1.3.2003

Að læra af glímu við harðstjóra

Vettvangur í Morgunblaðinu, 1. mars, 2003.

 


 


 


 

„Rússneski sagnfræðingurinn Edvard Radzinski fullyrðir að samstarfsmenn Jósefs Stalíns hafi byrlað honum eitur til að koma í veg fyrir að hann hæfi þriðju heimsstyrjöldina. Þetta kom fram í fræðsluþætti sem breska útvarpið sendi út á mánudaginn var í tilefni af því að 5. mars verður hálf öld liðin frá því að Stalín lést.“

Með þessum orðum hófst frétt í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag. Síðan er rakið í henni, hvernig hinn rússneski sagnfræðingur komst að niðurstöðu sinni. Margir verða efalaust til að andmæla þessari tilgátu sagnfræðingsins, enda líklega seint unnt að komast að hinu sanna.  Þegar einræðisherrar ofurseldir ótta við nánustu samstarfsmenn sína eiga í hlut, getur verið erfitt að átta sig á því hvað er satt og hverju er logið.

Strax eftir síðari heimsstyrjöldina fól breska ríkisstjórnin sagnfræðingnum Hugh Trevor-Roper að kanna afdrif Adolfs Hitlers og ritaði hann bókina Síðustu dagar Hitlers eftir rannsókn sína. Almenna bókafélagið gaf hana út á sínum tíma í þýðingu Jóns R. Hjálmarssonar. Trevor-Roper andaðist fyrir skömmu of var hans minnst sem eins af merkustu sagnfræðingum Englendinga á síðustu öld, þótt hann hefði ratað í þær ógöngur  á efri árum að telja falsaðar dagbækur Hitlers sannar heimildir úr fórum einræðisherrans.

Sagnfræðilega skýrslan um síðustu daga Hitlers var skráð í senn til að komast örugglega að hinu sanna og einnig í því skyni að birta sannleikann öllum almenningi til að draga úr líkum á því, að goðsagnir mynduðust um dauða einræðisherrans. Dregur enginn í efa, að Hitler hafi svipt sig lífi, þegar hann sá þúsund ára ríki sitt breytast í rústir Berlínarborgar.


 


***


Alistair Cooke hefur flutt hlustendum BBC, breska ríkisútvarpsins, bréf frá Ameríku reglulega síðan árið 1946. Þótt hann sé komin vel á tíræðisaldur má enn heyra hann lýsa atburðum samtímans og bregða á þá ljósi þekkingar sinnar og reynslu.

Nú í byrjun febrúar minntist hann þess með nokkrum ótta, að þeir, sem eru að fást við Saddam Hussein um þessar mundir, hefðu annað hvort ekki verið fæddir eða verið ungabörn, þegar Neville Chamberlain taldi sig hafa samið „frið um vora daga“ við Hitler á fundi þeirra í München.

Í bréfi sínu sagði Cooke:

„Ég minnist á München og miðjan fjórða áratuginn vegna þess að þá var ég kominn vel til vits og ára, að verða þrítugur, og veit, að mikill kvíði sótti að okkur. Og svo mikið af röksemdunum sem beitt er í umræðum síðustu tveggja vikna eru einmitt þær sömu, sem við heyrðum í breska þinginu og lásum í frönsku blöðunum á þeim tíma.

Eftir hverja innrás Hitler hrópuðu Frakkar hæst, „samninga, samninga.“ Þeir sömdu af svo mikilli kúnst, að þeir voru gjörsigraðir og land þeirra hernumið. En eins og einn franskur vinstrisinni komst að orði: „Okkur tókst allavega að fá þá til að lýsa París opna borg -við fengum engar sprengjur á okkur!“

Í Bretlandi voru almennu viðbrögðin við hverjum sóknaráfanga Hitlers, að best væri að afvopnast og treysta á sameiginlegt öryggi. Í orðunum sameiginlegt öryggi féllst að láta Þjóðabandalagið glíma við hvern vanda. Það mundi setja árásaröflunum stólinn fyrir dyrnar, þótt bandalagið réði ekki yfir neinum landher, flota eða flugher frekar en Sameinuðu þjóðirnar núna.“

Alistair Cooke rifjar síðan upp, að eftir að Hitler lagði undir sig Rínarhéruðin hafi Winston Churchill skorið sig úr hópnum og ákveðið, að hann ætti ekkert sameiginlegt með sameiginlegu öryggi og hafið mjög óvinsæla baráttu fyrir endurhervæðingu Breta með varnaraðarorðum gegn hinni almennu skoðun, að Hitler hefði þegar öðlast yfirburði með ógvænlegum vélaherdeildum sínum og öflugum flugher. „En hann hefur ekki beitt afli sínu, hann hefur ekki beitt afli sínu,“ segir Cooke að fólkið hafi sagt í mótmælaskyni við Churchill.


„Vissulega getur verið,“ segir Cooke, „að minning mín um þessa atburði skipti engu vegna þess sem nú er að gerast. Hún sækir á mig. Ég vil minna á, að ég hef einhvers staðar sagt af miklum sannfæringarkrafti, að í flestum tilvikum standist ekki að vera með sögulegan samanburð, þótt nýjar aðstæður séu ótrúlega líkar hinum eldri, því að venjulega sé einhver einn þáttur annar og hann reynist vera sá, sem skiptir sköpum. Þetta kann að eiga við núna. Ég veit það eitt, að raddirnar frá fjórða áratugnum bergmála nú árið 2003.“


***


Nú segir sagan, að fyrir fimmtíu árum hafi Kremlverjar ákveðið að drepa Stalín til að hann leiddi heiminn ekki út í þriðju heimsstyrjöldina. Sagan ætti einnig að kenna, að hefðu menn snúist nægilega hart og fljótt gegn Hitler í stað þess að trúa fagurgala hans um frið, hefði mátt útiloka síðari heimsstyrjöldina.


Við stöndum nú á öndinni vegna þess hvernig á að taka á harðstjórum og einræðisherrum samtímans eða að minnsta kosti útiloka, að þeir geti ógnað heiminum með gjöreyðingarvopnum. Getum við frekar nú en á fjórða áratugnum treyst á sameiginlegt öryggi  að þessu sinni í nafni Sameinuðu þjóðanna, sem ráða ekki yfir neinum herafla? Eru forystumenn Bandaríkjanna og Bretlands nú í stöðu Churchills, sem var úthrópaður sem stríðsæsingamaður en er nú talinn fremstur meðal stjórnmálamanna allra tíma?


Við verðum að íhuga svörin við þessum spurningum í vangaveltum okkar um leiðir til að tryggja frið um vora daga. Á tímum kalda stríðsins fyrir tveimur áratugum eða svo fóru menn í fjölmennar friðargöngur undir þeim merkjum, að Vesturlönd ættu að sætta sig við yfirburði Sovétmanna með meðaldrægum kjarnorkueldflaugum gegn Vestur-Evrópu.


Þá tóku Helmut Schmidt, kanslari Vestur-Þýskalands, Margaret Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, og François Mitterrand, forseti Frakklands, höndum saman gegn hinni sovésku ógn. Síðan steig Reagan það skref að boða varnarkerfi gegn kjarnorkueldflaugum og neitaði að hvika frá þeim ásetningi á fundi sínum með Mikhail Gorbatsjov, forseta Sovétríkjanna, hér í Reykjavík 1986. Loks liðu Sovétríkin undir lok, enda byggðist valdakerfi Kremlverja á hernaðarógn.


***


Vandinn nú snýst eins og jafnan áður um að finna bestu leiðina til að tryggja friðinn. Sagan kennir okkur, að það verður ekki gert með því að láta undan einræðisherrum, sem hafa í hótunum og neita að virða samninga. Ef við lærum ekki af sögunni, tökum við þá áhættu að þurfa að reyna það aftur, sem hún á að kenna okkur.