10.8.2002

Enn um virkjanaumræður vettvangur í Morgunblaðinu.

Enn um virkjanaumræður


Stig af stigi þróast mál til þeirrar áttar, að ráðist verði í virkjun við Kárahnjúka og smíði álvers í Reyðarfirði. Um leið og Alcoa kom til sögunnar, breyttust vinnubrögð og ákvarðanir voru teknar með skipulegri hætti en áður hefur verið gert í málinu. Þó er enn fyrirvari í málinu, því að Alcoa hefur ekki gert endanlega upp hug sinn.

Reynslan af samningaviðræðum við Norsk Hydro, þar sem ritað var með hátíðlegum hætti undir tvær viljayfirlýsingar af tveimur iðnaðar- og viðskiptaráðherrum, Finni Ingólfssyni og Valgerði Sverrisdóttur, sýnir, að slíkar yfirlýsingar jafngilda ekki ákvörðun um, að ráðist skuli í framkvæmdir. Jafnframt má minnast þess, hvernig fór fyrir yfirlýsingum, sem Jón Sigurðsson, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ritaði undir um álver á Keilisnesi.

Alþjóðafyrirtækin tefla á heimsvísu og taka ákvarðanir með hliðsjón af þeim samanburði, sem við þeim blasir. Þar á meðal skiptir þau máli, hvernig þjóðfélagsumræður eru um áform þeirra í einstökum löndum. Hér var á dögunum vakin athygli á ofstopafullum málflutningi Kolbrúnar Halldórsdóttur alþingismanns, þegar hún ræddi við blaðamann The New York Times og sagði íslensk stjórnvöld ekki lengur biðjandi á hnjánum fyrir framan alþjóðlega álfursta, heldur hefði þjóðin verið „aflimuð” og stæði á stúfunum, auk þess sem hér væri bananalýðveldi.

Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði eru ekki allir eins ofstopafullir í gagnrýni sinni eins og Kolbrún Halldórsdóttir. Til marks um það er grein eftir Hjálmar H. Ragnarsson, tónskáld og rektor Listaháskóla Íslands, hér í blaðinu síðastliðinn miðvikudag. Niðurstaða hans er þó sú, að fari svo fram, sem horfir, eigi „stálin eftir að mætast stinn“ og ekki sé unnt að sjá fyrir, hvernig þeim slag lykti. Finnst honum stjórnvöldum ekki hafa tekist að afla eins mikils stuðnings við áform sín og vænta hefði mátt, meðal annar vegna þess að fólk sé hætt „að trúa leiðsögn að ofan í hversdaglegum málum, og í umhverfismálum er djúpstæð vitundarvakning sem við fyrst nú erum rétt að greina.“***Framtíðin mun leiða í ljós, hvort þessi orð Hjálmars rætast, en á stjórnmálavettvangi var breið samstaða um Kárahnjúkavirkjun, þegar Alþingi heimilaði hana 8. apríl sl. og af þingflokkum voru aðeins vinstri/grænir einhuga gegn henni, en atkvæði féllu þannig að 44 þingmenn samþykktu virkjunina, níu voru á móti en tveir sátu hjá. Í hópi andstæðinga fyrir utan vinstri/græna voru þær Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmenn Samfylkingarinnar, og Sverrir Hermannsson, þingmaður frjálslyndra.

Málið var að sjálfsögðu mikið rætt á Alþingi og farið ofan í saumana á öllum þáttum þess, enda eiga þingmenn síðasta orðið um heimildir til virkjana. Hafa fáar þeirra verið meira ræddar í þingsölum en einmitt Kárahnjúkavirkjun, auk þess sem ákvörðun um hana er byggð á lögum um umhverfismat, þar sem famkvæmdavaldinu eru settar reglur um það, hvernig staðið skuli að verki í þágu náttúru og umhverfisverndar.

Stjórnmálamenn eru almennt ekki sérfræðingar í umhverfismálum eða náttúrufræðum, þótt þeir fjalli um slík mál. Þess vegna vænti ég þess alls ekki, að Guðmundur Ólafsson, rithöfundur og náttúrufræðingur, gæti öðlast nýjan skilning á þessum málum af fyrrnefndri grein um ofstopann í málflutningi Kolbrúnar Halldórsdóttur. Þar var fjallað um málflutning Kolbrúnar í ljósi stjórnmálaskoðana hennar, enda kom hún fram sem stjórnmálamaður og fór hrakyrðum um stjórnarfar í eigin landi.

Guðmundur Ólafsson lætur í ljós þá skoðun, að rita hefði átt með öðrum hætti um þessi ummæli Kolbrúnar, en ég geti það ekki, enda „stóriðjutrúar“, hvað sem í því orði felst. Hann getur ekki unnt Þjóðminjasafni Íslands þess að njóta stuðnings frá Landsvirkjun, en með honum sé „ímynd þjóðarinnar rústuð hægt og bítandi innanfrá sem utan.“ Hann spyr mig: „Hver á að vernda náttúru, þjóðararf og menningarverðmæti á hálendi Íslands ef stjórnvöld gera það ekki?“ Forsendan í spurningunni er röng eins og sú tilgáta Guðmundar, að ég hafi troðið Landsvirkjun inn í Þjóðminjasafnið.

***


Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, vekur í Morgunblaðinu 6. ágúst athygli á ályktun Náttúruverndarsamstaka Austurlands (NAUST) vegna þeirrar yfirlýsingar Alcoa, að við Kárahnjúka sé einn besti vatnsaflsvirkjunarstaður í veröldinni. Taldi NAUST yfirlýsinguna aðeins sýna „hversu geigvænlegar áætlanir eru í gangi varðandi stórar vatnsvirkjanir víða um heim.”

Í tilefni af þessari ályktun NAUSTs segir Jakob meðal annars: „Allt er í heiminum afstætt. Ef vikjunaráætlanir vatnsorku víða um heim eru „geigvænlegar” hvaða orð er þá við hæfi um þá staðreynd að þriðjungur mannkynsins, tveir milljarðar manna, hefur ekki einu sinni rafmagn til heimilisnota og að allar horfur eru á að hálfur annar milljarður bætist í þann hóp fyrir 2020? Mikill meirihluti þessa fólks býr einmitt í þróunarlöndunum, í næsta nágrenni við stærstan hluta óvirkjaðrar vatnsorku í heiminum. Vaxandi hluti þess býr í fátæktarhverfum sístækkandi risaborga. Við munum ekki búa lengi í jafn friðsömum heimi og hingað til ef hér verður ekki breyting á.”

Þjóðir, sem búa við svo geigvænlegan raforkuskort, munu ekki ráðast í virkjanir eða smíði raforkuvera með öðrum orkugjöfum til að framleiða ál, að mati Jakobs, heldur verður álvinnsla að leita annað, „ekki síst til fámennari landa, sem eru auðug að vatnsorku umfram almennar þarfir og verða það um langa framtíð.”

Þegar rætt er um virkjanir og álframleiðslu hér á landi, er nauðsynlegt að skoða málið í stóru alþjóðasamhengi. Hvað sem líður viðhorfi til náttúruverndar, kann sumum beinlínis að þykja það til marks um hroka Íslendinga gagnvart fólki, sem býr við lökust kjör meðal þjóða heims, að leggjast gegn nýtingu vatnsorku við þær aðstæður, sem eru hér á landi.

***

Í sama tölublaði Morgunblaðsins og Jakob ræðir ályktun NAUSTs er grein eftir Kristján Hreinsson skáld, þar sem hann ræðst persónulega á Friðrik Sophusson, forstjóra Landsvirkjunar. Kristján slær þessu meðal annars ómaklega fram: „Friðrik, sem er þekktur fyrir að vilja eyðileggja ýmsar óspilltar náttúruperlur í landi voru...” Í viðtali við Morgunblaðið 28. júlí lýsir Friðrik á hinn bóginn stuðningi við það viðhorf: „ að við eigum að skila náttúrunni jafn góðri ef ekki betri til afkomenda okkar heldur en hún var þegar við tókum við henni.“

Kristján gefur til kynna, að þeir listamenn, sem eiga samstarf við Landsvirkjun við sýningar á vegum fyrirtækisins, hafi látið múta sér til „að halda frekar kjafti en gagnrýna framkvæmdagleði Friðriks Sophussonar.” Að mati Kristjáns er Friðrik marklaus vegna þess, að hann hefur „ekkert vit á því sem heitir náttúruvernd”.

Séu menn „stóriðjutrúar“, misnota þeir málfrelsið með því að láta í ljós skoðun sína, er niðurstaðan af lestri greinar Kristjáns.

***

Stjórnmálamenn ræða að sjálfsögðu um virkjanamál á pólitískum og oft flokkspólitískum forsendum. Stjórnmáladeilur um Kárahnjúkavirkjun einkennast þó ekki af hefðbundnum ágreiningi milli stjórnar- og stjórnarandstöðu, því að meginhluti stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Samfylkingarinnar, styður virkjunina.

Forstjóri Landsvirkjunar lýsir skoðun sinni með hliðsjón af þeirri þekkingu, sem hann hefur á efnislegum þáttum málsins.

Sjónarmið andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar byggjast á sannfæringu þeirra.

Úrslitin ráðast á stjórnmálavettvangi og þar er ekki nýtt, að mætist stálin stinn. Mestu skiptir, að barist sé málefnalega og í samræmi við lýðræðislegar leikreglur. Þar ráðum við mennirnir ferðinni en ekki í ríki náttúrunnar. – Lón verða til á hálendi Íslands, hvort sem þau eru gerð af manna höndum eða ekki – meira að segja var lón áður, þar sem Hálslón á koma vegna Kárahnjúkavirkjunar.