29.3.2003

Klárir kostir á landsfundi

Vettvangur í Morgunblaðinu, 29. 03. 03.

FJÖLMENNASTI og viðamesti stjórnmálafundur landsmanna hófst síðdegis á fimmtudag, þegar 35. landsfundur sjálfstæðismanna var settur við hátíðlega athöfn í Laugardalshöllinni. Venja er að efna til slíkra funda annað hvert ár. Jafnan er leitast við að boða þá nokkrum vikum fyrir kosningar. Með því er tryggt, að sem flestir flokksmenn komi að því að leggja lokahönd á kosningastefnuskrána.

Sjálfstæðismenn ganga til komandi kosninga með vitundina um vel unnin störf í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar síðastliðinn áratug. Þeim finnst ánægjuefni að leggja verk sín undir dóm kjósenda. Hitt er ekki síður mikilvægt, að mörkuð sé stefna og framtíðarmarkið sett hátt.

Í almennum umræðum um kosningar gætir jafnan nokkurrar tvöfeldni. Annars vegar er þess krafist af flokkum og stjórnmálamönnum, að þeir haldi sig við málefni, tíundi stefnu sína og svari gagnrýni á hana með rökum. Hins vegar er gengið að því sem vísu í fjölmiðlum og meðal kjósenda, að til persónulegra átaka komi. Við hlið málefnanna eigi að ræða um einstaka frambjóðendur og þar ber leiðtoga stjórnmálaflokkanna að sjálfsögðu hæst, þegar gengið er til þingkosninganna.

Við setningu landsfundarins í fyrradag birtist enn, hvers vegna Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, nýtur mestra vinsælda meðal íslenskra stjórnmálamanna. Setningarræða hans á landsfundinum var til dæmis allt annars eðlis en Borgarnesræða talsmanns Samfylkingarinnar, þegar þar var blásið til kosningabaráttu.

Davíð fór yfir málefni, ræddi einstök viðfangsefni bæði með skírskotun til fortíðar og framtíðar, og skildi engan eftir í minnsta vafa um skoðanir sínar. Hann flutti ekki ræðu í því skyni að ýta undir sögusagnir eða koma illu af stað, markmið hans var að skilgreina og skýra þróun mála og benda á skynsamlega niðurstöðu með þjóðarhag að leiðarljósi.

Davíð Oddsson var afdráttarlaus, þegar hann boðaði skattalækkanir á komandi kjörtímabili: Tekjuskattur lækkar um 4%; eignarskattur hverfur; virðisaukaskattur á matvæli, bækur, húshitun og rafmagnskostnað lækkar um helming; barnabætur hækka um 2.000 milljónir; erfðafjárskattur lækkar um helming og fyrstu milljónir skattfrjálsar, skattfrelsi vegna viðbótar framlaga í lífeyrissparnað eykst.

Hann sagði sjálfstæðismenn ekki hingað til hafa lofað beinum skattahækkunum fyrir kosningar, en þeir hefðu samt lækkað skatta. Og hann bætti við: "Það þýðir að hér er um bein loforð okkar að ræða, sem við efnum fáum við til þess styrk. Því má treysta. Við erum nefnilega ekki aðeins umræðustjórnmálamenn heldur fyrst og síðast athafnastjórnmálamenn."

Var þessum orðum fagnað með dynjandi lófataki í þéttsetinni Laugardalshöllinni. Allir skildu sneiðina til þeirra, sem fara nú um landið undir merkjum Samfylkingarinnar og boða samræðustjórnmál.

Samhliða þessu ótvíræða loforði um skattalækkanir hét Davíð því, að sjálfstæðismenn myndu styrkja stöðu aldraðra, öryrkja og þeirra sem treysta á góða heilbrigðisþjónustu og félagslega velferð. Ekki kæmi af sjálfu sér að geta lofað nú með trúverðugum og traustvekjandi hætti að gera þetta hvort tveggja í senn. Forsendurnar væri hin sterka staða ríkissjóðs.

Hvað gera stjórnmálamenn í málefnalegu öngstræti? Jú, þeir grípa til dæmis til þess ráðs að skora andstæðing sinn í sjónvarpseinvígi í von um, að umræður um áskorunina dragi athygli frá málefnafátæktinni. Þessu höfum við þegar kynnst í þeirri kosningabaráttu, sem nú er háð. Davíð Oddsson var ekki með neinar slíkar leikfléttur í ræðu sinni á landsfundinum.

Hann benti með tilvitnunum í Össur Skarphéðinsson á þverstæðuna í tali hans um skattamál og Sjálfstæðisflokkinn og sagði undir lok ræðukaflans um skattana: "Hagtæknum, sem þykja nú flest ber súr, ofbýður svo hve íslenska þjóðin kemur vel út á alla hefðbundna mælikvarða sem notaðir eru, að þeir reyna nú í öngum sínum að hanna nýja mælikvarða til að sýna fram á að hinn íslenski árangur sé ekki jafngóður og erlendir einkunnargjafar telja. Þeir tilburðir eru broslegir en gera engum skaða."

Í ræðu sinni vék Davíð Oddsson að hinni miklu breytingu undanfarinna ára, að undir forystu sjálfstæðismanna í ríkisstjórn hefði opinbert vald verið notað til að draga úr því sjálfu. Þannig hefði nýlega verið höggvið á beinlínu stjórnmála inn í bankakerfið. Með lækkun skatta væri fé ekki fært í hendur stjórnmálamanna og embættiskerfis heldur yrði áfram til ráðstöfunar fyrir fólkið sjálft, sem aflar þess. Þar með yrði enn dregið úr forræði stjórnmálamannanna.

Bar hann saman skuldalækkun ríkissjóðs og ellefuföldun skulda Reykjavíkurborgar samhliða skattahækkunum R-listans og sagði: "Það er ekki lítið afrek umræðustjórnmálamanna að auka skuldir sveitarfélagsins sem þeim er trúað fyrir ellefufalt á átta árum, á meðan athafnastjórnmálamenn sem búa við sama árferði, lækka ríkisskuldir og lækka skatta og boða enn frekari skattalækkun fái þeir stuðning fólksins til frekari verka. Hitt hefur aldrei brugðist, að vinstri stjórn hefur á augabragði breytt kjörseðlum í skattseðla hafi hún fengið tækifæri til."

Undir lok ræðu sinnar sagði Davíð: "Við erum að segja við þá sem hlusta og ætla að láta málefnin ráða afstöðu sinni í vor að kostirnir séu klárir og því ætti valið að vera auðveldara en stundum áður."

Við hinn mikla málefnaþunga í setningarræðu Davíðs Oddssonar bætast síðan ályktanir landsfundarins í einstökum málaflokkum. Á vettvangi Sjálfstæðisflokksins vinna sérstakar málefnanefndir að því í aðdraganda landsfundar að semja drög að þessum ályktunum. Þær hafa undanfarna daga verið aðgengilegar öllum á vefsíðu flokksins, www.xd.is. Á fundinum sjálfum er rætt um ályktanirnar í málefnahópum og geta fundarmenn ákveðið setu í þeim eftir áhugasviði sínu. Þá fjallar fundurinn um sérstaka stjórnmálaályktun, en kosið er í stjórnmálanefnd á fundinum til að móta hana. Að lokinni meðferð í málefnahópunum eru allar ályktanir bornar undir fundinn sjálfan til samþykktar.

Um ellefu hundruð manns eiga rétt til setu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins eða álíka margir og haft er samband við til að komast að niðurstöðu um viðhorf almennings í vandaðri skoðanakönnun. Fólk úr öllum starfsgreinum, á öllum aldri og frá öllum byggðarlögum sækir fundinn. Hann er því einstæður þverskurður af íslensku þjóðfélagi og endurspeglast það að sjálfsögðu í störfum og ályktunum fundarins.

Landsfundurinn og aðferðir á honum til að komast að niðurstöðu eru í hróplegri andstöðu við þá kenningu andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, að þar ráði sérhagsmunir ferðinni og viðleitni til að koma til móts við þröng viðhorf einhverra hópa eða einstaklinga.

Undir lok fundarins, síðdegis á sunnudegi, ganga allir fundarmenn að kjörkössum með atkvæðaseðla með nafni þess, sem þeir kjósa formann flokksins og síðan varaformann. Kosningin er óbundin og rita má nafn þess, sem hver og einn ákveður. Lýðræðislegri háttur við val á flokksformanni er vandfundinn.

Einkenni landsfunda er, að enginn getur í raun sagt fyrir um, hvað vekur mesta athygli í fjölmiðlum af því, sem þar er sagt eða samþykkt. Fyrir nokkrum árum urðu til dæmis starfsmenn ríkisútvarpsins svo uppnæmir yfir aukasetningu í einhverri ályktun um að selja bæri rás 2, að ætla mátti af því að hlusta á RÚV eftir fundinn, að ekkert annað markvert hefði gerst á honum.

Oft dregur til tíðinda í atkvæðagreiðslum út af einhverju einföldu og skýru atriði, sem skiptir fundinum í fylkingar. Þegar hiti verður í umræðum á fundinum dettur allt í dúnalogn en þess á milli nota menn gjarnan tækifærið til að spjalla við samherja.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er öflugt tæki í þágu sjálfstæðismanna, af því að þeir bera virðingu fyrir skoðunum hver annars og vilja að flokkur sinn starfi og móti stefnu sína á lýðræðislegum forsendum. Þeir sætta sig ekki við valdsmenn, sem fara ekki að öðrum leikreglum en hannaðar eru í kringum þá. Þeir vilja, að kostirnir séu klárir og komist að niðurstöðu fyrir opnum tjöldum.