2.1.2003

R-listinn er forystulaus

DV-grein, 02.01.03

 

 

 

 

Fyrsti fundur í borgarstjórn Reykjavíkur á nýju ári er í dag, fimmtudaginn 2. janúar. Rætt verður í annað sinn um b-hluta fjárhagsáætlunar fyrir árið 2003, en svo einkennilega var staðið að því að leggja fram fjárhagsáætlunina að þessu sinni, að hún er afgreidd í tveimur bútum. Leituðu embættismenn borgarinnar til félagsmálaráðuneytisins til að kanna, hvort þessi bútasaumur væri leyfilegur. Fengu þeir grænt ljós á hann með veikum lögfræðilegum rökstuðningi. Að sjálfsögðu eiga borgarfulltrúar kröfu á að sjá fjáhagsáætlunina í heild strax við fyrri umræðu hennar.

 

Þegar ég fór fram á, að félagsmálaráðuneytið svaraði því skriflega, hvort rétt væri að málum staðið við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar, lá ég undir ámæli frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fráfarandi borgarstjóra, fyrir að hafa hugann of mikið við formið. Síðan hefur það gerst, að hún er fallin úr stóli borgarstjóra, af því að hún braut gegn þeirri formreglu R-listans, að hún væri borgarstjóri utan stjórnmálaflokka. Brotið framdi hún með því að samþykkja setu á lista Samfylkingarinnar í þingkosningunum 10. maí í vor.

 

Skýr regla

 

Til að átta sig á mikilvægi þessarar formreglu innan R-listans er nauðsynlegt að rifja upp umræður um skipulag listans við upphaf hans í janúar 1994. Þá voru hugmyndir um, að næði Ingibjörg Sólrún kjöri sem áttundi maður listans, afsalaði hún sér borgarfulltrúaembættinu en yrði ráðin borgarstjóri á vegum R-listans. Ingibjörg Sólrún og Kvennalistinn, sem þá var pólitískur vettvangur hennar, höfnuðu þessari tillögu. „Kvennalistinn fer ekki að setja sína bestu konu í baráttusæti og svo þegar til kastanna kæmi þá ætti hún að vera valdalaus,” sagði Guðrún Ögmundsdóttir af þessu tilefni.

 

Málamiðlun varð sú formregla, að Ingibjörg Sólrún væri „utan flokka” í borgarstjórn og borgarstjóri með atkvæðisrétti, eins og hún orðaði það. Með ákvörðun sinni hinn 18. desember sl. um þingframboð fyrir Samfylkinguna braut Ingibjörg Sólrún þessa reglu og verður því að víkja að kröfu samstarfsmanna sinna.

 

Án atkvæðisréttar

 

Vegna reynslunnar af Ingibjörgu Sólrúnu og ákvörðunar hennar um að ganga bæði á svig við loforð sín við kjósendur um að fara ekki þingframboð og formreglu R-listans, varð niðurstaðan sú við brotthvarf hennar úr stóli borgarstjóra, að R-listinn réð borgarstjóra án atkvæðisréttar til starfa fyrir sig.

 

Horfið er aftur til þess tíma, þegar vinstri menn stjórnuðu borginni og Egill Skúli Ingibergsson var ráðinn borgarstjóri. Hvað sem leið störfum og vilja Egils Skúla voru stjórnarhættirnir 1978 til 1982 í molum vegna pólitísks sundurlyndis og bitnuðu illa á Reykjavíkurborg.

 

Enginn málsvari.

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var á umsömdum forsendum málsvari R-listans og bjó við þær sérkennilegu aðstæður í fjórflokkaumhverfi, að þrír flokkanna gagnrýndu hana aldrei opinberlega. Þeir mældu frekar upp í henni ranghugmyndirnar, sem urðu henni að falli, þegar hún hélt, að henni væri fært að svíkja eigin loforð og sniðganga umsamdar leikreglur, af því að annars byggi hún við óbærilega kúgun.

 

Nú er allt óvíst um málsvörn fyrir R-listann. Hver talar í umboði hans? Til hvers eigum við, sem sitjum í borgarstjórn, að snúa okkur til að fá svar um póltíska afstöðu R-listans? Grundvallarreglur R-listans voru ekki aðeins settar Ingibjögu Sólrúnu til höfuðs heldur til að tryggja festu við margflokka stjórn á Reykjavík. Þessar reglur gilda ekki lengur: R-listinn er forystulaust rekald. Hann er minnisvarði um pólitískt dómgreindarleysi, plástur yfir sárið, sem varð til við afsögn Ingibjargar Sólrúnar. R-listinn er síst af öllu stjórntæki í þágu Reykvíkinga og Reykjavíkurborgar.