22.3.2003

Skynsamlegasta úrræði Saddams

Vettvangur í Morgunblaðinu, 22. mars 2003.

ÁRANGURSLAUSUM tilraunum til að afvopna Saddam Hussein á friðsamlegan hátt lauk með hernaðaraðgerðum gegn honum. Að beitt sé vopnavaldi kemur engum á óvart, sem hefur fylgst með gangi mála. Staðfesta stjórnvalda í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur verið þess eðlis, að þau hlutu að stíga þetta skref, úr því að ekki tókst að knýja Saddam með pólitískum úrræðum til að fara að samþykktum Sameinuðu þjóðanna.

Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um þessa valdbeitingu. Hún hefur leitt til ágreinings innan Atlantshafsbandalagsins (NATO), Evrópusambandsins (ESB) og Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Innan einstakra ríkja er hart deilt um, hvort þessi leið eða einhver önnur sé best til að ná tökum á einræðisherranum. Rökin um, að aðeins þyrfti lengri tíma fyrir eftirlitsmenn til að vilji öryggisráðs SÞ næði fram að ganga, voru orðin bitlaus.

Tólf ár eru liðin síðan öryggisráðið setti Saddam vopnahlésskilmála, eftir að hann var hrakinn með innrásarher sinn út úr Kúveit. Í allan þennan tíma hefur verið undir Saddam Hussein komið að losa írösku þjóðina úr úlfakreppu. Hann getur vissulega enn sagt af sér og leitað hælis í þeim ríkjum, sem hafa boðist til að taka á móti honum og fjölskyldu hans.

Tilgangur árásarinnar á Írak er skýr og ótvíræður. Ætlunin er að svipta Saddam völdum. Þetta skýra markmið mótar hernaðaraðgerðirnar. Fyrstu sprengjuárásinni að morgni átakanna var ætlað að „afhöfða“ stjórnkerfi Íraks. Átökin hófust með minni sóknarhörku innrásarliðsins en margir höfðu spáð. Greinilega skyldi láta á það reyna, hvort Saddam nyti almenns stuðnings eða ekki meðal Íraka, þegar þeir eygðu von um að losna undan harðstjórn hans.

Rökræður um, hvort innrásin í Írak er lögmæt eða ólögmæt, hafa farið fram hér á landi eins og annars staðar. Lögfræðinga greinir á um málið og stjórnmálamenn geta eins og aðrir valið álit eftir því, hvaða afstöðu þeir taka. Hvað sem líður sjónarmiðum um að „umboð“ öryggisráðs SÞ skorti, standa ályktanir þess að baki valdbeitingu gagnvart Saddam Hussein. Innrásin á því rætur innan Sameinuðu þjóðanna og skilmála, sem þær hafa sett Saddam Hussein. Hvergi hafa stjórnmáladeilur orðið harðari á þingi en í Bretlandi. Tony Blair, forsætisráðherra úr Verkamannaflokknum, gengur fram fyrir skjöldu af mikilli einurð. Hann stendur ekki aðeins í stórdeilum við Saddam og Jacques Chirac, forseta Frakklands, heldur einnig við eigin flokksmenn. Tvær meginumræður og atkvæðagreiðslur hafa verið um afstöðuna til Íraks í breska þinginu á undanförnum vikum. Tony Blair hefur sigrað í þeim báðum með stuðningi stjórnarandstöðunnar. Vinstri armurinn innan Verkamannaflokksins hefur hins vegar snúist gegn stefnu Blairs. Tony Benn, gamall forystumaður vinstrisinna í Verkamannaflokknum, sagði, að stæði Tony Blair fyrir árás á Írak jafngilti það úrsögn Blairs úr Verkamannaflokknum! Breski Verkamannaflokkurinn sameinar innan vébanda sinna skoðanabræður vinstri/grænna og samfylkingarmanna hér á landi. Við atkvæðagreiðsluna klofnaði hann á þann veg, að vinstri/grænir voru andvígir Blair en samfylkingarmenn greiddu atkvæði með honum. Hér á landi hafa bæði vinstri/grænir og samfylkingarmenn tekið afstöðu gegn Bretum og Bandaríkjamönnum. Er óvenjulegt, að þessar fylkingar sameinist hér í afstöðu til mikilvægra utanríkis- og öryggismála. Hin sameiginlega afstaða minnir raunar á, hve fyrrverandi Alþýðubandalagsmenn hafa sterk ítök innan Samfylkingarinnar. Þeir hafa aldrei verið staðfastir í utanríkismálum. Kannski svíður þeim, að Ögmundur Jónasson saki þá um blindan Blair-isma?

Andstaða við stríðið byggist á ólíkum viðhorfum. Auðvelt er að færa rök fyrir því, að Frakklandsforseti vilji skapa pólitískt mótvægi við Bandaríkjastjórn. Með því er Jacques Chirac að fylgja stefnu í anda Charles de Gaulles. Að lokum gekk Chirac of langt að mati Blairs. Bretar og Bandaríkjamenn féllu frá tilraunum til að fá nýja ályktun samþykkta í öryggisráði SÞ á þeirri forsendu, að Frakkar mundu beita neitunarvaldi, hvað sem yrði í boði.

Í kalda stríðinu var talað um tvípóla-veröld, sem skiptist milli austurs og vesturs. Nú er sagt, að veröldin sé orðin einpóla, þar sem Bandaríkin hafi ekkert mótvægi vegna hernaðarlegra yfirburða. Frakkar hafa alls enga burði til að skapa mótvægi við hernaðarmátt Bandaríkjamanna. Frakkar vilja hins vegar veita Bandaríkjamönnum pólitískt aðhald. Franska neitunarvaldið innan öryggisráðsins er öflugasta tæki þeirra til þess.

Spurning er, hvort ein afleiðing átakanna við Saddam verður breyting á reglunum um fastafulltrúa og neitunarvald í öryggisráðinu. Lengi hefur verið á döfinni að breyta skipan og starfsháttum öryggisráðsins. Krafan um það verður háværari eftir því sem erfiðara er fyrir SÞ að gegna hlutverki sínu vegna ágreinings innan öryggisráðsins.

Þótt oft hafi verið harkalega deilt í ráðinu í kalda stríðinu, voru línur þó alltaf skýrari en nú og enginn hafði hag af því að leggja þennan samráðsvettvang niður. Enginn hefur heldur hag af því núna en andrúmsloft til breytinga er allt annað eftir að spenna kalda stríðsins hvarf.

Ný hernaðarstefna kemur til sögunnar með innrásinni í Írak. Hún er kennd við „pre-emption“ á ensku, en á íslensku hefur orðið verið þýtt sem forkaupsréttur eða það að tryggja sér eitthvað á undan öðrum. Við skilgreiningu á þróun öryggis- og alþjóðamála, er nauðsynlegt að finna gott íslenskt orð um það, að grípa til vopna gegn andstæðingi sínum til að afstýra því, að hann geri árás. Hingað til hefur kjarni hernaðarstefnunnar byggst á „containment“, innilokunarstefnu, það er þeirri stefnu að hamla gegn því að óvinveitt ríki færi út hernaðarlegt eða stjórnmálalegt yfirráðasvæði sitt, eins og segir í Ensk-íslensku orðabókinni.

Að „pre-emptive“ skref hefur verið stigið til að afvopna Saddam á eftir að móta umræður um varnaráætlanir og hernaðarstefnu framvegis.

Tony Blair sagði í sjónvarpsávarpi á fimmtudagskvöld:

„Í 12 ár hefur veröldin reynt að afvopna Saddam; eftir stríð hans, þar sem hundruð þúsunda hafa fallið. Eftirlitsmenn SÞ segja, að enn sé ekki vitað um mikið magn af efna- og sýklavopnum eins og anthrax, VX taugaefni og sinnepsgasi í Írak.

Svo val okkar er skýrt: að draga saman seglin og skilja Saddam eftir enn öflugri en áður; eða að stíga skref til að afvopna hann með valdi. Að hörfa kynni að veita okkur stundarró en ég held, að í mörg ár mundum við iðrast yfir veiklyndi okkar.

Það er rétt, að Saddam er ekki eina ógnin. Hitt er einnig satt - eins og við Bretar vitum - að besta ráðið til að takast friðsamlega á við framtíðarógnir er að bregðast við augljósri ógn af staðfestu.

Að fjarlægja Saddam verður til góðs fyrir íbúa Íraks. Fjórar milljónir Íraka eru í útlegð. 60% íbúanna þurfa matvælaaðstoð. Þúsundir barna deyja ár hvert vegna fæðuskorts og sjúkdóma. Hundruð þúsunda hafa verið hraktar frá heimilum sínum eða myrtar.“

Þegar hugað er að þessum staðreyndum, er erfitt að átta sig á því, hvernig unnt er í nafni mannúðar eða umhyggju, að snúast gegn því, að Saddam sé steypt af stóli. Andstæðingar stríðsins bregðast þó jafnan ókvæða við, þegar sagt er, að mannúðarsjónarmið búi að baki andstöðunni við Saddam. Þeir vilja frekar ræða um vopnaeign Saddams en ofbeldi hans gegn írösku þjóðinni.

Því fyrr sem Saddam Hussein áttar sig á raunverulegri og vonlausri stöðu sinni, því betra fyrir Íraka og okkur öll. Uppgjöf er skynsamlegasta úrræði Saddams.