Ný og aukin ábyrgð í varnarmálum
Morgunblaðið, laugardagur 14. 12. 24
Mat á stöðunni í öryggis- og varnarmálum er ekki sagnfræðilegt viðfangsefni heldur brýnt úrlausnarefni líðandi stundar. Brotin fyrirheit eða ákvarðanir reistar á röngu mati geta dregið alvarlegan dilk á eftir sér.
Vegna umskiptanna í Sýrlandi sunnudaginn 8. desember, þegar harðstjóranum Bashar al-Assad var steypt af stóli, var rifjað upp að Barack Obama, þáv. Bandaríkjaforseti, hefði ef til vill getað komið í veg fyrir blóðsúthellingar undanfarinna ára í Sýrlandi.
Í ágúst 2013 skipaði Assad her sínum að beita efnavopnum, saríngasi, gegn uppreisnarmönnum sem höfðu náð einu hverfi í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, á sitt vald. Um 1.400 manns, konur og börn, týndu lífi og spurt var hvers vegna Obama stæði ekki við orð sín frá því í ágúst 2012 um að með beitingu efnavopna yrði stigið skref yfir „rauða línu“ sem myndi hafa „gífurlegar afleiðingar“ og breyta afstöðu hans til þess hvort beita ætti bandarískum herafla í borgarastríðinu í Sýrlandi.
Obama hafði forsetavald til að standa við hótunina. Hann kaus hins vegar að leggja hana í hendur Bandaríkjaþings og ekkert gerðist. Tæpu ári síðar hrifsaði Vladimir Pútin Rússlandsforseti Krímskaga frá Úkraínustjórn án erfiðra eftirmála. Pútin hóf síðan árið 2015 blóðidrifinn stuðning við einræðisherrann í Damaskus sem murkaði miskunnarlaust lífið úr eigin þjóð.
Nú er Bashar al-Assad pólitískur flóttamaður í skjóli Pútins. Rússar höfðu ekki burði til að styðja sýrlenskan skjólstæðing sinn lengur á heimavelli vegna þess hve rússneski herinn er aðþrengdur í Úkraínu. Rússar hafa glatað fótfestu fyrir botni Miðjarðarhafs og áhrifastöðu gagnvart Afríku.
Í vikunni hefur fréttastofa ríkisútvarpsins beint athygli að auknum varnarviðbúnaði og hernaðarlegum umsvifum á Keflavíkurflugvelli. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra birti 28. nóvember ítarlega samantekt um áherslur og aðgerðir í varnarmálum undanfarin misseri. Guðmundur Hálfdanarson, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands, sagði af því tilefni við fréttastofuna:
„Okkar framlag til þessa samstarfs til NATO hefur verið það að leggja til land. Og nú meta bandalagsþjóðir okkar það þannig að það sé meiri ógn, meiri hætta á átökum heldur en verið hefur og þess vegna telja þau að það sé þörf á meiri vígbúnaði.“
Hér er ekki aðeins um mat bandalagsþjóða okkar að ræða heldur einnig ríkisstjórnar Íslands. Án vilja hennar og samþykkis er ekkert skref stigið í þessum efnum hér á landi. Nú er hlutverk hennar annað og meira en þegar Bandaríkjaher rak Keflavíkurstöðina. Aðgerða- og mannvirkjastjórn er á hendi íslenskra stjórnvalda og á ábyrgð utanríkisráðuneytisins. Við daglegan rekstur gegna starfsmenn landhelgisgæslunnar lykilhlutverki.
Samantekt utanríkisráðherra lýsir hve víða starfsmenn utanríkisráðuneytisins koma að fjölþjóðlegum ákvörðunum um hervarnir í okkar heimshluta. Í því efni nægir ekki að líta aðeins til þess sem gerist á vettvangi NATO þótt það skipti mestu að lokum.
Norræna varnarsamstarfið (NORDEFCO) er öflugra og nánara en það hefur nokkru sinni verið. Norrænu ríkin eiga nána samvinnu við Eystrasaltsríkin og saman eru þau aðilar að viðbragðsheraflanum (JEF) þar sem Bretar hafa frumkvæði og forystu. Öll falla norrænu ríkin undir herstjórn NATO í Norfolk í Bandaríkjunum og vinna að sameiginlegri varnaráætlanagerð fyrir Norður-Atlantshaf og norðurslóðir með fulltrúum Bandaríkjanna og Kanada.
Frá öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli (mynd:lhg.is).
Kanadastjórn birti 6. desember stefnuskjal um utanríkisstefnu sína á norðurslóðum, Arctic Foreign Policy. Þar er hún ómyrk í máli um hættuna sem stafar af hernaðarumsvifum Rússa á norðurslóðum og varar einnig eindregið við vaxandi ítökum Kínverja þar. Vegna þess hve Rússar séu illa efnum búnir og þrautpíndir vegna stríðsins í Úkraínu hafi þeir nauðugir hleypt Kínverjum inn á gafl í forðabúri sínu í norðri.
Nefnt er að í júlí 2024 hafi Rússar og Kínverjar vísað til yfirlýsingar frá 2022 um samstarf sitt á norðurslóðum þegar þeir efndu til sameiginlegra heræfinga nyrst í Rússlandi. Þá hafi rússnesk og kínversk herskip stundað sameiginlegt eftirlit undan ströndum Aleuta-eyja á Kyrrahafi. Strandgæsluskip landanna tveggja hafi verið saman við eftirlitsstörf í Beringssundi og eftirlitsflugvélar þeirra farið inn á loftvarnasvæði Alaska og þar með Norður-Ameríku.
Athygli Kanadastjórnar beinist bæði að Norður-Kyrrahafi og Norður-Atlantshafi samhliða norðurslóðum. Í stefnuskjalinu segir að um evrópskan hluta norðurslóða sé keppt hernaðarlega, þar sé mikilvægum mannvirkjum ógnað, sama gildi um öryggi á höfunum og siglingaleiðum.
Vegna breytinga liðinna ára er úrelt að skilgreina framlag Íslendinga til sameiginlegra varna NATO með því einu að nefna landsvæði og varnarframkvæmdir á því. Skilgreiningin varð marklaus við brottför varnarliðsins 30. september 2006. Síðan hefur íslenska stjórnkerfið lagað sig að nýju hlutverki eins og við blasir í nýrri samantekt utanríkisráðherra.
Íslenskir embættismenn eru virkir þátttakendur við töku lykilákvarðana um mótun og skipulag hernaðarlegra málefna í okkar heimshluta. Íslenska ríkið er ekki þiggjandi heldur ábyrgur þátttakandi í stefnumótuninni.
Íslenska ríkið verður samhliða að stokka upp stjórnskipulag sitt til að láta meira að sér kveða á aðgerðasviðinu. Efla verður innlent mat á strategísku stöðunni.
Stjórnmálamenn verða að finna til ábyrgðar í þessum efnum og sýna hana við stjórnarmyndun.