8.4.2003

Staðfesta og siðferðiskennd.

Grein í Morgunblaðinu, 08. 04. 03.

 

 

Til að komast að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar hafi ekki fylgt farsælli stefnu í utanríkis- og öryggismálum, þurfa menn að vera andstæðingar samstarfs okkar við vestræn lýðræðisríki. Á tímum kalda stríðsins voru þessir andstæðingar utanríkisstefnunnar jafnan með það á vörunum, að við fylgdum ekki „sjálfstæðri utanríkisstefnu“, af því að við snerumst ekki gegn forystuþjóðunum í þessu samstarfi, Bandaríkjamönnum og Bretum.

 

Nú er þessi söngur hafinn að nýju undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, talsmanns Samfylkingarinnar, sem studdi ekki málstað Vesturlanda á tímum kalda stríðsins og barðist gegn varnarsamstarfinu við Bandaríkin sem herstöðvaandstæðingur. Í sjónvarpsviðtölum um helgina margítrekaði hún, að taka bæri upp „sjálfstæða utanríkisstefnu“ og sló á sömu strengi og skoðanabræður hennar í andstöðunni við Bandaríkjamenn og Breta á tímum kalda stríðsins.

 

Ingibjörg Sólrún telur sig búa yfir meira siðferðisþreki en þeir, sem vilja losa írösku þjóðina undan oki Saddams Husseins. Hún komst þannig að orði á þingi Samfylkingarinnar síðastliðinn föstudag: „Af hverju eru íslensk stjórnvöld ekki nógu staðföst og viljug til að láta hin siðrænu gildi ráða, siðferðiskennd íslensks almennings sem segir að vináttu megi ekki kaupa hvaða verði sem er.“

 

Hver segir Ingibjörgu Sólrúnu, að íslenskur almenningur líti á vináttu sem söluvöru? Á hvaða siðferðiskennd byggist sú skoðun, að vinátta gangi kaupum og sölu? Ef sá hugsunarháttur, að allt sé falt, nær til þeirra, sem fara með völd á Íslandi, hvar erum við þá almennt á vegi stödd?  Ef þessi hugsunarháttur á að ráða hvar Íslendingar skipa sér í sveit á alþjóðavettvangi, hættir staðfesta vissulega að skipta máli við mótun og framkvæmd utanríkisstefnunnar.