22.2.2003

Togstreitan vegna Saddams

Vettvangur í Morgunblaðinu, 22. febrúar, 2003.

 


 


 


 


 


 


 


Hrun Berlínarmúrsins í nóvember 1989 skildi eftir sig skýra mynd um gjörbreytta tíma í heimsmálum. Helsta tákn um skiptingu Evrópu milli austurs og vesturs, milli frelsis og ánauðar, hvarf úr sögunni. Þar með hvarf einnig undirrót spennu kalda stríðsins, þegar þjóðir stóðu gráar fyrir járnum andspænis hver annarri og tekist var á um það í hinum frjálsa hluta heims, hvort leysa ætti viðfangsefni stjórnmálanna með markaðslögmálin að leiðarljósi eða ríkisforsjá að forskrift sósíalismans.


 


Síðan hafa breytingar á þróun alþjóðamála og í samskiptum þjóða verið ævintýralegar.  Við Íslendingar urðum varir við þetta strax í viðræðunum við Evrópusambandið (ESB) um aðildina að evrópska efnahagssvæðinu. Þegar farið af stað í þann leiðangur, voru þrjú hlutlaus ríki með okkur í honum, Austurríki, Finnland og Svíþjóð. Stjórnvöld þeirra notuðu öll tækifærið við upplausn Sovétríkjanna til að sækja um aðild að Evrópusambandinu frekar en ljúka EES-samningnum. Þau þurftu ekki lengur að skipa sér á hlutlausabekkinn. Hann einfaldlega hvarf.


 


Nú hefur Evrópusambandið ákveðið að taka á móti ríkjum, sem voru áður austan járntjaldsins og er stefnt að því, að þau gerist aðilar þess árið 2004. Staða þessara nýju ESB-ríkja blandaðist með sérkennilegum hætti inn í spennuna vegna Saddams Husseins í upphafi vikunnar. Jacques Chirac Frakklandsforseti taldi þau ekki vera „vel upp alin“ og þau ættu að tileinka sér góða siði með því að kunna að þegja, þegar fullorðið fólk talaði saman.


 


***


 


Eftir að Hans Blix flutti öryggisráði Sameinuðu þjóðanna skýrslu sína í síðustu viku og sigldi milli skers og báru í afstöðu sinni, töldu margir, að Bandaríkjamenn og Bretar hefðu lent í nokkurri klípu. Enn kæmi í ljós, að rökin fyrir nauðsyn þess að beita hervaldi til að uppræta gjöreyðingarvop Saddams Husseins, væru hvorki sterk né augljós. Þótti það til marks um veika stöðu þeirra innan öryggisráðsins, að franska utanríkisráðherranum var klappað lof í lófa, eftir að hann flutti ræðu í ráðinu og vildi gefa eftirlitsmönnunum lengri tíma.


 


Um svipað leyti bárust fréttir um, að innan Atlantshafsbandalagsins (NATO) kæmu menn sér ekki saman um aðgerðir til að efla varnarviðúnað í Tyrklandi. Töldu stjórnvöld landsins nauðsynlegt að leita aðstoðar bandamanna sinna í NATO, því að Tyrkir hefðu ekki einir burði til að tryggja öryggi landamæra sinna, ef til átaka kæmi í Írak. Belgar, Frakkar og Þjóðverjar snerust gegn því, að NATO yrði við þessum tilmælum.


 


Robertson lávarður, framkvæmdastjóri NATO, beindi ágreiningnum vegna Tyrkja út úr fastaráði NATO, þar sem stjórnmálaákvarðanir eru teknar, inn í varnaráætlananefnd bandalagsins, þar sem fjallað er um málefni hernaðarlegs eðlis. Frakkar eiga ekki sæti í þeirri nefnd, enda drógu þeir herafla sinn út úr sameiginlegu varnarkerfi NATO og taka þess vegna ekki þátt í varnaráætlanagerð bandalagsins. Síðastliðinn sunnudag náðist samkomulag innan nefndarinnar um það, hvernig NATO skyldi liðsinna Tyrkjum. Síðan hafa Tyrkir sótt að Bandaríkjamönnum með fjárkröfum.


 


***


Eftir að Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hafði sagt, að hann gæfi ekki mikið fyrir sjónarmið „gömlu Evrópu“ og vísaði þar til Frakka og Þjóðverja, rituðu leiðtogar átta ESB-ríkja bréf til Bandaríkjaforseta með stuðningi við stefnumið Bandaríkjanna. Síðan barst forsetanum sambærilegt bréf frá 10 væntanlegum aðildarríkjum ESB.


 


Þessi bréf sýndu, að innan Evrópusambandsins var djúpstæður ágreiningur um afstöðuna til stefnu Bandaríkjastjórnar. Fleiri tóku undir með Tony Blair, forsætisráðherra Breta, en þeim Jacques Chirac og Gerhard Schröder Þýskalandskanslara. Við svo búið var ákveðið að efna til sérstaks leiðtogafundar ESB-ríkja í Brussel síðdegis síðastliðinn mánudag


 


Anna Lindh, utanríkisráðherra Svía, sagði í heimsókn sinni hér á landi í vikunni, að leiðtogafundur Evrópusambandsins um Íraksmálið síðastliðinn mánudag, hefði bætt andann innan ESB. Hún hefði óttast, að deilur um málið mundu spilla fyrir samstarfi ESB-ríkjanna að utanríkismálum.


 


Þessi skoðun ráðherrans endurspeglar hið sérkennilega póltíska  ástandi, sem ríkir innan ESB. Til leiðtogafundarins var boðað í því skyni að stilla til friðar á milli æðstu manna ESB-ríkjanna. Þeir komu frá fundinum sameinaðir um ályktun, þótt hún sé túlkuð á ólíkan hátt eftir því, hver fjallar um hana. Á hinn bóginn sýnir eftirleikur fundarins, að enn er tekist á innan sambandsins.  Þar keppa Bretar og Frakkar enn um hylli aðildarlanda og þeirra ríkja, sem hafa sótt um ESB-aðild.


 


Strax daginn eftir að Chirac hafði talað til umsóknarríkjanna 13 eins og óþekkra krakka, ritaði Blair þeim bréf og sagðist harma, að forystumenn ríkjanna hefðu ekki fengið að sitja sjálfan leiðtogafundinn og taka þátt í umræðum þar.


 


***


 


Íraksdeilan varpar ljósi á valdabaráttu innan Evrópusambandsins. Alexandr Vondra, aðstoðarutanríkisráðherra Tékklands, var undrandi á framgöngu Frakklandsforseta og sagðist hafa haldið, að menn væru að búa sig undir stríð við Saddam Hussein en ekki Jacques Chirac. Frökkum vex í augum, að svo mörg Evrópuríki lýsi yfir stuðningi við stefnu Bandaríkjastjórnar. Þeir vilja einnig hafa það á hreinu, að öllum umsóknarríkjunum sé ljóst, að Frakkar áskilja sér rétt til að eiga síðasta orðið í stórpóltískum málum innan ESB, ef þeim þykir sæmd sín í húfi.


 


Fyrir tæpum fjörutíu árum vildi Charles de Gaulle Frakklandsforseti ekki una því, að Bandaríkjamenn réðu úrslitum um öryggi Frakklands með vísan til sameiginlegrar varnarstefnu NATO og þungamiðju bandarískra kjarnorkuvopna innan hennar. Þess vegna dró hann franska herinn út úr sameiginlegu varnarkerfi NATO og þróaði sjálfstæðan, franskan kjarnorkuherafla.


 


Nú vilja Frakkar, að öllum sé ljóst, að þeir munu ekki sætta sig við að verða ofurliði bornir innan Evrópusambandsins við töku ákvarðana um utanríkis- og öryggismál. Þeir eru einfaldlega sagðir illa upp aldir, sem kunna ekki að meta leiðsögn Frakka og leyfa sér að skrifa Bandaríkjaforseta stuðningsbréf í óþökk þeirra.


 


Frakkar hafa lengi haft af því nokkrar áhyggjur, að kommúnistaríkin fyrrverandi, sem telja sig eiga Bandaríkjunum skuld að gjalda vegna frelsunar undan oki Sovétríkjanna, verði einskonar Trójuhestur í þágu bandarískra hagsmuna innan Evrópusambandsins. The New York Times hefur eftir Gilles Lepesant, frönskum sérfræðingi, í málefnum Austur-Evrópu, að fyrir Frakka sé Evrópusambandið leiðin til að vera áfram stórveldi á heimsmælikvarða, því að þeir geti notað Evrópu til að hlutast til um alþjóðamál með öflugri hætti en þeir megni af eigin rammleik.


 


Franska blaðið Le Figaro, sem styður Jacques Chirac á afdráttarlaust, birti frétt um  það í vikunni, að bandarískur þrýstihópur hefði staðið á bakvið bréf  umsóknarríkjanna tíu til  Bush.  Segir blaðið í nokkrum hneykslunartón, að fyrir þessum hópi fari Bruce K. Jackson, forseti nefndar til frelsunar Íraks, ákafur stuðningsmaður Bush, sem einnig hafi hvatt bandaríska þingmenn til að samþykkja stækkun NATO. Þá hafi hann unnið að því að selja Pólverjum 48 bandarískar F-16-orrustuþotur fyrir  um 3,5 milljarða Bandaríkjadala. Frakkar urðu undir í þeirri keppni og einnig sænsk-breska Gripen-þotan.


 


***


Í upphafi var minnt á, að heimsmyndin breyttist á augljósan hátt með hruni Berlínarmúrins. Hún er enn að breytast, þótt breytingin blasi ekki við með sama hætti og í nóvember 1989. Straumköstin eru ekki síður mögnuð um þessar mundir en þegar heimskerfi kommúnismans hrundi til grunna.


 


Nú er spurt, hvernig ná eigi því sameiginlega marki allra, að Saddam Hussein fari að alþjóðalögum. Deilan um leiðirnar að því takmarki varpar ljósi á þunga undirstrauma í samstarfi ríkja innan Evrópu og milli Evrópu og Bandaríkjanna. Erfitt er að greina rökin fyrir því, að samhugur Evrópuríkjanna innan ESB hafi eflst, eftir því sem ágreiningurinn verður augljósari. Auðveldara virðist að rökstyðja, að það sé fjarlægara en áður, að draumurinn um sameiginlega ESB-stefnu í utanríkis- og öryggismálum rætist.


 


Bandaríkjastjórn býr sig undir að leggja aðra ályktun um aðgerðir gegn Saddam Hussein fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, ályktun, sem veiti ótvírætt umboð til að beita hervaldi gegn Írak. Franska ríkisstjórnin er andvíg því, að slík ályktun komi fram. Á það reynir næstu daga, hvort Bandaríkjamenn og Bretar stilli Frökkum upp við vegg í öryggisráðinu.