8.5.2003

Hin neikvæða barátta Samfylkingarinnar

Morgunblaðsgrein, 08. 05. 03.

Sérkennilegt er, að í umræðunum um stöðu okkar Íslendinga meðal þjóða heims er oft látið að því liggja, að þá fyrst förum við að njóta okkar sem skyldi, ef við færum í Evrópusambandið. Staðreyndin er hins vegar sú, að síðustu ár hefur okkur vegnað mun betur á öllum sviðum en þjóðum Evrópusambandsins, ef byggt er á þeim mælikvörðun, sem almennt eru notaðir til að mæla velgengni þjóða. Nægir að nefna fjölmennsta ríki Evrópusambandsins, Þýskaland, þar til samanburðar.

 

Rangfærslurnar um stöðu þjóðarinnar í alþjóðlegum samanburði byggjast á svipaðri blekkingu og þeirri, sem birtist í sjónvarpsauglýsingu Samfylkingarinnar, þegar sýnt er, að ung íslensk skólastúlka er að dragast aftur úr á hlaupum eftir eyðilegum þjóðvegi.

 

Að halda því að ungum Íslendingum, að þeim vegni verr en ungu fólki annars staðar er argasta fölsun.  Af öllu því sérkennilega, sem Samfylkingin hefur gripið til í því skyni að ná til sín atkvæðum í kosningabaráttunni, finnst mér hún hafa lotið lægst í þessari blekkingariðju gagnvart ungu skólafólki, jafnvel lægra en í skírskotunum sínum til að sanna, að henni þyki meira um jafnrétti karla og kvenna en öðrum.

 

Neikvæð kynning á málefnum byggist almennt á því í kosningum, að leitast er við að gera lítið úr verkum andstæðinga sinna eða bregða á þá skugga. Í umræðum um menntamál hefur Samfylkingin ekki valið þann kost í auglýsingum sínum, heldur beint athyglinni að nemendum og gefur til kynna, að þeir séu verr í stakk búnir en annarra þjóða fólk til að ná árangri. Þeir séu að dragast aftur úr eða stundi ekki nám sitt af nægilegri alúð heldur ákveði að hverfa úr framhaldsskóla, án þess að ljúka prófi.

 

Til að upphefja sig í jafnréttismálum velur Samfylkingin þann kost að tefla frambjóðanda sínum fram á þann hátt í auglýsingum, að gert er lítið úr þeim, sem treyst hefur verið til forystu þjóðarinnar á síðustu öld. Þeir standi þessum frambjóðanda að baki vegna þess eins að þeir eru karlar en hún kona. Þarna er hinum neikvæðu spjótum einkum beint að látnum forystumönnum, líklega í trausti að þeir geti ekki svarað fyrir sig frekar en skólanemendurnir, sem eru sagðir standa jafnöldrum sínum annars staðar að baki.

 

Viðbrögð hins almenna kjósanda gagnvart því hugarfari, sem einkennt hefur kosningabaráttu Samfylkingarinnar, hafa verið að birtast í minnkandi fylgi hennar í skoðanakönnunum síðustu daga. Því meira, sem þessum neikvæða áróðri er haldið að fólki, því minni verður áhuginn á því að velja þetta Samfylkinguna til forystu.

 

Sjálfumgleðin er þó ekki horfin. Frambjóðendur og málsvarar Samfylkingarinnar ganga til kosninganna með þá skoðun á vörunum, að þeir séu í raun betri manneskjur en við hinir. Hvað mundu hinir hneykslunargjörnu dálkahöfundar segja, ef Davíð Oddsson skrifaði eins og Össur Skarphéðinsson? Össur sagði í Morgunblaðsgrein miðvikudaginn 7. maí: „Hún [Samfylkingin að vísu] var svar allra þeirra sem vilja tefla sjónarmiðum réttlætis og sanngirni gegn sérgæsku og ranglæti í samfélaginu. Samfylkingin er hin breiða kirkja..“

 

Hvaða hugur er að baki því, þegar stjórnmálamenn skrifa þannig um sjálfa sig og eigin flokk? Eigum við venjulegir menn ekki bara að bugta okkur og beygja? Þakka fyrir að fá að stíga á sömu grund og þetta ágæta fólk?

 

Íslandi verður ekki betur stjórnað en gert hefur verið með því að breyta í þágu þeirra, sem telja málstað sínum best borgið með þeim málflutningi, sem hér hefur verið lýst. Nota á aðra mælistiku á stöðu þjóðarinnar en blekkingartal undir merkjum Samfylkingarinnar.  Notum glæsilegan árangur síðustu ára undir forystu Sjálfstæðisflokksins sem viðmiðun, þegar gengið er að kjörborðinu og setjum X við D.