20.4.2003

Ísland og evrópska samrunaþróunin

ICELAND AND EUROPEAN DEVELOPMENT

NÝLEGA vorum við nokkrir þingmenn á fundum í Brussel með þingmönnum á Evrópusambandsþinginu. Í hópi viðmælanda okkar var Diana Wallis, Evrópusambandsþingmaður frá Bretlandi, sem hefur skrifað bók um stöðu Íslands og annarra EFTA-ríkja utan Evrópusambandsins. Í viðræðunum kom fram, að hún fagnaði því sérstaklega, að út hefði verið gefin bókin Iceland and European Development - a historical review from a personal perspective eftir Einar Benediktsson sendiherra. Hún gæfi útlendingum glögga mynd af þróun og stöðu mála í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins.

Fyrir evrópska stjórnmálamenn eða aðra málsvara samrunaþróunarinnar í Evrópu undir merkjum Evrópusambandsins er ekki auðvelt að skilja, hvers vegna Íslendingar standa utan þessarar þróunar og hvers vegna enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur á stefnuskrá sinni að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Í bók sinni lýsir Einar Benediktsson stefnu og straumum að því er varðar hlut Íslands í þessari þróun allri.

Fyrir rúmum 40 árum eða 1961 til 1962 unnu íslensk stjórnvöld að því að skilgreina stöðu Íslands gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu eins og Evrópusambandið hét þá.

Gylfi Þ. Gíslason, viðskiptaráðherra í viðreisnarstjórninni, Þórhallur Ásgeirsson, ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins, Jónas H. Haralz, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, og Einar Benediktsson voru þá í forystu í viðræðum Íslands við stjórnendur Efnahagsbandalagsins og ráðamenn aðildarlanda þess um hvaða leið væri best fyrir Ísland gagnvart bandalaginu. Aðild að því var ekki útilokuð en forsendur fyrir henni brustu með öllu í ársbyrjun 1963, þegar Frakkar höfnuðu aðild Breta að Efnahagsbandalaginu.

Einar Benediktsson réðst til starfa í stjórnarráðinu árið 1960 eftir fjögurra ára störf hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OEEC/OECD) í París. Í bók sinni rekur hann í stuttu máli sögu stofnunarinnar og Evrópusambandsins og skýrir jafnframt þróun efnahagsmála hér á þeim árum, þegar verið var að brjótast út úr kerfi hafta og skömmtunar inn á braut þess frjálsræðis, sem var skilyrði fyrir virkri aðild Íslands að hinum efnahagslega samruna í Evrópu.

Ríkisstjórnin hóf vorið 1965 að kanna leiðir Íslands til aðildar að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, en sögu þeirra lýsir Einar einnig. Hann er í einstakri aðstöðu til að lýsa samningaviðræðunum, sem leiddu til aðildar Íslands að EFTA 1. mars 1970. Árið 1967 skrifaði Einar skýrslu um aðild að EFTA, sem var þá um haustið lögð til grundvallar, þegar ríkisstjórnin kynnti málið fyrir stjórnarandastöðunni, en síðan var skipuð nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að ræða kosti aðildar að EFTA. Voru þeir Þórhallur og Einar ritarar þessarar nefndar.

Í bók sinni rekur Einar gang samskipta okkar við Evrópuþjóðirnar allt frá þessum árum. Hann lét ekki síður að sér kveða sem sendiherra við gerð samningsins um evrópska efnahagssvæðið fyrir rúmum tíu árum, en Einar var sendiherra Íslands í Ósló í mars 1989, þegar ferlið vegna evrópska efnahagssvæðisins hófst á leiðtogafundi EFTA-ríkjanna. Hann rekur sögu samningaviðræðnanna og bregður ljósi á álitamálin auk þess að lýsa þróun samstarfsins innan EES til þessa dags.

Samhliða því, sem Einar Benediktsson segir þessa sögu frá sínum einstæða sjónarhóli, rekur hann gang íslenskra stjórnmála á þessu árabili og lýsir afstöðu stjórnmálaflokkanna til þeirra mikilvægu ákvarðana, sem búa að baki aðild Íslands að evrópsku samrunaþróuninni.

Einar lætur þó ekki staðar numið við Evrópuþáttinn í sögu íslenskra utanríkismála á þessu tímabili, heldur lýsir einnig framvindunni í öryggis- og varnarmálum. Á því sviði hefur hann einnig öðlast mikla þekkingu sem fastafulltrúi Íslands í Atlantshafsbandalaginu (NATO) og sendiherra Íslands í Washington. Vegna starfa sinna á vettvangi NATO varð hann fyrstur íslenskra sendiherra til að sitja fundi kjarnorkuáætlananefndar bandalagsins. Með þátttöku hans þar var staðfest, að Íslendingar eiga aðgang að öllum þáttum í starfi bandalagsins, þótt þjóðin ráði ekki yfir eigin her.

Bók Einars Benediktssonar sýnir lifandi áhuga hans á þeim viðfangsefnum, sem hann hefur sinnt sem fulltrúi þjóðar sinnar, og lúta að því að tryggja stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. Við lítum gjarnan á árangur liðinna ára og áratuga sem sjálfsagðan hlut, þegar tekist er á um málefni líðandi stundar. Auðvitað fer því víðs fjarri. Hann hefði ekki náðst nema vegna þess að þjóðinni voru sett markmið og staðfastlega var unnið að því að ná þeim.

Hver sem les bók Einars Benediktssonar hlýtur að komast að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar geti verið stoltir af þeim árangri, sem stefna þeirra í utanríkismálum hefur skilað þeim og þar með einnig af þeim, sem hafa unnið að framgangi hennar. Með þessari stefnu hefur einnig verið lagður grunnur að góðri framtíð í samskiptum okkar við þjóðir Evrópu og Norður-Ameríku sé rétt á málum haldið.


 


 

Morgunblaðið 20. apríl 2003, páskadagur.