21.11.2002

Skipting Reykjavíkur í skólahverfi

borgarstjórn 21. nóvember, 2002.

 

 

Við sjálfstæðismenn leggjum hér fram tillögu um, að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að efla samstarf skólastjórnenda, kennara, foreldra og nemenda með því að skipta borginni í skólahverfi. Í því skyni skuli hafinn undirbúningur að því að skipa 4-5 skólaráð með fulltrúum þessara aðila í stað fræðslu- og leikskólaráða. Við það verði miðað að tryggja öflugt, sjálfstætt eftirlit með starfi leik- og grunnskóla. Rekstrarskrifstofur leik- og grunnskóla verði sameinaðar og fagleg ráðgjöf tryggð, meðal annars í samvinnu við háskóla- og vísindastofnanir og með heimsóknum fremstu sérfræðinga á alþjóðamælikvarða.

 

Með vísan til þess, að nú er starfandi stjórnkerfisnefnd á vegum borgarstjórnar leggjum við til, að tillögunni verði að lokinni umræðum hér í borgarstjórn, vísað til þeirrar nefndar og hún vinni að útfærslu tillögunnar í samráði við fræðsluráð og leikskólaráð og leggi hana síðan fyrir borgarstjórn að nýju.

 

*

 

 

 

Hlutverk foreldra gagnvart grunnskólanum tók á sig nýja mynd með flutningi skólans frá ríki til sveitarfélaga 1. ágúst 1996. Þar vísa ég ekki aðeins til laga um grunnskólann og ákvæða þar um hlut foreldra heldur einnig þeirrar staðreyndar, að með flutningnum var valdinu dreift. Skólarnir færðust stjórnarfarslega nær borgurunum en áður. Þeir geta því  haft meira um þá að segja.  Það er að mínu mati röng hugsun, að skólum sé fyrir bestu að starfa alfarið á eigin forsendum og án tengsla við nánasta umhverfi sitt, foreldrana. Þvert á móti er öflugt foreldrastarf í tengslum við skóla til þess fallið að styrkja skólann á allan hátt.  Innra starf í skólunum skilar börnum mestum árangri og ekkert er mikilvægara en það, þegar um þessi mál er rætt.

Þessi viðleitni að flytja skóla nær foreldrum er í samræmi við hina almennu þróun í nútímaþjóðfélagi, að þeim sem hagsmuna eiga að gæta sé gert bæði kleift og skylt að taka afstöðu til afgreiðslu mála sem þá varða. Foreldrar hljóta, næst á eftir börnum, að teljast stærsti hagsmunahópur sem skólakerfið þjónar.

Í mörgum löndum eru foreldrum tryggð formleg áhrif á skólastarfið fyrir milligöngu skólaráða. Í Danmörku hafa t.d. foreldrar allt frá árinu 1975 haft mikil áhrif með aðild að skólaráði, og lögum samkvæmt eiga þeir að hafa meirihluta í ráðunum. Í Chicago í Bandaríkjunum, þar sem foreldrar eru í miklum meirihluta í skólaráðum, sjá skólaráðin um ráðningu skólastjóra og samþykkja fjárhagsáætlun skóla. Í Bretlandi sjá skólaráð, sem í sitja m.a. fulltrúar foreldra, um ráðningu skólastjóra og í skólum sem hafa fleiri en 200 nemendur gera þau einnig fjárhagsáætlun.

Forvitnilegt er að huga að því, hvernig þessi hugmyndafræði er útfærð í lögunum um grunnskóla frá 1995. Samkvæmt þeim er skólahverfi sú eining, sem stendur að baki einum grunnskóla eða fleiri og í hverju skólahverfi skal vera skólanefnd, sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn kann að fela henni. Eiga foreldrar ásamt kennurum og skólastjórum rétt til setu á fundum skólanefndar með málfrelsi og tillögurétti. Foreldrafélag eða samtök foreldra í skólahverfi eiga að kjósa einn úr sínum hópi til að starfa með skólanefnd og einn varamann.

 

Skólanefnd gegnir lykilhlutverki við stjórn og stefnumótun fyrir skóla. Hún staðfestir áætlun um starfstíma nemenda ár hvert og fylgist með framkvæmd náms og kennslu í skólahverfinu. Hún gerir tillögur til skólastjóra og/eða sveitarstjórnar um umbætur í skólastarfi. Þá ber nefndinni að stuðla að tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla. Nefndin stuðlar að því að skólum sé tryggður aðgangur að sérfræðiþjónustu og jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi húsnæði og annar aðbúnaður, þar með talin útivistar- og leiksvæði nemenda.

 

Tillagan, sem við sjálfstæðismenn flytjum hér í borgarstjórn í dag, byggist á því, að við teljum, að í Reykjavík hafi tækifæri til að efla skólastarf með virkri þátttöku foreldra og valddreifingu ekki verið notuð til hlítar. Valdið í málefnum 45 grunnskóla borgarinnar er enn á hendi einnar skólanefndar, fræðsluráðs, þótt í 11. grein grunnskólalaganna séu ákvæði, sem heimila fleiri en eitt skólahverfi í Reykjavík. Eitt leikskólaráð fer með yfirstjórn 75 leikskóla í borginni.

 

*

 

Ef skoðuð er saga lagaákvæðisins um skiptingu Reykjavíkur í skólahverfi, kemur í ljós, að það á uppruna í frumvarpi til laga, sem þingmenn allra flokka undir forystu Guðrúnar Agnarsdóttur, þingmanns  þáverandi Kvennalista, fluttu áríð 1988.

Í greinargerð með frumvarpinu er það rökstutt með þeim orðum, að verði fjarlægðin á milli foreldra og annarra velunnara nemenda og yfirstjórnar skólamála í skólahverfi of mikil minnki möguleikar á samstarfi þessara aðila. Yfirsýn skólayfirvalda yfir hinn eiginlega starfsvettvang verði einnig minni eftir því sem fjöldi nemenda sé meiri og skólahverfið stærra. Með því að skipta Reykjavík í skólahverfi sé yfirstjórn skólamála færð nær vettvangi, lýðræði aukið og  jafnframt áhrif íbúa skólahverfis á stjórn skóla og  þannig auðveldað samstarf einstakra skóla og skólanefnda og það gert markvissara en nú.

Í greinargerðinni segir orðrétt: „Fræðsluráð, sem lögum samkvæmt er jafnframt skólanefnd skólahverfisins Reykjavík, hefur átt æ erfiðara með að fá innsýn í starfsemi einstakra skóla. Það liggur í hlutarins eðli að eftir því sem skólum fjölgar í skólahverfi verður erfiðara að hafa yfirsýn yfir vanda einstakra skóla og að halda jafnt nánu samstarfi við skólana og aðstandendur nemendanna. Fundir með skólastjórum skólahverfisins vilja fá á sig ráðstefnusvip og eru þess vegna næsta sjaldan haldnir. Hætta er á að fræðsluyfirvöld fjarlægist þannig smám saman hið daglega skólastarf.“

Þegar þessi orð voru skrifuð voru 30 grunnskólar í Reykjavík . Nú eru 45  grunnskólar í skólahverfinu Reykjavík, um 15.600 nemendur í skólunum og tæplega 2.200 starfsmenn en ætla má að forráðamenn nemenda séu um 30 þúsund. Fræðsluráði er í raun ókleift að hafa þá yfirsýn sem því er nauðsynleg til að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

Árið 1988 sögðu þingmennirnir, sem fluttu tillöguna um skólahverfin í Reykjavík, að þá væri svo komið, að mörgum foreldrum þætti þeir vita harla lítið um skólastarf almennt í borginni og hefðu enn minni áhrif á stefnu og framkvæmd skólahalds í skólahverfinu.  Þetta á enn frekar við í dag bæði um foreldra og starfsmenn skóla.

Í nýlegri stjórnsýsluendurskoðun Borgarendurskoðunar á fræðslumálum er varað við þeirri hættu að gjá geti myndast á milli vilja og hugmyndafræði yfirstjórnar annars vegar og þeirra sem vinna eiga eftir stefnunni hins vegar. Þar kemur fram, að stefnumótun fræðsluráðs og Fræðslumiðstöðvar skilar sér illa í skólana.

 

Nýlegar kannanir staðfesta, að um slíka gjá er að ræða. Í vinnustaðagreiningu sem Fræðslumiðstöð lét gera og kom út sl. vor kemur í ljós að 65% starfsmanna skólanna segjast ekki hafa fengið kynningu á starfsáætlun Reykjavíkurborgar í fræðslumálum fyrir árið 2002. 82% eru mjög ánægð eða frekar ánægð með vinnustað/skóla sem vinnuveitanda en einungis 39.6% eru ánægð með Reykjavíkurborg sem vinnuveitanda.

 

Sömu rök um fjarlægðir í boðskiptum, tengslaleysi yfirstjórnar við foreldra og starfsmenn leikskólanna 75 eiga við, þegar rætt er um leikskólastigið.

 

Grunnskólalögin annars vegar og leikskólalögin hins vegar gera ráð fyrir nánum tengslum milli þessara tveggja skólastiga. Raunar má ráða af lögunum að æskilegt sé að sameina yfirstjórn skólastiganna og með flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna var jafnan talið, að töluvert hagræði yrði af því að hafa yfirstjórn þeirra einni hendi. Tækifærið, sem í þessu felst hefur ekki verið nýtt hér í Reykjavík. Þess vegna gerir tillaga okkar ráð fyrir því að skólanefndir í nýjum skólahverfum fari með yfirstjórn bæði leikskóla og grunnskóla.

 

Menntun leik- og grunnskólakennara er nú á háskólastigi og undirbúningur þeirra er að hluta til sameiginlegur. Þá eru leik- og grunnskólakennarar í sama stéttarfélagi.

 

Með þeirri skipan sem tillagan felur í sér geta leikskólar og grunnskólar innan hverfis eflt samstarf sín á milli. Auk skólastjóra gegna leikskólakennarar og grunnskólakennarar lykilhlutverki í þessu sambandi. Þeir geta laðað fram hið besta á hvoru skólastigi í þeim tilgangi að styrkja hitt. Unnt er að auka flæði á milli skólastiganna, bjóða valfög í leikskólanum, hefja undirbúningskennslu í grunnfögum á síðasta ári leikskólans, gera tilraunir með því að hafa 5 ára bekk í grunnskólanum og flytja hugmyndafræði leikskólakennara um nám í gegnum leik inn í starfið hjá yngstu bekkjum grunnskólans. Hugsanlega gætu leikskólakennarar á einhvern hátt fylgt börnunum „sínum“ eftir yfir í grunnskólann og að sama skapi gætu grunnskólakennarar komið fyrr og sterkar inn í starfið með elstu börnum leikskólanna.

 

Forseti!

 

Tillaga okkar lýtur ekki aðeins að því, að gera gott skólastarf enn betra, heldur einnig að hagræði og eðlilegri verkaskiptingu við sameiginlegt skrifstofuhald vegna leikskóla og grunnskóla. Við teljum að fjárhagsleg og rekstrarleg málefni skólanna eigi að vera á einni hendi, við viljum einnig að haldið sé uppi miðlægu eftirliti með starfi leikskóla og grunnskóla. Loks teljum við að í samvinnu við rannsókna- og háskólastofnanir eigi sífellt að vinna að þróun innra starfs í skólunum.

 

Tillagan gerir ekki ráð fyrir, að í kringum hvert skólaráð sé byggð upp eitthvert útibú frá Fræðslumiðstöð eða leikskólaskrifstofu, heldur séu efnisþættir hinnar miðlægu þjónustu endurskilgreindir og síðan séu tengiliðir frá henni við hin einstöku skólaráð.

 

Tillagan er  í samræmi við þá viðleitni að styrkja hverfastarf innan borgarinnar. Vandinn við núverandi skipan, sem ræður starfi hverfisráðanna átta í borginni, er meðal annars sá, að þau styðjast ekki við neinar lagaforsendur. Þessi vandi er ekki fyrir hendi, þegar Reykjavík er skipt í skólahverfi. Löggjafinn hefur þegar heimilað þá skiptingu og skilgreint valdsvið hverfisstjórna, það er skólanefnda eða skólaráða.

 

Við leggjum til að tillögu okkar verði vísað til stjórnkerfisnefndar. Eins og við vitum fjallar hún um breytingar á stjórnarháttum Reykjavíkurborgar og hefur að markmiði að efla áhrif borgarbúa á stjórn eigin mála. Ekkert er betur fallið til að treysta þessi tengsl við mikilvægar stofnanir á vegum borgarinnar en að virkja foreldra í starfi leikskóla og grunnskóla. Skólarnir eru hjartað í hverju hverfi, 75 leikskólar og 45 grunnskólar.

 

Eðlilegt er að fela stjórnkerfisnefnd að vinna að útfærslu þessarar tillögu í samstarfi við yfirstjórn leikskóla og grunnskóla, leikskólaráð og fræðsluráð. Er mikilvægt, að með skjótum hætti verði komist að niðurstöðu um framkvæmd tillögunnar, því að ljóst er, að víða eru miklar vonir bundnar við, að hún styrki starf í skólum borgarinnar.

 

 

Með því að vinna að framgangi þessarar tillögu er verið að efla innra starf í skólum borgarinnar. Það hlýtur að vera markmið allrar stefnu borgarstjórnar í málefnum leikskóla og grunnskóla, að þeir þjóni börnum og fjöldskylum þeirra sem best.