25.1.2003

Framtaksleysi R-listans vegna framhaldsskóla

Vettvangur í Morgunblaðinu 25. janúar, 2003.

 

 

 

 

 

Tómas  Ingi  Olrich menntamálaráðherra og Sigurður Geirdal, bæjarstjóri í Kópavogi,  rituðu mánudaginn 20. janúar undir samning ríkisins og Kópavogsbæjar um byggingu nýrrar kennsluálmu við Menntaskólann í Kópavogi. Húsið verður  1.642  fermetrar á tveimur hæðum og verða í því 17 almennar  kennslustofur  auk  fyrirlestrarsalar  og  sérhannaðs  húsnæðis sérdeildar skólans fyrir einhverfa nemendur. Nýja  álman  kemur  í stað norðurálmu skólans, sem rifin var fyrr í vetur. Með álmunni eykst kennsluhúsnæði skólans um rúma þúsund fermetra. Gert  er  ráð fyrir að nýbyggingin verði tilbúin til notkunar fyrir upphaf vorannar 2004.

 

Með þessari undirritun er staðfest, að samkvæmt lögum um framhaldsskóla muni Kópavogsbær greiða 40% af kostnaði við smíði hinnar nýju kennsluálmu og ríkið 60%.  Á sama tíma og gengið er frá þessu samkomulagi er borgarráð Reykjavíkur enn á ný að ræða án niðurstöðu, hvaða stefnu borgaryfirvöld eigi að hafa í málefnum framhaldsskólanna í Reykjavík. Í þetta sinni á forsendum skýrslu frá Nýsi hf. ráðgjafaþjónustu frá janúar 2003, sem ber heitið: „Tillögur að stefnumörkun Reykjavíkurborgar í byggingarmálum framhaldsskóla“.

 

Skýrsla Nýsis er samin vegna þess að í átta ár hefur R-listinn ekki haft burði til að móta stefnu í málefnum framhaldsskóla í Reykjavík. Rekið hefur á reiðanum og frekar hefur verið leitað leiða til að skjóta málum á frest en leysa þau.

 

***

 

Á sínum tíma fékkst samþykki samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir fyrir að ráðast í nýbyggingu og endurbætur við Menntaskólann í Reykjavík, eftir að Davíð S. Jónsson tilkynnti á árinu 1996, að hann hefði ákveðið að gefa skólanum húsið að Þingholtsstræti 18 til minningar um konu sína Elísabetu Sveinsdóttur. Var Elísabetarhús tekið í notkun í ársbyrjun 1999 og greiddi ríkissjóður allan kostnað við endurbætur á því og tengibyggingu við Casa Nova.

 

Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir veitti heimild til þessara framkvæmda við MR með því skilyrði, að framvegis yrði staðið að nýbyggingum við framhaldsskóla í Reykjavík samkvæmt framhaldsskólalögum og Reykjavíkurborg stæði við lagaskilyrði um 40% framlag.. Með vísan til þess, að Reykjavíkurborg hefði ekki samþykkt að leggja 40% af mörkum til íþróttahúss við Menntaskólann við Hamrahlíð, vildi nefndin  ekki heimila að ráðist yrði í að reisa húsið, þótt alþingi hefði samþykkt að leggja 65 milljónir króna til þess á fjárlögum að tillögu menntamálaráðherra.

 

Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var efnt til funda í Menntaskólanum við Hamrahlíð um málefni íþróttahússins og í ráðhúsinu um byggingarmál Menntaskólans í Reykjavík. Á báðum fundunum lét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir orð falla um, að hún mundi gera tillögu um einhverjar fjárveitingar til byggingaframkvæmda við þessa skóla í fjáhagsáætlun fyrir borgarsjóð árið 2003. Engar slíkar tillögur hafa þó komið frá borgarstjóra.

***

 

Í fyrrgreindri skýrslu Nýsis hf. segir í upphafi, að borgarstjóri hafi beðið fyrirtækið að „skoða hvernig Reykjavíkurborg geti lagt sitt af mörkum í samstarfi við ríkið og nágrannasveitarfélögin, til að bæta núverandi húsnæðisaðstöðu framhaldsskólanna í Reykjavík. Jafnframt að aðstoða borgina við að móta stefnumarkandi tillögur um uppbyggingu. fjármögnun og staðsetningu nýrra framhaldsskóla í borginni sem síðan yrðu væntanlega lagðar fyrir menntamálaráðuneytið og nágrannasveitarfélögin“

 

Þessi orð staðfesta enn, að R-listinn hefur ekki mótað sér neina stefnu í málefnum framhaldsskólanna, þótt sameiginlegur starfshópur menntamálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar, sem skipaður var síðla árs 1999, hafi skilað tillögum um nýbyggingar framhaldsskóla í borginni og um framkvæmdir á næstu árum. Telur Nýsir þann starfshóp hafa unnið gott starf og tekur undir helstu niðurstöður hans.

 

Starfshópurinn taldi brýnast að reisa nýtt hús yfir Kvennaskólann í  Reykjavík og yfir Menntaskólann við Sund. Hins vegar hefur Reykjavíkurborg ekki getað tekið af skarið um lóðir fyrir þessi skólahús. Þá beindi hópurinn athygli að Menntaskólanum í Reykjavík, Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Iðnskólanum í Reykjavík, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og íþrótttahúsi við Menntaskólann við Hamrahlíð og Borgarholtsskóla.

***

 

Draga má þá ályktun af aðferðum R-listans við að komast að niðurstöðu um málefni framhaldsskólanna í Reykjavík, að þar sé lögð meiri rækt við samtöl en áhugi sé á því að komast að niðurstöðu, með öðrum orðum sé um samræðustjórnmál að ræða.

 

Til að halda uppi samtölum við ríkisvaldið um skólana hefur R-listinn valið þá leið að skjóta sér á bakvið álit lögfræðinga, Hjörleifs Kvarans borgarlögmanns og Sigurðar Líndals prófessors. Sigurður segir í áliti frá því í ársbyrjun 2000, að samkvæmt framhaldsskólalögum sé Reykjavíkurborg ekki skylt að taka þátt í stofnkostnaði við stækkun eða endurbætur á húsnæði framhaldsskóla, sem voru stofnaðir fyrir gildistöku fyrri framhaldsskólalaga, sem komu til framkvæmda 1989.

 

Á það hefur ekki reynt fyrir dómstólum, hvernig túlka beri þetta ákvæði framhaldsskólalaganna. Álit borgarlögmanns og prófessorsins binda hvorki hendur borgarstjóra né borgaryfirvalda.  Víst er, að ekkert annað sveitarfélag en Reykjavík hefur borið það fyrir sig, að upphaf og aldur skóla ráði úrslitum um þátttöku þeirra í  nýframkvæmdum við skólana með ríkinu.

 

Menntaskólinn í Kópavogi var stofnaður árið 1973 , þrátt fyrir þann aldur skólans hefur Kópavogsbær ekki dregið lappirnar, þegar rætt er um nýframkvæmdir við hann. Kópavogsbær hefur þvert á móti haft frumkvæði að slíkum framkvæmdum eins og sannaðist nú síðast með samkomulaginu við menntamálaráðherra hinn 20. janúar síðastliðinn.

 

Menntaskólann á Akureyri (MA) á nánustu rætur að rekja til hins endurreista norðlenska skóla á Möðruvöllum í Hörgárdal, sem stofnaður var 1880. Eftir að skólahúsið á Möðruvöllum brann árið 1902 var skólinn fluttur til Akureyrar. Gamli skóli, hið mikla og fagra timburhús á Brekkubrúninni, var reistur sumarið 1904. Haustið 1996 var síðan tekið í notkun nýtt kennsluhúsnæði, Hólar, með 9 stórum kennslustofum, vel búnu bókasafni og samkomusal, sem gengur undir nafninu Kvosin, og rúmar 600-700 manns í sæti.  Sveitarfélögin, sem standa að MA, tóku þátt í kostnaði við nýbygginguna á grundvelli framhaldsskólalaganna.

 

***

 

Nýsir telur að gera þurfi ráð fyrir stækkun eða nýbyggingum framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu öllu fram til 2012 sem nemur rými fyrir um það bil 1500 nemendur, auk þess sem gera þurfi ráð fyrir endurbótum og endurskipulagningu á núverandi húsnlæði nokkurra skóla. Á þessum vetri er mestur fjöldi nemenda í Iðnskólanum í Reykjavík 1295.

 

13 framhaldsskólar eru á höfuðborgarsvæðinu og  er nauðsynlegt er að stækka fleiri þeirra en Menntaskólann í Kópavogi á næstu árum og óhjákvæmilegt er taka ákvarðanir um meginbreytingar í húsnæðismálum Kvennaskólans og Menntaskólans við Sund. Þá er þörf á nýjum framhaldsskóla austan Elliðaá eða Reykjanesbrautar.

 

Verslunarskóli Íslands  er einkarekinn og er nú unnið að því að byggja við hann. Þá starfar annar skóli í einkareknu húsnæði,  Iðnskólinn í Hafnarfirði. Kom Nýsir meðal annars að þeirri einkaframkvæmd á sínum tíma og í skýrslunni fyrir Reykjavíkurborg er fjallað um þá leið sérstaklega við úrbætur í húsnæðismálum framhaldsskólanna.

 

***

 

Nýsir telur, að skort hafi heildarsýn í húsnæðis- og skipulagsmálum framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu. Sé með þessu vísað til stefnumörkunar af hálfu ríkisvaldsins, þarf að rökstyðja fullyrðinguna betur en gert er í skýrslunni. Lýsingin á hins vegar við, þegar litið er til aðgerðaleysis Reykjavíkurborgar. Í stuttu máli hefur Reykjavíkurborg einfaldlega ekki haldið sínum hlut gagnvart öðrum sveitarfélögum og er þar ekki við ríkisvaldið að sakast.

 

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að sameinast um meginstefnumörkun í skipulagsmálum, þau reka saman slökkvilið, almenningsvagna og Sorpu. Hvers vegna hafa þau ekki tekið höndum saman um stefnumörkun varðandi uppbyggingu og verkaskiptingu milli framhaldsskóla? Þetta er þeim mun mikilvægara í ljósi þess, að nú er landið allt eitt framhaldsskólahverfi. Innritun í skólana byggist ekki á búsetuskilyrðum heldur áhuga nemandans á því, sem skólinn hefur að bjóða.

 

Verði skýrsla Nýsis til þess að Reykjavíkurborg vakni af Þyrnirósarsvefni og hefji skipulega stefnumörkun í málefnum framhaldsskóla í borginni í samvinnu við nágrannasveitarfélögin og ríkisvaldið, yrði um tímabær og gleðileg þáttaskil að ræða í þágu þeirra merku stofnana, sem skólarnir eru, og þúsundanna, sem þar starfa við kennslu og sífellt fjölbreyttara nám.