30.11.2002

Hættumat leiðtogafundar NATO-ríkja

Vettvangur í Morgunblaðinu, 30. nóvember, 2002.

 

LEIÐTOGAFUNDUR Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Prag í síðustu viku hefur kveikt umræður um varnarmál Íslands. Vegna skorts á spennu á Norður-Atlantshafi hafa þau mál legið nokkuð í láginni og ekki verið eins ofarlega í hinum pólitísku umræðum og nauðsynlegt er, því að frumskylda stjórnvalda og stjórnmálamanna er að sýna umbjóðendum sínum, að þeir hafi stefnu og úrræði til að tryggja öryggi þeirra.

Umræður um íslensk öryggismál eru sérstök vegna þess, að margir líta þannig á, að þau séu frekar vandamál annarra en okkar sjálfra. Þau snúist um afstöðuna til Bandaríkjanna og umsvifa þeirra frekar en hvað gerist hér á landi eða í næsta nágrenni okkar og hvernig íslensk stjórnvöld geti brugðist við, ef hætta er á ferðum. Er umhugsunarvert, að þjóð, sem gerir sér góða grein fyrir hættum frá náttúruöflunum og grípur til forvarna til að draga úr þeim, skuli líta á hættur af manna völdum sem viðfangsefni annarra.

Hafi saga 20. aldarinnar átt að kenna eitthvað er það að vanmeta ekki grimmd og eyðingarmátt mannsins. Á lokaáratugi aldarinnar urðum við Evrópubúar vitni að blóðugum átökum í fyrrverandi Júgóslavíu, þar sem ekki var síður sýnd grimmd en í fyrri heimsstyrjöldinni eða þeirri síðari; grimmd, sem er svo fyrirlitleg, að í huga okkar allra blundaði von um, að hún hefði orðið siðmenntuðum þjóðum Evrópu víti til að varast. Annað kom í ljós við sundurliðun stjórnkerfis kommúnista og verst hafa átökin orðið í Júgóslavíu fyrrverandi. Minnist ég viðræðna við þingmenn, sem komust við illan leik frá Sarajevo til fundar á vegum Evrópuráðsins í Strassborg og sögðu engu líkara en að átökin hefðu leyst allt hið ömurlegasta í mannlegu eðli úr læðingi.

Að sjálfsögðu höfum við Íslendingar ekki efni á því að hafa að engu viðvaranir um nýjar hættur, sem steðja að öryggi þjóða eftir lyktir kalda stríðsins. Við hljótum að bregðast við þessum hættum af sömu ábyrgð og gert var með aðildinni að NATO 1949 og varnarsamningnum við Bandaríkin 1951.

Í stjórnmálalegu tilliti verður leiðtogafundar NATO í Prag minnst vegna stækkunar bandalagsins, þegar sjö nýjum ríkjum er boðið að slást í hóp þeirra 19, sem fyrir eru. Hefur þetta mikil og varanleg áhrif á stöðu þessara þjóða á alþjóðavettvangi og leiðir til breytinga á NATO.

Fyrir leiðtogafundinn létu ýmsir í veðri vaka, að kannski yrði þessi stjórnmálalega áhersla hans til að draga athygli frá raunverulegu hlutverki bandalagsins, að vera tæki aðildarþjóðanna til að tryggja öryggi sitt með raunhæfum ráðstöfunum á friðartímum. Þegar litið er á niðurstöðu leiðtogafundarins sést, að hann tók einnig af skarið um mikilvæg hernaðarleg efni.

Leiðtogarnir ákváðu að koma á fót viðbragsliði NATO (NATO Response Force NRF), sem byggist á herafla, sem er tæknilega fullkominn, sveigjanlegur, hreyfanlegur, samhæfður í vopnabúnaði og sjálfum sér nógur með sveitum úr land-, flug- og sjóher, sem eru tiltækar með skömmum fyrirvara og senda má hvert sem þörf krefst samkvæmt ákvörðun fastaráðs NATO. Viðbragðsliðið á að koma til starfa sem fyrst en ekki síðar en í október 2004 og vera fullbúið ekki síðar en í október 2006.

Ætlunin er að endurskipuleggja herstjórnir NATO. Þær á að minnka, gera skilvirkari og hreyfanlegri. Skipulag herstjórnanna á að tryggja hernaðarleg tengsl yfir Atlantshaf. Fækka skal starfsmönnum innan þeirra og í sameiginlegum lofthernaðar-stjórnstöðvum. Starfræktar verða tvær höfuðherstjórnir, önnur í Evrópu (Belgíu) og hin í Bandaríkjunum. Hlutverk Evrópuherstjórnarinnar verður að gera áætlanir og stjórna hernaðaraðgerðum. Hlutverk herstjórnarinnar í Bandaríkjunum, sem hefur útibú í Evrópu, verður að leiða breytingar á heraflanum og stuðla að samhæfingu herja bandalagsþjóðanna í samvinnu við aðgerðaherstjórnina í Evrópu. Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna taka lokaákvarðanir um útfærslu á skipulagi herstjórnanna í júní 2003.

Í Prag voru samþykkt markmið, sem bandalagsþjóðirnar verða að ná í samræmi við þá ætlun NATO, að geta beitt nýjum herafla í nútímalegum hernaði, þar sem mikil hætta er fyrir hendi. Ríkisstjórnir aðildarríkjanna ætla að auka getu sína til að geta brugðist við ógn sem steðjar af efnavopnum, líftæknivopnum, geislavopnum og kjarnorkuvopnum; þær ætla að auka hæfni sína til njósna og eftirlits og til að fylgjast með atburðum á jörðu niðri úr lofti; bæta yfirstjórn sína, eftirlit og fjarskipti, bardagahæfni heraflans, getu til herflutninga, eldsneytisgjöf á flugi og stuðning við bardagasveitir.

Leiðtogarnir strengdu þess heit að snúast harkalega gegn hryðjuverkum. sem þeir telja mikla og vaxandi ógn við þjóðir bandalagsins auk þess að ógna alþjóðlegu öryggi. Þeir lögðu áherslu á almannavarnir til að búa almenning betur gegn hugsanlegum árásum með efna-, líftækni- eða geislavopnum, auk þess sem beinar varnaraðgerðir gegn þessum vopnum verða efldar. Þá vildu þeir styrkja getu ríkja sinna til að verjast sýndarárásum (cyber attacks).

Loks mæltu leiðtogarnir svo fyrir, að kannaðar yrðu leiðir til að bregðast við vaxandi ógn fyrir landsvæði bandalagsins, herafla þess og þéttbyggð svæði af eldflaugaárás. Skal það gert á árangursríkan hátt með viðeigandi stjórnmálalegum og hernaðarlegum aðgerðum auk þess sem fælingarmáttur verði aukinn. Ákváðu þeir að láta kanna hagkvæmni nýs eldflaugavarnakerfis NATO, til að vernda landsvæði bandalagsins, herafla þess og þéttbýl svæði gegn hvers konar eldflaugaógn. Verði þetta kannað á þeirri grundvallarforsendu, að sama öryggistrygging gildi fyrir allar þjóðir bandalagsins.

Hér að ofan hefur verið stiklað á því helsta um hernaðarleg málefni í ályktun leiðtogafundar NATO í Prag til að árétta, að því fer víðs fjarri, að á vettvangi bandalagsins telji menn ástæðu til að setjast með hendur í skaut, þegar öryggi aðildarþjóðanna er annars vegar.

Athyglisvert er, að því eru ekki sett nein landfræðileg mörk, hvert senda má viðbragðslið NATO. Felst í því mikilvægt nýmæli, en bandalagsþjóðirnar hafa verið að fikra sig skref fyrir skref frá varnarstefnunni, sem byggðist á því, að herafla á vegum bandalagsins yrði aðeins beitt innan varnarsvæðis þess, það er innan landamæra einhvers aðildarríkisins. Slakað var á þessari stefnu vegna hernaðaraðgerða í Júgóslavíu fyrrverandi og var hún skilgreind, sem svæði að landamærum NATO-varnarsvæðisins. Nú er ekki nein slík landfræðileg skilgreining nefnd, heldur sagt, að viðbragðsliðinu megi beita hvar sem þess er talin þörf samkvæmt ákvörðun fastaráðs NATO.

Þá er hitt ekki síður merkilegt, að enginn fyrirvari er settur varðandi könnun á eldflaugavarnakerfi fyrir NATO-svæðið.

Þegar þeir Ronald Reagan Bandaríkjaforseti og Mikhaíl Gorbatsjov Sovétforseti hittust hér í Reykjavík haustið 1986, neitaði Reagan að semja við Gorbatsjov vegna þess að hann vildi ekki slaka á kröfu sinni um að horfið yrði frá geimvarnaáætlun Bandaríkjanna. Var hún umdeild á þeim árum en Reagan hélt sig fast við áform sín um að unnt yrði að verja Bandaríkin gegn eldflaugaárás. George W. Bush Bandaríkjaforseti tók upp þráðinn frá Reagan, þegar hann varð forseti Bandaríkjanna í ársbyrjun 2001 og sætti gagnrýni margra Evrópumanna.

Nú er áætlun um eldflaugavarnir hins vegar orðin að sameiginlegu viðfangsefni NATO-ríkjanna, enda nái varnirnar til þeirra allra en ekki aðeins Bandaríkjanna. Allt annað hljóð er nú en áður í nágrönnum okkar á Grænlandi vegna aðstöðu fyrir geimvarnakerfið í Thule. Hljóta íslensk stjórnvöld að huga vel að framlagi og hagsmunum okkar í þessu sambandi. Því öflugra sem varnarkerfið er, þeim mun minni líkur eru á eldflaugaáras á þjóðirnar, sem njóta verndar þess.

Eftir Prag-fundinn hafa orðið töluverðar umræður hér um hlut okkar í eigin öryggisgæslu og framlag Íslands til sameiginlegra varna. Hafa áform um, að íslenskar flugvélar verði til taks á kostnað ríkissjóðs, ef hættuástand skapast, helst dregið að sér athygli. Fráleitt er að líta þannig á, að þessar vélar yrðu þátttakendur í beinum hernaðaraðgerðum. Þær eru ekki til þess búnar og flugmenn þeirra hafa ekki hlotið þjálfun í samræmi við slíkar kröfur. Ætlunin er, að vélarnar létti sem flutningavélar undir með þeim þjóðum, sem senda herafla á vettvang, auk þess að taka þátt í birgða- og lyfjaflutningi.

Hættumatið, sem kemur fram í ályktun leiðtogafundar NATO í Prag, nær ekki síður til Íslands en annarra NATO-landa. Skyldan til að taka til hendi í samræmi við ályktunina á ekki síður við ríkisstjórn Íslands en ríkisstjórnir annarra aðildarlanda. Við eigum ekki síður en aðrir að láta athafnir fylgja orðum.