9.1.1997

Um jólabækur

Um jólabækur
- ávarp í Rotary-klúbbi Reykjavíkur
9. janúar 1997

Ég komst í nokkurn vanda, þegar Sveinn Einarsson bað mig að segja frá bók, sem ég hefði lesið nú fyrir eða um jólin, það er bók úr jólabókaflóðinu, sem við nefnum svo. Vandinn stafaði ekki af því, að ég hefði látið undir höfuð leggjast að kynna mér eitthvað af því, sem á boðstólum var, heldur hinu, að ég þurfti að gera upp við mig, hvað af því ég ætti að nefna hér.

Í byrjun nóvember síðastliðins birtist í vikuritinu The Economist listi yfir bóksölu í einstökum löndum á árinu 1995 og var þar byggt á sölu á mann. Þrátt fyrir nýja tækni til upplýsingamiðlunar var metár 1995 í bóksölu á heimsvísu og er stærsti markaðurinn í Bandaríkjunum og hinn næst stærsti í Japan, þar sem nýja tæknin er öflugust. Ef litið er á listann sést, að í Noregi er salan mest á mann en að meðaltali eyddi hver Norðmaður 137 dollurum í bækur á árinu 1995. Í The Economist er Þýskaland í öðru sæti með rúmlega 120 dollara á mann. Lægst er talan í Ítalíu, það er 39 dollarar á mann.

Mér lá forvitni á að vita, hvar Ísland væri í þessari röð, en nafn lands okkar var ekki á þessum lista. Samkvæmt því, sem Þjóðhagsstofnun segir mér, nam heildarbóksala á Íslending 132 dollurum árið 1995 eða um 8. 600 krónum og hefðum við því lent í öðru sæti á lista The Economist. Árið 1995 voru bækur seldar hér á landi fyrir um 2,3 milljarði króna, þar af innlendar fyrir rúman einn og hálfan milljarð.

Lengi hefur verið markmið þeirra, sem standa að bókaútgáfu hér á landi, að geta dreift nýjum bókum jafnar um allt árið. Mér sýnist flest benda til þess, að útgáfutíminn sé frekar að styttast heldur en hitt. Á það rætur að rekja til þeirrar verðsamkeppni, sem nú einkennir bóksölu, til blessunar fyrir okkur bókakaupendur. Líkur snarminnka á því, að menn kaupi bók í ágúst eða september, hvað þá í október og nóvember, ef þeir vita, að í desember er unnt að fá hana 30% ódýrari eða jafnvel á enn lægra verði.

Verðsamkeppnin síðustu daga fyrir jól ýtir undir, að bækur komi ekki út fyrr en rétt í þann mund, sem hún hefst. Þá sé ég ekki betur en þessi samkeppni hafi kippt snarlega stoðunun undan kröfunni um brottfall virðisaukaskatts á bækur. Að minnsta kosti er nauðsynlegt að finna nýjar röksemdir í því máli.

Það eru fleiri listar en sá, sem ég nefndi úr The Economist, sem forvitnilegt er að skoða, þegar rætt er um bækur, því að bæði hér og erlendis stjórnast bóksala mjög af listum. Á ég þar við metsölulistana svonefndu, þeir stjórna vali okkar margra, þegar við stöndum frammi fyrir hlöðnum bóksöluborðum eða hillum. Þá nota útgefendur bókaverðlaun til að hafa áhrif á kaupendur. Hvoru tveggja er þó einnig til þess fallið að vekja almennt athygli og áhuga á bókum, því að skoðanakannanir og verðlaun fá jafnan rými í fjölmiðlum.
Ef litið er á lista yfir 20 mest seldu bækur hér á síðasta ári, sést, að þar eru fimm frumsamdar íslenskar skáldsögur og nefni ég þá ekki bækur fyrir börn og unglinga. Má vel við þetta una.

Bókin, sem ég ætla að nefna hér sérstaklega er í þessum flokki, það er sögulega skáldsagan Lífsins tré eftir Böðvar Guðmundsson. Hún er framhald bókar Böðvars frá því fyrir jólin 1995, Híbýli vindanna.

Í þessu tveggja binda ritverki segir Böðvar ættarsögu, sem snýst að mestu um Vestur-Íslendinga. Ég hugsaði með mér, að þessar bækur hefði ég átt að hafa lesið fyrir rúmum 30 árum þegar ég fór í fyrsta sinn um Íslendingaslóðir í Vesturheimi. Þá hefði ég skoðað það, sem fyrir augu bar af meiri áhuga, og haft mun meiri skilning á lífi og örlögum frænda okkar þar.

Böðvar segist hafa verið að vinna að þessu verki meira og minna í um sex ár. Hann fékk hugmyndina við kennslu í Kanada. Eftir heimkomu þaðan segist hann hafa uppgötvað, að hann átti langafa og langömmu, sem fluttu vestur um haf laust fyrir síðustu aldamót. Las Böðvar mikið af bréfum, sem til voru á heimili hans frá þeim og börnum þeirra. Böðvar velur söguhetjum sínum tónlistargáfuna sem ættarfylgju, en eins og kunnugt er setur ritlistin svip sinn á ævistarf Böðvars og föður hans Guðmundar Böðvarssonar skálds.

Bækurnar eru ritaðar í formi bréfaskáldsögu, þannig að farið er með lesandann fram og til baka í tíma og rúmi. Höfundur segir ekki aðeins sögu einstaklinga heldur stiklar hann einnig á stóru í þróun landnáms Íslendinga í Vesturheimi. Þá eru dregnir fram þættir úr sögu okkar hér heima. Hógvær frásagnarstíll einkennir bækurnar og fellur hann þess vegna vel að því markmiði höfundar, að um bréf sé að ræða.

Tilgangur bréfritarans er að vekja dóttur sína, sem býr í London til umhugsunar um uppruna sinn, arf og íslenska tungu, sem hún hefur aldrei kunnað. Bækurnar beina einnig athygli lesenda sinna að þessum þáttum og hafa þannig almennt gildi fyrir okkur Íslendinga við mat á eigin stöðu í fortíð og samtíð.

Annað íslenskt skáldverk í efstu 20 sætum bóksölulistans á síðasta ári vekur lesandann einnig til umhugsunar um þróun íslensks þjóðlífs, það er Íslandsförin eftir Guðmund Andra Thorsson. Þar er aldarhætti lýst með augum erlends ferðalangs, sem kemur hingað í aðdraganda vesturfaranna.

Að lokum vil ég nefna tvær bækur, sem lýsa vel þróun þjóðlífsins á þessari öld. Eru það annars vegar æviminningar dr. Benjamíns H. J. Eiríkssonar skráðar af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og hins vegar Í eldlínu kalda stríðsins eftir Val Ingimundarson. Inn í persónusögu dr. Benjamíns fléttast flestir stórviðburðir aldarinnar á stjórnmálasviðinu, sem hafa haft mest áhrif á mótun nútímaaðstæðna hér á landi. Valur segir í bók sinni frá þeim atburðum og ákvörðunum, sem réðu úrslitum um sess Íslands í alþjóðlegu samstarfi með öðrum vestrænum ríkjum og þó sérstaklega Bandaríkjunum.

Ég vona, að þessi hraðferð mín yfir nokkrar bækur, sem ég hef lesið undanfarið, geri hlut þeirra ekki verri í ykkar huga. Hún ætti að minnsta kosti að sýna, að saga lands og þjóðar er þeim hugleikinn, sem nú senda frá sér góð ritverk.