19.11.2002

Sanngjörn skattheimta - heilbrigðismál í vanda

Auka ber svigrúm einstaklinga með nýjum skattareglum MorgunblaðsgreinTímabært er að auka svigrúm einstaklinga með nýjum skattareglum og ráðstöfun á opinberu fé til þeirra, sem minna mega sín.

Ástæðulaust er fyrir sjálfstæðismenn að fara í varnarstöðu, þegar fjallað er um málefni aldraðra og öryrkja. Á málum þessara hópa á að taka með opnum huga og ræða þau með það að markmiði að ná sáttum um skynsamlega niðurstöðu. Engum er betur treystandi til þess en sjálfstæðismönnum.

Á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur höfum við sjálfstæðismenn lagt til stórlækkun fasteignaskatta á eldri borgara og öryrkja. Tillagan hefur því miður ekki náð fram að ganga vegna andstöðu R-lista, Samfylkingar, vinstri/grænna og Framsóknarflokksins. Fulltrúi F-listans, óðháðra og frjálslyndra, treysti sér ekki heldur að leggja þessu máli lið.

Það er öfugmæli, að undir forystu sjálfstæðismanna í skattamálum skapist spenna vegna þess, að einstaklingar telji of nærri sér gengið með skattheimtu, að ríkið seilist of djúpt í vasa þeirra.

Heilbrigðismál í vanda
Í umræðum um tugmilljarða fjárveitingar til heilbrigðismála virðist stundum eins og mönnum fallist hendur gagnvart viðfangsefninu.

Þeir, sem gefa sér tíma til að fylgjast með ölllum umræðum um vanda heilbrigðiskerfisins og lausn hans, vita áreiðanlega ekki sitt rjúkandi ráð. Úrræðin vegna verkefna í þessum dýrasta málaflokki ríkisins eru næstum jafnmörg og mennirnir, sem lýsa þeim.

Innan menntakerfisins hefur verið unnið að því undanfarin ár að efla samstarf við einkaaðila á mörgum sviðum. Árangur þess sést best af blómlegri starfsemi þriggja einkarekinna háskóla, Háskólans í Reykjavík, Listaháskóla Íslands og Viðskiptaháskólans Bifröst.

Þar hleypur ríkisvaldið ekki frá skuldbindingum um að leggja fé til æðri menntunar heldur gerir samning við einkaaðila um nýtingu á þessu fé til skólastarfs. Samstarf um notkun upplýsingatækninnar á sviði menntamála og við þróun landskerfis fyrir bókasöfn, svo að annað dæmi sé tekið, byggist á samningum milli hins opinbera og einkaaðila.

Vekur undrun mína, að ekki sé unnt að vinna með sambærilegum hætti að fjármögnun og þróun heilbrigðiskerfisins. Skilgreina mælanlegar einingar og þjónustustig og greiða fé úr ríkissjóði á þeim grundvelli, hvort sem um ríkisrekna eða einkarekna starfsemi er að ræða.