8.2.2003

Með lögum skal land byggja.

Vettvangur í Morgunblaðinu 8. febrúar, 2003.

 


 


 


 


Í upphafi vikunnar urðu oftar en einu sinni hörð orðaskipti um málefni Símans á alþingi. Eins og oft vill verða, þegar þung orð falla í ræðustól þingsins beinist athyglin frekar að þeim en efni málsins. Samfylkingarmenn vildu kasta rýrð á Halldór Blöndal, forseta alþingis, á þeirri forsendu, að hann væri að hylma yfir með þeim, sem vildu ekki segja frá starfslokasamningi við Þórarin V. Þórarinsson, fyrrverandi forstjóra Símans.


 


Þegar litið er á málatilbúnaðinn, sést fljótt, að hann er með þeim hætti, að  taka verður undir orð Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í umræðunum á þriðjudag,  „að þetta gæti ekki gerst í nokkru öðru þingi veraldarinnar, að menn mundu ráðast með þessum hætti að forseta þings. Það mundi hvergi gerast, að minnsta kosti ekki í hinum vestræna heimi.“


 


Hið furðulega í málinu er, að fyrsti varaforseti alþingis, samfylkingarþingmaðurinn Guðmundur Árni Stefánsson, er aðalhvatamaður þessarar aðfarar að forseta alþingis.  Þegar grannt er skoðað, fer hann ekki að málefnalegum rökum, heldur elur á tortryggni í von um að koma höggi á pólitíska andstæðinga.


 


***


Hvert er efni málsins? Jú, hinn 5. nóvember síðastliðinn ritar forsætisnefndarmaðurinn Guðmundur Árni Stefánsson forsætisnefnd alþingis bréf og fer þess á leit við nefndina, að hún feli ríkisendurskoðun að gefa alþingi skýrslu um fjárhagslegt uppgjör Símans við Þórarin Viðar Þórarinsson, en það var gert í tengslum við starfslok hans hjá fyrirtækinu. Segir í bréfinu, að ríkisendurskoðun hafi unnið skýrslu um samskonar efni fyrir stjórn Símans, en stjórnin hafi hafnað að birta skýrsluna opinberlega. Ósk um skýrsluna hafi komið frá stjórn Símans eftir opinberar umræður um málið, þar á meðal á alþingi og þess vegna sé eðlilegt, að alþingi fái vitneskju um niðurstöður ríkisendurskoðunar.


 


Þegar forseti alþingis fær þetta bréf, biður hann Friðrik Ólafsson, skrifstofustjóra alþingis, að gefa sér álit um lögmæt viðbrögð við því. Álitsgerð hans er dagsett 3. desember 2002. Niðurlagsorð álitsgerðarinnar eru þessi:


 


„Mál þetta snýst um það hvort gert verði opinbert efni skýrslunnar sem Ríkisendurskoðun vann fyrir stjórn Landssíma Íslands hf. á sínum tíma. Fyrir liggur að skýrslan er trúnaðarskýrsla unnin af ríkisendurskoðanda sem endurskoðanda Landssíma Íslands hf., sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun, og ljóst er að ríkisendurskoðandi væri að bregðast trúnaðarskyldu sinni ef hann gerði uppskátt um efni skýrslunnar. Eins og málið er vaxið þykja því ekki efni til að ríkisendurskoðanda sé gert að skila umbeðinni skýrslu.“


 


Þetta álit skrifstofustjóra alþingis var lagt fyrir forsætisnefnd þingsins 21. janúar sl. en vegna fjarveru Guðmundar Árna hafði forseti ákveðið að ræða það ekki á fundi nefndarinnar 10. desember. Forseti alþingis kynnti forsætisnefnd afstöðu sína  á fundi hennar 28. janúar. Þar bókaði hann, að í mars 1997 hefði forsætisráðuneytið falið Stefáni Má Stefánssyni, lagaprófessor við Háskóla Íslands að gera lögfræðilega úttekt á aðgangi alþingis að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins. Hefði forsætisráðherra sent þinginu skýrslu og þetta álit prófessorsins, þar sem fram kæmi, að það væri á valdi stjórna eða hluthafafunda fyrirtækja, sem ekki væru alfarið í eigu ríkisins, að ákveða, hvaða mál það væru, sem talist gætu viðskiptaleyndarmál og ættu að fara leynt. Stjórn Símans hefði hafnað því, að skýrsla ríkisendurskoðanda yrði gerð opinber. „Með vísan til álitsgerðar Stefáns Más Stefánssonar prófessors tel ég ekki efni til að verða við beiðni alþingismannsins,“ sagði forseti alþingis í lok bókunar sinnar og hafnaði þar með ósk Guðmundar Árna.


 


***


 


Halldór Blöndal forseti alþingis skýrði frá þessari rökstuddu niðurstöðu sinni í upphafi þingfundar mánudaginn 2. febrúar og sagði þá jafnframt, að forsætisnefnd alþingis hefði ekki borist beiðni um að taka starfslokasamning fyrrverandi forstjóra Símans til skoðunar, eins og ranglega hefði verið sagt frá á Bylgjunni 29. janúar og í ríkisútvarpinu og ríkissjónvarpinu sama dag.


 


Málflutningur þingmanna Samfylkingarinnar á þingi byggðist á ávirðingum í garð forseta alþingis. Ásökunum um, að hann væri í liði með þeim, „sem eru í samsæri þagnarinnar, í feluleiknum og vilja viðhalda leynimakkinu“ eins og Guðmundur Árni orðaði það. Lúðvík Bergvinsson taldi forseta þingsins hafa gengið í lið með þeim, sem væru „greinilega í einhverju sem ekki þolir dagsljósið.“


 


Halldór Blöndal sagði þingheimi ekki neitt um, hvort hann teldi skynsamlegt eða ekki að birta starfsloksamning Þórarins V. Þórarinssonar eða skýrslu ríkisendurskoðanda, sem gerð var að ósk stjórnar Símans. Hann tók hins vegar á erindi Guðmundar Árna Stefánssonar með málefnalegum hætti.


 


Það var stjórn Símans undir formennsku Rannveigar Rist, sem ákvað, að skýrsla ríkisendurskoðunar hefði að geyma viðskiptaleyndarmál og ætti því ekki að birta hana opinberlega. Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í þingumræðunum, að þingmenn gætu haft ýmsar skoðanir á ákvörðun stjórnar Símans, en þeir gætu ekki sagt henni, hvaða upplýsingar hún ætti að láta af hendi eða halda hjá sér. Öll umræðan væri meira og minna útúrsnúningur, tilraun til þess að koma höggi á  forseta þingsins. Guðjón Guðmundsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, minnti á hina lögfræðilegu niðurstöðu í málinu og spurði, hvort þingmenn vildu, að forseti alþingis gæfi ríkisendurskoðanda ólögmæt fyrirmæli.


 


***


 


Þegar skýrsla umboðmanns alþingis fyrir árið 2001 var til umræðu á þingi síðastliðið haust urðu nokkur orðaskipti um ábendingar hans um hvort huga bæri að sérstakri, almennri löggjöf um starfsumhverfi fyrirtækja á vegum ríkis og sveitarfélaga, sem breytt er í hluta- eða sameignarfélög.


 


Í umræðum um skýrsluna sagði Halldór Blöndal, forseti alþingis, meðal annars:


„Það er ljóst að það hefur verið litið svo á á Alþingi, a.m.k. af meiri hlutanum, að opinberar stofnanir breyti um eðli um leið og hlutabréf hafa verið sett á markað og einstaklingar eða aðrir aðilar gerst hluthafar og þá sé rétt að um þau fjalli einkaréttarleg ákvæði. Á þetta hefur áður reynt hér og ættu það ekki að vera nýmæli fyrir hv. þingmenn. Á hinn bóginn hef ég skilið vangaveltur umboðsmanns Alþingis svo að hann sé sérstaklega að tala um hvernig almennar reglur stjórnsýsluréttar eigi við um hlutafélög og sameignarfélög í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga. Eins og ég skil ummæli umboðsmanns telur hann að löggjöfin um þau efni sé ekki nægilega skýr sem er auðvitað óviðunandi og óhjákvæmilegt að taka það mál upp þannig að starfsreglur þessara fyrirtækja liggi ljósar fyrir og bæði stjórnendur þeirra, alþingismenn og eftir atvikum sveitarstjórnarmenn geti áttað sig á þeim rétti sem þeir hafa til að veita upplýsingar og einnig til að önnur fyrirtæki sem starfa úti á markaðnum geti glöggvað sig á því hvar þau standa í viðskiptum við slík fyrirtæki.


Eins og hv. þingmenn muna var ein höfuðröksemdin fyrir því að breyta Landssímanum í hlutafélag á sínum tíma sú að hann átti í vaxandi erfiðleikum með samvinnu og viðskipti við önnur sambærileg fyrirtæki í nálægum löndum sem breytt hafði verið í einkafyrirtæki. Af þeim sökum var óhjákvæmilegt að þessi breyting gæti orðið, einmitt til að tryggja þá viðskiptahagsmuni sem tengdir voru því að eiga viðskipti við slík opinber fyrirtæki, fyrirtæki í eigu opinberra aðila……Það hlýtur síðan að fara eftir atvikum hvernig framvindan verður, hvernig málið ber að í þinginu, hvort einstakir þingmenn hafa að því frumkvæði eða frv. verður lagt fram af ríkisstjórninni eða hæstv. viðsk.- og iðnrh. Ég hygg að umræðurnar í dag sýni glögglega að óvissan í þessum efnum er óþolandi.“


Halldóri Blöndal er betur ljóst en þeim þingmönnum, sem stóðu fyrir aðförinni að honum, hvernig lögum um skyldur til að miðla upplýsingum um málefni fyrirtækja á borð við Símann er háttað. Hann hefur jafnframt hvatt til þess, að farið verði að ábendingum umboðsmanns alþingis um skýrari almenn lagaákvæði um slík fyrirtæki.


Samkvæmt landslögum breytir afstaða forseta alþingis engu um þá staðreynd, að stjórn Símans eða hluthafafundur hans á lögum samkvæmt síðasta orðið um aðgang þingmanna og annarra að skýrslu ríkisendurskoðanda um málefni fyrirtækisins, hvort sem hún fjallar um starfslokasamning eða annað.