21.10.1998

Sigurjón Ólafsson myndhöggvari

Sigurjón Ólafsson
Ævi og list
21. október 1998.

Við komum hér saman í kvöld af margföldu tilefni. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari er samnefnari þeirra allra. Við minnumst þess, að hann hefði orðið níræður í dag. Opnuð er sýning á verkum hans. Tíu ár eru liðin frá því að þetta fallega listasafn var opnað. Síðast en ekki síst er fagnað útgáfu á fyrra bindi ritverks Aðalsteins Ingólfssonar og Lise Funder um Sigurjón.

Hver einstakur þessara atburða væri í sjálfu sér tilefni til hátíðabrigða, því að seint gerum við nóg til þess að halda merki okkar bestu listamanna á loft.

Leyfið mér að þakka frú Birgittu Spur. Hún hefur í 10 ár staðið að rekstri Listasafns Sigurjóns Ólafssonar af miklum metnaði og glæsileika. Hin fágaða umhyggja, sem einkennir framgöngu frú Birgittu blasir hvarvetna við augum hér í safninu. Það eitt er ævintýri að fá tækifæri til að koma hingað út í Laugarnes og skynja andblæ hússins og listaverka Sigurjóns.

Sigurjón vildi gjarnan, að haf eða vatn væri í næsta nágrenni sínu. Hingað kom hann og valdi sér samastað. Hafði hann þá náð þeim árangri að verða einn helsti myndhöggvari sinnar kynslóðar í Danmörku á fjórða og fimmta áratugnum, eins og Lise Funder skýrir í bókinni.

Bókin sýnir, að það lá síður en svo í hlutarins eðli fyrir Sigurjón Ólafsson að fá tækifæri til að rækta með sér listræna hæfileika sína. Frekar má segja, að hann hefði átt að helga sig allt öðru en listum miðað við aðstæður hans sjálfs og í íslensku þjóðlífi á uppvaxtar- og mótunarárunum.

Sama ár og Sigurjón fæddist, árið 1908, tóku fyrstu íslensku fræðslulögin gildi. Með þeim var skólaskylda tíu til fjórtán ára barna lögfest. Í hinni nýju bók er fullyrt, að Sigurjón hefði aldrei orðið að listamanni, ef hann hefði ekki kynnst Aðalsteini Sigmundssyni kennara árið 1919. Ég vitna í bókina:

Aðalsteinn skynjaði í Sigurjóni kím listhneigðar og ræktaði það skipulega með reglubundinni teiknikennslu, með því að efna til sérstakra sýninga á verkum hans í skólanum, fá hann til að gera myndskreytingar og með því að opna augu hans fyrir því sem var að gerast utan við sjónhringinn á Eyrarbakka. Ekki var síður mikilsvert hvernig Aðalsteinn byggði upp metnað Sigurjóns, viljastyrk, einbeitingu og aðra þá þætti í skapgerð hans sem hann vissi að mundu nýtast honum á grýttum vegum listarinnar."

Megi lýsingin á því, hve mikla umhyggju Aðalsteinn kennari sýndi Sigurjóni, án þess þó að gera til hans annað en ströngustu kröfur, vera okkur öllum fyrirmynd, sem berum ábyrgð á þroska og menntun barna og unglinga. Aðalsteinn ... kenndi mér að glúpna ekki fyrir erfiðleikum," sagði Sigurjón á fimmtugsafmæli sínu.

Við þurfum ekki að hverfa aftur til þeirra ára, þegar Sigurjón Ólafsson var tíu eða ellefu ára, til að heyra efasemdir um skynsemi þess að hvetja börn og ungmenni til að stunda listnám. Hin almenna mælistika um árangur í lífinu hefur ekki endilega sett menningu og listir í fyrirrúm.

Afrek listamanna á borð við Sigurjón, verðmætin, sem þeir hafa skapað fyrir þjóðina, og hróður þeirra erlendis hefur þó valdið þáttaskilum í viðhorfi Íslendinga til listsköpunar á þessari öld.

Styrkur þjóða um þessar mundir og geta þeirra til að spjara sig á nýrri öld, ræðst af hinum listræna hæfileika til að feta inn á nýjar brautir, þróa og skapa. Margar breytingar hafa orðið á íslensku þjóðfélagi undanfarin ár. Þær styrkja okkur til að standast sívaxandi alþjóðlega samkeppni.

Menntakerfið, fjármálalífið og skipulag efnahags- og atvinnumála almennt hefur tekið breytingum. Ég vil leggja áherslu á, að litið verði á listir og menningarmál í þessu samhengi. Listir kalla í eðli sínu sífellt á breytingar og nýja hugsun. Þekkingarþjóðfélag á upplýsingaöld krefst sköpunar, frumleika og sjálfstæðis.

Um þessar mundir er verið að stíga markverð skref vegna Listaháskóla Íslands, sem mun starfa í næsta nárgrenni við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Skipulagsskrá skólans var einmitt staðfest hér í safninu fyrir réttum mánuði. Skólinn hefur það markmið að þroska listamenn. Hann er vettvangur grósku og nýjunga og mun styrkja stöðu okkar við nýjar alþjóðlegar samkeppnisaðstæður.

Hingað til Sigurjónssafns geta nemendur skólans litið, vilji þeir kynnast listamanni, sem var kennt að glúpna ekki fyrir erfiðleikum. Við heiðrum minningu hans í dag.

Ég lýsi sýningu á völdum verkum eftir Sigurjón Ólafsson opna.