, neikvæð gömul skrif fræðimanna og hugmyndir um vond erlend áhrif hafi dregið úr áhuga á þeim, bæði sem biskupum og dýrlingum. (277)
Í kaflanum um Þingvelli er sagt að Snorri hafi helgað Ólafi helga land Þingvalla til að stuðla að sátt og friði. Ólafur hafi orðið stórvinsæll dýrlingur á Íslandi, yfir 90 kirkjur hafi verið helgaðar honum fyrir 1400. (339) Annars snýst kaflinn að verulegu leyti um Langastíg og Stekkjargjá sem hafi orðið út undan vegna athygli á þinghelginni og Almannagjá. Rætt er um aftökustaði á Þingvöllum eftir siðaskipti og talið að enn sé ástæða til að deila um „réttan stað“ Lögbergs.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru. Höfundur dregur saman mikinn fróðleik um hvern stað máli sínu til stuðnings og til frekari umræðna. Stundum á leikmaður fullt í fangi með að ná utan um allar upplýsingarnar. Nokkurra endurtekninga gætir.
Bókin er vel úr garði gerð. Þar er ein litmyndaörk með skýringartexta við hverja mynd. Víða um bókina eru myndir auk korta til að tengja staðina fornum leiðum. Skrár eru yfir tilvísanir, myndir og nöfn.
Bókin snýr einkum að fortíð sögustaðanna sex og hve þeir eiga djúpar rætur í þjóðarsögunni. Að stjórnmálamenn og yfirvöld á síðari helmingi 20. aldar og fyrstu áratugum 21. aldar aðhyllist „gamla söguskoðun“ þegar kemur að þessum þáttum Íslandssögunnar er lítt rökstutt. Sé grannt skoðað sést að á fáeinum síðustu áratugum hefur meira verið gert af opinberri hálfu til að tengja fortíð og nútíð á stöðunum en gert var áður um margar aldir. Það er efni í aðra bók.