25.2.2003

1100% loforðasvik

Morgunblaðsgrein, 25. febrúar, 2003.

 

 

 

 

Þórólfur Árnason borgarstjóri hefur staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur, að skuldir Reykjavíkurborgar hafa margfaldast frá því að R-listinn tók við fjármálastjórn borgarinnar. Árið 1994 bauð listinn fram undir þeim merkjum, að skuldir Reykjavíkurborgar skyldu greiddar. Nú er staðan hins vegar orðin sú, að skuldabagginn á mann er þyngstur hér í Reykjavík, þegar borið er saman við stóru sveitarfélögin í landinu, það er 733 þúsund krónur.

 

Það kemur á óvart, að borgarstjóri skuli ekki draga skarpari ályktun af athugun sinni á skuldaþróuninni. Hann lætur nægja að vísa til tæknilegra þátta og uppgjörs frá árinu 1994 í stað þeirrar pólitísku stefnumörkunar, sem hefur leitt til þess, að skuldir Reykvíkinga hafa  hækkað um 1100% , þegar litið er á tímann frá árslokum 1993 til ársloka 2003. Þrátt fyrir kosningaloforð um lækkun skulda en ekki hækkun.

 

Borgarstjóri leitast við að gera hlut ríkissjóðs eins slæman og kostur er, til að rétta hlut Reykjavíkurborgar í samanburðinum. Þegar allt er talið segir í svari borgarstjóra, að upplýsingar bendi til, að skuldir ríkisins hafi aukist um 10% á föstu verðlagi frá 1994 til 2001. Hins vegar hafi hreinar skuldir Reykjavíkursamstæðunnar vaxið um 389% á tímabilinu 1994 til 2002. Þessar tölur lýsa vel, hvernig ríkisvaldið annars vegar og borgaryfirvöld hins vegar hafa nýtt góðærið í þágu umbjóðenda sinna.

 

Fátæklegar skýringar

 

R-listinn segir, að skatttekjur standi að baki skulda borgarsjóðs en framtíðartekjur af seldri þjónustu standi undir skuldum fyrirtækja borgarinnar. Þetta er ekki rétt. Nefna má tvö dæmi því til staðfestingar. Í fyrsta lagi hefur staða borgarsjóðs verið styrkt með millifærslum frá Orkuveitu Reykjavíkur og óeðlilega háum arðgreiðslum fyrirtækisins til Reykjavíkurborgar. Í öðru lagi leggur borgarsjóður fram fé til Félagsbústaða hf., samkvæmt fjárhagsáætlun 2001 nam þetta framlag til dæmis 268 milljónum króna auk 80 milljóna króna til hlutafjárkaupa.

 

Þegar rætt er um fjárfestingar borgarsjóðs og fyrirtækja hans á árunum 1994 til 2002 og nefnt að þær hafi numið 75 milljörðum króna, er nauðsynlegt að hafa í huga, að samkvæmt fjárhagsáætlun 2003 eru tilgreindar afskriftir fastafjármuna og nema þær um 6,5 milljörðum króna. Miðað við, að afskriftirnar endurspegli árlega úreldingu og virðisrýrnun varanlegra fastafjármuna (fasteigna og annarra mannvirkja, s.s. mannvirkja OR og Reykjavíkurhafnar), eins og þeim er ætlað að gera, þá hefði þurft að fjárfesta fyrir um 58,5 milljarða króna á þessum 9 árum (6,5 x 9) til að halda óbreyttri eignastöðu Reykjavíkurborgar. Rauneignaaukning á umræddu árabili er því aðeins 16,5 milljarðar króna. (75 Mkr – 58,5 Mkr.) Hreinar skuldir borgarinnar á þessu árabili hækkuðu um 40,4 milljarða. Samkvæmt þessu hefur meginhluti þessarar skuldaaukningar eða 23,9  milljarðar kr. ( 40,4 – 16,5) farið til að halda óbreyttri eignastöðu borgarinnar. Með öðrum orðum þá hefur rekstrarafgangur borgarinnar (borgarsjóðs og fyrirtækja) verið langt frá því að halda í horfinu.  Þetta styður það sem við sjálfstæðismenn höfum margoft fullyrt, að  það er augljóst að það er eitthvað verulega mikið að í rekstri borgarinnar. Þetta ætti nýr borgarstjóri að þekkja eftir að hafa stundað rekstur á hinum almenna markaði.

 

Mikilvæg viðurkenning

 

Í svari borgarstjóra felst mikilvæg viðurkenning á réttmæti þess, sem við sjálfstæðismenn höfum sagt, þegar rætt er um færslur milli Félagsbústaða hf. og borgarsjóðs annars vegar og Orkuveitu Reykjavíkur og borgarsjóðs hins vegar. Segir orðrétt í svarinu: „Reiknað á verðlagi í árslok 2002 hafði stofnun þessara tveggja fyrirtækja í för með sér lækkun á hreinni skuld borgarsjóðs um 8 milljarða króna. Hins vegar hafði þetta ekki áhrif á skuldir samstæðunnar.“

 

Þetta er kjarninn í því, sem við höfum sagt: Það nægir ekki að líta á fegraðan borgarsjóð, þegar rætt er um skuldir Reykvíkinga – það verður að líta á skuldir Reykjavíkursamstæðunnar. Aðeins með því fáum við rétta mynd af þeim skuldum, sem hvíla á Reykvíkingum fyrir tilverknað R-listans.

 

Ástæða er til að harma, að borgarstjóri fellst ekki á tillögu okkar sjálfstæðismanna um úttekt á fjármálum borgarinnar, þegar hann tekur við ábyrgðarmiklu starfi sínu. Skynsamlegt  er fyrir hann að hafa slíka úttekt í handraðanum, þegar tekið verður til við að leggja fjárhagslega mælistiku á verk hans. Einnig er ástæða til að harma, að borgarstjóri treystir sér ekki til að lofa Reykvíkingum að fylgja nýrri stefnu í fjármálum þeirra. Hann ætlar að halda áfram að safna skuldum með það loforð á vörunum að lækka þær!