17.10.1998

Leikskólar - málþing

Málþing um menntamál leikskólakennara
17. október 1998

Ég er af þeirri kynslóð sem ólst að mestu upp innan veggja heimilisins þar til ég hóf nám í grunnskóla. Ég er hins vegar einnig af þeirri kynslóð sem tók fyrstu skrefin í þá átt að feður öxluðu meiri ábyrgð á uppeldi barna sinna en áður var og því var það stundum í mínum verkahring að fara með börnin mín í leikskólann og sækja þau þaðan. Ég er því ekki í svo slæmri stöðu hér í dag að þurfa að viðurkenna að ég hafi nánast engin samskipti átt við leikskóla. Sem menntamálaráðherra hef ég síðan haft tækifæri til þess að kynna mér þetta mikilvæga skólastig betur en áður. Á undanförnum árum hef ég skynjað það sterkt að skilningur á málefnum leikskólans og mikilvægi þess starfs sem þar er unnið fer mjög vaxandi.

Flest börn fara nú í leikskóla og sem dæmi um það má nefna að árið 1996 voru 87% 4 ára barna í leikskólum. Segja má að mikilvægi leikskólans sem menntastofnunar hafi endanlega verið viðurkennt þegar ný lög um leikskóla voru sett árið 1994. Helstu nýmæli þeirra voru, að leikskólinn var þar skilgreindur sem fyrsta skólastigið. Í öðru lagi var kveðið á um gæðaeftirlit menntamálaráðuneytisins með starfsemi leikskóla. Þriðja meginbreytingin var sú að kveðið var á um að starfsheiti leikskólakennari tæki til allra þeirra sem lokið hefðu viðurkenndu fósturnámi.

Á þeim fjórum árum sem liðin eru síðan leikskólalögin voru samþykkt hefur þeim verið fylgt eftir með ýmsum hætti. Áður en ég greini frá því hvaða breytingar er í enn í vændum langar mig fyrst að nefna hið helsta, sem hefur verið að gerast á hinum skólastigunum þremur, en þó sérstaklega á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.

Í fyrsta lagi hafa ný lög fyrir grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla tekið gildi. Á þessum áratug hefur öllum fjórum skólastigunum þannig verið sett ný löggjöf. Grunnskólinn hefur verið fluttur frá ríki til sveitarfélaga. Flutningurinn tókst mjög farsællega og er það mál manna að hið stóra skref að færa grunnskólann nær foreldrum og nemendunum sjálfum hafi styrkt grunnskólastarfið og reynst rétt.

Í öðru lagi voru markverðustu nýjungarnar fyrir daglegt starf í grunnskólum og framhaldsskólum kynntar í nýrri skólastefnu sem leit dagsins ljós í fyrravetur. Nú er endurskoðun aðalnámskráa í anda nýju skólastefnunnar á lokastigi. Vinnunni á að vera lokið eftir nokkrar vikur með það í huga að nýju námskrárnar geti tekið gildi á næstu þremur árum. Nýjar aðalnámskrár eru forsenda frekari umbóta í menntamálum. Í nýrri skólastefnu felst viðleitni til að koma á öflugu en sveigjanlegu skólakerfi, skipan sem hlúir að einstaklingnum, eykur valfrelsi nemenda en ræktar um leið með þeim námsaga og góð vinnubrögð, heilbrigðan metnað og ábyrgð á eigin námi.

Víðtæk sátt náðist í samfélaginu um hina nýju skólastefnu. Vissulega heyrðust efasemdir um það hvort henni yrði fylgt eftir. Ég vona að þær raddir séu þagnaðar nú þegar í ljós kemur að strax á þessu skólaári er gert ráð fyrir auknu fjármagni til að unnt sé að fylgja skólastefnunni myndarlega eftir. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir allt að 260 milljónum króna í sérstök verkefni er tengjast stefnunni. Í því sambandi má til dæmis nefna átak til að efla kennaramenntun, átak í endurmenntun kennara, endurskoðun á kennaranámi, aðgerðir til að bæta námsráðgjöf, fjárframlög sem varið verður í greiningu á sérþörfum nemenda og sérstakt átak í notkun upplýsingatækni innan skólakerfisins. Þó að 260 milljónir króna séu eyrnamerktar nýrri skólastefnu sérstaklega verður einnig að hafa í huga að þeir milljarðar sem nú þegar renna til skóla landsins munu nýtast betur en nokkru sinni áður, þegar skólarnir hafa markmið nýrrar stefnu að leiðarljósi í daglegum störfum sínum.

Af hverju er ég að ræða sérstaklega um þessi mál er tengjast grunnskólanum og framhaldsskólanum hér á þessu málþingi leikskólakennara?

Svarið er einfalt. Það að gera leikskólann að fyrsta skólastiginu leiddi óhjákvæmilega til þess að tengsl hans við önnur skólastig jukust. Í því sambandi má í fyrsta lagi nefna þann áfanga ég heimilaði að menntun leikskólakennara yrði flutt á háskólastig í Háskólanum á Akureyri. Síðan var menntun leikskólakennara, grunnskólakennara, íþróttakennara og þroskaþjálfa sameinuð í nýjum Kennaraháskóla Íslands. Nýframkvæmdir við þessa skóla eru í sjónmáli. Á næstunni verður auglýst forval á arkitektum til að gera tillögur um nýbyggingu við Kennaraháskólann á Rauðarárholti. Í næstu viku verður tekin fyrsta skóflustunga að nýbyggingum fyrir Háskólann á Akureyri að Sólborgu.

Það eitt að færa leikskólakennaranám á háskólastig og sameina það annarri kennaramenntun mun leiða til markvissari menntunar leikskólakennara. Þessi breyting leiðir vonandi til þess að ýmsir þættir námsins styrkist og að til dæmis verði hægt að taka upp fjarnám fyrir leikskólakennara í auknum mæli. Að sjálfsögðu ber að setja sér það mark, að unnt verði að taka á móti öllum, sem vilja leggja stund á kennaranám. Við erum sem betur fer ekki í þeirri stöðu, að of fáir vilji leggja stund á þetta nám, eins og er í mörgum löndum.

Í öðru lagi vil ég nefna að nú er unnið að nýrri skólastefnu fyrir leikskóla sem lítur dagsins ljós á næstu mánuðum. Áður var gefin út sérstök uppeldisáætlun leikskóla en nú er farin sú leið að gefa út sérstaka aðalnámskrá leikskóla ekki síst til að stuðla að auknum tengslum leikskóla og grunnskóla. Sú ákvörðun að breyta uppeldisáætluninni í aðalnámskrá leikskóla var ekki síst tekin vegna hvatningar frá Félagi íslenskra leikskólakennara.

Aðalnámskrá leikskóla er ætlað að vera leiðarvísir við uppeldisstörf í leikskólum og mynda umgjörð um starfið eða sveigjanlegan starfsramma. Á grundvelli þess leiðarvísis gerir hver leikskóli sína eigin námskrá í samræmi við þær þarfir og aðstæður, sem fyrir hendi eru. Í aðalnámskránni kemur fram fagleg stefnumörkum. Þar er kveðið á um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólans, gildi leiksins og meginstefnu varðandi starfhætti og innra mat.

Ástæða er til að geta þess að uppeldisstefnunni, sem mörkuð er í nýlegum lögum um leikskóla, verður áfram fylgt í nýrri aðalnámskrá leikskóla en þar er leikurinn í hávegum hafður. Mig langar þó að nefna hér örfáa þætti sem eiga að setja svip sinn á hina nýju aðalnámskrá leikskóla að mínu mati og sýna best hvaða breytinga er að vænta.

Í fyrsta lagi er lögð sérstök áhersla á lífsleikni sem felst meðal annars í því að börn búi við þroskandi umhverfi sem hjálpi þeim að öðlast reynslu, skilning og þekkingu á lífinu, lífsgildum og samskiptum við önnur börn, umhverfi sitt og náttúru. Þetta er í samræmi við nýju skólastefnuna sem kveður meðal annars á um að lífsleikni verði gerð að skyldunámsgrein bæði í grunnskóla og framhaldsskóla.

Í öðru lagi eru skilgreind 6 meginnámsvið leikskóla líkt og áður var gert í uppeldisáætlun, en nú eru þau; heilsa og hreyfing, mál og málörvun, myndsköpun og myndmál, tónlist, hljóð og hrynjandi, náttúran og umhverfið, menning og samfélag.

Í þriðja lagi vil ég nefna þá nýjung að sérstakur kafli er um samþættingu leik- og grunnskóla en slíkt ferli á að auðvelda börnum að hefja nám í grunnskóla og stuðla að því að reynsla þeirra innan leikskólans nýtist í áframhaldandi námi. Í því sambandi er lögð sérstök áhersla á að skapa þurfi samfellu og náin samskipti milli kennara beggja skólastiga. Starfsemi hins nýja Kennaraháskóla á að auðvelda það ferli. Ýmis dæmi eru nefnd um leiðir til samstarfs leik- og grunnskóla.

Í fjórða lagi gefur námskráin leikskólum vísbendingar um hvernig þeir geti unnið að námskrá hvers leikskóla og sett fram markmið í starfi sínu.

Í fimmta lagi er nýr kafli um mat á leikskólastarfi, skilgreint er hvað felst í slíku mati og hvaða mismunandi leiðir er hægt að fara í því.

Í sjötta lagi er ítarlega fjallað um samstarf heimila og leikskóla og settar fram tillögur um hvernig slíku samstarfi beri að hátta. Þessi þáttur námskrárinnar er mun ítarlegri og betur skilgreindur en er í uppeldisáætlun leikskóla.

Þó að ég hafi hér sérstaklega nefnt sex atriði tekur væntanleg aðalnámskrá leikskóla á mun fleiri þáttum leikskólastarfsins. Á næstunni verður vinnan kynnt ítarlegar og allar athugasemdir og ábendingar verða vel þegnar. Í þessu ferli er lögð áhersla á gott samstarf við leikskólakennara og félag þeirra þar sem þið verðið hvött til að koma með athugasemdir og tillögur. Ég vonast til að það samstarf verði jafn farsælt og það hefur verið við kennara á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.

Ég vil nota tækifærið hér til þess að þakka starfshópnum, sem unnið hefur að tillögum að aðalnámskrá leikskóla, fyrir vel unnin störf. Í hópnum eru þær Valborg Sigurðardóttir fyrrverandi skólastjóri Fósturskóla Íslands, Hafnhildur Sigurðardóttir leikskólastjóri, Kristín Dýrfjörð, kennari við leikskólabraut Háskólans á Akureyri og Svandís Skúladóttir, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, sem jafnframt hefur umsjón með verkinu.

Eftir að aðalnámskrá leikskóla liggur fyrir í fyrsta sinn þarf að huga að mörgum þáttum sambærilegum þeim sem við erum nú að undirbúa fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Tryggja þarf að námskránni verði fylgt eftir og að starfsemi leikskólanna taki mið að því sem þar kemur fram. Laga þarf menntun leikskólakennara og endurmenntun þeirra að aðalnámskránni. Er ég reiðubúinn til þess, gangi þetta verk eftir, að beita mér fyrir sambærilegu átaki fyrir leikskólastigið eins og fyrir grunnskóla- og framhaldsskólastigið, þegar nýjar námskrár þar taka gildi. Fjárveitingar til þess átaks liggja fyrir í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Fyrir fáeinum vikum fékk ég bréf frá Félagi íslenskra leikskólakennara þar sem hvatt er til þess, að ég beiti mér fyrir því að leitað verði leiða til að koma til móts við þann gífurlega leikskólakennaraskort sem félagið telur æ meira ógna uppbyggingu og starfsemi leikskólanna.

Þegar nýju leikskólalögin voru sett blasti við, að mörg ár tæki að ná því marki, að allir starfsmenn leikskóla hefðu próf leikskólakennara. Öllum var þetta ljóst á þeim tíma.

Ég leyfi mér að setja spurningarmerki við það, hvort gera eigi skilyrðislausa kröfu um, að allir starfsmenn leikskóla séu háskólamenntaðir. Ég tel, að þessa spurningu þurfi að ræða. Fulltrúar hins ófaglærða starfsfólks við leikskóla færa þung rök fyrir hagsmunum umbjóðenda sinna. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að ná samstöðu um ákvæði í réttindalögum kennara, sem næðu til leikskólakennara. Þrátt fyrir mikla viðleitni af minni hálfu og ráðuneytisins tókst ekki að ná samkomulagi um leið til þess að sætta sjónarmið aðila í þessu efni. Alls ekki er unnt að hafa sjónarmið ófaglærða fólksins að engu. Allir þeir, sem bera hag leikskólanna fyrir brjósti standa hér frammi fyrir óleystum vanda. Úr honum verður ekki leyst nema með góðum vilja til samstarfs og sátta.

Ég tek heilshugar undir þá skoðun félagsins, að nauðsynlegt er að fleiri háskólamenntaðir starfsmenn ráðist til starfa í leikskólum, enda hef ég beitt mér fyrir breytingu á námi leikskólakennara með það fyrir augum. Getur enginn dregið í efa vilja minn til þess að vel menntað fólk starfi í leikskólum.

Á hinn bóginn er ég ekki þeirrar skoðunar, að allir starfsmenn leikskóla verði að vera með háskólapróf. Vel kemur til álita að skipa nefnd til að fjalla um það hvernig hægt sé að fjölga menntuðum leikskólakennurnum. Ég sé þó takmarkaðan tilgang í því, nema fyrir liggi með skýrari hætti en komið hefur fram til þessa, að í raun sé vilji til að komast að niðurstöðu, sem útilokar ekki alla án háskólaprófs frá því að starfa í leikskólum. Slíkt væri í samræmi við þær aðstæður sem nú ríkja í nágrannalöndum og þ.á m. á Norðurlöndum þar sem ýmis stöðugildi í leikskólum eru mönnuð einstaklingum sem ekki hafa háskólapróf.

Með öðrum orðum er ég ekki tilbúinn til að beita mér fyrir því að skipuð verði nefnd, ef frá upphafi er ljóst, að hún nær engum árangri og ýtir kannski frekar undir deilur en leysir þær. Í þessu efni næst enginn árangur nema sáttavilji sé fyrir hendi. Ég sagði við ágætan formann ykkar, þegar við ræddum þessi mál, að ég mundi taka afstöðu til bréfs félagsins eftir þetta málþing. Þar kynni afstaða félags ykkar að skýrast betur.

Ég vil að lokum undirstrika að allt starf okkar, hvort sem það er innan veggja menntamálaráðuneytisins eða innan leikskólanna sjálfra, miðar að því að unga fólkið geti litið til baka að námi loknu og verið fullvisst um að íslenska menntakerfið bjóði bestu menntun sem völ er á frá fyrsta skóladegi. Í mínum huga er fyrsti skóladagurinn ekki endilega sá dagur þegar 6 ára nemandi fer feiminn í grunnskólann með töskuna á bakinu. Hjá flestum íslenskum börnum er fyrsti skóladaguinn dagurinn, þegar þau koma í fyrsta sinn í leikskólann, stundum með snuð og bangsa sem erfitt er að skilja eftir heima. Það er frá og með þeim degi sem íslenska skólakerfið á að taka vel á móti hverjum einstaklingi. Þar skiptir starf ykkar leikskólakennara miklu máli.

Ég þakka Félagi íslenskra leikskólakennara, og sérstaklega formanni þess, fyrir gott samstarf á undanförnum árum og þær góðu tillögur sem félagið hefur oft komið með til ráðuneytisins. Ég vona að þing ykkar hér í dag verði jafn ánægjulegt og lærdómsríkt og metnaðarfull dagskrá gefur til kynna. Það er mikið í húfi að búa vel að leikskólastiginu og það er sameiginlegt markmið okkar allra.