24.2.2017

Lýðræðiskraftarnir komu á óvart á árinu 2016 - óvissunni ekki lokið

Morgunblaðið, föstudagur, 24. febrúar 2017



Tvennar kosningar á árinu 2016 draga alþjóðlegan dilk á eftir sér. Þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Spurning er hvort kosningar í Frakklandi og Þýskalandi árið 2017 valdi svipuðum þáttaskilum.

Enginn veit hverjar verða afleiðingar ákvörðunar Breta að segja sig úr Evrópusambandinu. Það hefur tekið bresku stjórnina átta mánuði að ganga frá formsatriðum á heimavelli. Lávarðadeild breska þingsins hefur þó ekki enn greitt atkvæði um lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar um að virkja 50. gr. ESB-sáttmálans um úrsögn úr sambandinu.


Samhliða því sem Bretar leggja á ráðin heima fyrir býr embættismannalið ESB sig undir viðræður við þá. Í fyrstu verður athyglinni beint að fjárhagslegu uppgjöri vegna brottfararinnar. Brusselmenn segja að hún verði Bretum dýrkeypt. 

Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, sagði á þingi þriðjudaginn 21. febrúar að nú yrði að gera Bretum sjálfum og öðrum grein fyrir hvað fælist í því að bresk stjórnvöld ætluðu að láta að sér kveða hernaðarlega, menningarlega, viðskiptalega og stjórnmálalega um heim allan. Breska stjórnin talar eins og hún losni úr fjötrum við brottförina úr ESB.

Fjölmiðlastríð Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur gengið erfiðlega að stilla sig inn á nýja bylgjulengd. Um síðustu helgi var hann enn í kosningaham og hlífði engum andstæðingi sínum. Umræðurnar eftir ræður hans fara þó fljótt í undarlegar áttir eins og sannaðist vegna orða hans um ástandið í Svíþjóð. Að hann vildi Svíum illt með þeim er vandséð.

Að fylgjast með blaðamannafundi hans fimmtudaginn 16. september í beinni útsendingu var eins og að horfa á spennumynd – ómögulegt var að vita hvað gerðist næst.

Trump kallaði blaðamenn í Hvíta húsið og tilkynnti skipan í tvö embætti en sagðist síðan ætla að segja fáein orð og svara nokkrum spurningum. Útskrift af því sem þarna gerðist sýnir að orðin urðu 14.323 með spurningum blaðamanna. Fundurinn stóð frá 12.55 til 14.13 að Washington-tíma. 

Fyrir forsetanum vakti fyrst og síðast að ná sér niðri á nokkrum fjölmiðlum. Hann hikar ekki við að draga þá í dilka, lofa þá sem hann telur sér vinsamlega, á hina ber hann háð og skömm. 

Fréttaritari BBC náði athygli forsetans og lagði fyrir hann spurningu. Forsetinn: Hvaðan kemur þú? BBC-maður: BBC. Forsetinn: Ok. Hér fáum við enn eina sæta (Here's another beauty). BBC-maður: Þetta er vel orðað. Óhlutdræg, frjáls og sanngjörn. Forsetinn: Já, auðvitað. BBC-maður: Herra forseti... Forsetinn: Einmitt eins og CNN, er það ekki?

Trump setti BBC í sömu skúffu og CNN sem hann hefur síðan lýst hættulega sjónvarpsstöð, ekki fyrir sig heldur fyrir bandarísku þjóðina. Sama gilti um The New York Times og sjónvarpsstöðvarnar ABC, CBS og NBC. Þessir fjölmiðlar eru „óvinir þjóðarinnar“ að mati Trumps.

Þetta varð til þess að repúblíkaninn John McCain, öldungadeildarþingmaður frá Arizona, sagði við fréttamann NBC sunnudaginn 19. febrúar: „Svona er upphaf einræðisherra“.

McCain sagði í sjónvarpsþættinum Meet the Press: „Sagan kennir okkur að fyrsta sem einræðisherrar gera er að loka fjölmiðlum. Ég segi ekki að Trump forseti reyni að verða einræðisherra. Eina sem ég segi, við skulum læra af því sem sagan kennir okkur.“

Orðaskak forsetans og fjölmiðlamanna er fréttnæmt en skilar engu og dregur úr virðingu beggja. Forsetinn espar aðeins fréttamenn með árásum á þá. Þeir breytast ekki. Sem fésýslumanni dettur honum ef til vill í hug að hann geti grafið undan fjárhagsgrunni bandarísku fjölmiðlanna sem eiga allt sitt undir trausti lesenda, hlustenda, áhorfenda og auglýsenda. Það á auðvitað ekki við um BBC sem haldið er úti af breska ríkinu og greiðendum afnotagjalds í Bretlandi

Kosið í Frakklandi og Þýskalandi

Úrslitin í Bretlandi og Bandaríkjunum komu á óvart. Þau gengu gegn vilja elítu  landanna og á alþjóðavettvangi eins og sést af viðbrögðum Brusselmanna. Þeim á þó kannski eftir að bregða enn meira vegna þess sem gerist í öflugustu ríkjum ESB á árinu 2017.  Neikvæð afstaða til ESB mun setja sterkan svip á kosningabaráttuna í þessum löndum.

Angela Merkel Þýskalandskanslari hafði algjöra yfirburði sem leiðtogi Þýskalands þar til hún missteig í útlendingamálum á árinu 2015. Nú benda kannanir til að þýskir jafnaðarmenn undir forystu nýs leiðtoga, Martins Schulz, fyrrverandi forseta ESB-þingsins, kunni að skáka Merkel og jafnvel hrifsa af henni kanslarastólinn í sambandsþingskosningum í september 2017.

Til að endurheimta fyrri styrk er líklegt að Merkel höfði til þeirra sem halla sér nú að flokknum sem vill bjóða Þjóðverjum annan kost til hægri við Merkel, AfD, meðal annars með gagnrýni á ESB og þröngri útlendingastefnu. Schulz hallar sér lengra til vinstri og gagnrýnir meðal annars efnahagsráðstafanir Gerhards Schröders, kanslara jafnaðarmanna (1998-2005).

Fyrri umferð forsetakosninga í Frakklandi er 23. apríl 2017 og sú seinni 7. maí. Nú er mat stjórnmálaskýrenda að allt geti gerst í kosningunum.

Emmanuel Macron sem stofnaði flokkinn Áfram eftir að hann sagði skilið við sósíalista og þótti kominn á beinu brautina upp á við í kosningabaráttunni rataði ógöngur eftir heimsókn til Alsírs og illa ígrunduð ummæli um nýlendustefnu Frakka. Þeir sem skipa sér til vinstri við Macron berjast innbyrðis. François Fillon, frambjóðandi mið-hægrimanna, sætir rannsókn vegna grunsemda um að eiginkona hans og tvö börn hafi fengið ólögmætar opinberar launagreiðslur. Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi Þjóðfylkingarinnar, sætir rannsókn vegna starfskostnaðar sem hún fékk greiddan sem ESB-þingmaður. Tvö úr hópi nánustu samstarfsmanna hennar voru hneppt í gæsluvarðhald miðvikudaginn 22. febrúar.

Sumt breytist ekki

Óvissan er nú ólíkt meiri um ýmsa þætti stjórnmála á Vesturlöndum en fyrir einu ári. Sumt breytist þó ekki þrátt fyrir að stór orð falli í kosningabaráttu.

Viðhorfið til meginmála ræðst oft af því hvaðan á þau er litið. Ýmsir töldu jafngilda dauðadómi yfir NATO að frambjóðandinn og verðandi forsetinn Donald Trump lýsti því sem „úreltu“. 

Mike Pence, varaforseti Trumps, var í München fyrir viku og í Brussel í byrjun vikunnar.  Hann sagðist sendur sérstaklega af Trump til að fullvissa viðmælendur sína um „óhagganlega“ hollustu Bandaríkjastjórnar við NATO.